« Home | Baldjökull Jamm, eftir ekki svo marga klukkutíma ... » | Ekkert eins og það á að vera Það er orðið þó nokk... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogáttunda Hvað skyldi n... » | Allt í fönk Sjúddirarírei og Simbi sjóari, helgar... » | I´m out of Shawshank! Undanfarnir dagar hafa veri... » | Á dauða mínum átti ég von... ...en að Aumingjabl... » | Skyldulærdómur Baila, let me see you dance baby y... » | Slabb Jæja, vonandi að þeir örfáu sem nenntu séu ... » | Næstlengsta partýblogg allra tíma! Jamm og já, næ... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogsjöunda Jarlaskáldið ... » 

sunnudagur, mars 07, 2004 

Baldinn jökull

Hún varð heldur söguleg þessi Langjökulsferð okkar um helgina. Það teygðist nefnilega heldur úr henni af ýmsum orsökum. Ef það kemur frétt í Mogganum á morgun um að björgunarsveit hafi verið kölluð út til að hjálpa ferðalöngum í vanda uppi á Langjökli, þá könnumst við við málið. Meira en við kærum okkur um.

Upphaflega stóð til að leggja í ferð þessa á föstudagskvöldið. Ætluðum við Stebbi að fara á Willa en Andrésson og félagi hans í Flubbunum, Ásgeir að nafni, að fara á FBSR2, sem er Landcruiser Flubbanna. Þegar við Stefán vorum svo ferðbúnir um áttaleytið á föstudagskvöldið kom í ljós að FBSR2 hafði verið tekinn í önnur (og vonandi brýn) verkefni þá um kvöldið svo brottför okkar frestaðist þangað til daginn eftir. Þess í stað tókum við Stefán hús á Andréssyni og frú, horfðum þar á afskaplega vondan sjónvarpsþátt sem er svo ranglega kallaður Landsins snjallasti, auk þess á hina epísku stórmynd Ali G Indahouse, sem var öllu meiri skemmtun. Fórum svo bara snemma í háttinn þar sem ný brottför var fyrirhuguð árla morguninn eftir.

Jarlaskáldið vaknaði á afar ókristilegum tíma á laugardagsmorgun, rétt eftir sjö. Klukkan átta var það svo mætt ásamt títtnendum Stefáni upp á Select við Vesturlandsveg, gæddi sér á pylsu og beið nokkra stund eftir Flubbunum. Þeir mættu nokkru síðar á hinum vígalega FBSR2 og því hægt að leggja í hann. Ekki var ferðin norður í Húsafell til frásagnar færandi, og ekki heldur leiðin þaðan upp í Þjófakróka, svo því verður barasta sleppt. Við jökulsporðinn var fínasta veður, sól og blíða, og fullt af liði á sleðum og bílum. Eftir nauðsynlegar dekkjaúrhleypingar var byrjað að mjaka sér upp jökulinn, sem gekk hægt vegna erfiðs færis, en lentum þó aldrei í að festa okkar svo spotta þyrfti. Þannig siluðumst við upp, hjakkandi upp og niður, og ef maður hætti sér millimetra út fyrir hjólförin sat allt fast. Þolinmæðin vinnur víst ýmsar þrautir og var þessi ekki undanskilin, eftir ríflega tveggja tíma akstur komust við loks upp á hábunguna þar sem við nutum fjallasýnar til allra átta í rúmlega 1300 metra hæð. Þá var klukkan enn ekki orðin eitt svo við ákváðum að keyra aðeins áfram og gekk það talsvert betur þarna enda um sléttlendi að fara, ekki síst eftir að við frelsuðum aðeins meira loft úr dekkjunum. Ókum við alla leið að Þursaborgum og náðum alveg 40 kílómetra hraða síðasta kaflann, sæmilegt það. Þar tókum við okkur nestispásu enda orðnir glorhungraðir, og ræddum aðeins hvað skyldi gera í framhaldinu. Upphaf endalokanna.
Eftir nokkrar diskúteringar ákváðum við Stefán að snúa við vegna bágrar bensínstöðu, en þeir Magnús og Ásgeir ákváðu að leika sér aðeins í kringum Þursaborgir og snúa svo við. Hafði Jarlaskáldið tekið með sér snjóbretti sitt og lét Stefán draga sig, sem var geysierfitt en um leið geysigaman. Ókum við svo sömu leið til baka og gekk það alveg prýðilega þó ekki hafi verið farið ýkja hratt yfir. Þegar við komum svo aftur upp á Hábunguna sáum við að skýjaslæða var u.þ.b. að leggjast yfir jökulinn og ákváðum því að drífa okkur barasta niður áður en skyggnið yrði ekki neitt. Jarlaskáldið greip aftur bretti sitt og skíðaði niður, eða reyndi það alllavega, því eins og hendi væri veifað fór að hvessa með miklum skafrenningi svo maður sá ekki neitt og einbeitti sér bara að því að standa í lappirnar og reyna að halda réttri stefnu. Fljótlega hafði það týnt Stefáni og Willa en tókst þó að ramba á skálann niðri við jökulröndina, en þar sat þá Stefán rækilega fastur í skafli. Sem betur fer var bróðir Willa á svæðinu og kippti í hann til að losa hann úr prísundinni. Var klukkan rúmlega fjögur þegar hér er komið sögu. Settumst við svo báðir inn í Willa og ætluðum að hinkra eftir þeim Flubbum, sem við töldum að væru ca. 15-30 mínútur á eftir okkur. Það reyndist fullmikil bjartsýni.
Leið svo og beið. Af ýmsum orsökum, flestum ógáfulegum, vorum við Stefán alveg fjarskiptalausir, bara með CB-talstöð og gátum því ekkert gert til að ná sambandi við þá Flubba. Eftir rúmlega hálftíma bið komu tveir bílar niður af jöklinum sem sögðust hafa séð þá rétt á eftir þeim, svo við bjuggumst við þeim á hverri stundu. Alltaf varð síðan veðrið verra og verra og ekkert bólaði á þeim. Leituðum við í öllum bílum á svæðinu að NMT-síma eða VHF-talstöð til að ná sambandi við þá en án árangurs. Ekki gátum við farið upp eftir að leita að þeim, bæði vegna veðurs og bensínleysis, svo að eftir rúmlega tveggja tíma bið ákváðum við að keyra niður í Húsafell til þess að komast í GSM-samband og reyna að ná í þá. Gekk sú ferð hægt þar sem loft í dekkjum var af skornum skammti, loftdælan okkar virkaði lítið sem ekkert, allt á sömu bókina lært. Niður í Húsafell vorum við komnir upp úr sjö og þá svöruðu þeir Flubbar auðvitað ekki símanum. Hringdum við þá í frú Andrésson sem sagðist hafa heyrt í þeim og væru þeir fastir í skafli ca. 3 kílómetra frá jökulröndinni, eins og okkur hafði reyndar grunað allan tímann. Nú voru góð ráð dýr. Veðrið var orðið svo klikkað að óðs manns æði væri að fara einbíla að reyna að bjarga þeim, auk þess sem heilbrigð skynsemi segir manni að ef bíll festist á leið niður brekku séu litlar líkur á að komast upp hana. Ákváðum við því að doka aðeins við og sjá hvort þeim tækist að moka sig út úr vandanum, en þegar það var fullreynt reyndum við að finna einhvern í bænum til að aðstoða, m.a.s. ókum við um allt Húsafell í leit að breyttum jeppa sem gæti hugsanlega hjálpað, enn án árangurs. Enn bættist við vandamál, báðir símarnir okkar Stefáns batteríslausir, svo við þurftum að miklu leyti að treysta á SMS-sendingar gegnum þriðja aðila. Hvað næst?
Um tíuleytið barst okkur svo loks sú fregn að Flubbunum hafði tekist að plata einn félaga sinna á ofuröflugum jeppa að keyra upp eftir úr bænum og reyna að bjarga málum. Var góð tveggja tíma bið í hann og reyndum við Stefán að leggja okkur þangað til, sem gekk brösuglega. Um miðnætti mætti svo kappinn á svæðið við annan mann, á þessum líka fína trukk, Landcruiser með 44 tommu breytingu, læstum að framan og aftan með low gear og ýmislegt fleira sem Skáldið kann ekki að nefna, ef þessi kæmist ekki upp kæmist enginn. Ókum við svo aftur upp að jökli og sáum fljótt að veðrið hafði síður en svo skánað, reyndar þvert á móti. Þegar við vorum ca. 3 kílómetra frá jökulröndinni skall síðan á þessi líka svaka skafrenningur svo skyggnið varð minna en ekkert og bílarnir léku á reiðiskjálfi. Þó héldum við aðeins áfram og upp eina brekku en þar var svo hált og hvasst og skyggni lítið að ekkert vit var í að fara lengra. Til marks um veðurofsann þá treysti Stefán sér ekki til að snúa bílnum við í brekkunni, heldur þurfti Skáldið að fara út, halda sér í bílinn svo það fyki ekki burt, og vísa Stefáni leiðina niður með því að rýna niður í jörðina. Þannig tókst okkur að komast í smáskjól bak við stóran flutningabíl sem svo heppilega var þarna á svæðinu, og sáum þá hazardljósin blikka á hinum bílnum uppi í brekkunni. Ekki töldum við vit í því að keyra aftur upp svo við örkuðum/skriðum upp brekkuna vopnaðir skóflu og með mokstri og dekkjaúrhleypingu tókst að losa bílinn og aftur þurfti Skáldið að vísa veginn niður, haldandi sér í bílinn. Stórskemmtilegt, allavega í minningunni.
Þegar við vorum svo aftur komnir í skjól náðum við sambandi við Magnús og Ásgeir, sem voru búnir að vera fastir í sama skaflinum einhverja tíu tíma, og sögðum þeim að þeir fengju að vera þar eitthvað lengur því vonlaust væri að sækja þá. Svo héldum við til baka, að þessu sinni með Jón, eiganda rosajeppans vísandi veginn gegnum skafrenninginn enda hafði enn bætt í, og notaði hann spilið á bílnum til að halda sér í en fauk engu að síður tvisvar út fyrir veg. Bílarnir fuku síðan hingað og þangað og oft mátti litlu muna að þeir færu út af veginum, samt var meðalhraðinn sennilega innan við 5 kílómetrar á klukkustund. Jafnvel tornæmustu lesendum ætti nú að vera ljóst að veðrið var eiginlega út í hött. Þegar neðar dró fór þó að draga úr vindi og skafrenningi svo hraðinn fór að ná tveggja stafa tölu og vorum komnir niður í Húsafell upp úr þrjú um nóttina. Þar notaði maður tækifærið til að fara úr rennblautum fötum og í ný, og eftir nokkrar samræður við hina og þessa varð víst niðurstaðan að einhver svakasnjóbíll frá Flubbunum myndi koma daginn eftir og bjarga strákunum svo við gátum farið heim með aðeins betri samvisku. Á leiðinni heim var smá hasar, rok og læti, en kannski var það bara ágætt til að halda manni vakandi enda farið að nálgast sólarhring sem maður hafði verið á fótum. Heim var Jarlaskáldið komið um hálfsexleytið og það síðasta sem það gerði fyrir svefn var að svara símtali frá drukknum Blöndahl sem hringdi af Hverfisbarnum. Af hverju fór maður ekki bara þangað eins og venjulega?

Í dag vaknaði Skáldið fyrst við símhringingu um hádegisbil frá Stefáni sem tjáði því að strákarnir væru lausir úr sinni prísund, það var nú gott. Svaf það svo tvo tíma til og fór síðan á KFC. Það var ekki síður gott. Annað hefur ekki gerst í dag...

...nema það að Védís átti afmæli. 27 ára gömul. Til hamingju!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates