« Home | Á dauða mínum átti ég von... ...en að Aumingjabl... » | Skyldulærdómur Baila, let me see you dance baby y... » | Slabb Jæja, vonandi að þeir örfáu sem nenntu séu ... » | Næstlengsta partýblogg allra tíma! Jamm og já, næ... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogsjöunda Jarlaskáldið ... » | Helgin Jú, Það var víst helgi. Og sitthvað gjört.... » | Getraun Jarlaskáldið er með litla getraun. Hvaða ... » | Brotin loforð alls staðar Jarlaskáldið hefur náð ... » | Heim er Jarlaskáldið komið... ...og er ekkert sér... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogsjötta Jarlaskáldið þ... » 

mánudagur, febrúar 16, 2004 

I´m out of Shawshank!

Undanfarnir dagar hafa verið hlaðnir tíðindum, og þar eð ýmsir fastalesenda hafa hótað Jarlaskáldinu líkamsmeiðingum fari það ekki að gera umheiminum grein fyrir þeim er ekki um annað að ræða en að gera a.m.k. tilraun til þess.

Fyrst ber að greina frá því að Jarlaskáldið brá sér við annan mann, Stefán frá Logafoldum, í kvikmyndahús á fimmtudagskvöldið. Lá leiðin í Smárabíó og ekki leist okkur vel á blikuna er við gengum inn í Limalindina, uppskeruhátíð FM-hnakka í fullum gangi svo við Stefán bókstaflega hlupum að miðasölunni, upp rúllustigann og inn í sal áður en óbætanlegur skaði yrði unninn á heyrn okkar, enda Buttercup í ham á sviðinu. Tókst þetta á mettíma og án þess að við sködduðumst varanlega, sem er gott. Ræman sem á tjaldinu birtist kallaðist Lost in Translation, assgoti sniðug mynd, og eins og Mummi sagði er nánast ómögulegt að verða ekki skotinn í henni Scarlett. Alveg óhætt að henda svona 76 stjörnum af 100 mögulegum á þessa mynd.

Er svo frá litlu að segja fyrr en á föstudagskvöldið, þegar Jarlaskáldið hélt upp í Grafavog að sækja áðurnefndan Stefán og var svo haldið í Ásgarðinn hvar Dengsgrímur og frú buðu til veislu. Var það látlaus og prúðmannleg gleði, a.m.k. framan af, eða allt þar til Magnús frá Þverbrekku mætti með kvenmann upp á arminn. Var Magnús svo aðframkominn af drykkju að hann mátti vart mæla, stóð aðallega tinandi úti á miðju gólfi allt þar til hann púllaði Egil Skallagrímsson. Stúlkan reyndist vera lofuð öðrum manni en Magnúsi, hafi einhver gert sér grillur í þá veruna, og öllu viðræðubetri en ferðafélaginn. Héldu fjórmenningar þessir, Jarlaskáldið, Stefán, Þverbrekkingur og stúlkan, sem ku hafa heitið Díana, að lokum niður í miðbæ á kunnuglegar slóðir þar sem glaumur var nokkur og jafnvel gleði, heimildum ber ekki alveg saman, alltént lauk gleðinni hjá okkur Stefáni á Nonnabita, sem er ávallt góður endapunktur.

Laugardagur hófst að venju á að blása þokumuggunni frá því kvöldið áður út úr hausnum, hvers kyns ruslfæði er prýðilegt til slíkra aðgerða, svo var bíllinn sóttur á vettvang glæpsins, því næst fátt gert fram eftir degi. Um sexleytið fór Jarlaskáldið svo líkt og aðrir fjölskyldumeðlimir í sitt allra fínasta púss og hélt ásamt litlu systur niður í bæ, endaði förin sú á Hótel holti og var tilefnið það að stóra systir hafði tekið upp á því fyrr um daginn að arka á fund sýslumanns og látið gefa sig þar kallinum sínum og því ærin ástæða til veisluhalda. Voru það ca. 20 nánustu fjölskyldumeðlimir sem gæddu sér á einhverjum þeim albesta, ef ekki langbesta mat sem Jarlaskáldið hefur á ævi sinni komist í tæri við, er það þó sælkeri mikill. Var boðið upp á steikta höpuskel á saffran risotto með tómatconcasse í forrétt, Jarlaskáldið skilur fæst þessara orða en gott var það. Í aðalrétt var síðan sveppahjúpaður lambahryggur með fondantkartöflu, miðjarðarhafsgrænmeti „bayaldi“ og basilsósu, enn er Skáldið engu nær um þýðingu orðanna en þetta hreinlega bráðnaði uppi í manni, svo meyrt var það. Að lokum var svo boðið upp á úrval Vahlrona súkkulaðirétta, varð mágkonunni þá að orði að það væri betra en þetta sem hjón gera stundum í einrúmi, ekki ætlar Skáldið að fullyrða neitt um það, en jú, helvíti gott. Með þessu öllu var svo hellt rauðu og hvítu víni í liðið eins og hver torgaði, Jarlaskáldið náði þó líkt og aðrir að hafa hemil á sér, ólíkt því sem var t.d. í Steinasteikinni sælla minninga. Ræðuhöld voru með minnsta móti og hátíðleikinn hæfilega lítill, afar afslappað andrúmsloft reyndar og til fyrirmyndar. Eftir borðhald var svo haldið til setustofu þar sem beislin byrjuðu að sleppa framan af mönnum einum á eftir öðrum, hafði það eflaust eitthvað með koníakið að gera. Var svo setið að sumbli og að sögn gengið hart fram, en Jarlaskáldið er því ekki til vitnis, þar eð það hélt laust eftir miðnætti áleiðis í Naustabryggjuna þar sem Toggi bauð til árlegs Ítalíumyndakvölds. Þar voru mættir velflestir Ítalíufara og m.a.s. nokkrir leynigestir og greinilegt að gestir höfðu ekki legið á liði sínu við aðalfundarstörfin þann tíma sem Jarlaskáldið var fjarverandi. Myndir voru margar kostulegar, t.d. ein helvíti góð af Skáldinu og Rubens Barrichello nánast í faðmlögum, og svo voru aðrar myndir ekki jafnkostulegar. Seint og um síðir hélt Jarlaskáldið svo á lendur skemmtanalífsins ásamt lunga veislugesta, var fyrst heimsóttur sá mæti staður Celtic Cross og síðar heimavöllurinn, hafði Skáldið vart undan að heilsa fólki sem það þekkti og ef það þekkti það ekki heilsaði það bara samt. Eitthvað munu VÍN-verjar hafa gert sér dælt við kvenfólk, flestir með dræmum árangri (Jarlaskáldið þar meðtalið), en svo voru víst aðrir sem sagt er að hafi sést til í svínabúning uppi í Öskjuhlíð ásamt ónefndri snót. Sú frásögn bíður enn staðfestingar. Í það minnsta hélt Jarlaskáldið heimleiðis á sjöunda tímanum ásamt Stefáni nokkrum, reyndar með viðkomu á Hlölla hvar við kváðum einn ólukkupilt svo harkalega í kútinn að hann átti sér ekki viðreisnar von. Heimkoma var seint, og dýr. Dýrt kvöld að öllu leyti. En gaman. Hafi veisluhaldarar heila þökk fyrir.

Á sunnudaginn fór Skáldið við þriðja mann á KFC. Hápunktur dagsins.

Í dag sagði Jarlaskáldið upp vinnunni. Það var hressandi. Skárra að vera gjaldþrota en geðveikur.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates