sunnudagur, september 29, 2002 

AF AMMÆLUM OG ÖÐRUM MERKILEGHEITUM - ANNAR KAPÍTULI

Eflaust bíða allir spenntir eftir næsta kapítula, vessgú:

Víkur þá sögu vorri til næsta dags. Fór þá fram knattspyrnuleikur einn niðri í Laugardal hvar hinir fagurbláu Frammarar tóku á móti orangeklæddum Fylkismönnum. Jarlaskáldið brá sér að sjálfsögðu á völlinn en því miður dugði það Frömmurum ekki til sigurs. Nokkra eftirtekt vakti frumleg hárgreiðsla leikmanns nr. 24 í liði Fram. Að leik loknum brá skáldið sér svo í betri fötin og fór niður í Nauthólsvík og hóf undirbúning fyrir gleðskapinn í Flugröst. Í boði var eins og fyrr segir á þriðja hundrað bjórflaskna, á annað hundrað jellyskot og auk þess hressandi landabolla í boði Normu, vinkonu Dengsa. Mæður ammælisbarnanna höfðu svo bakað skúffuköku handa gestum, sem borin var fram með ískaldri mjólk. Var gerður góður rómur að því framtaki, þó ekki eins góður og að áfengisframtaki afmælisbarnanna. Upp úr 8 mættu fyrstu menn á svæðið, familía Dengsa, og svo tíndist (og týndist) fólk inn með stigvaxandi hraða, uns pleisið var orðið smekkfullt. Var tekið til óspilltra málanna hvað drykkju varðar, enda ekki annað hægt þegar frítt bús er í boði, svo ölvun var orðin nokkuð almenn fyrr en varði. Fengu afmælisbörnin ýmsar góðar gjafir, m.a. fékk Jarlaskáldið ostaskera, öryggishjálm, trommu og munnhörpu, geisadisk með Simpsons-fjölskyldunni, og gjafakort í Kringluna til jakkakaupa, rauði jakkinn þykir víst ekki móðins á djamminu lengur (var hann það einhvern tímann?). Sú afmælisgjöf, ef gjöf skyldi kalla, sem vakti mesta athygli, var þó upplestur á hugleiðingum Dengsa, ritaðar af honum sjálfum á pappírshandrit, frá upphafsárum hans í drykkju: „It's very important to be drunk, because everyone is nice, and everyone says what they means.“ Annað var í þessum dúr. Þetta vakti kátínu allra nema eins aðila.

Ekki telur Jarlaskáldið ástæðu til að fara í smáatriðum gegnum aðra atburði kvöldsins. Þó rekur það sérstaklega minni til allfrumlegra aðfara við Tequila-drykkju. Í stað þess að éta saltið og sítrónuna var saltinu fleygt yfir öxlina og sítrónunni troðið í augun. Einhverra hluta vegna meikaði þetta alveg sens á þessum tíma. Það gerir það ekki lengur. Einnig er Jarlaskáldinu minnistæð söngskemmtun sú sem þeir Magnús og Frosti fluttu fyrir gesti. Hlaut hún nokkuð snubbótan endi. Frosti lét það þó ekki á sig fá heldur rifjaði upp gömul kynni við frændur vora úr suðaustri, nánar tiltekið færeyska stúlku þá sem hann hafði gert hosur sínar svo grænar fyrir í sögulegri bústaðarferð þremur vikum áður. Að fróðra manna sögn voru heimtur öllu betri í þetta sinnið, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Frosti vildi reyndar meina daginn eftir að Jarlaskáldið hefði einnig leitað út fyrir landsteinana í leit að kvonfangi, Jarlaskáldið þvertekur fyrir það, eða man allavega ekki eftir því.

Seint og um síðir hélt Jarlaskáldið svo niður í miðbæ, og á Hverfisbarinn eins og oft vill verða í félagsskap VÍN-liða . Heim var ekki haldið fyrr en undir morgun, a.m.k var búið að loka Hlölla, voru það allnokkur vonbrigði, en pulsan bætti þó nokkuð úr skák.
Mestu vonbrigði kvöldsins voru þó þau að áfengið kláraðist ekki alveg, örlítil landabollulögg var enn eftir þegar menn mættu til þrifa daginn eftir, í misgóðu ásigkomulagi. Áfengð entist að vísu lengur en bjartsýnustu menn þorðu að vona, þrátt fyrir fjölmennið. Greinilegt að flestir mættu með nesti og nýja skó. Vill Jarlaskáldið þakka öllum gestum, þeir stóðu sig með prýði allir með tölu. Hafi menn einhverju við ofangreinda frásögn að bæta ellegar telji rangt með farið í einhverjum atriðum skorar Jarlaskáldið á menn og konur að rita í kommentin. Adios...

 

...ég er að hugsa um að byrja að nota fyrirsagnir:

AF AMMÆLUM OG ÖÐRUM MERKILEGHEITUM

Jarlaskáldið er fátækt í dag. Það kemur þó til af góðu, því þeim peningum sem skáldið átti fyrir helgina var aldeilis vel varið, nebbnilega í að stuðla að almennri ölvun og skemmtilegheitum í ammæli Jarlaskáldsins í gær. Förum aðeins yfir þetta:

Á föstudaginn eftir vinnu hitttust skáldið og Dengsi, hitt ammælisbarnið, fyrir utan þá góðu verslun Heiðrúnu í Árbænum, og skunduðu þar inn. Jarlaskáldinu var vel tekið af starfsmönnum, enda tíður gestur og góður kúnni. Þar byrjuðu þeir félagar á að rífa út áfengi fyrir rúmar 40.000 krónur, alls 8 kassa af bjór og eitthvað smotterí af vodka. Þaðan fóru þeir í Kringluna og keyptu ýmislegt til yndisauka og gleði. Útskýrist þar fátæktin. frh síðar...

föstudagur, september 27, 2002 

...ekki gleyma nesti...

 

...örfá orð um komandi hátíð. Herlegheitin fara fram í bragga einum, er Flugröst nefnist, og mun vera vel fallinn til slíkra skemmtana. Bragginn er staðsettur eigi svo langt frá Nauthólsvík, á hægri hönd á leiðinni þangað, og mun verða vel merktur svo óþarfi er að óttast um að villast. Mæting er frjáls, en hvað bjórinn varðar gildir reglan „fyrstir koma, fyrstir fá“ og því ekki vitlaust að mæta í fyrra fallinu hvað það varðar. Þó er ekki sniðugt að mæta mikið fyrir klukkan níu, þá komið þið líklega að læstum dyrum. Megi heilagur Bakkus blessa þessa messu honum til dýrðar, og er það von mín að hver einasti maður geri skyldu sína, því oft var þörf en nú er möst...

mánudagur, september 23, 2002 

...ágætu lesendur (a.m.k. þeir sem þekkja mig), vinsamlegast takið laugardaginn 28. september frá í dagbókum ykkar, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð. Jarlaskáldið mun senn hafa lifað fjórðung úr öld, og í dag hefur Steingrímur Aðalsteinsson einnig lifað fjórðung úr öld (til hamingju með það!), og af því tilefni standa þeir fóstbræður fyrir mikilli veislu fyrrnefndan laugardag. Þeim sem þykjast vera í vinskap við annan hvorn þeirra fóstbræðra er hér með boðið að mæta til veislunnar (staðsetning auglýst síðar), gjarnan með pakka í för, og þiggja þar veitingar og hlýða á skemmtiatriði. Þorstlátum er þó ráðlagt að hafa með sér eitthvað drykkjarkyns, enda mun gestalistinn stefna í hið óendanlega og takmarkað magn í boði þó ekki sé það lítið. Þeim lesendum (ef einhverjir eru) sem telja að nærveru þeirra sé ekki óskað er aftur á móti bent á að sama kvöld er kvikmyndin Örlög ráða (A Simple Twist of Fate) í Sjónvarpinu, og ekki ónýtt að eyða kvöldinu framan við skjáinn...

 

...heimski Blogger!!!...

 

...auk þess legg ég til að Frostaskjólið verði lagt í eyði...

sunnudagur, september 22, 2002 

...um helgina voru háðir allmargir knattspyrnuleikir. Sumir enduðu illa, t.d. í Vesturbænum hvar hinir skunkalituðu hirtu dolluna. Aðrir leikir enduðu betur, og þó sérstaklega sá er háður var á Akureyri, þar sem hinir bláhvítu Frammarar gjörsigruðu Sveitavarginn 3-0 og héngu þar með uppi á einu marki, á kostnað Kebblvíkinga. Stefán Pálsson var á staðnum, og gerir fjarveru Jarlaskáldsins að umtalsefni á heimasíðu sinni, telur það kléna frammistöðu. Ég vona að hann virði Jarlaskáldinu það til vorkunnar að það var á sama tíma statt lengst uppi á heiði, og sér til málsbóta vill Jarlaskáldið nefna að það var í Frampeysunni meðan á leik stóð, eflaust hafði það sín áhrif...

 

...„Auðvitað hafði ég vit á því að setja bara aftur inn sama template og þá hrökk þetta í gang eins og Arnór jarlaskáld eftir 2 hraðapakka forðum daga.“ Svo ritaði Ljós-Gíslinn, sem var einmitt liðstjóri seinna ár Jarlaskáldsins í þeirri merku spurningakeppni Gettu Betur, og er hér eflaust að vitna til goðsagnakenndrar frammistöðu skáldsins á spurningaliðsæfingu eftir fremur erfiða föstudagsnótt. Ljós-Gíslinn hefur í seinni tíð helst gerst frægur fyrir að vera orðljótasti bloggarinn, og fékk félagi Hjörtur nýlega að kenna á því fyrir að vera með aðfinnslur við Köttinn. Ekki ætlar Jarlaskáldið að leggja orð í þann belg þrátt fyrir B.A. gráðu í fræðunum, en þakkar Ljós-Gíslanum fyrir hlý orð og verðlaunar hann með krækju hér til vinstri...

 

...þessi helgi var góð. Helvíti góð. En hvað veldur?

Jarlaskáldið tók sér frí frá vinnu á fimmtudag og föstudag vegna veikinda, sem sennilega voru afleiðing mistaka við samningu níðkvæðis, eins og fyrr er greint frá. Þegar leið á föstudaginn tók þó heilsan eitthvað að batna, enda skáldið þá búið að lagfæra kvæðið, og eflaust er einhver gleraugnaþjófur einhvers staðar núna sem emjar af kvölum, múhaha. Skáldið taldist því vera ferðafært, og um tíuleytið (heldur seint, er það ekki?) hélt það af stað ásamt Blöndahlnum, hjónaleysunum Gunna og Sollu og Stefáni tvist í mikla reisu um hálendi Íslands. Magnús og hjónin voru á Toyota jeppa með ónýtum vatnskassa, en Jarlaskáldið fór með Stefáni á tvítugum Willys jeppa hans. Er það faratæki mikill kostagripur, þó hljóðeinangrun sé ekki einn af stærstu kostum þess. Þá var bara að setja Rammstein á og halda voljúmtakkanum lengi inni í tilefni þýskra daga. Haldið var sem leið liggur í svartamyrkri austur Þingvallaveginn, og á miðri Mosfellsheiðinni varð svartamyrkrið enn svartara þegar svartaþoka (ja, svart er það) skall á með tíu metra skyggni. Var því keyrt eftir minni að hluta til, annars bara giskað. Á Þingvöllum hvarf þokan í bili, og var þar beygt til norðurs í átt að Uxahryggjum, og sú leið ekin þar til komið var að Haukadalsheiði. Ekki var vegurinn þangað góður, og ekki tók betra við á Haukadalsheiðinni. En til þess var jú leikurinn gerður, að jeppast. Fetuðum við því slóðann til austurs, með indælishossingi og fjöri, og þegar vinkona okkar þokan mætti aftur á svæðið varð þetta fullkomið, við sáum gjörsamlega ekki neitt og tókst því að villast einu sinni og keyra a.m.k einu sinni út af slóðanum út í úfið hraun. Þrælgaman sem sagt. Tók það okkur rúma tvo tíma að keyra þennan slóða, sem er varla mikið lengri en 40 kílómetrar, og endaði hann á Kjalvegi. Þaðan ókum við svo norður að Hagavatni á heldur betri vegi og vorum komin þangað stuttu fyrir tvö. Þar stóð indælisskáli okkur til boða, mannlaus sem betur fer, og var því þegar hafist handa við drykkju. Hefur Jarlaskáldið aldrei hafið drykkju svo seint áður, og hefur þó ýmsa fjöruna sopið í þeim efnum. Stóð drykkjan enda fremur stutt og þegar hrotudrunur tóku að berast frá Magnúsi þótti rétt að fara í háttinn, enda ekki viðræðuhæft fyrir hávaða.

Ferðalangar vöknuðu svo (mis)hressir um hádegi á laugardag, og eftir borðhald og messu var för haldið áfram, fyrst upp að Hagavatni, þar sem ekin var m.a. sú brattasta brekka sem Jarlaskáldið hefur farið. Vakti það víst litla hrifningu fröken Sólveigar þegar Toyotan gafst upp í miðri brekkunni og Magnús þurfti að bakka niður, setja í lága drifið og fara svo upp. Svo var ekið að Gullfossi og gert grín að ofmeikuðum túristum. Þaðan fórum við svo áfram línuveginn til austurs, varð sú ferð tíðindalítil að mestu, þurftum að stoppa reglulega og bíða þegar Toyotan ofhitnaði, sungum þjóðsönginn við eitt slíkt tilefnið, enda ærin ástæða til. Á miðri leið bárust svo knattspyrnuúrslit, vöktu þau mismikla hrifningu ferðalanga, nánar um það síðar. Við Háafoss var komin svartaþoka eina ferðina enn, heyrðum við því aðallega í fossinum, en Jarlaskáldinu tókst þó að greina að fossinn stendur undir nafni. Eiginlegri jeppaferð lauk við Sultartanga, og var svo brunað á Kentucky á Selfossi og svo heim.

Um kvöldið var svo samkvæmi hjá Togga í Bryggjuhverfinu, en hann er svo heppinn að búa fyrir neðan Völu Matt. Vala lét reyndar ekki sjá sig, en það gerði hins vegar Magnús Andrésson ásamt frú, og hefur Jarlaskáldið hér með efnt loforð um að minnast á hann í blogginu. Stóð hann sig bara nokkuð vel, ef marka má heimildir. Það gerði Jarlaskáldið líka, bæði í samkvæminu og síðar á Hverfisbarnum, en þó einkum í röðinni, sem var bæði löng og hæggeng. Er Jarlaskáldið nú alvarlega að íhuga að gerast celebrity til þess að komast fram fyrir slíkar raðir. Endaði þetta djamm að vanda hjá þeim félögum Hlöðver og Hreyfli, jammogjá...

fimmtudagur, september 19, 2002 

...unable to load template file. We're working on this. Please try back later. Heimski Blogger!

 

...langt er um liðið síðan hér voru síðast ritaðar frásagnir úr lífi Jarlaskáldsins, og er ýmsu þar um að kenna. Síðast þegar við heyrðum frá skáldinu var það nýkomið heim úr mikilli frægðarför upp á Gígjökul í Þórsmörk. Þar kleif það við fjórða mann í alldjúpum sprungum, og tókst að fróðra manna sögn nokkuð vel upp, svona miðað við aldur og fyrri störf. Naut það fulltingis Magnúsar Blöndahls, sem minnti einna helst á liðþjálfann í Full Metal Jacket þegar hann sagði mönnum til við klifrið. Magnús var að vísu ekki skotinn af geðsjúklingi í lokin eins og liðþjálfinn í myndinni, og merkilegt nokk sluppu allir ómeiddir, þrátt fyrir að þeir væru vopnaðir ísöxum og mannbroddum. Jú, að vísu sneri Maggi sig á ökkla, en það telst eðlilegt þegar hann bregður sér í Mörkina. Um kvöldið fór Jarlaskáldið svo í partý til Stebba þess er við tvist er kenndur, og kom einnig við í öðru partýi hjá Hrafnhildi Hannesdóttur, var sú dvöl þó stutt. Að partýhaldi loknu var svo haldið á Hverfisbarinn, með örstuttri viðkomu á einhverjum hverfispöbb í Grafarvogi hvers nafn skáldið man ekki. Á Hverfisbarnum varð Jarlaskáldið svo fyrir því óláni að einhver pörupilturinn eða stúlkan tók upp á því að hnupla gleraugum þess, að vísu ekki af nefinu á skáldinu heldur af barborðinu svona rétt á meðan það skolaði niður drykk sínum. Var það tjón talsvert, verst er þó að skáldið á nú þann kost einan að ganga með linsur öllum stundum, með tilheyrandi óþægindum sem þær valda. Hefur Jarlaskáldið þegar hafist handa við samningu níðkvæðis um þjófinn, og mun sá áheitakveðskapur að öllum líkindum valda honum öllu illu, eins og hann á skilið. Hvaða fífl stelur gleraugum?

Eitthvað virðist þó hafa misfarist við samningu níðkvæðisins, því skáldið hefur tekið sótt með tilheyrandi hálsbölgum, höfuðverk og nefstíflum. Það er orðið ansi langt síðan skáldið samdi síðast níðkvæði og greinilegt að æfingarleysið hefur valdið því að það fær bölvunina beint í hausinn. Hefur það af þeim sökum legið rúmfast (eða sófafast framan við sjónvarpið) í dag og unað hag sínum illa. Vonandi nær þó skáldið að lagfæra kvæðið og ná aftur heilsu fyrir helgina, því þá er fyrirhuguð mikil jeppareisa um hálendi Íslands, ekki seinna vænna áður en því verður sökkt. Helgina þar á eftir er svo boðaður mikill fögnuður, meira um það síðar...

laugardagur, september 14, 2002 

...vá, ég held að Popppunktur sé eitthvert rosalegasta ripoff sem ég hef séð...

 

...Jarlaskáldið lifir enn. Skál í boðinu...

 

...eflaust vekur það furðu sumra að Jarlaskáldið stundi blogg um miðnætti á föstudagskveldi, en á því er vitaskuld eðlileg skýring. Málavextir eru þeir að Magnús Blöndahl hafði samband fyrr í kvöld og bauð skáldinu í klifurför mikla inn í Þórsmörk snemma í fyrramálið, hvar klifinn skyldi Gígjökull. Ergo: Jarlaskáldið ekki að djamma. Þetta er að sjálfsögðu afleiðing eilífs jarms skáldsins um að fá að fara með í klifur, og loksins lét Blöndahlinn undan jarminu. Nú er bara að sjá hvort Jarlaskáldið sé jafnfært í jöklaklifri og það er í fasteigna- og styttuklifri, hvar það stendur fremst meðal jafningja eins og kunnugt er. Ef mjög illa fer þá eru blóm og kransar afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hins látna er ráðlagt að eyða peningunum í vitleysu, það væri í sönnum anda Jarlaskáldsins. Á laugardagskvöld eru svo a.m.k. tvö partý í gangi, sjáumst í bænum ef vel fer...

þriðjudagur, september 10, 2002 

...Jarlaskáldið vill ítreka hamingjuóskir sínar til Lilju, sem nýlega hóf innreið sína í bloggheima, og lofar byrjunin sérlega góðu. Sérstaklega þótti mér hugleiðing hennar um nr. 2 framúrskarandi, þar ræðir hún vandamál sem ekki hefur fengið næga athygli og ætti að vera hverjum manni holl lesning. Svo ber að nefna að ég var að fá mér svona rosafínt tracking dæmi, svo nú get ég séð hverjir eru að skoða síðuna og hvaðan (eða ætti að geta það, ef ég skyldi eitthvað í þessu). Gaman þætti mér að vita hver er að skoða síðuna frá Svíþjóð, mér detta nokkrir í hug svo fínt væri ef sá hinn sami gerði grein fyrir sér í kommentunum hér fyrir neðan, þá myndi ég um hæl rita lofgrein um hann...

 

...ætli það sé ekki best að rita hér nokkur orð um atburði liðinnar helgar, enda er það það sem dyggir lesendur mínir leita eftir á þessari síðu, drykkju- og svallsögur. Og...

...við hefjum sögu vora um hálffimmleytið á föstudaginn. Allt annað en annasömum vinnudegi Jarlaskáldsins var þá að ljúka, og eftir stuttan túr eftir söngvatni pakkaði skáldið allra nauðsynlegustu hlutum ofan í tösku og beið svo eftir þeim Kjartani og Laufeyju sem voru svo væn að rúnta með það upp í Úthlíð, hvar Steingrímur Aðalsteinsson hafði leigt sumarbústað einn góðan af Félagi flugumferðarstjóra. Bústað þennan þekkti skáldið af góðu einu, enda komið þangað áður og skemmt sér hið besta. Á staðinn voru þegar komin áðurnefndur Steingrímur ásamt frú sinni, auk þeirra Lilju (bjóðum hana velkomna í bloggheima) og Gísla. Síðar um kvöldið bættust svo við Oddi og frú, Gunni og Maggi. Ekki má heldur gleyma henni Hrafnhildi, sem dró með sér færeyska snót, Elín að nafni, en snótin sú kunni því miður íslensku svo ekki gátum við æft okkur mikið í færeyskunni. Varð þetta hin sögulegasta samkoma, enda mannvalið til þess fallið. Drykkjuleikir voru stundaðir í gríð og erg, og urðu menn jafnt sem konur drukknir af, enda leikurinn til þess gerður. Einkar mikla lukku vakti útspil heitmeyjar gestgjafans, sem uppljóstraði um ákveðna misbresti á anatómíu hans, og varð upp frá því fleyg setningin „Dengsi er með lítið t***i,“ við litla hamingju skotspóns setningarinnar. En að öðru. Sem von er stóð Jarlaskáldið fremst meðal jafningja þegar að skrílslátum og drykkjuskap kom. Þó náði það ekki að verða sér til áberandi skammar eða minnkunar, þar komu aðrir til. Fyrstan skal nefna til sögunnar Oddberg Eiríksson, aumingjabloggara með meiru. Afrek hans var að vísu neyðarlegt fremur en nokkuð annað, því hann tók upp á því að borða illmyglaða steik með bestu lyst, þrátt fyrir að allir aðrir kvörtuðu sáran yfir megnum óþef í húsinu. Hann áttaði sig ekki á mistökunum fyrr en um seinan, og varð af þeim sökum að halda heim á leið á laugardagskvöldið, með skottið milli lappanna, eða minnsta kosti eitthvað milli lappanna, því þar var væntanlega ýmislegt óindælt sem krafðist útgöngu. Ekki vil ég vita hvernig sú saga endaði. Annar maður, sem Frosti nefnist, átti hitt afreksverkið. Frosti mætti ekki fyrr en á laugardagskvöldið, með gítar sér í hönd, og hélt uppi mikilli stemmningu fram á nótt. Þegar út í pottinn kom fór hann að renna hýru auga til útlendingsins í hópnum, enda fríðleiksstúlka þar á ferð. Það sem hann ekki vissi, en flestir aðrir vissu, var að stúlkan sú var lofuð öðrum manni, en ekki stoppaði það piltinn, onei! Var hann að sverma fyrir stúlkunni fram undir morgun, með fremur dræmum árangri, og gafst ekki upp fyrr en Óli lokbrá lagði hann loks að velli um sexleytið. Sögðum við honum svo sannleika málsins á heimleiðinni daginn eftir, því ekki hafði stúlkan sjálf haft fyrir því, og varð hann allhvumsa við tíðindin og mælti þau hin fleygu orð: „það hlaut eitthvað að vera!“ Gaman að þessu!

Að öðru leyti var ferðin hin venjulegasta, og því ekki frá meiru að segja. Eða hvað? Ég má til með að nefna að ég fór tvisvar að Geysi um helgina, sitt hvorn daginn. Það er fáránlegt! Það lofa ég að gera ekki aftur. Svo er ég að drepast í löppunum eftir dansmaraþon dauðans, verð að muna að enda aldrei einn vakandi með Hrafnhildi, það getur ekki endað vel...

miðvikudagur, september 04, 2002 

...ég held að tölvan mín sé endanlega að syngja sitt síðasta, skjárinn er byrjaður að blikka óþægilega mikið og Billi Gates er sífellt að hanka mig á einhverju ólöglegu. Aldrei getað skilið hvernig það getur verið ólöglegt að reyna að opna Word, það er ekki eins og maður sé að skoða klám...

 

...starfsmaður 215 stimplar sig inn, já þið lásuð rétt, Jarlaskáldið er byrjað að vinna. Og það hvergi annars staðar en hjá Osta og smjörsölunni. Áður en þið farið að dissa þessa vinnu skuluð þið hugsa ykkur um, því mikilvægi hennar er meira en nokkuð það sem þið gerið. Námsmenn (iss) og tölvupikkarar (piss), hvort tveggja vita gagnslausar stéttir (ég veit þetta, hef verið hvort tveggja). En hvar værum við ef enginn væri osturinn á pizzunni, eður smér á brauðinu! Já, þar hafiði það, mikilvægi mitt er miklu meira en ykkar, ég er í verðmætasköpun, ekki verðmætabraski! Úff, maður er bara orðinn heitur, byrjaður að syngja „fram þjáðir menn í þúsund löndum“ og farinn að huga að byltingu alþýðunnar. Ég ætla samt að bíða aðeins með byltinguna, því ég er að fara í bústað um helgina, og það er svo helvíti leiðinlegt að gera byltingu þegar maður er þunnur...

mánudagur, september 02, 2002 

...júhalló, skáldið er mætt á svæðið, og segir farir sínar tiltölulega sléttar. Hvað hefur gerst, látum okkur nú sjá...

...á laugardaginn var brúðkaup, Ási og Björg létu gifta sig í Dómkirkjunni, svona formlega séð, hafa verið gift í anda síðan þau byrjuðu saman fyrir 7 árum. Ágætis athöfn, passlega stutt, og eins og Gunni orðaði það, ekkert of mikið jesú mombo-djombo. Gunni átti reyndar líka heimskulegasta komment dagsins, þegar hann sagði ca. tíu mínútum eftir að hann settist niður í kirkjunni: „Bíddu, sitja strákarnir öðru megin og stelpurnar hinum megin?“ Athugull piltur hann Gunnar. Heimskulegasta action dagsins áttu hins vegar þeir fóstbræður Arnar og Gestur, sem misstu af giftingunni vegna þess að þeir voru að spila Playstation svo lengi. Þessir menn eru höfuðsnillingar!

Veislan var haldin í sal F.Í. í Mörkinni, ósköp týpísk veisla held ég, excellent matur og drykkir, ræðuhöld í þolanlegu magni og skemmtiatriði ekkert allt of pínleg. Eftir borðhald tók við skemmtaramúsík dauðans, snargeðveikur gæi sem tók ca. 11 aukalög eftir að hann lofaði að hætta, svo Jarlaskáldið komst ekkert að með sína dansmúsík. Þess í stað fór það á barinn og dundaði sér við það ásamt barþjóninum að finna upp nýjan kokkteil. Því miður er uppskriftin fallin í gleymskunnar dá, en hún innihélt a.m.k. Cointreau, vodka, Southern Comfort og eitthvað fleira, fyllt með ananassafa og Sprite. Engum fannst þetta gott eins og við er að búast, þó Jarlaskáldið reyndi eftir fremsta megni að sannfæra fólk um það. Upp úr eitt fór svo skáldið í bæinn og hitti þar fyrir þá Magnús og Stebba Tvist, fóru þeir á Hverfisbarinn og biðu þar heillengi í röð í kulda og trekki, og þið mega geta ykkur til um framhaldið...

Í dag varð svo Jarlaskáldið fyrir nettu áfalli. Það fór í atvinnuviðtal í morgun, og reyndist það vera skítadjobb með skítalaun, svo skáldið sleppti því og leit bjartsýnt fram á framlengdan rónaferil. Þá dundi áfallið yfir, ráðningarskrifstofan hringdi og boðaði skáldið í annað viðtal, nú hjá Osta og Smjörsölunni, og er skemmst frá því að segja að skáldið fékk djobbið, byrjar á miðvikudaginn. Að vísu er það líka skítadjobb með skítalaun, en þar þarf a.m.k. ekkert að nota heilann, sem er jú kostur. Ferli skáldsins sem atvinnulaus aumingi og róni er s.s. senn lokið. Blóm og kransar afþakkaðir, en flest annað þegið...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates