« Home | Miðvikublogg ið þrítugastaogáttunda Hvað skyldi n... » | Allt í fönk Sjúddirarírei og Simbi sjóari, helgar... » | I´m out of Shawshank! Undanfarnir dagar hafa veri... » | Á dauða mínum átti ég von... ...en að Aumingjabl... » | Skyldulærdómur Baila, let me see you dance baby y... » | Slabb Jæja, vonandi að þeir örfáu sem nenntu séu ... » | Næstlengsta partýblogg allra tíma! Jamm og já, næ... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogsjöunda Jarlaskáldið ... » | Helgin Jú, Það var víst helgi. Og sitthvað gjört.... » | Getraun Jarlaskáldið er með litla getraun. Hvaða ... » 

þriðjudagur, mars 02, 2004 

Ekkert eins og það á að vera

Það er orðið þó nokkuð langt um liðið síðan Jarlaskáldið hafði nennu til að rita einhver fátækleg orð um annars auma tilveru sína. Hefur það enda mátt þola fúkyrðaflaum undanfarið frá nokkrum lesenda sinna sem vilja sitt helgarblogg og engar refjar! Hefur Skáldinu jafnvel verið hótað líkamsmeiðingum sýni það ekki betri frammistöðu, og í því skyni að kaupa sér eilítinn gálgafrest hyggst það því drepa á því helsta sem það hefur upplifað undanfarið. Ekki er hægt að mæla með því að sæmilega gefið fólk lesi lengra.

Þegar síðast spurðist til Skáldsins hafði það nýverið horft á MR-inga sigra kæruglaða MH-inga í GB, vitaskuld með svikum og prettum eins og venjulega, og hugðist nota helgina til útiveru og heilbrigðs lífernis í stað sukks og svínarís. Útkoman varð víst sitt lítið af hverju. A.m.k. hófst helgin á siðsamlegum nótum, Jarlaskáldið hélt á föstudagskvöldið í heimsókn til hjónaleysanna Kjartans og Laufeyjar á Guðrúnargötu og hitti þar fyrir auk húsráðenda önnur skötuhjú sem nýverið hafa fjölgað sér, þau Hrafnhildi og Elvar. Var kvöldinu eytt í gáfulegar samræður í bland við léttara hjal, um ellefuleytið létu H&E sig hverfa heimleiðis en þeirra skarð var fljótlega fyllt af aumingjabloggaranum. Þar eð veislugestir voru þá orðnir fjórir þótti tilvalið að spila Kana sem Jarlaskáldið tapaði að sjálfsögðu sannfærandi. Magnús Blöndahl sýndi sig fljótlega upp úr miðnætti og eðlilega fóru þá aðrir gestir að týnast heim svo teitinni var slúttað fyrir eitt. Bærilega siðsamlegt kvöld, er það ekki bara?

Skáldið svaf fram til hádegis daginn eftir því ekki virtist ætla að bóla á neinum sem til væru í að leggja land undir dekk og hverfa út í buskann. Hugðist Skáldið því barasta eyða deginum í leti og ómennsku, sem það kann ágætlega, en um tvöleytið bárust þau boð frá Stefáni Twist að hann og Vignirværu til í að kíkja aðeins út fyrir póstnúmer hundraðogeitthvað og sjá svo til hvar förin myndi enda. Var engum nema Lilla treyst fyrir þessu verkefni og var byrjað á því að brynna honum en síðan hugað að drykkjarvörum fyrir aðra ferðalanga. Um þrjúleytið lögðum við svo af stað út í suddann og stefnan tekin austur fyrir fjall, meira var ekki ákveðið að sinni. Var ferðin tiltölulega tíðindalítil allt þar til glitta tók í Hnakkaville en þá fundum við að sjálfsögðu fyrstu leið fram hjá þeim óskunda og héldum norður í Grímsnes. Ekki varð ferðin tíðindameiri við þá beygju, þokusuddinn skemmtilegur og Lilli í hörkustuði. Á Geysi var gert hefðbundið pylsustopp og höfðu ferðalangar þá orðið ásáttir um það að kíkja upp að Hagavatni og reyna að gera einhvern óskunda þar. Við Gullfoss var myndarlegt skilti fyrir veginum hvar á stóð „Vegur ófær“, vitanlega tókum við ekkert mark á því og héldum áfram. Fljótlega komumst við að því hvers vegna þetta skilti var þarna, fyrst eftir að hafa hoppað og skoppað yfir alldjúpar holur í veginum og síðan enn frekar þegar við komum að ca. meters djúpum og hátt í tveggja metra breiðum skurði í veginum. Lilla var ekki skotskuld úr því að krækja fyrir þá ófæru og gekk ferðin vel allt að afleggjaranum inn að Hagavatni. Leiðin inn eftir byrjaði ekki gæfulega, vegurinn ansi holóttur og sprunginn, svo Skáldið fór sér að engu óðslega. Eftir stutta stund virtist hann lagast svo Skáldið spyrnti heldur fastar með hægri. Það hefði betur sleppt því, því allt í einu heyrðist hátt KABÚMM og skrjóðurinn fór í loftköstum yfir allsvakalegar holur í veginum með tilheyrandi þaksköllum fyrir ferðalanga. Sluppu þeir þó allir ómeiddir úr þessum hildarleik, en hið sama varð ekki sagt um aumingja Lilla. Hafði felga á hægra framhjóli beyglast þó nokkuð svo úr því var allur vindur. Sem betur fer voru það einu skemmdirnar, því Skáldið sýndi vitaskuld þá fyrirhyggju að vera með varadekk í farteskinu, þó heldur væri það aumingjalegt í samanburði við hin dekkin. Eftir nokkra leit fannst tjakkur (of lítill) og viðeigandi verkfæri og með hjálp ævafornra húsráða (hlaða grjóti undir tjakkinn) tókst að skipta um dekk og tók þá Lilli gleði sína á ný líkt og eigandinn. Engu að síður var ákveðið að reyna ekki frekar við leið þessa þar eð ekki voru fleiri varadekkin.
Í öllum góðum ferðalögum þykir tilhlýðilegt að skola af sér ferðarykið og í því skyni fundum við okkur sundlaug í Reykholti (Árn.) Var það barasta hin fínasta sundlaug, rennibraut að vísu ómerkileg en heitur pottur bæði stór og þægilegur og þar að auki svona líka passlega heitur. Hefðum við eflaust getað legið þar tímunum saman ef við hefðum ekki verið reknir upp úr eftir stutta dvöl enda seint á ferð. Héldum við því heim á leið, kannski ekki með öngulinn í rassinum en svona dálítið neðarlega í bakinu, og til að bæta fyrir það var ákveðið að hittast í Heiðarásnum um níuleytið, horfa þar á Popppunkt, drekka öl og sjá svo hvernig mál myndu þróast. Skemmst er frá því að segja að þau þróuðust með hefðbundnum hætti enda skemmtanaglaðir menn með afbrigðum þarna á ferð. Ekki ætlar Skáldið að þreyta lesendur með sögum af misgáfulegum tilburðum þess á lendum skemmtanalífsins, það er bæði gömul saga og ný, en getur þó ekki látið hjá líða að greina frá forvitnilegri uppákomu er átti sér stað síðla nætur. Var þá Jarlaskáldið einu sinni sem oftar komið á Nonnabitann í þeim tilgangi að verða sér úti um blautan Pepperonibát. Var röð löng og hægfara og notaði Skáldið því tækifærið og bryddaði uppi á samræðum við nærstadda sem tóku því mætavel. Eftir alllanga bið fór að hylla undir að Skáldið gæti lagt fram pöntun sína og það því orðið nokkuð óþolinmótt. Vindur þá stúlka ein allglyðruleg sér að Skáldinu og upphefur mikinn fagurgala. Voru samræðurnar nokkurn veginn á þessa lund, þó orðalagi sé breytt eilítið á stöku stað "for dramatic purposes."

Glyðra: „Ó fagri piltur, þú berð af öðrum mönnum hér inni, ásjóna þín er guðdómleg, viska þín vart mælanleg, fas þitt og atgervi öðrum öfundarefni!“

Jarlaskáld: „Huh?“

Glyðra: „Sjálf er ég afar fögur, en ó hve ég er svöng! Leyf mér að taka stað þinn í röðinni, og þér mun launað verða á þann hátt sem glyðruleg stúlka kann helst!“

Jarlaskáld: „Vík frá mér með þín fölsku tælingarorð, þú lausgirta flenniglyðra, þú hefir vafalaust legið undir heilu herdeildunum og heldur kýs ég minn Nonna en að liggja með hórkerlingu!“

(húrrahróp frá öðrum biðraðarmeðlimum)

Glyðra: „Þú ert viðbjóðslegri en hor það er rennur úr sjálfdauðu hrossi sem legið hefur í stífluðu klóaki um árabil!“

Jarlaskáld: „Ekki varðar mig um skoðanir portkvenna, haf þig á brott og hugsa þinn gang, nú vil ek bát minn eta!“

(Glyðra yfirgefur sviðið)

Jarlaskáld: „Ég ætla að fá einn pepperonibát og hálfan af appelsín.“

(Jarlaskáld fær bát sinn og drykk, yfirgefur sviðið)


Ekki var viðskiptum Jarlaskáldsins við frekt kvenfólk enn lokið, því einungis nokkrum mínútum síðar þurfti það að beita hörku til að ná leigubíl frá stúlku sem hafði líkt og glyðran talið að biðraðir ættu ekki við sig. Er Jarlaskáldið verulega farið að missa trúna á að sómakært kvenfólk sé lengur að finna hér í borg óttans.

Sunnudagur fór ekki ekki í merkilega iðju frekar en endranær, en um kvöldið og nóttina horfði Skáldið á Skarann og var bara nokkuð sátt við úrslitin. Allavega enginn viðbjóður sem vann í ár.

Samkvæmt þessum teljara hérna vinstra megin eru 9 dagar þar til Skáldið heldur norður í land til að stunda snjóbrettaiðkun í bland við hefðbundnari aðalfundarstörf. Ætli verði einhver snjór eftir þá? Ekki neitt gríðarleg bjartsýni í gangi. Þó ber að benda einhleypum 18-22 ára stúlkum á að enn er hægt að nálgast miða á þessa ágætu hátíð VÍN-verja, og tvíburum má benda á tveir-fyrir-einn tilboðið sem gildir. Oseiseijú...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates