þriðjudagur, júlí 30, 2002 

...orð dagsins í dag er orðið draumkunta. Þeir sem telja sig hafa skýringu á orðinu vinsamlegast riti í commentin. Vegleg verðlaun fyrir rétt svar...

 

...urrrr, ég er að drepast í hnénu eftir eltarolluruppumfjöllogfirnindiánsýnilegstilgangs dauðans í gær í vinnunni. Þetta er að vísu það skemmtilegasta sem við fáum að gera þar, en því miður erum við ekki nema þrjú sem bæði getum og kunnum þetta og sú staðreynd leiðir oft til mikilla hlaupa á eftir rollum eftir að einhver vitleysingurinn er búinn að klúðra öllu. Ég vona að þetta skýri vonda brandarann um eftirlegukindurnar aðeins betur, hann féll víst eitthvað illa í kramið hjá sumum. Ég er að hugsa um að fara að sofa einu sinni á sómasamlegum tíma (klukkan hér fyrir neðan er nota bene klukkutíma of fljót eins og vanir bloggarar kannast við), og reyna að jafna mig í hnénu með því að gera andskotann ekkert í vinnunni á morgun. Óska ykkur góðs nætursvefns...

 

...í dag sagði ég vondan brandara. Ég spurði Odda í vinnunni: „Sérðu nokkrar eftirlegukindur?,“ og svo hlógum við móðursýkislega. Þetta voru nefnilega alvöru kindur sem ég var að tala um. Funny because it's true...

 

...ég vil vera eins og allir hinir, og segi því: Mikael Torfason er fífl! Hehehe, nú líður mér betur...

 

...þetta er nú meiri andskotans ólifnaðurinn á manni! Ég var að skoða skrif mín síðustu vikur og þetta eru ekkert nema einhverjar fylleríssögur og raus. Hummm, þarf maður að fara að hugsa sinn gang? Jú, líklega, en ég bíð samt með það þangað til í haust. Þangað til munu eingöngu birtast fleiri fylleríssögur og önnur vitleysa á þessari ágætu síðu, því það er ekki eins og ég hafi skoðanir á neinu eða minnsta áhuga á að tjá mig um eitthvað sem skiptir máli, enda nóg til af fólki sem sinnir þeim leiðindum, og gerir það líklega miklu betur en ég. So, without further ado, hefst þar frásögnin:

Á föstudagskvöldið var hann Skúli blogglausi svo almennilegur að halda vinnupartý á Vesturgötunni, og bauð mér m.a.s. fyrir fram að fá að gista þá óumflýjanlegt meðvitundarleysi yrði örlög Jarlaskáldsins. Þetta var barasta fínasta partý, fyrir utan einstaka hálfvita sem henda þurfti út fyrir óspektir. Jarlaskáldið var að sjálfsögðu ekki eitt þessara hálfvita, enda þekkt að prúðmennsku og kurteisi í hvívetna. Eins og lög gera ráð fyrir var haldið í bæinn, að minnugra manna sögn á Grand Rokk (röðin á Hverfisbarinn var svoooona löng) og Kaffibarinn. Þetta með Kaffibarinn gæti þó verið vitleysa, kannski var þetta einhver annar staður, a.m.k. hafði skáldið aldrei gerst svo frægt að drepa þar niður fæti áður. Nokkru síðar sótti mikil svengd að skáldinu, sem svalaði þeirri þörf með vænum Hlölla eins og svo oft áður, en hélt að því loknu aftur á Vesturgötuna. Þar var ekki nokkur sála, svo skáldið kom sér bara maklega fyrir í aftursætinu á Woffanum, og man ekki eftir sér fyrr en daginn eftir...

...þegar Magnús nokkur Blöndahl frá Þverbrekku, nokkuð þjakaður af höfuð- og magapínslum eftir ævintýri næturinnar, vakti skáldið og skipaði því að koma með sér í Þjórsárdalinn og hefja þar drykkju að nýju ekki síðar en bara strax. Ekki gat skáldið skorast undan þeirri áskorun, þó að rúmið hafi verið öllu meira heillandi á akkúrat þeirri stundu. Voru þeir fjórir ferðalangarnir sem héldu af stað stuttu síðar, allklyfjaðir og ekki síður timbraðir, og tóku fyrst stefnuna á bæ þann á Suðurlandi er hæstan FM-hnakkastuðul hefur og nefnist Selfoss. Var þar unninn fullnaðarsigur á þynnkunni með hjálp drulluborgara á Fossnesti, og var því stefnan næst tekin í norður og ekið allgreitt, enda Magnús við stýrið og er hann bjórþyrstur maður mjög að jafnaði. Á tjaldstæðinu í Þjórsárdal var staddur múgur og margmenni, og af kurteisi við múginn fundum við okkur afviknari stað aðeins ofar, og hittum þar fyrir vel á annan tug VÍN-liða. Þess má til gamans geta að tilefni samkomunnar var 26 ára afmæli Vignis, sem var einmitt í gær, til hamingju með það. Ég tel óþarfa að greina frá öllu sem fram fór síðar um nóttina, látum duga að nefna að sumt af því varðaði við lög, annað var bara siðlaust. Ekki tókst Jarlaskáldinu frekar en fyrri daginn að finna huggulega snót til að verma hvílu þess, enda hefði það ekki skipt máli, skáldið dreif ekki einu sinni þangað sjálft, heldur „sofnaði“ inni í Willysnum hans Stebba og vaknaði fyrir framan hann (bílinn, ekki Stebba). Hvað er þetta með að sofa í bílum? Og svo er Versló næstu helgi. Tekur þetta engan enda?...

miðvikudagur, júlí 24, 2002 

...ekki er skáldið dautt úr öllum æðum enn. Það hefur að vísu verið þögult um skeið, en allt á það sér eðlilegar skýringar. Þannig er að eins og fyrr var greint frá brá skáldið sér norður í land um helgina í teiti eina mikla, og var glaumur þar allmikill, jafnvel svo að sumum þótti nóg um. Um atburði helgarinnar vita sennilega flestir meira en ég, um þá má m.a. lesa hér og hér, þar sem einnig má finna myndir úr ferðinni. Helst man skáldið eftir frækinni ferð í heyskap hjá Sverri bónda á bænum Brekku í Eyjafjarðarsveit, hvar það fleygði heyböggum (old-fashion) upp á kerru og inn í hlöðu eins og það mest mátti. Að öðru leyti er minnið gloppótt, en fregnir herma að þessi manneskja hafi byrlað skáldinu slíka ólyfjan (Tequila með appelsínum) að örendi hlaust af og þynnka í fjóra daga, sem sló gamla þynnkumet skáldsins, sem hljóðaði upp á þrjá daga og var sett eftir MR-útskrift 1997. Skýrir það bloggleysið. Og svo er maður á leið í útilegu aftur næstu helgi. Lærir maður aldrei?

miðvikudagur, júlí 17, 2002 

...Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar til Bergs Tómassonar, íslenskunema með meiru, sem varð einmitt 25 ára í gær, og harmar jafnframt að geta ekki þekkst gott boð um teiti á föstudagskvöld. Og munið nú að fara og sjá strákinn þegar Matrix 2 kemur...

 

...furðulegt, í ca. annað hvert skipti sem ég skrái mig inn á blogger skrifa ég ósjálfrátt „blogger" í staðinn fyrir júserneimið mitt. Merkileg meinloka í mér.

Smá öppdeit úr vinnunni, minn elskulegi Land Rover var tekinn af mér í dag og ég látinn á ómerkilegan og ljótan L-300 bíl sem hæfir alls ekki þeirri virðingarstöðu sem mér ber. Að vísu prísa stúlkurnar sig sælar og lofa aukin þægindi, en þetta snýst bara alls ekkert um þægindi, heldur að lúkka vel, og maður lúkkar ekkert vel á þessum helv#$%# bíl!

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag, ekki hjólandi nota bene, heldur akandi á mínum óviðjafnanlega Woffa, horfði ég á Seinfeld venju samkvæmt. Þar var George að borða samloku með nautabógi á meðan hann stundaði bólfarir, mig langaði einhverra hluta vegna ofsalega í samloku. Svo las ég Bostonbloggarann, hann sagði frá Subwaynum sínum, þá þurfti ekki meira, dreif mig á Subway, "12 kjúklingabringa með extra jalapeno, þá var ég glaður, svo glaður, svo glaður (svo vitnað sé í Alfreð önd).

Er annars á leið norður til Akureyris, og m.a.s. gott betur, alla leið að bænum Ystuvík við Eyjafjörð, hvar félagar mínir Gunni, Solla og Kjarri halda upp á 75 ára afmæli sitt með pompi og pragt. Fer með þeim Odda Buttafuoco og Hrakfallabálknum inum meiri, það ætti að verða fjörug bílferð, förum á föstudaginn, dauðir á Blönduósi. Þarna verða tæplega á annað hundrað manns að því er fregnir herma, ég er búinn að sanka að mér útilegubúnaði svo þetta ætti að verða gott. Er m.a.s búinn að missa tjaldnautinn minn, hana Hrafnhildi, hún náði sér víst í einhvern kall og vill ekkert með mig hafa lengur, svo það er laust pláss í tjaldinu fyrir einhverja íðilfagra snót sem ekki hrýtur mikið...

mánudagur, júlí 15, 2002 

...Ekki leggur Jarlaskáldið í vana sinn að standa í ritdeilum, en einu sinni verður allt fyrst, og að fróðra manna sögn er það stórskemmtileg iðja. Bostonbloggarinn hefur efnt til sennu gegn skáldinu, og skal gífuryrðum hans svarað fullum rómi:

1. Mér leiðist alls ekki við bloggið. Aftur á móti leiðist mér stundum að lesa blogg annarra. Það átti þó ekki við um ofurhelgarblogg þitt, sem ég skemmti mér allvel yfir. Ályktun mín var hins vegar sú að þar sem þér hefði leiðst um helgina hefðir þú notað tímann til að blogga til að vinna gegn leiðanum. Ég blogga helst þegar ég hef ekkert annað að gera, og þegar ég hef ekkert að gera leiðist mér. Svo mun vera um fleiri, og gerði ég ráð fyrir að þú fylltir þann flokk.

2. Ég get klifrað/spjallað/drukkið samtímis. Ég geri það e.t.v. ekki af miklu viti, en er engu að síður fær um það. Ég er hins vegar að mestu ófær um að bæta athöfninni „sofa" inn í þessa runu, eins og líklega flestir, en slíkt var einmitt ástand skáldsins á umræddu augnabliki. Því hefði samtal okkar að öllum líkindum orðið heldur einhliða, og þú þurft að sjá um alla fyndni. Hvað þetta allt kemur Gvendi á Eyrinni við veit ég ekkert um.

3. Ég er blessunarlega ekki Matt Damon. En það ert þú ekki heldur! Gef þér samt þetta með stinna rassinn, þangað til annað kemur í ljós.

Láttu nú alla vita af lyginni...

 

...Gunni og Solla héldu innflutningspartý í gær, og að sjálfsögðu lét skáldið sig ekki vanta þar. Partý þetta reyndist hafa gríðarháan nördastuðul, flestir gesta voru doktorsnemar í stærð- og/eða eðlisfræði, og auk þeirra gaf að líta Gettu Betur-nörda og almenna tölvunörda. Var nördaskapurinn eftir því, brandarar þar sem pönslænið var „kvaðratrótin af pí“ eða eitthvað álíka heyrðust ósjaldan, og allir nördarnir hlógu sem vitlausir væru, sem þeir eru. Stjáni tók helling af myndum á staðnum, þar á meðal þessa, sem sýnir Jarlaskáldið og Aumingjabloggarann fara með rímur, sérlega glæsileg mynd það. Ef þið vitið ekki hvor er hvað þá er Jarlaskáldið sá myndarlegri. Fjörið endaði svo á Vídalín á balli með Moonboots, sem einmitt spilar bara 80's coverlög, aldeilis fínt það.

Skáldið rumskaði ekki fyrr en á þriðja tímanum daginn eftir, þegar lítill frændi var byrjaður að hoppa ofan á því, gott að vakna þannig. Linsurnar enn í augunum, klætt í öll fötin, usss, var þetta svona slæmt í gær? Kíkti svo á netið, sá að Mummi hafði gengið berserksgang í bloggi um helgina, rosalega hlýtur honum að hafa leiðst. Finnur skáldinu það til foráttu að hafa ekki hringt í sig á föstudagskvöldið, en skáldið hefur það sér til afsökunar að hafa vart verið með meðvitund er þau orðaskipti hefðu átt að fara fram sem hann talar um. Og Mummi, þú ert bara ekki Matt Damon, so sorry!

Skáldið lét sig svo hafa það að kíkja á völlinn fyrr í kvöld, að horfa á Frammara spila við Keflavík. Frammarar voru heldur skárri en í síðasta leik, enda vart annað hægt, samt bara jafntefli gegn lélegu liði. Gaman að sjá Eggert aftur, langbesti maður liðsins í kvöld, minna gaman að sjá þennan mann, vonandi sé ég sem minnst af honum inni á fótboltavelli í sumar. Mönnum sem tekst að láta reka sig úr vinnu hjá Orkuveitunni fyrir leti hljóta líka að vera dálítið sérstakir, það á bara ekki að vera hægt...

laugardagur, júlí 13, 2002 

...og Lúlli, ef þú einhvern tímann lest þetta, aldrei, og ég meina ALDREI, fara í Hitlersdressið aftur. Þú varst ógeðslegur...

 

...eins og ljóst ætti að vera af ofanrituðu brá Jarlaskáldið sér í betri fötin í gær og stundaði skemmtanir af miklum móð. Það er sosum ekki í frásögur færandi, og mun því ekki gert, en ef þið voruð niðri í bæ í gærnótt um fjögurleytið og sáuð mann í jakkafötum klöngrast upp á Stjórnarráðið, þá var þar hugsanlega skáldið á ferðinni...

 

...Skúla, sem hafið hefur blogg að nýju landslýð til mikillar gleði, eru hér með færðar bestu þakkir Jarlaskáldsins fyrir veitta gistingu í slotinu að Vesturgötu. Hann lengi lifi, húrra, húrra, húrra...

þriðjudagur, júlí 09, 2002 

... ég sleppti kvöldmatnum í kvöld til þess að kíkja á leik Fram og KA, og það verður að segjast að voru vond skipti. Aðra eins hörmung hef ég vart augum litið, aumingjaskapur og áhugaleysi Frammaranna var slíkt að annað eins hefur ekki sést í háa herrans. M.a.s. hörðustu Frammarar sem sjá yfirleitt ekki sólina fyrir liðinu sínu viðurkenndu að þetta hefði verið hörmung. Að vísu endaði leikurinn bara 0-1 fyrir KA, og aðallega vegna þess að KA-menn voru litlu skárri, klikkuðu m.a. á víti. Tveir klukkutímar af lífi mínu sem ég vildi fá aftur, og ef ég hefði ekki fengið frímiða væri ég enn fúlli...

mánudagur, júlí 08, 2002 

...ferðasögu lofaði ég og ferðasögu fáið þið. Ég er búinn að vera lengi að velta fyrir mér góðum titli á hana, þessi fannst mér standa upp úr:

BROTINN RASS OG BLÁR ÖKKLI

Saga vor hefst á þeim drottinsdegi 5. júlí 2002, um hálffjögurleytið. Jarlaskáldið hefur nýlokið vinnu sinni, og er afar pirrað út í hálfvitana á Dominos, sem tókst með heimsku sinni að gleyma bæði brauðstöngunum og kókinu sem ætlað var að brauðfæða sársvanga vinnumenn á Ölfusvatni, og varð skáldið að punga út 5000 krónum af eigin fé til að kaupa kók á uppsprengdu verði í Nesbúð svo að ekki yrði styrjaldarástand við matarborðið þá bökurnar loksins kæmu. En nóg um það. Skáldið tekur þó gleði sína að nýju, fram undan er sukk og svínarí, mikið gaman. Þá heyrist bíbb-bíbb, bíbb-bíbb í símanum. SMS frá Hrafnhildi, hún er hætt við að fara. Þetta var fimmta skiptið sem hún hætti við að hætta við að hætta við o.s.frv., kom því lítt á óvart. Tveimur tímum síðar hættir hún aftur við að hætta við, og þá er skáldið ferðbúið, með kassa af Thule, 4 lambakjötsneiðar og tvær flatkökur, það ætti að duga yfir helgina.

Magnús frá Þverbrekku kemur á sjöunda tímanum, ekki nema klukkutíma of seinn, þykir ekki svo slæmt í minni sveit. Magnús á eftir að koma meira við sögu. Hann er á jeppa miklum, svo úttroðnum af drasli að það hálfa væri yfirdrifið. Samt tekst að koma öllu fyrir, enda menn með B.A. gráður upp á vasann hér á ferð. Og þá er ekkert annað að gera en að bruna í Mörkina. Það er rigningarsuddi þegar lagt er af stað, engu að síður er þorri ferðalanga í Hawaii-skyrtum og stuttbuxum, með óbilandi bjartsýni um blíðviðri að vopni. Ferðin sækist allvel, enda er Magnús duglegur að segja „þessum andskotans hálfvitum“ til í umferðinni. Á Hvolsvelli er áð, í búllu þeirri er nefnd er Hlíðarendi. Ekki þykir annað hægt en að fá sér pulsu, enda heimabær þeirrar ágætu vöru. Það er farið að sjá á sumum.

Næst er áð við gömlu Markarfljótsbrúna, þar sem menn á aumingjabílum leggja og fá far með alvörubílum restina. Magnús vippar sér út úr bílnum, rífur bjórinn af skáldinu og tekur vænan sopa. Í því keyrir lögreglubíllinn fram hjá. Þeir spyrja hvort áfengi sé nokkuð haft um hönd. Annað hvort er löggan mjög fyndin, eða mjög heimsk. Nú er talsvert farið að sjá á sumum.

Ferðin inn í Mörk gengur áfallalítið (það þykir vart merkilegt í þessum hópi þótt smáhlutir hrynji úr bílum á leiðinni, nenni því ekki að telja það allt upp). Þegar inn er komið er bara þó nokkur blíða, en bíddu, hvar er allt fólkið? Örfáir í Langadal, enn færri í Slyppugili, og ekki hræða í Bolagili, en þangað var ferðinni einmitt heitið. Blessun þykir þó að fámenni þessu, enda fólk mætt til að skemmta sjálfu sér, en ekki einhverjum öðrum. Og þá er ekkert annað að gera en að tjalda, sem gengur furðuvel. Jarlaskáldið er með vel aldrað tjald með gamla laginu, vegur á fimmta tug kílóa en er samt of lítið. Þegar ofvaxna vindsængin er komin inn er varla pláss fyrir neitt annað. Sem betur fer eru Jarlaskáldið og Hrafnhildur tjaldnautur hans heldur smávaxin. Hrafnhildur er klædd í eitthvað sem líkist helst geimbúning, en reynist vera úttroðinn Kraftgalli við nánari skoðun. Hrafnhildur stingur nokkuð í stúf við Hawaiiskyrturnar. Nú er verulega farið að sjá á sumum.

Nú tekur við allsherjar sukk, með öllu viðeigandi. Fer það að mestu vel fram, fyrir utan eina hrottalega líkamsárás sem Magnús verður fyrir. Að vísu er nokkur bót í máli að árásaraðilinn er hann sjálfur. Einhverra hluta vegna telur Magnús það snjallræði að bregða fyrir sig danssporum, sem allir vita sem til þekkja að er hið mesta glapræði þegar hann á í hlut. Skiptir engum togum að hægri löppin lætur undan átökunum, og blæs svo út uns ferföld verður að stærð, og tekur á sig fallegan bláan lit. Sem betur fer tapar Magnús þó ekki gleðinni, sem er gott (ísleifska). Að öðru leyti fer gleðin vel fram, og sofnar Jarlaskáldið undir morgun sátt við menn og umhverfi, hafandi afrekað ýmislegt sem ekki verður tíundað frekar hér.

Á eftir nótt kemur nýr dagur, og er laugardagurinn 6. júlí engin undantekning. Tjaldbúar taka að vakna upp úr hádegi hinir fyrstu, flestir þó öllu síðar. Sumir vakna að vísu ekki fyrr en við grilllyktina um kvöldið. Áður en að því kemur fara þeir hressustu, skáldið meðtalið, í gönguferð inn í Stakkholtsgjá. Það er ekkert mjög ljótur staður. Sturtan er köld, en hressandi. Svo er grillað. Jarlaskáldið mundi eftir BBQ-sósunni og Season-All kryddinu, maturinn heppnast því vel. Er síðan haldið áfram þar sem frá var horfið kvöldið áður, en af enn meiri krafti.

Einhvern tímann um nóttina verður til sú snjalla hugmynd að reisa varðeld. Jarlaskáldið tekur til óspilltra málanna og ber tré um víðan völl, uns myndarlegur bálköstur myndast. Sum trén eru of stór og þarf að saga. Eitthvað gengur illa að saga eitt tréð, og reynir því skáldið að hoppa á því til að brjóta það. Sannast þá hið fornkveðna að sá vægir sem vitið hefur meira, tréð lætur undan með miklum látum, en Jarlaskáldið fær væna flugferð sem endar eðli málsins samkvæmt á jörðinni, sem tekur því ekkert blíðlega, og má minnstu muna að það brjóti ekki á sér rófubeinið. Situr það þó eftir helaumt, en tapar engu að síður ekkert gleðinni frekar en félagi Magnús. Eru þeir fóstbræður hér með nefndir Hrakfallabálkar Bolagils 2002.

Eitthvað hefur Óminnishegrinn komist í síðari tíma heimildir, en þó munu vera til illa varðveittar heimildir er greina frá afmæli miklu. Willys-jeppinn hans Stebba varð tvítugur, og var því að sjálfsögðu fagnað með viðeigandi hætti, drykk einum göróttum er nefndur var rússneskt kók, og samanstendur aðallega af vodka og möluðum kaffibaunum. Mun það hafa verið síðasta verk ýmissa manna þessa nótt að torga þeirri ólyfjan.

Af Jarlaskáldinu er það helst að frétta að það kemst til meðvitundar á þriðja tímanum á sunnudegi, en getur þá hvorki hreyft legg né lið sakir vanheilsu mikillar sem þjakar það. Hrafnhildur, sem hafði staðið sig vonum framar í sukkinu, kemur því til bjargar, hellir í það kóksopa og dregur út úr tjaldinu þar sem það liggur uns Eyjólfur tekur smátt og smátt að hressast.

Heimleiðis er svo haldið um kvöldmatarleyti, með viðkomu á Hvolsvelli, þar sem ófáir borgararnir renna niður í iður þreyttra ferðalanga og gera þar stutta viðkomu, svo vissara er að drífa sig bara í bæinn. Ja mikið helvíti, þetta geri ég aftur...

 

...Mummi fer mikinn á síðu sinni, nefnir aðra menn aumingjabloggara og ber sig aumlega yfir því að ég lét hann þrífa kofann í dag. Æ æ, aumingja hann. Þetta ætti kannski að kenna honum að vera ekki að trufla opinbera starfsmenn við vinnu sína, eins og hann gerði í dag. Hvað meint aumingjablogg mitt varðar vísa ég því alveg til föðurhúsanna. Þótt menn séu svo miklir skúnkar að hanga heima alla fyrstu helgina í júlí og gera ekkert nema blaðra tóma vitleysu með bjórglasinu eiga þeir ekkert með að kasta skít í þá sem hafa aðra og merkilegri hluti að gera, eins og að drekka frá sér vit og rænu í guðsgrænni náttúrunni...

 

...sá að Sverrir Jakobsson er kominn með link á síðu Jarlaskáldsins, tel mér því fært að launa honum lambið gráa, bara vona að Pressan komist ekki að því. Og þar sem mamma kenndi mér að það er ljótt að skilja út undan smelli ég link á bróður hans, þeim finnst nú svo skemmtilegt að á þá sé almennt litið sem eina persónu hvort sem er...

föstudagur, júlí 05, 2002 

...var að setja þetta nagportal-drasl inn á síðuna, veit ekkert hvernig það virkar, en það lúkkar sæmilega kúl...

 

...humm, skáldið er á leið í Mörkina, ásamt Blöndahlnum og frk. Hrafnhildi „gifs á báðum löppum“ Hrafnkelsdóttur. Verðum við í för með þeim ágæta félagsskap V.Í.N. (Vinir íslenskrar náttúru stendur það víst fyrir). Þar ku munu verða heldur fámennt miðað við fyrri ár en þeim mun góðmennara, enda hefur Háskólaskrílnum verið úthýst og mun hann víst verða á Skógum, þeim „einkar“ spennandi stað. Fari þeir bara og veri. A.m.k. er skáldið búið að fara í Einokunarverslun Ríkisins og byrgja sig vel upp, og má því vænta góðrar ferðasögu að liðinni helgi. Þið bíðið bara þangað til...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates