föstudagur, desember 31, 2004 

Auld Lang Syne

Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur.

Jarlaskáldið hefur útnefnt flón ársins. Þennan vafasama titil hefur Sturla Böðvarsson borið án sóma síðustu tvö ár, og þótt hann hafi vissulega haldið uppteknum hætti í ár eru aðrir sem eiga meira tilkall til titilsins að þessu sinni. Sjaldan eða aldrei hafa fleiri verðskuldað titilinn slæma, en eftir vandlega íhugun hefur Jarlaskáldið ákveðið að titilinn hljóti sú manneskja sem árinu setti glæsilegt Íslandsmet í því að hafa margar skoðanir á sama málinu. Hún bæði studdi og var á móti, auk þess sem hún sat hjá við afgreiðslu þegar frumvarp um hækkun skrásetningargjalda í H.Í. var lögfest á Alþingi. Þrjár skoðanir á sama málinu, sæmilegt, fyrir utan alla hina heimskuna sem stúlkan atarna átti sök á á liðnu ári.

Dömur mínar og herrar, fyrrverandi skólasystir Jarlaskáldsins og núverandi þingmaður:

Dagný Jónsdóttir

Annars bara gleðilegt ár og allt það...

þriðjudagur, desember 28, 2004 

Ársuppgjör 2004

Það styttist víst í það að árið sé á enda og þá er enginn maður með mönnum sem ekki lítur um öxl og spáir í því hvers vegna hann kom ekki meiru í verk með heila 365 daga til ráðstöfunar, hvað þá 366 eins og var í ár. Jarlaskáldið er ekki undanskilið. Því kynnir það til sögunnar Ársuppgjör 2004, framhaldssögu í fjórum þáttum.
Uppbygging Ársuppgjörs 2004 verður þannig háttað að í hverjum þætti verða þrír mánuðir teknir fyrir, rifjuð upp helstu afrek og glappaskot, og síðan gefinn einkunn. Bíðum ekkert lengur með það, fyrsti þáttur:

Janúar-mars 2004

Janúar
Árið 2004 hófst á svölunum heima hjá Magnúsi Blöndahl í Þverbrekkunni og þar var skítaveður ef Skáldið misminnir ekki. Jú, það var bláedrú, hlýtur að vera rétt. Það ástand (Jarlaskáldsins) entist þó ekki lengi, og líkt og flestir samferðamennirnir varð það slefandi ölvað þegar líða tók á nóttu, og var víða komið við. Ágætis byrjun á árinu.
Næst afreka á árinu var ferðalag strax laugardaginn 3. janúar. Áfangastaður var Áfangagil og var þetta sennilega fyrsta skipti sem Lilli fékk að leika sér almennilega í snjó. Annars rólegheitaferð, gist eina nótt og fátt gert af sér.
Mun Skáldið hafa veikst lítilega eftir för þessa en hafði blessunarlega náð heilsu þann 10. janúar því þá áttu bæði Lillebror og gamli maðurinn merkisafmæli, betra að geta notið góðra veitinga. Það átti ekki síður við um kvöldið þegar haldið var árlegt Ítalíuupphitunarkvöld í Naustabryggjunni. Þangað mættu flestir þeir 11 einstaklingar sem hugðu á utanför 4 dögum síðar, perrinn var reyndar norðan heiða og frú Magnússon vant við látin e-s staðar. Í teiti þessari voru gestir að vanda æstir upp til brottfarar með myndasýningum og reynslusögum, svo mjög reyndar að Skáldið skellti sér í Bláfjöllin með Viffa daginn eftir, svo skelþunnt að engu lagi var líkt. Þynnkan átti sér eðlilegar orsakir.
Miðvikudagsins 14. janúar 2004 verður lengi minnst. Þá hófst lítið ævintýri sem stóð í 11 daga og verður vart með orðum lýst. Það var reyndar gert, m.a.s. ófáum orðum, eins og lesa má hér. Í stuttu máli sagt, bestu 11 dagar í ævi Jarlaskáldsins. So far... Í aðeins lengra máli sagt, þá var skíðað, étið, drukkið, djammað, hitt frægt fólk, bullað, bullað og bullað nonstop í 11 daga. Assgoti gaman.
Það verður að viðurkennast að vikurnar eftir heimkomu frá Ítalíu voru ekki þær bestu á árinu. Kom þar ýmislegt til, einkum var það framúrkeyrsla á fjárlögum Ítalíuferðar sem olli því að handbært lausafé var af skornum skammti og hamlaði framkvæmdum, einnig tók það bara góðan tíma að jafna sig eftir úthaldið í Dólómítunum. Samkvæmt heimildum tókst Skáldinu einu sinni að hafa sig út úr húsi næstu vikurnar, ammilisveisla eða e-ð svoleiðis hjá Ernu í Bláskógunum. Þar hugðist Skáldið vera templari; það fór sem fór.

Febrúar
14. febrúar dró loks til tíðinda, því þá tóku stóra systir og kallinn hennar sig til og létu pússa sig saman hjá dómara. Skáldið át á Holtinu í boði þeirra af því tilefni og þar var hreint ekki vondur matur. Eftir matinn stefndi í að öll stórfjölskyldan yrði rallandi en skáldið missti af því, fór í EftirÍtalíumyndapartí í Naustabryggjuna. Það var gott partí.
Næst afreka Jarlaskáldsins og síðast í febrúar var stuttur rúntur með þeim Stefáni og Vigni um uppsveitir Suðurlands á Lilla. Sá rúntur kostaði Lilla eina felgu. Þeim sorgum var drekkt um kvöldið á heimavellinum.

Mars
Í mars fór aðeins að birta til í skemmtanalífi Jarlaskáldsins eftir heldur tíðindalausan mánuð. Strax fyrstu helgina í mars lenti Skáldið í ágætis svaðilförum á Langjökli. Sú ferð lifir ansi vel í minningunni, væntanlega enn betur hjá Magga og Ásgeiri sem eyddu nóttinni fastir í bíl uppi á jökli.
Um miðjan marsmánuð kom svo að árlegri menningar- og skíðareisu til Agureyrish. Það var einkar skemmtileg ferð sem barst víða um Norðurland. Þar var sett krummaskuðaheimsóknamet. Það var slegið síðar um árið.
Samkvæmt heimildum gerðist eitthvað óskaplega lítið það sem eftir lifði marsmánaðar. Jú, Skáldið fékk tannrótarbólgu sem var vissulegt lítið skemmtileg, og hjálpaði ekki upp á bágt fjárhagsástand sem var viðvarandi eftir framúrkeyrsluna á fjárlögum Ítalíuferðar. Þar hjálpaði ekki til að Skáldið vann hjá bændum á skítalaunum. Svo var líka meira og minna skítaveður, var það ekki?

Einkunn:

Henni var ansi misskipt gleðinni á tímabilinu janúar-mars 2004. Janúarmánuður var hrein snilld frá a til z og ber þar vissulega hæst Ítalíuferð, en auk hennar var fín ferð í upphafi árs. Febrúarmánuður var nánast ein leiðindi fyrir utan einn dag, 14. febrúar var vissulega ansi hressandi. Mars var litlu skárri, en þar var þó Agureyrishferðin sem var einkar skemmtileg og Langjökulsfíaskóið sem var vissulega lítt skemmtilegt meðan á því stóð en alltaf jafngaman að segja söguna af því. Hér er því úr vöndu að ráða, en Skáldið lítur svo á að Ítalíuferðin hafi verið slík snilld að tveir leiðindamánuðir séu ásættanleg fórn:

Einkunn janúar-mars: 8.3.


(Uppgjör fyrir apríl-júní birtist innan tíðar)

sunnudagur, desember 26, 2004 

Kjöt og fiskur

Jarlaskáldið hefur sjaldan verið talið þreklega vaxið, en það er ekki frá því að það hafi bæst einhver grömm á kroppinn undanfarna daga, a.m.k. ef jafnan óhóflegt kjötát+algert hreyfingarleysi=þyngdaraukning er enn í gildi. Gott mál. Það er víst orðið ansi langt síðan Skáldið sagði af sér fréttir, tæpum á því helsta:

Laugardaginn 18. desember var Magnús Andrésson steggjaður, sælla minninga. Það var góður dagur sem er flestu leyti horfinn í óminni, en þó hafa varðveist heimildir sem sýna að þar var á ferð ágætis djamm. Eftir því sem Skáldið kemst næst var pilti stolið úr Smáralind undir hádegi og þaðan ekið með hann niður í Kringlu. Þar var honum gert að klæðast jólasveinabúningi og síðan sendur til að versla í matinn. Því næst var steggur sendur út af örkinni til að gleðja gesti Kringlunnar, ungviðið fékk frá honum mandarínur en gamlingar kartöflur. Stóð piltur sig með sóma og gladdi unga sem aldna. Eftir nokkurt labb lá svo leiðin í brennivínsbúð og var Höskuldur ca. 24.000 kr ríkari eftir þau viðskipti. Ekki þótti piltur nógu jólalegur í framan svo að úr því var bætt að endingu áður en leiðin lá út. Næst á dagskrá var að bæta á belginn, og var Potturinn og pannan næsti viðkomustaður. Flestir fengu þar snilldarhamborgara, en steggurinn steikta borðtusku í brauði. Vakti það kátínu.
Þegar allir voru mettir (borðtuskur eru furðuseðjandi) var farið með pilt niður Laugaveg þar sem hann söng með kór, lét draga sig með kaðli og lét öllum illum látum. Því næst lá leiðin upp í Sleggjubeinsskarð þar sem steggur var sendur niður fjallið tjóðraður við snjóbretti. Hann er þó nokkuð betri á skíðum en snjóbretti. Þegar þessu var loks lokið lá leiðin í gufu á Laugarvatni og síðan bústað í Brekkuskógi og eftir það er Skáldið bundið þagnareiði. Myndir segja enda meira en mörg orð.
Sunnudagurinn eftir þetta var algert helvíti. Þegar Skáldið sá síðast til samferðamanna sinna stefndu þeir á Goldfinger, var það um tvöleytið á sunnudegi. Engum sögum fer af þeirri ferð, Skáldið fór heim og svaf þann dag allan og meirihluta vikunnar á eftir.

Svo gerðist fátt í nokkra daga. Hugum að jólunum:

Þolláksmessa

Þennan dag mætti Skáldið næstsíðasta sinni (ef Óðinn lofar) í vinnu hjá bændum. Þar var sem víðar skata í hádeginu, svo Skáldið fór á KFC og bauð m.a.s. kellingunum í vinnunni með. Þá er nú Twister skárri en skata.
Eftir vinnu byrjaði Skáldið jólagjafainnkaupin og lauk þeim að mestu fimmtán mínútum síðar. Snemma í því þetta árið. Um kvöldið fór það svo ásamt Stefáni Twist niður í bæ og hitti þar fjölda fólks sem það skalf með einhverja stund. Eftir þá stund lá leiðin svo í árvissa (annað árið í röð a.m.k.) heimsókn til Reynis í heitt kakó. Snilldarkakó, enda stóð Eyfi við eldavélina. Skáldið tók myndir 1 2 3.

Aðfangadagur jóla

Skáldið reis óhóflega snemma úr rekkju, enda átti það eftir að kaupa eina jólagjöf og eina ammilisgjöf og bara opið til hádegis. Því verki var fljótsinnt og þá var næst að pakka draslinu inn. Upp úr tvö mætti svo áðurnefndur Stefán á svæðið og við héldum upp í Þverbrekku þar sem móðir Blöndudals bauð upp á heitt kakó í tilefni af ammili einkasonarins. Færðum við honum af því tilefni góða gjöf, geisladisk með þokkadísunum í Nylon sem hann þóttist ekki kunna að meta. Við vitum betur, hann var mjög glaður. Dvöldum við góða stund þarna og drukkum mikið kakó, vorum einnig kynntir fyrir snót nokkurri sem kvað vera góð vinkona Blöndudals, en upp úr fjögur héldum við svo heimleiðis, með viðkomu hjá þeim Jónasi og Stefáni Geir sem báðir buðu upp á góðar veitingar. Ágætis jólarúnt þetta.

Um kvöldið var svo étið. Og étið. Og étið. Hamborgarhryggur að vanda (að þessu sinni í boði Gunnars Smára Egilssonar). Skáldið fékk góðar gjafir, skíðahanska og gleraugu, myndavélatösku, heildarsafn Monty Python Flying Circus og uppistand Jerrys Seinfeld á DVD, glæstan Ítalíubol, og e-ð fleira sem það man ekki í svipinn. Skáldið gaf brósa Popppunktsspilið, og flengdi hann og hinn bróðurinn í því spili síðar um kvöldið. Snilldarspil reyndar, þó prófarkarlestri hafi greinilega verið töluvert ábótavant við vinnslu þess.

Jóladagur

Étið meira. Hangikjöt, restin af hamborgarhryggnum, ís og konfekt og u.þ.b. allt sem tönn á festi. Jíha!

Annar dagur jóla

Étið enn meira. Restin af ketinu, og auk þess grillaður humar með alls kyns meðlæti. Gerist ekki mikið betra. Skáldið horfði á Nóa albinóa um kvöldið, hafði heyrt góða hluti. Artí-fartí rusl. Má þá heldur biðja um Old School...

föstudagur, desember 24, 2004 

Jól, krakki og ammili


Jamm, jól. Til hamingju með það öllsömul.

Og krakki. Lilja og Gísli fjölguðu mannkyninu í gær, 51 sm, 15 merkur og stúlka. Til hamingju með það.

Og ammili. Stóri stúfur a.k.a. Þjálfi a.k.a. Tuddi tuð a.k.a. Blöndudalur a.k.a. Þverbrekkingur a.k.a. Magnús B. Sighvatsson er loks orðinn 27 ára og deilir ammilisdegi með Ésú. Til hamingju með það.

Og kjöt. Kjöt er gott...

mánudagur, desember 20, 2004 

Maggi tekinn í bakaríið

Hann var með erfiðari sunnudögum þessi sem nú er nýliðinn. Það hefur sennilega eitthvað með laugardaginn að gera. Um hann verður fljótlega ritað, en þangað til ætti þetta að gefa ákveðna hugmynd. Þó svo að verstu myndirnar hafi ekki ratað á netið...

þriðjudagur, desember 07, 2004 

101 Selva

Jarlaskáldið hefur ekki bloggað af viti í háa herrans tíð, en það breytir því ekki að Sturla Böðvarsson er enn bjáni. Og verður það væntanlega eitthvað áfram...

Það dró aðeins til tíðinda í lífi Jarlaskáldsins um helgina. Föstudagur var reyndar með hefðbundnum hætti, lítið sem ekkert gert þá, hvorki í vinnu né félagsstörfum. Það er ekkert nýtt. Föstudagskvöldið reyndist síðan vera lognið á undan storminum, því á laugardaginn tók heldur að hvessa...

...og það ekki bara í óeiginlegri merkingu, því það var hávaðarok og rigning þegar Skáldið hélt frá heimili sínu á áttunda tímanum á laugardagskvöld og tók stefnuna á Langholtsveg hvar Oddbergur Eiríksson (oft nefndur aumingjabloggari) heldur sitt heimili. Þaðan lá leiðin ásamt téðum Oddbergi vestur í bæ og ekki stoppað fyrr en komið var í krummaskuð það er Seltjarnarnes nefnist. Er það lítið og lágt, og var því lítið skjól að hafa þegar við hlupum undan dembunni inn í félagsheimili hreppsins. Ástæða þess að við lögðum í þessa langferð var sú að þarna um kvöldið var haldin jólaskemmtun vinnustaðar oss, Norðurljósa, og þar sem bæði vott og þurrt var alveg gratís gátum við ekki látið okkur vanta. Fyrst var okkur boðið upp á fordrykk sem var lítt merkilegur, þó var fordrykkur Jarlaskáldsins eilítið skárri þar eð hann innihélt a.m.k. alkóhól. Fljótlega fundum við svo sæti þau er okkur var úthlutað og sátum þar í félagsskap ýmiss góðs fólks sem við kunnum mismikil deili á. Ekki leið á löngu uns veislustjórinn Róbert Marshall (sem helst er þekktur fyrir aðstoð sína á Þjóðhátíð '03) kvaddi sér hljóðs og bauð fólki að fá sér að éta. Þar þjófstartaði hann heldur þar eð maturinn var ekki tilbúinn, en ekki leið á löngu þar til fyrstu menn komust að hlaðborðunum, en þar sem Oddbergur var með okkur á borði vorum við að sjálfsögðu með síðustu mönnum að fá í svanginn, enda er Oddi alltaf síðastur. Maturinn var rétt rúmlega snilld og lítið annað um hann að segja, og auk þess voru frammistöðustúlkur sérlega duglegar að fylla á glös, með fyrirsjáanlegum afleiðingum.
Auk þess að splæsa á gesti mat og drykk var boðið upp á ágæta skemmtidagskrá. Fyrst á svið var Ragnheiður Gröndal ásamt brósa sínum og söng þrjú jólalög, Jarlaskáldið var frekar upptekið við kalkúninn þegar það gerðist og leggur því ekki dóm á þá skemmtun. Ágæt örugglega, og ekki ómyndarleg stúlkan. Sem er ekki verra. Næstur á svið var síðan Hjálmar Hjálmarsson, sem Jarlaskáldið saknar gríðarlega í hlutverki fréttaHauksins. Fór hann með gamanmál og fórst það einkar vel úr hendi, tók að sjálfsögðu Bubba en einnig frábærar eftirhermur af Megasi og Agli Ólafssyni. Kannski að rauðvínið hafi hjálpað, en Odda fannst þetta í það minnsta líka gott þó ódrukkinn væri.
Næsta "skemmtiatriði" hefði alveg mátt sleppa að mati Skáldsins. Stjáni stuð ásamt hljómsveit, 'nough said.
Þegar þarna var komið sögu var gert hlé á dagskrá og m.a. aumingjabloggarinn lét sig hverfa. Jarlaskáldið minglaði aðeins við fræga og gerði það að sögn skammlaust, auk þess ku það hafa litið við á barnum, en fylgdist svo með Love Guru flytja sína "tónlist" með hjálp íturvaxinna ungmeyja. Það var ágætt skemmtiatriði, hvað sem tónlistinni líður. Eftir það steig hljómsveitin Á móti sól á svið og þótti Skáldinu þá mál til komið að yfirgefa samkomuna. Því til happs voru fleiri á sömu buxunum og fékk Skáldið því far áleiðis í bæinn. Gerði það á leið sinni stutt stopp í teiti hjá, öh, einhverjum, og rólaði sér aðeins þar, en hélt fljótlega á þann annars arma stað Nasa, þar sem Sálin hans Jóns míns var að skemmta og Skáldið átti von á að hitta þá Staffan og VJ. Þar voru piltar og auk þeirra fjölmargir aðrir, og til að gera langa sögu stutta var þetta skemmtun hin besta. Að skemmtun lokinni var haldið eitthvað víðar á lendum skemmtanalífsins, Skáldið hitti að sögn fólk, en endaði að lokum eitt í leigara síðla nætur, þó ekki án þess að hafa orðið sér úti um hressingu hjá Nonna. Góður endir á ágætu kvöldi.

Sunnudagurinn... byrjaði ekki vel þegar aumingjabloggarinn hringdi í Skáldið og bað það um að taka fyrir hann vakt. Það var ágætt að allir aðrir á vaktinni voru líka þunnir...

Helgin á undan? Ekki baun í bala. Jú, Old School, ekki alveg ónýt helgin!

Kannski eru einhverjir að spá í titli þessa greinarkorns, er Skáldið eitthvað að vitna í Hallgrím Helgason? Nei, ekki er það svo slæmt, heldur að minnast þess að nú er aðeins 101 dagur þar til Jarlaskáldið heldur af landi brott til Dólómítanna ítölsku til að renna sér á skíðabretti í bland við aðra skemmtun. Af hverju pantaði maður ekki ferð í janúar eins og venjulega? Damn it!


miðvikudagur, desember 01, 2004 

Bjáni

Sturla Böðvarsson heitir maður, einkum þekktur fyrir að vera bjáni. Nýjasta dæmið er þetta:

"Sturla lítur svo á að með því að hækka ekki áfengisgjald á léttvín og bjór sé tekið undir sjónarmið hans um að lækka þurfi verð áfengra drykkja."

Semsagt, við lækkum verðið með því að hækka önnur verð. Snillingur!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates