...ferðasögu lofaði ég og ferðasögu fáið þið. Ég er búinn að vera lengi að velta fyrir mér góðum titli á hana, þessi fannst mér standa upp úr:
BROTINN RASS OG BLÁR ÖKKLI
Saga vor hefst á þeim drottinsdegi 5. júlí 2002, um hálffjögurleytið. Jarlaskáldið hefur nýlokið vinnu sinni, og er afar pirrað út í hálfvitana á
Dominos, sem tókst með heimsku sinni að gleyma bæði brauðstöngunum og kókinu sem ætlað var að brauðfæða sársvanga vinnumenn á Ölfusvatni, og varð skáldið að punga út 5000 krónum af eigin fé til að kaupa kók á uppsprengdu verði í Nesbúð svo að ekki yrði styrjaldarástand við matarborðið þá bökurnar loksins kæmu. En nóg um það. Skáldið tekur þó gleði sína að nýju, fram undan er sukk og svínarí, mikið gaman. Þá heyrist bíbb-bíbb, bíbb-bíbb í símanum. SMS frá Hrafnhildi, hún er hætt við að fara. Þetta var fimmta skiptið sem hún hætti við að hætta við að hætta við o.s.frv., kom því lítt á óvart. Tveimur tímum síðar hættir hún aftur við að hætta við, og þá er skáldið ferðbúið, með kassa af Thule, 4 lambakjötsneiðar og tvær flatkökur, það ætti að duga yfir helgina.
Magnús frá Þverbrekku kemur á sjöunda tímanum, ekki nema klukkutíma of seinn, þykir ekki svo slæmt í minni sveit. Magnús á eftir að koma meira við sögu. Hann er á jeppa miklum, svo úttroðnum af drasli að það hálfa væri yfirdrifið. Samt tekst að koma öllu fyrir, enda menn með B.A. gráður upp á vasann hér á ferð. Og þá er ekkert annað að gera en að bruna í Mörkina. Það er rigningarsuddi þegar lagt er af stað, engu að síður er þorri ferðalanga í Hawaii-skyrtum og stuttbuxum, með óbilandi bjartsýni um blíðviðri að vopni. Ferðin sækist allvel, enda er Magnús duglegur að segja „þessum andskotans hálfvitum“ til í umferðinni. Á Hvolsvelli er áð, í búllu þeirri er nefnd er Hlíðarendi. Ekki þykir annað hægt en að fá sér
pulsu, enda heimabær þeirrar ágætu vöru. Það er farið að sjá á sumum.
Næst er áð við gömlu Markarfljótsbrúna, þar sem menn á aumingjabílum leggja og fá far með alvörubílum restina. Magnús vippar sér út úr bílnum, rífur bjórinn af skáldinu og tekur vænan sopa. Í því keyrir lögreglubíllinn fram hjá. Þeir spyrja hvort áfengi sé nokkuð haft um hönd. Annað hvort er löggan mjög fyndin, eða mjög heimsk. Nú er talsvert farið að sjá á sumum.
Ferðin inn í Mörk gengur áfallalítið (það þykir vart merkilegt í þessum hópi þótt smáhlutir hrynji úr bílum á leiðinni, nenni því ekki að telja það allt upp). Þegar inn er komið er bara þó nokkur blíða, en bíddu, hvar er allt fólkið? Örfáir í Langadal, enn færri í Slyppugili, og ekki hræða í Bolagili, en þangað var ferðinni einmitt heitið. Blessun þykir þó að fámenni þessu, enda fólk mætt til að skemmta sjálfu sér, en ekki einhverjum öðrum. Og þá er ekkert annað að gera en að tjalda, sem gengur furðuvel. Jarlaskáldið er með vel aldrað tjald með gamla laginu, vegur á fimmta tug kílóa en er samt of lítið. Þegar ofvaxna vindsængin er komin inn er varla pláss fyrir neitt annað. Sem betur fer eru Jarlaskáldið og Hrafnhildur tjaldnautur hans heldur smávaxin. Hrafnhildur er klædd í eitthvað sem líkist helst geimbúning, en reynist vera úttroðinn Kraftgalli við nánari skoðun. Hrafnhildur stingur nokkuð í stúf við Hawaiiskyrturnar. Nú er verulega farið að sjá á sumum.
Nú tekur við allsherjar sukk, með öllu viðeigandi. Fer það að mestu vel fram, fyrir utan eina hrottalega líkamsárás sem Magnús verður fyrir. Að vísu er nokkur bót í máli að árásaraðilinn er hann sjálfur. Einhverra hluta vegna telur Magnús það snjallræði að bregða fyrir sig danssporum, sem allir vita sem til þekkja að er hið mesta glapræði þegar hann á í hlut. Skiptir engum togum að hægri löppin lætur undan átökunum, og blæs svo út uns ferföld verður að stærð, og tekur á sig fallegan bláan lit. Sem betur fer tapar Magnús þó ekki gleðinni, sem er gott (ísleifska). Að öðru leyti fer gleðin vel fram, og sofnar Jarlaskáldið undir morgun sátt við menn og umhverfi, hafandi afrekað ýmislegt sem ekki verður tíundað frekar hér.
Á eftir nótt kemur nýr dagur, og er laugardagurinn 6. júlí engin undantekning. Tjaldbúar taka að vakna upp úr hádegi hinir fyrstu, flestir þó öllu síðar. Sumir vakna að vísu ekki fyrr en við grilllyktina um kvöldið. Áður en að því kemur fara þeir hressustu, skáldið meðtalið, í gönguferð inn í Stakkholtsgjá. Það er ekkert mjög ljótur staður. Sturtan er köld, en hressandi. Svo er grillað. Jarlaskáldið mundi eftir BBQ-sósunni og Season-All kryddinu, maturinn heppnast því vel. Er síðan haldið áfram þar sem frá var horfið kvöldið áður, en af enn meiri krafti.
Einhvern tímann um nóttina verður til sú snjalla hugmynd að reisa varðeld. Jarlaskáldið tekur til óspilltra málanna og ber tré um víðan völl, uns myndarlegur bálköstur myndast. Sum trén eru of stór og þarf að saga. Eitthvað gengur illa að saga eitt tréð, og reynir því skáldið að hoppa á því til að brjóta það. Sannast þá hið fornkveðna að sá vægir sem vitið hefur meira, tréð lætur undan með miklum látum, en Jarlaskáldið fær væna flugferð sem endar eðli málsins samkvæmt á jörðinni, sem tekur því ekkert blíðlega, og má minnstu muna að það brjóti ekki á sér rófubeinið. Situr það þó eftir helaumt, en tapar engu að síður ekkert gleðinni frekar en félagi Magnús. Eru þeir fóstbræður hér með nefndir Hrakfallabálkar Bolagils 2002.
Eitthvað hefur Óminnishegrinn komist í síðari tíma heimildir, en þó munu vera til illa varðveittar heimildir er greina frá afmæli miklu. Willys-jeppinn hans Stebba varð tvítugur, og var því að sjálfsögðu fagnað með viðeigandi hætti, drykk einum göróttum er nefndur var rússneskt kók, og samanstendur aðallega af vodka og möluðum kaffibaunum. Mun það hafa verið síðasta verk ýmissa manna þessa nótt að torga þeirri ólyfjan.
Af Jarlaskáldinu er það helst að frétta að það kemst til meðvitundar á þriðja tímanum á sunnudegi, en getur þá hvorki hreyft legg né lið sakir vanheilsu mikillar sem þjakar það. Hrafnhildur, sem hafði staðið sig vonum framar í sukkinu, kemur því til bjargar, hellir í það kóksopa og dregur út úr tjaldinu þar sem það liggur uns Eyjólfur tekur smátt og smátt að hressast.
Heimleiðis er svo haldið um kvöldmatarleyti, með viðkomu á Hvolsvelli, þar sem ófáir borgararnir renna niður í iður þreyttra ferðalanga og gera þar stutta viðkomu, svo vissara er að drífa sig bara í bæinn. Ja mikið helvíti, þetta geri ég aftur...