..víst kominn tími á að upplýsa dygga lesendur (alla þrjá jafnvel) um hvað drifið hefur á daga mína. Í fyrsta lagi tókst mér hið ómögulega, að skila uppkasti að ritgerðinni minni, og nú bíð ég bara eftir að kennarinn segi mér hve mikil vitleysa þetta sé. Hef að vísu aldrei heyrt um neinn sem hefur fengið undir 5 á BA-ritgerð, svo það lítur æ meir út fyrir að það verði partý þann 22. júní.
Byrjaði svo að vinna á fimmtudagsmorguninn hjá því ágæta fyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, 8. árið í röð og nú lofa ég að það sé síðasta skiptið. Eyddi þar tveimur dögum í að gera nákvæmlega ekki neitt, enda veit Meistarinn (minn ágæti yfirmaður) ekkert hvernig vinnan verður í sumar, kannski þarf að reka fullt af liði, kemur í ljós seinna. Skítamál allt saman.
Fór á Star Wars á föstudaginn, alltílæ mynd, gef henni 7 í einkunn.
Á laugardaginn hittumst við félagarnir yfir öli heima hjá Kjarra. Horfðum þar á þá rómuðu mynd Ali G Indahouse (Kjarri stal henni á netinu eða e-ð), hvílík gargandi snilld, gef henni 9 í einkunn. Fórum svo í bæinn, á Kofann nánar tiltekið, drukkum meira öl og einhvern ógeðslegan karamellulíkjör og ræddum um ýmis andans mál. Síðar um kvöldið skildi ég við þá félaga og fór með Begga og tveim stúlkukindum á Ara í Ögri, hvar ég vann drykkjukeppni með yfirburðum. Ég var að vísu sá eini sem vissi að það væri drykkjukeppni. Svo fór hópurinn og klifraði upp á þak á húsi einu, og undum við hag okkar þar vel uns lögreglan batt endi á þá gleði. Hótaði hún okkur öllu illu en við lofuðum bót og betrun. Fimm mínútum síðar vorum við Beggi búnir að klifra upp á styttuna af Ingólfi Arnarsyni, og hvað haldiði, lögreglan kemur aftur á blússandi ferð með blikkandi ljós. Sá ég mér þá þann kost vænstan að hverfa af vettvangi á tveim allfljótum, en Beggi var ekki jafnheppinn. Mátti hann dúsa nokkra stund í fangageymslum lögreglunnar niðri á Hverfisgötu sem ótýndur glæpamaður, en ég fór hins vegar á Devitos og fékk mér flatböku, en hélt svo heim á leið, vonsvikinn yfir skilningsleysi lögreglunnar í garð klifuríþrótta...