« Home | Lucifer Jújú, það voru víst áramót fyrir ekki svo... » | Auld Lang Syne Kalkúnn er afbragðsmatur. Að venj... » | My Shining Hour Nú er sko gaman að vera jeppakall... » | Ruglumbull Jamm, þá er þetta Ésúmömbódjömbó að ve... » | Hannes Hólmsteinn er snilli! Það var nú eitt og a... » | Hvað þá? Jamm, Jarlaskáldið er barasta heima. Á f... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfimmta Jarlaskáldið h... » | Kortabók Íslands Eitt og annað hefur gengið á í l... » | Tilvera okkar er undarlegt ferðalag Segir í einhv... » | Af jeppum (Uppfært 10. desember með auknum myndsk... » 

mánudagur, janúar 05, 2004 

Svarthvíta hetjan mín

Jarlaskáldið brá sér einu sinni sem oftar út fyrir bæjarmörkin um helgina. Það er gömul saga og ný, en öll ástæða til að greina lesendum frá atburðum í ferð þessari, þar eð þar fer saga mikilla afreka og hetjuskapar. Vessgú:

Á föstudagskvöldið var heilmikil rekistefna í gangi um hvort halda ætti í ferðalag daginn eftir, veðurspáin gaf ekki tilefni til bjartsýni, spáð roki og rigningu, en eftir nokkuð japl, jaml og fuður var ákveðið að taka sénsinn og kýla á það. Áfangastaðurinn var í upphaflegum áætlunum Landmannalaugar og gert ráð fyrir 7 ferðalöngum, þeim Stefáni og Skáldinu á Willys, Andréssyni og frú á Toyota Hilux X-Cab og þeim feðgum Árna, Togga og Árna á Datsun Patrol. Þær áætlanir voru ekki lengi að breytast, fyrst var ákveðið að fjölga í hreingerningaliðinu og var Alda fengin til þess. Alltaf gott að hafa aukamann þar. Þá gerðist það að Stefán fór að fikta í Willa sínum og lá Willi óvígur eftir. Voru þá góð ráð dýr. Lausnin varð sú að leita á náðir Lilla, þrátt fyrir að hann teldist heldur lítill til lappanna á sinni 31 tommu miðað við 38 tommu tröllin. Til að bregðast við því var ferðin stytt eilítið og stefnt á Áfangagil, sjá bara hvað Lilli kæmist og selflytja svo hópinn ef til þess kæmi síðasta spottann. Þannig búinn hélt hópurinn af stað á ellefta tímanum laugardagsmorgun, að vísu án Árna hins eldri sem forfallaðist. Veðrið reyndist ekki eins slæmt og verstu spár gerðu ráð fyrir, smá hálka á heiðinni en ekkert til að hafa áhyggjur af. Var fyrsta stopp gert í Hnakkaville og þar keypt í kvöldmatinn, komið við í mjólkurbúðinni og loks vitaskuld heimsótt stolt bæjarbúa. Dálaglegt.
Var svo ekið áfram austur að Landvegamótum, á leiðinni ekið yfir nýju Þjórsárbrúna, ósköp er hún nú sviplaus miðað við þá gömlu. Við Vegamót var lykli reddað að kofanum í Áfangagili og svo ekið upp Landveginn í átt að Heklu. Var vegurinn gjörsamlega ísi lagður og flugháll eftir því svo hraða var vel stillt í hóf. Á leiðinni skemmtum við Stefán og Alda í Lilla okkur vel yfir spaugi Þorsteins Guðmundssonar, gi.x.fni.is, mátti minnstu muna að Skáldið missti stjórn á bílnum þegar hann byrjaði að tantra köttinn, ógleymanleg snilld! Við Dómadalsafleggjara var loks stoppað og hleypt úr dekkjum, jómfrúarúrhleyping í tilviki Lilla, 10 psi urðu eftir í hverju dekki. Andrésson tók síðan forystuna, og Skáldið í humátt á eftir. Sú ferð varð stutt, fyrsti skaflinn hafðist með miklu erfiði en í þeim næsta sat Lilli pikkfastur á maganum eftir væna atlögu. Þótti ljóst að Lilli færi tæplega lengra þessa leið. Ekki var þó öll nótt úti enn, nokkru ofar liggur önnur leið inn í Áfangagil og varð úr að reyna sig við hana. Reyndist hún öllu greiðfærari, a.m.k. í fyrstu, en þar sem vegurinn hvarf fóru leikar að æsast. Þar byrjuðu allir að festa sig, smáir sem stórir, og spottinn meira og minna uppi við. Einhvern veginn tókst þó að mjatla áfram, Skáldið festi sig reglulega en engu að síður kom Lilli stórlega á óvart með frammistöðu sinni, göslaði þetta áfram í hjólförunum eftir hina og festist ekki fyrr en hjólin náðu ekki lengur niður og hann lá á maganum. Hörkustuð. Fór svo að lokum að Lilli hafði það alla leið upp að skála eftir að hafa farið niður í 6 psi, þvert á spá sumra hverra jeppi var bilaður inni í skúr. Húrra fyrir Lilla!
Þegar þarna var komið sögu var klukkan ekki einu sinni orðin fimm þannig að þegar við vorum búin að moka okkur inn (hurðin sást rétt svo) og koma okkur fyrir var aftur haldið í jeppana, þó Lilli fengi að vera eftir, og keyrt hingað og þangað í snjónum. Gekk það bærilega, nokkrar illsjáanlegur holur sáu um hopp og hí og ekki skánaði það þegar orðið var aldimmt. Á einum stað komum við svo að gili sem Andrésson fór á fullri ferð inn í og pikkfesti sig að sjálfsögðu. Hvað gerir þá Toggi? Tekur fram spottann og kippir Lúxanum upp úr? Nei, að sjálfsögðu tók hann líka á því og festi sig enn kirfilegar við hliðina á Magga. Afar karlmannlega gert. Var þá ekki annað að gera en taka fram skóflurnar og moka og tók nokkra stund. Varð stúlkunum þá spurn hvort karlpeningnum þætti þetta virkilega gaman, var það að sjálfsögðu ekki svaravert.
Eftir nokkra stund var haldið til baka, hafði Jarlaskáldið sýnt þá fyrirhyggju að taka nýja snjóbrettið sitt með og fékk það sína prufukeyrslu í eftirdragi hjá Togga. Ekki leiðinlegt það, og mesta gleðiefnið að handónýtur ökklinn var ekki til neinna vandræða. Að vísu fékk brettið aðeins að kenna á því þar sem snjóþekjan var þunn en ekkert alvarlegt sosum. A.m.k. ættu báðir aðilar að vera til í slaginn eftir svo sem 8 daga.
Þegar í kofa var aftur komið var tekið til við matseld og sá Skáldið um að grilla ljúffengar vínarpylsur ofan í sig og Öldu, annars var mataræðið fjölbreytt og enginn með það sama. Um svipað leyti hófust hefðbundin aðalfundarstörf þótt hægt væri farið í byrjun, að vísu lét yngsti meðlimurinn þau alveg í friði enda vart af barnsaldri og fór bara að sofa. Var svo spjallað og spaugað fram eftir kvöldi, eða allt þar til 9 manna hóp bar að garði sem við leyfðum að gista í næsta herbergi af alkunnu drenglyndi voru. Tóku leikar aðeins að æsast í framhaldi af þessari fjölgun, enda gítarspil og glaumur sem fylgdi henni. Enn síðar var gleðinni haldið áfram inni í Lilla við léttan undirleik MP3-spilarans uns síðustu menn skriðu inn í koju á fimmta tímanum. Þess má geta að þar á meðal var Jarlaskáldið, og síðan einhver annar.

Þegar liðið skreið á fætur blasti við því furðuleg sjón: nánast allur snjórinn farinn! Hafði sáralítið rignt um nóttina, en lofthitinn greinilega verið á annan tuginn. Morgunverkin voru hefðbundin, og síðan lagt í hann heimleiðis þegar hreingerningaliðið hafði lokið störfum. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að reyna við leiðina sem var ófær Lilla daginn áður og gekk vel, slabb út um allt og svaka stuð. Tókst Skáldinu einnig að finna góða krapapytti og festa sig nokkrum sinnum, í eitt skiptið svo vel að ekki var hægt að opna bílstjórahurðina. Sem betur fer er Lilli nettur og Patti feitur, svo lítið mál var að losa hann. Gekk ferðin annars prýðilega fram að Landvegi þar sem pumpað var í dekk, og síðan tíðindalítil heimferðin sömu leið og áður með stoppi í Hnakkaville þó stolt bæjarbúa hafi ekki verið heimsótt að þessu sinni. Úr því bætti Skáldið reyndar í hádeginu í dag, og var það gott.

Samkvæmt teljaranum hérna efst hægra megin á síðunni eru 8 dagar í dag þar til Skáldið fer við ellefta mann til Ítalíu. Á það er ekki hægt að minnast of oft!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates