« Home | Jarlaskáldið spáir í spilin (VARÚÐ! Þeir sem ekki... » | Breytingar Í tilefni þess að Kjartan og Laufey ha... » | Jarlaskáldið liggur banaleguna Já, kæru lesendur,... » | Jarlaskáldið jeppast Jarlaskáldið var á faraldsfæ... » | Bö! Það er soldið deprimerandi að skrifa óralanga... » | Þreyta Nú er Jarlaskáldið þreytt, en glatt, enda ... » | Merkilegur dagur Dagurinn í dag, 24. október, er ... » | Um tungumálakunnáttu Jarlaskáldsins Samkvæmt Molu... » | Frægð á næsta leyti? Það var barasta sett met á s... » | Um furðufuglinn mig Maður er nefndur Viðar Pálsso... » 

sunnudagur, nóvember 03, 2002 

Af árshátíðum, skírnum og sörpræsum

Æðri máttarvöld ákváðu greinilega að sjá aumur á Jarlaskáldinu í veikindum þess, því Skáldið var orðið hið brattasta á föstudaginn, og því ekkert til fyrirstöðu að leita út á lendur skemmtanalífsins eins og svo oft áður. Var stefnan það kvöldið tekin á gamlingjastaðinn Kaffi List, hvar Magnús frá Þverbrekku hafði komið sér makindalega fyrir ásamt yfirmanni sínum, og bættust Jarlaskáldið, Stefán frá Logafoldum og síðar Hrafnhildur frá Hvanneyri í þann ágæta hóp. Fóru þar fram gáfulegar samræður í bland við léttara hjal, uns yfirmaðurinn hélt heim á leið, en aðrir tóku þá stefnuna á þann margrómaða stað Hverfisbarinn. Var þar glaumur mikill og gleði, ekki síst hjá félaga vorum Frosta, sem m.a. velti húsgögnum í kæti sinni, en við litla kátínu annarra. Beibstandardinn var með hæsta móti þetta kvöld, en aflabrögð ekki jafngóð. Líklega vorum við ekki nógu fullir, það virtist virka vel hjá öðrum. Annars endaði kvöldið með Hlölla í annarri og kók í hinni, allt er gott sem endar vel.

Á laugardaginn var blásið til hátíðar, nánar tiltekið Árshátíðar Osta og Smjörsölunnar . Þar gat Jarlaskáldið að sjálfsögðu ekki látið sig vanta, og hófst gleðin að Urriðakvísl um fimnmleytið, hvar yngri starfsmenn hittust í for-fordrykk. Þaðan var haldið í Sunnusal Hótels Sögu, og var þar í fyrstu boðið upp á væminn krapakokkteil, lítt áfengan og óspennandi. Maturinn reyndist svo vera hinn ágætasti, hlaðborð með alls kyns gúmmulaði, og svo ís og kaffi og koníak og tilbehör. Einhver voru skemmtiatriði, sum þeirra voru skemmtileg, veislustjórinn var Helga Braga, sem fór með sína velæfðu rullu ágætlega. Að sjálfsögðu vann Jarlaskáldið ekkert í happdrættinu, það mun ekki gerast í þessu jarðlífi. Áfengi var dýrt, 600 kall fyrir lítinn bjór, og tók því Jarlaskáldið upp á því að lepja sterkt áfengi í staðinn. Ekki sniðugt. Annars fór lítið fyrir dansmennt hjá Skáldinu, en þeim mun meira af pólitískum rökræðum. Um eittleytið var samkoman orðin nokkuð súr, og því brá Skáldið sér austur yfir Suðurgötu í partý hjá Villa Naglbít, hvar Magnús og Stefán voru staddir. Var svo stefnan tekin á fornar slóðir, og fer ekki frekari sögum af því kvöldi, en Jarlaskáldið vaknaði á gólfinu heima hjá sér daginn eftir, humm...

Þrátt fyrir nokkurn heilsubrest dreif Skáldið sig á fætur upp úr hádegi í dag, þar eð því hafði verið boðið að vera viðstatt skírn Sölva Gunnarssonar. Varð sú skírn söguleg. Jarlaskáldið var mætt niður í Dómkirkju klukkan tvö, og fór þar fram hefðbundin skírnarathöfn, fyrir utan það að Sölvi grenjaði ekkert. Voru þarna viðstaddir nánustu fjölskyldumeðlimir hjónaleysanna ásamt nánustu vinum. Þegar búið var að skíra sagði prestur fólki að setjast niður og hlusta á smá tónlist. Byrjuðu svo að hljóma nokkuð kunnuglegir tónar, og urðu gestir allhvumsa þegar þeir áttuðu sig á því að þetta var brúðarmars. Fuðulegt að spila þetta í skírn! Urðu gestir þó öllu hvumsari þegar hjónaleysin röltu upp að altarinu og fengu sér þar sæti. Það átti sem sagt bara að nota tækifærið og gifta sig, án þess að nokkur maður fyrir utan prestinn vissi hvað til stæði. Og nú eru þau sem sagt gift, jammogjá, Jarlaskáldið óskar þeim til hamingju með það. Oseiseijú...


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates