Ársuppgjör 2004
Það styttist víst í það að árið sé á enda og þá er enginn maður með mönnum sem ekki lítur um öxl og spáir í því hvers vegna hann kom ekki meiru í verk með heila 365 daga til ráðstöfunar, hvað þá 366 eins og var í ár. Jarlaskáldið er ekki undanskilið. Því kynnir það til sögunnar
Ársuppgjör 2004, framhaldssögu í fjórum þáttum.
Uppbygging
Ársuppgjörs 2004 verður þannig háttað að í hverjum þætti verða þrír mánuðir teknir fyrir, rifjuð upp helstu afrek og glappaskot, og síðan gefinn einkunn. Bíðum ekkert lengur með það, fyrsti þáttur:
Janúar-mars 2004
Janúar
Árið 2004
hófst á svölunum heima hjá
Magnúsi Blöndahl í Þverbrekkunni og þar var skítaveður ef Skáldið misminnir ekki. Jú, það var bláedrú, hlýtur að vera rétt. Það ástand (Jarlaskáldsins) entist þó ekki lengi, og líkt og flestir samferðamennirnir varð það slefandi ölvað þegar líða tók á nóttu, og var víða komið við. Ágætis byrjun á árinu.
Næst
afreka á árinu var
ferðalag strax laugardaginn 3. janúar. Áfangastaður var Áfangagil og var þetta sennilega fyrsta skipti sem
Lilli fékk að leika sér almennilega
í snjó. Annars rólegheitaferð, gist eina nótt og fátt gert af sér.
Mun Skáldið hafa veikst lítilega eftir för þessa en hafði blessunarlega náð heilsu þann 10. janúar því þá áttu bæði
Lillebror og gamli maðurinn merkisafmæli, betra að geta notið góðra veitinga. Það átti ekki síður við um kvöldið þegar haldið var árlegt
Ítalíuupphitunarkvöld í Naustabryggjunni. Þangað mættu flestir þeir 11 einstaklingar sem hugðu á utanför 4 dögum síðar,
perrinn var reyndar norðan heiða og
frú Magnússon vant við látin e-s staðar. Í teiti þessari voru gestir að vanda æstir upp til brottfarar með myndasýningum og reynslusögum, svo mjög reyndar að Skáldið skellti sér í
Bláfjöllin með
Viffa daginn eftir, svo skelþunnt að engu lagi var líkt. Þynnkan átti sér eðlilegar orsakir.
Miðvikudagsins 14. janúar 2004 verður lengi minnst. Þá hófst lítið ævintýri sem stóð í 11 daga og verður vart með orðum lýst. Það var reyndar gert, m.a.s. ófáum orðum, eins og lesa má
hér. Í stuttu máli sagt, bestu 11 dagar í ævi Jarlaskáldsins. So far... Í aðeins lengra máli sagt, þá var skíðað, étið, drukkið, djammað, hitt frægt fólk, bullað, bullað og bullað nonstop í 11 daga. Assgoti gaman.
Það verður að viðurkennast að vikurnar eftir heimkomu frá Ítalíu voru ekki þær bestu á árinu. Kom þar ýmislegt til, einkum var það framúrkeyrsla á fjárlögum Ítalíuferðar sem olli því að handbært lausafé var af skornum skammti og hamlaði framkvæmdum, einnig tók það bara góðan tíma að jafna sig eftir úthaldið í Dólómítunum. Samkvæmt heimildum tókst Skáldinu einu sinni að hafa sig út úr húsi næstu vikurnar,
ammilisveisla eða e-ð svoleiðis hjá Ernu í Bláskógunum. Þar hugðist Skáldið vera templari; það fór sem fór.
Febrúar
14. febrúar dró loks til
tíðinda, því þá tóku stóra systir og kallinn hennar sig til og létu pússa sig saman hjá dómara. Skáldið át á Holtinu í boði þeirra af því tilefni og þar var hreint ekki vondur matur. Eftir matinn stefndi í að öll stórfjölskyldan yrði rallandi en skáldið missti af því, fór í EftirÍtalíumyndapartí í Naustabryggjuna. Það var gott partí.
Næst afreka Jarlaskáldsins og síðast í febrúar var
stuttur rúntur með þeim
Stefáni og
Vigni um uppsveitir Suðurlands á Lilla. Sá rúntur kostaði Lilla eina felgu. Þeim sorgum var drekkt um kvöldið á
heimavellinum.
Mars
Í mars fór aðeins að birta til í skemmtanalífi Jarlaskáldsins eftir heldur tíðindalausan mánuð. Strax fyrstu helgina í mars lenti Skáldið í ágætis
svaðilförum á Langjökli. Sú ferð lifir ansi vel í minningunni, væntanlega enn betur hjá
Magga og
Ásgeiri sem eyddu nóttinni fastir í bíl uppi á jökli.
Um miðjan marsmánuð kom svo að
árlegri menningar- og skíðareisu til Agureyrish. Það var einkar skemmtileg ferð sem barst
víða um Norðurland. Þar var sett krummaskuðaheimsóknamet. Það var slegið síðar um árið.
Samkvæmt heimildum gerðist eitthvað óskaplega lítið það sem eftir lifði marsmánaðar. Jú, Skáldið fékk tannrótarbólgu sem var vissulegt lítið skemmtileg, og hjálpaði ekki upp á bágt fjárhagsástand sem var viðvarandi eftir framúrkeyrsluna á fjárlögum Ítalíuferðar. Þar hjálpaði ekki til að Skáldið vann hjá
bændum á skítalaunum. Svo var líka meira og minna skítaveður, var það ekki?
Einkunn:
Henni var ansi misskipt gleðinni á tímabilinu janúar-mars 2004. Janúarmánuður var hrein snilld frá a til z og ber þar vissulega hæst Ítalíuferð, en auk hennar var fín ferð í upphafi árs. Febrúarmánuður var nánast ein leiðindi fyrir utan einn dag, 14. febrúar var vissulega ansi hressandi. Mars var litlu skárri, en þar var þó Agureyrishferðin sem var einkar skemmtileg og Langjökulsfíaskóið sem var vissulega lítt skemmtilegt meðan á því stóð en alltaf jafngaman að segja söguna af því. Hér er því úr vöndu að ráða, en Skáldið lítur svo á að Ítalíuferðin hafi verið slík snilld að tveir leiðindamánuðir séu ásættanleg fórn:
Einkunn janúar-mars: 8.3.
(Uppgjör fyrir apríl-júní birtist innan tíðar)