« Home | Auld Lang Syne Kalkúnn er afbragðsmatur. Að venj... » | My Shining Hour Nú er sko gaman að vera jeppakall... » | Ruglumbull Jamm, þá er þetta Ésúmömbódjömbó að ve... » | Hannes Hólmsteinn er snilli! Það var nú eitt og a... » | Hvað þá? Jamm, Jarlaskáldið er barasta heima. Á f... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfimmta Jarlaskáldið h... » | Kortabók Íslands Eitt og annað hefur gengið á í l... » | Tilvera okkar er undarlegt ferðalag Segir í einhv... » | Af jeppum (Uppfært 10. desember með auknum myndsk... » | Af eyðslusemi (þetta fer nú að hætta að vera fyndi... » 

föstudagur, janúar 02, 2004 

Lucifer

Jújú, það voru víst áramót fyrir ekki svo löngu síðan. Kannski grunar einhverja lesendur að Jarlaskáldið hafi notað tækifærið og slett lítillega úr klaufunum. Þeir hafa rangt fyrir sér. Það var ekkert lítið við það.

Eins og áður var frá greint bauð móðir Skáldsins upp á kalkún á gamlársdagskvöld eins og hefð hefur verið fyrir undanfarin ár, gamla konan verður alltaf betri í eldamennskunni og kalkúnninn vægast sagt góður í ár. Jarlaskáldið sá aftur á móti um rauðvínið, sem var ekkert síðra. Að áti loknu bloggaði Skáldið eilítið eins og lesendur sáu en lagðist svo á meltuna fram að ávarpi Bubba kóngs. Það var froða eins og lög gera ráð fyrir. Svo hófst sjónvarpsglápið, það byrjaði bærilega með fréttaannál Stöðvar 2, versnaði með Pablo Francisco og náði algjörum botni með skaupinu. Úff, hvílík hörmung!
Eftir þessa misnotkun á augum og eyrum skattborgara hafði Skáldið samband við Magnús Blöndudahls og varð niðurstaða þeirra samræðna að Skáldið hélt á Lilla sínum í Þverbrekkuna til að njóta útsýnis af níundu hæð um áramótin. Var Skáldinu tekið fagnandi af íbúum, sem voru auk Magnúsar foreldrar hans, en litla systir mætti í vinnuna í álverið í Straumsvík klukkan 12 á miðnætti. Óheppin sú! Naut Skáldið afbragðsgóðs útsýnis yfir Fossvoginn og víðar af svölunum en mikið óskaplega var kalt! Á miðnætti var skálað í bubbly og fólki óskað til lukku með nýja árið en þegar árið 2004 var tæplega klukkutíma gamalt héldum við Magnús á honum Lilla (Skáldið enn keyrandi, hver hefði trúað því?) yfir Fossvoginn og enduðum í Bústaðahverfinu hjá þeim Lilju og Gísla. Jarlaskáldið keyrði ekki neitt eftir það, svo mikið er víst. Vorum við Magnús fyrstir á staðinn séu húsráðendur undanskildir og vorum fljótir að sýna þeim og öðrum gestum sem fljótt bar að garði hvernig VÍN-verjar skemmta sér. Varð mæting hin ágætasta, að vísu áttu flestir aðrir það sameiginlegt að vera paraðir, og yfirleitt þar að auki óléttir eða nýbúnir að gjóta, svo við Magnús stungum eilítið í stúf við þá. Það kom þó ekki í veg fyrir að gleði var talsverð og nokkuð almenn.
Þrátt fyrir að við Magnús yndum hag okkar vel í teiti þessari ákváðum við þegar nokkuð var á nótt liðið að venda kvæði okkar í kross og halda aftur í Kópavoginn. Endaði för sú í Salahverfinu heima hjá, öh, einhverjum, og voru þar staddir fjölmargir VÍN-verja auk fjöldans alls af öðru liði sem Skáldið kannaðist við og það ekki bara af góðu. Djamm. Djamm. Djamm. Pítsa. Djamm. Á níunda tímanum um morguninn lét Skáldið sig loks hverfa heim á leið með leigubíl ásamt einhverjum öðrum. Þegar heim var komið eldaði það sér mat og horfði á hluta Groundhog Day. Fór í bælið um tíu. Heilsan hefur ekki verið góð síðan.

Pistill þessi er ritaður á föstudagskvöldi og kemur kannski ekki á óvart að Skáldið hélt sig heima í kvöld, búin að vera ágætis vika djammlega séð. Jarlaskáldið er þó ekki hætt. Á morgun er stefnan tekin á jeppatúr og er meiningin jafnvel sú að Skáldið fari á Lilla. Veðurspáin er að vísu skelfileg, en kannski er það bara betra. Allavega, það verða einhverjar fréttir af þessu eftir helgi. Adios.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates