« Home | GSM myndablogg Nú hafa VÍNverjar komið sér upp gs... » | Rulluf? Njamm, einn af þessum föstudögum, ósköp l... » | Banalega, Britney og breyting Jamm, Jarlaskáldið ... » | Svarthvíta hetjan mín Jarlaskáldið brá sér einu s... » | Lucifer Jújú, það voru víst áramót fyrir ekki svo... » | Auld Lang Syne Kalkúnn er afbragðsmatur. Að venj... » | My Shining Hour Nú er sko gaman að vera jeppakall... » | Ruglumbull Jamm, þá er þetta Ésúmömbódjömbó að ve... » | Hannes Hólmsteinn er snilli! Það var nú eitt og a... » | Hvað þá? Jamm, Jarlaskáldið er barasta heima. Á f... » 

mánudagur, janúar 12, 2004 

34 tímar and counting

Jamm, það er farið að styttast allrosalega í að Vinafélag íslenskrar náttúru með Jarlaskáldið innanborðs haldi í víking suður til Ítalíu. En það er í framtíðinni. Lítum fyrst aðeins um öxl.

Jarlaskáldið bloggaði síðast um áttaleytið á laugardagskvöldið og ekki svo löngu síðar hélt það á Lilla sínum í Kópavoginn að sækja þar slöttólf þann er gegnir nafninu Magnús frá Þverbrekku, a.k.a. Þjálfi, a.k.a. Tuddi tuð. Hafði Kidda inum rauða einnig tekist að kría út far sem gerði það að verkum að næsti viðkomustaður var miðbær Reykjavíkur, hvar Kiddi fann sér söngvatn. Enn var kvæði vent í kross og haldið að nýju upp í Breiðholt hvar Vífill og Alda bættust í hópinn. Var Lilli þá fullsetinn og jafnvel rúmlega það.
Hélt svo hópur þessi í Naustabryggjuna til sæmdarskötuhjúanna Togga og Dýrleifar en þar hafði verið boðað til Ítalíuupphitunarkvölds eins og áður var frá greint. Á staðnum voru auk húsráðenda þeir Stefán Twist, Magnús Andrésson og Vignir Jónsson auk leynigests, sem var Jónas nokkur. Ástæða þess að hann hafði verið boðaður á svæðið var sú að hann hefur skíðað brekkur þær sem aðrir gesta (nema Andrésson, hehe) eiga í vændum og gat því miðlað af reynslu sinni um hvar væri best og brattast. Einnig var tækifærið notað til að rifja upp síðustu ferð með myndum og sögum. Eitthvað bættist í hópinn er á leið, Steggurinn mætti ásamt Eyfa, en þó lét einn maður ekki sjá sig, hann mun hafa verið vant við látinn norður í landi og ekki orð um það meir.
Eins og nærri má geta þegar glatt er á hjalla voru aðalfundarstörf iðkuð af miklum móð allt þar til leitað var niður á láglendið og óþarfi að rita frekar um það, þar var allt við sama heygarðshornið.

Jarlaskáldið vaknaði við eilitla vanheilsu um tvöleytið á sunnudaginn og stuttu síðar hringdi sími þess. Var Vífill hinum megin á línunni og krafðist efnda á loforði Skáldsins frá því kvöldið áður um að kíkja í Bláfjöll og vígja bretti vor. Skáldið reynir að jafnaði að standa við orð sín og lét sig því hafa það að halda í fjöllin. Ekki var ástandið á Vífli mikið betra, sem bætti aðeins úr. Bláfjöllin voru síðan bara fín þrátt fyrir bölvaðan mannfjöldann, brettin gerðu góða hluti og bara stuð. Þó ekkert miðað við það sem koma skal.
Um kvöldið hélt Jarlaskáldið svo á samkomu vestur í bæ en þar eð sú samkoma var leynileg verður ekki rætt um hana hér. Þó ber að taka fram að Skáldið er ekki Frímúrari til að koma í veg fyrir allan misskilning í þá veruna.

Er þetta ekki bara orðið ágætt? Skáldið hefur nóg annað að gera en að skrifa eitthvað bull á netið, t.d. það að hlakka til Ítalíufarar tekur gríðarmikinn tíma. Jú, best að gera það..........

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates