« Home | ...ekki er skáldið dautt úr öllum æðum enn. Það he... » | ...Jarlaskáldið sendir hamingjuóskir sínar til Ber... » | ...furðulegt, í ca. annað hvert skipti sem ég skrá... » | ...Ekki leggur Jarlaskáldið í vana sinn að standa ... » | ...Gunni og Solla héldu innflutningspartý í gær, o... » | ...og Lúlli, ef þú einhvern tímann lest þetta, ald... » | ...eins og ljóst ætti að vera af ofanrituðu brá Ja... » | ...Skúla, sem hafið hefur blogg að nýju landslýð t... » | ... ég sleppti kvöldmatnum í kvöld til þess að kík... » | ...ferðasögu lofaði ég og ferðasögu fáið þið. Ég e... » 

þriðjudagur, júlí 30, 2002 

...þetta er nú meiri andskotans ólifnaðurinn á manni! Ég var að skoða skrif mín síðustu vikur og þetta eru ekkert nema einhverjar fylleríssögur og raus. Hummm, þarf maður að fara að hugsa sinn gang? Jú, líklega, en ég bíð samt með það þangað til í haust. Þangað til munu eingöngu birtast fleiri fylleríssögur og önnur vitleysa á þessari ágætu síðu, því það er ekki eins og ég hafi skoðanir á neinu eða minnsta áhuga á að tjá mig um eitthvað sem skiptir máli, enda nóg til af fólki sem sinnir þeim leiðindum, og gerir það líklega miklu betur en ég. So, without further ado, hefst þar frásögnin:

Á föstudagskvöldið var hann Skúli blogglausi svo almennilegur að halda vinnupartý á Vesturgötunni, og bauð mér m.a.s. fyrir fram að fá að gista þá óumflýjanlegt meðvitundarleysi yrði örlög Jarlaskáldsins. Þetta var barasta fínasta partý, fyrir utan einstaka hálfvita sem henda þurfti út fyrir óspektir. Jarlaskáldið var að sjálfsögðu ekki eitt þessara hálfvita, enda þekkt að prúðmennsku og kurteisi í hvívetna. Eins og lög gera ráð fyrir var haldið í bæinn, að minnugra manna sögn á Grand Rokk (röðin á Hverfisbarinn var svoooona löng) og Kaffibarinn. Þetta með Kaffibarinn gæti þó verið vitleysa, kannski var þetta einhver annar staður, a.m.k. hafði skáldið aldrei gerst svo frægt að drepa þar niður fæti áður. Nokkru síðar sótti mikil svengd að skáldinu, sem svalaði þeirri þörf með vænum Hlölla eins og svo oft áður, en hélt að því loknu aftur á Vesturgötuna. Þar var ekki nokkur sála, svo skáldið kom sér bara maklega fyrir í aftursætinu á Woffanum, og man ekki eftir sér fyrr en daginn eftir...

...þegar Magnús nokkur Blöndahl frá Þverbrekku, nokkuð þjakaður af höfuð- og magapínslum eftir ævintýri næturinnar, vakti skáldið og skipaði því að koma með sér í Þjórsárdalinn og hefja þar drykkju að nýju ekki síðar en bara strax. Ekki gat skáldið skorast undan þeirri áskorun, þó að rúmið hafi verið öllu meira heillandi á akkúrat þeirri stundu. Voru þeir fjórir ferðalangarnir sem héldu af stað stuttu síðar, allklyfjaðir og ekki síður timbraðir, og tóku fyrst stefnuna á bæ þann á Suðurlandi er hæstan FM-hnakkastuðul hefur og nefnist Selfoss. Var þar unninn fullnaðarsigur á þynnkunni með hjálp drulluborgara á Fossnesti, og var því stefnan næst tekin í norður og ekið allgreitt, enda Magnús við stýrið og er hann bjórþyrstur maður mjög að jafnaði. Á tjaldstæðinu í Þjórsárdal var staddur múgur og margmenni, og af kurteisi við múginn fundum við okkur afviknari stað aðeins ofar, og hittum þar fyrir vel á annan tug VÍN-liða. Þess má til gamans geta að tilefni samkomunnar var 26 ára afmæli Vignis, sem var einmitt í gær, til hamingju með það. Ég tel óþarfa að greina frá öllu sem fram fór síðar um nóttina, látum duga að nefna að sumt af því varðaði við lög, annað var bara siðlaust. Ekki tókst Jarlaskáldinu frekar en fyrri daginn að finna huggulega snót til að verma hvílu þess, enda hefði það ekki skipt máli, skáldið dreif ekki einu sinni þangað sjálft, heldur „sofnaði“ inni í Willysnum hans Stebba og vaknaði fyrir framan hann (bílinn, ekki Stebba). Hvað er þetta með að sofa í bílum? Og svo er Versló næstu helgi. Tekur þetta engan enda?...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates