« Home | Af árshátíðum, skírnum og sörpræsum Æðri máttarv... » | Jarlaskáldið spáir í spilin (VARÚÐ! Þeir sem ekki... » | Breytingar Í tilefni þess að Kjartan og Laufey ha... » | Jarlaskáldið liggur banaleguna Já, kæru lesendur,... » | Jarlaskáldið jeppast Jarlaskáldið var á faraldsfæ... » | Bö! Það er soldið deprimerandi að skrifa óralanga... » | Þreyta Nú er Jarlaskáldið þreytt, en glatt, enda ... » | Merkilegur dagur Dagurinn í dag, 24. október, er ... » | Um tungumálakunnáttu Jarlaskáldsins Samkvæmt Molu... » | Frægð á næsta leyti? Það var barasta sett met á s... » 

föstudagur, nóvember 08, 2002 

Blogg að kröfu Mumma

Jarlaskáldið hitti Mumma á Messanum í gær, og kvartaði hann sáran yfir bloggleysi. Úr því skal bætt, þótt efni til þess séu lítil.

Vikan hefur verið hin rólegasta fram til þessa, á öllum vígstöðvum. Jarlaskáldið er nú eitt í koti sínu, eða því sem næst, þar eð foreldrar þess sýndu af sér það vítaverða ábyrgðarleysi að skreppa til útlanda og skilja Jarlaskáldið eftir án barnfóstru. Eins gott að það er megavika hjá Dominos, annars myndi Jarlaskáldið eflaust svelta heilu hungri. Blessunarlega er það vel mett.

Að vísu nýtti Jarlaskáldið einveru sína í slotinu til þess að boða til spilakvölds. Skemmst er frá því að segja að úrslit urðu meira og minna eftir bókinni, aumingjabloggarinn tapaði feitt (þó ekki eins feitt og Chicago gegn Boston, þessi var fyrir Mumma) en Jarlaskáldið varð í öðru sæti. Kjarri vann, en Lilja hlaut bronsið. Spilaður var Kani að vanda, og eins og venjulega fór langmestur tíminn í að ræða gang spilsins, hvað hefði klikkað í þessu spili og hvers vegna þessi sagði 10 en ekki 11 og af hverju þessi aftrompaði ekki þennan og svo framvegis og svo framvegis.

Í þessum skrifuðu orðum var Hrafnhildur frá Hvanneyrum að senda Jarlaskáldinu ástar- og saknaðarkveðjur með SMS, og þakkar Jarlaskáldið af heilum hug fyrir. Með skeytinu fylgi m.a.s. myndrænt faðmlag, eða „knús“, eins og það kallast víst meðal almúgamanna. Meðfylgjandi kveðja var reyndar á dönsku, hvað sem því veldur.

Hrafnhildur þessi (ábendingarfornafnið er hér notað ef ske kynni að einhver lesenda þekki ekki stúlkuna, þeir sem þekkja hana vinsamlegast leiði ábendingarfornafnið hjá sér) mun um helgina ásamt Jarlaskáldinu verða þess heiðurs aðnjótandi að verða boðið á Le Grand Buffet, sem er einmitt átveisla ein mikil haldin af þeim merka félagsskap VÍN, og fer hún jafnan fram í sumarhúsi, að þessu sinni að Ölfusborgum. Má búast við að gaman verði þar nokkurt, og jafnvel glens þegar líða tekur á. Snædd verða íslensk húsdýr af ýmsum tegundum, ásamt ýmsu öðru góðgæti, sem of langt mál yrði að telja upp.

Að lokum þetta: Jarlaskáldinu hefur borist til eyrna að það merka rit Ratatoskr, sem gefið er út af íslenskunemum og Jarlaskáldið ritstýrði við góðan orðstír áður fyrr, hafi í kjölfar skipanar nýrrar ritstjórnar (öll kvenkyns hvort sem það skiptir máli eður ei) breytt titli blaðsins í Ratatoskur. Ef satt er hljóta þetta að teljast váleg tíðindi, og er það von Jarlaskáldsins að þeir góðu menn er nú fylla kaffistofu Árnagarðs sjái til þess að þessu verði snúið við hið fyrsta. Ekkert helvítis u-innskot í Ratatoski!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates