« Home | Uppreisn æru Maður er nefndur Oddbergur Eiríksson... » | Enn þá boring Þessi bévítans pest ætlar að verða ... » | Nýir bloggarar Jarlaskáldið býður tvo nýja liðsme... » | Boring Nú reka margir lesenda eflaust upp stór au... » | The Beibs Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar... » | Spurning Veit einhver hvað bjórinn kostar þarna? » | Ítalía Jarlaskáldið er á leiðinni til Ítalíu. For... » | Klikk! Jæja, þá eru foreldrarnir komnir heim aftu... » | Bless Jæja gott fólk, nú heldur Jarlaskáldið á vi... » | Snilld Nú er Jarlaskáldið búið hlusta ca. 800 sin... » 

mánudagur, nóvember 25, 2002 

Jarlaskáldið Smjörkúkur?

Þegar síðast heyrðist til Jarlaskáldsins var það enn að glíma við pest eina þráláta og var afar tvísýnt um lífslíkur þess. Lesendum eflaust til mikillar gleði hefur Jarlaskáldið nú náð fullri heilsu eða því sem næst, og tekið aftur upp fyrri siðu, sukk og svínarí. Lesendur eru líkast til spenntir að vita hvað drifið hefur á daga Skáldsins undanfarna viku, og hér hafiði það:

Sem fyrr var frá greint varð Beibfjölskyldan lögleg í síðustu viku, og af því tilefni boðaði hún til mikils fögnuðar á miðvikudaginn. Þrátt fyrir að vera enn með snert af pestinni þrálátu lét Jarlskáldið sig ekki vanta í þann fögnuð, sem fram fór í sumarbústað í Ölfusi, en sá staður er hættulega nálægt Selfossi. Þangað var Skáldið mætt um sjöleytið á miðvikudag ásamt sérlegum bílstjóra sínum, og fljótlega bættust fleiri í hópinn. Fólst fögnuðurinn einkum í því að sporðrenna flatbökum, og síðan að spila, og varð Trivial Pursuit fyrst fyrir valinu. Þegar það hafði verið spilað drykklanga stund án þess að úrslit fengjust var ákveðið að hætta því og bregða sér í heitan pott. Þar var einnig setið góða stund, og síðan fóru gestir að halda heim á leið. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta varð Jarlaskáldið eftir í bústaðnum ásamt hjónunum, Magnúsi frá Þverbrekku og sérlegum bílstjóra Skáldsins, og það sem eftir lifði nætur dundaði karlpeningurinn sér við að hella öllu áfengi í húsinu ofan í sig, og varð það magn heldur meira en heppilegt þykir á miðvikudagskvöldi. Urðu það því heldur súrir piltar sem héldu heimleiðis morguninn eftir, en hinn sérlegi bílstjóri Skáldsins varð eftir og svaf svefni hinna réttlátu. Eins og nærri má geta vakti ástand Jarlaskáldsins mikla lukku þegar það mætti loks til vinnu á ellefta tímanum (þó ekki elleftu stundu, hehe), en það þraukaði þó út vinnudaginn, ólíkt ýmsum öðrum sem þar hafa mætt í svipuðu ástandi.

Af þessum og öðrum orsökum varð Jarlaskáldið hið spakasta á bæði fimmtudags- og föstudagskvöld, og notaði tímann til að rifja upp kynnin við sinn gamla vin sjónvarpið. Voru þau kynni hin ágætustu. Horfði Skáldið m.a. á tvær kvikmyndir á föstudaginn, annars vegar About a Boy og hins vegar My Big Fat Greek Wedding. About a Boy var nokkuð smellin, mætti alveg skella svona þrem stjörnum á hana ef mann langar til. My Big Fat Greek Wedding var ekki alveg jafngóð, erfitt að skilja af hverju Ameríkanar eru að missa þvag og saur yfir þessari mynd, hún fengi varla meira en tvær stjörnur hjá þessum áhorfanda. Alls ekkert slæm mynd, en ekkert spes heldur. Sýnir bara hvað Ameríkanar eru heimskir!

Á laugardaginn var Jarlaskáldinu heldur farið að leiðast aðgerðaleysið og byrjaði að hugsa sér til hreyfings út á lendur skemmtanalífsins. Heldur erfitt reyndist til að byrja með að sannfæra aðra um að slást með í þá för, og fór svo að lokum að Jarlaskáldið heimsótti Hrafnhildi og tók í nokkur spil ásamt henni, systur hennar og vinum þeirra, hverja Jarlaskáldið þekkti ekki. Skemmst er frá því að segja að Jarlaskáldið bar sigur úr býtum í öllum spilum þetta kvöldið, sem reyndist gefa nokkra vísbendingu um aflabrögð í kvennamálunum síðar um kvöldið.
Þegar nálgast tók miðnætti þótti Jarlaskáldinu svo tilhlýðilegt að heimsækja miðbæ Reykjavíkur, og fyrir einhverra undarlegra hluta sakir gekk það stuttu síðar inn á þann arma stað Sportkaffi, en þar fór þá fram prófkjörssamkoma Sjálfstæðismanna. Eins og margir væntanlega vita hefur Jarlaskáldið verið lítið fyrir að taka hægri beygjur í pólitík, og því eðlilegt að fólk spyrji hvern andskotann Skáldið var að gera þarna. Þarna var ekki einu sinni frír bjór eða neitt! Hummm....
Hvað sem því líður var Jarlaskáldið mætt, og þeir fáu sem það þekkti á staðnum voru einmitt heldur hissa á veru þess þar. Þó ekki eins hissa og Jarlaskáldið þegar Birgir Ármannsson heilsaði því með virktum að fyrra bragði, enda þekkir það manninn ekki neitt. Hann hefur kannski verið orðinn svona fullur, hver veit?
Á staðnum hitti Skáldið þá fóstbræður Stefán og Vigni, og voru þeir hinir hressustu, en Stefán þó sýnu hressari, enda nefið hans í góðu lagi. Stuttu síðar bættist Magnús frá Þverbrekku á staðinn, og voru öll fyrri orð um slappleika hans og aumingjaskap gleymd og grafin med det samme. Þegar síldartunnustemmningin á Sportkaffi var orðin fullmikil, og sýnt þótti að sjálfstæðiskvensur hefðu lítinn áhuga á félagsskap Jarlaskáldsins og meðreiðarsveina þess var ákveðið að halda á fornar slóðir, nefnilega Hverfisbarinn. Þar biðu menn í röð langalengi eins og venjulega, en komust inn um síðir og höfðu þar inni nokkuð gaman. Einhverju síðar varð það samkomulag að fara á Nonnann, og því arkað niður Laugaveginn í þeim erindagjörðum. Á móts við Kofa Tómasar frænda varð gerður stuttur stans til að ræða málin, og þá urðu skrýtnir atburðir. Magnús frá Þverbrekku varð skyndilega sannfærður um að Jarlaskáldsins biði bráður bani ef það tæki ekki þátt í kappdrykkju, og var Skáldið dregið inn á Kofann og því færðir nokkrir lítrar af blávatni sem því var gert að drekka á mettíma. Þrátt fyrir að átta sig ekki á því hvaða yfirvofandi hætta steðjaði að því ákvað Jarlaskáldið að tefla ekki á tvær hættur heldur svolgraði í sig blávatninu og hafði í raun bara gaman af. Enn veit Jarlaskáldið ekki hvað Magnúsi gekk til með þessu athæfi, né hvort meint feigð þess hafi átt við rök að styðjast. Gaman væri að fá á þessu útskýringar, því skrýtið var þetta!
Að lokinni kappdrykkjunni var hadlið sem leið lá á Nonnann og sluppu matargestir inn rétt fyrir lokun. Hafði þá Ríkey ektafrú Eyjólfs VÍN-verja bæst í hópinn, og áttu hún og Jarlaskáldið í miklum rökræðum um plagíóklasa og önnur jarðfræðileg efni. Var þetta samtal nokkuð merkilegt í ljósi þess að Jarlaskáldið hefur ekki hundsvit á jarðfræði. Að áti loknu var svo haldið heim á leið í leigubíl, sem var á við rútu að stærð, og dýr eftir því. Mætti segja að sparnaðarátak Jarlaskáldsins hafi ekki gengið mjög vel þessa helgi, en þá er bara að hækka yfirdráttarheimildina, er það ekki?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates