« Home | ...ég sá á heimasíðu þeirra skötuhjúa Gunnars og S... » | ... jæja, þá er ég orðinn einn í kotinu, gömlu flú... » | Nú ætla ég að skrifa um bílinn minn. Það er Volksw... » | Mikið lifandi skelfingar ósköp er kalt! Sumardagur... » | Hér er víst ætlunin að rita niður það sem leitar á... » 

sunnudagur, maí 05, 2002 

...í kvöld mátti litlu muna að ég yfirgæfi þetta jarðneska líf fyrir fullt og allt, í slíkum hremmingum lenti ég. Þannig var að ég fór við sjötta mann í kvikmyndahús, og var ferðinni heitið í Smárabíó, hvar kvikmyndin um Köngullóarmanninnn ógurlega skyldi litin augum. Vorum við svo forsjál að hafa keypt miða á myndina fyrr um daginn, og gengum því beint inn í salinn í sæti á besta stað, ofarlega fyrir miðju. Þegar klukkan var orðin 8 og bíóið orðið pakkfullt reið svo áfallið yfir. Inn gengu nokkrar starfsstúlkur og báðu um hljóð bíógesta, og tjáðu þeim svo að kviknað væri í bíóinu, og allir þyrftu að fara út. Fyrstu viðbrögð bíógesta voru eins og við mátti búast af Landanum, fólki fannst þetta óþarfa truflun út af nánast engu og hafði mestar áhyggjur af því að missa sætið sitt. Það mjakaðist þó út með semingi, en þó hreyfðu sumir sig ekki fyrr en löggan kom og skipaði þeim. Sumir ætluðu að vera forsjálir og skildu yfirhafnir sínar eftir inni til að missa ekki sætið, og efast ég um að þeir hafi enn fengið þær til baka. Á leið minni út heyrði ég unglingspilta tauta fyrir munni sér að þeir ætluðu „sko að kæra þessi helvítis fífl“ fyrir að enda skemmtun þeirra svo snögglega. Þegar út úr húsi var komið var upplýst að kviknað hefði í einhvers konar potti (þvotti heyrðist mér reyndar fyrst), enda fannst þar bræla hin versta. Síðar kom í ljós að um poppkornsvél var að ræða. Um þolraun þessa alla má lesa frekar annars vegar hér og hins vegar hér. Þar sem svo snöggur endi var bundinn á bíóferð þessa skunduðum við sexmenningarnir þess í stað á skemmtistaðinn Player's í Kópavogi og reyndum að jafna okkur á þessari lífsreynslu með hjálp sérfræðinga í áfallahjálp...


...atburðir kvöldsins sýndu mér enn og aftur fram á hvað Íslendingar geta verið merkilegir. Þetta minnti mig á þegar ég var staddur í Lundúnaborg fyrir réttum þremur árum ásamt honum Oddbergi. Vorum við liggjandi í rúmum okkar (sitt hvort rúmið nota bene) á hóteli nokkru horfandi á knattspyrnuleik í sjónvarpinu þegar brunabjallan byrjar að hringja með þessum líka hávaðanum. Að sjálfsögðu hreyfðum við okkur ekki spönn frá rassi, enda hvorki reyk né eld að sjá. Eftir ca. 5 mínútur fór okkur svo að leiðast þessi hávaði og litum fram á gang, aðallega til að athuga hvort ekki einhver ætlaði að slökkva í þessari helv... bjöllu. Þegar litið var niður ganginn sáust andlit gægjast fram úr flestum íbúðum, væntanlega í svipuðum erindagjörðum og við. Eitt þessara andlita ávarpaði mig á ensku, en þó með svo íslenskum hreim að ekki var um að villast: „What's going on?“ Og ég svaraði: „Ég veit það ekki, við ættum kannski að fara niður og athuga málið.“ Kom þá í ljós að allir á hæðinni voru íslenskir, og rölti þessi hópur niður í anddyrið í hægðum sínum. Þegar þangað var komið kom í ljós að allir aðrir voru löngu komnir út, og gengu Íslendingarnir nánast í flasið á slökkviliðsmönnum sem þustu inn. Að vísu kom í ljós stuttu síðar að um engan eld var að ræða, en það breytir því ekki að Íslendingar eru klikk...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates