« Home | ...unable to load template file. We're working on ... » | ...langt er um liðið síðan hér voru síðast ritaðar... » | ...vá, ég held að Popppunktur sé eitthvert rosaleg... » | ...Jarlaskáldið lifir enn. Skál í boðinu... » | ...eflaust vekur það furðu sumra að Jarlaskáldið s... » | ...Jarlaskáldið vill ítreka hamingjuóskir sínar ti... » | ...ætli það sé ekki best að rita hér nokkur orð um... » | ...ég held að tölvan mín sé endanlega að syngja si... » | ...starfsmaður 215 stimplar sig inn, já þið lásuð ... » | ...júhalló, skáldið er mætt á svæðið, og segir far... » 

sunnudagur, september 22, 2002 

...þessi helgi var góð. Helvíti góð. En hvað veldur?

Jarlaskáldið tók sér frí frá vinnu á fimmtudag og föstudag vegna veikinda, sem sennilega voru afleiðing mistaka við samningu níðkvæðis, eins og fyrr er greint frá. Þegar leið á föstudaginn tók þó heilsan eitthvað að batna, enda skáldið þá búið að lagfæra kvæðið, og eflaust er einhver gleraugnaþjófur einhvers staðar núna sem emjar af kvölum, múhaha. Skáldið taldist því vera ferðafært, og um tíuleytið (heldur seint, er það ekki?) hélt það af stað ásamt Blöndahlnum, hjónaleysunum Gunna og Sollu og Stefáni tvist í mikla reisu um hálendi Íslands. Magnús og hjónin voru á Toyota jeppa með ónýtum vatnskassa, en Jarlaskáldið fór með Stefáni á tvítugum Willys jeppa hans. Er það faratæki mikill kostagripur, þó hljóðeinangrun sé ekki einn af stærstu kostum þess. Þá var bara að setja Rammstein á og halda voljúmtakkanum lengi inni í tilefni þýskra daga. Haldið var sem leið liggur í svartamyrkri austur Þingvallaveginn, og á miðri Mosfellsheiðinni varð svartamyrkrið enn svartara þegar svartaþoka (ja, svart er það) skall á með tíu metra skyggni. Var því keyrt eftir minni að hluta til, annars bara giskað. Á Þingvöllum hvarf þokan í bili, og var þar beygt til norðurs í átt að Uxahryggjum, og sú leið ekin þar til komið var að Haukadalsheiði. Ekki var vegurinn þangað góður, og ekki tók betra við á Haukadalsheiðinni. En til þess var jú leikurinn gerður, að jeppast. Fetuðum við því slóðann til austurs, með indælishossingi og fjöri, og þegar vinkona okkar þokan mætti aftur á svæðið varð þetta fullkomið, við sáum gjörsamlega ekki neitt og tókst því að villast einu sinni og keyra a.m.k einu sinni út af slóðanum út í úfið hraun. Þrælgaman sem sagt. Tók það okkur rúma tvo tíma að keyra þennan slóða, sem er varla mikið lengri en 40 kílómetrar, og endaði hann á Kjalvegi. Þaðan ókum við svo norður að Hagavatni á heldur betri vegi og vorum komin þangað stuttu fyrir tvö. Þar stóð indælisskáli okkur til boða, mannlaus sem betur fer, og var því þegar hafist handa við drykkju. Hefur Jarlaskáldið aldrei hafið drykkju svo seint áður, og hefur þó ýmsa fjöruna sopið í þeim efnum. Stóð drykkjan enda fremur stutt og þegar hrotudrunur tóku að berast frá Magnúsi þótti rétt að fara í háttinn, enda ekki viðræðuhæft fyrir hávaða.

Ferðalangar vöknuðu svo (mis)hressir um hádegi á laugardag, og eftir borðhald og messu var för haldið áfram, fyrst upp að Hagavatni, þar sem ekin var m.a. sú brattasta brekka sem Jarlaskáldið hefur farið. Vakti það víst litla hrifningu fröken Sólveigar þegar Toyotan gafst upp í miðri brekkunni og Magnús þurfti að bakka niður, setja í lága drifið og fara svo upp. Svo var ekið að Gullfossi og gert grín að ofmeikuðum túristum. Þaðan fórum við svo áfram línuveginn til austurs, varð sú ferð tíðindalítil að mestu, þurftum að stoppa reglulega og bíða þegar Toyotan ofhitnaði, sungum þjóðsönginn við eitt slíkt tilefnið, enda ærin ástæða til. Á miðri leið bárust svo knattspyrnuúrslit, vöktu þau mismikla hrifningu ferðalanga, nánar um það síðar. Við Háafoss var komin svartaþoka eina ferðina enn, heyrðum við því aðallega í fossinum, en Jarlaskáldinu tókst þó að greina að fossinn stendur undir nafni. Eiginlegri jeppaferð lauk við Sultartanga, og var svo brunað á Kentucky á Selfossi og svo heim.

Um kvöldið var svo samkvæmi hjá Togga í Bryggjuhverfinu, en hann er svo heppinn að búa fyrir neðan Völu Matt. Vala lét reyndar ekki sjá sig, en það gerði hins vegar Magnús Andrésson ásamt frú, og hefur Jarlaskáldið hér með efnt loforð um að minnast á hann í blogginu. Stóð hann sig bara nokkuð vel, ef marka má heimildir. Það gerði Jarlaskáldið líka, bæði í samkvæminu og síðar á Hverfisbarnum, en þó einkum í röðinni, sem var bæði löng og hæggeng. Er Jarlaskáldið nú alvarlega að íhuga að gerast celebrity til þess að komast fram fyrir slíkar raðir. Endaði þetta djamm að vanda hjá þeim félögum Hlöðver og Hreyfli, jammogjá...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates