« Home | ...vá, ég held að Popppunktur sé eitthvert rosaleg... » | ...Jarlaskáldið lifir enn. Skál í boðinu... » | ...eflaust vekur það furðu sumra að Jarlaskáldið s... » | ...Jarlaskáldið vill ítreka hamingjuóskir sínar ti... » | ...ætli það sé ekki best að rita hér nokkur orð um... » | ...ég held að tölvan mín sé endanlega að syngja si... » | ...starfsmaður 215 stimplar sig inn, já þið lásuð ... » | ...júhalló, skáldið er mætt á svæðið, og segir far... » | ...góð vinkona Jarlaskáldsins, Hrafnhildur Dóra Hr... » | ..undur og stórmerki, já segi og skrifa, aumingjab... » 

fimmtudagur, september 19, 2002 

...langt er um liðið síðan hér voru síðast ritaðar frásagnir úr lífi Jarlaskáldsins, og er ýmsu þar um að kenna. Síðast þegar við heyrðum frá skáldinu var það nýkomið heim úr mikilli frægðarför upp á Gígjökul í Þórsmörk. Þar kleif það við fjórða mann í alldjúpum sprungum, og tókst að fróðra manna sögn nokkuð vel upp, svona miðað við aldur og fyrri störf. Naut það fulltingis Magnúsar Blöndahls, sem minnti einna helst á liðþjálfann í Full Metal Jacket þegar hann sagði mönnum til við klifrið. Magnús var að vísu ekki skotinn af geðsjúklingi í lokin eins og liðþjálfinn í myndinni, og merkilegt nokk sluppu allir ómeiddir, þrátt fyrir að þeir væru vopnaðir ísöxum og mannbroddum. Jú, að vísu sneri Maggi sig á ökkla, en það telst eðlilegt þegar hann bregður sér í Mörkina. Um kvöldið fór Jarlaskáldið svo í partý til Stebba þess er við tvist er kenndur, og kom einnig við í öðru partýi hjá Hrafnhildi Hannesdóttur, var sú dvöl þó stutt. Að partýhaldi loknu var svo haldið á Hverfisbarinn, með örstuttri viðkomu á einhverjum hverfispöbb í Grafarvogi hvers nafn skáldið man ekki. Á Hverfisbarnum varð Jarlaskáldið svo fyrir því óláni að einhver pörupilturinn eða stúlkan tók upp á því að hnupla gleraugum þess, að vísu ekki af nefinu á skáldinu heldur af barborðinu svona rétt á meðan það skolaði niður drykk sínum. Var það tjón talsvert, verst er þó að skáldið á nú þann kost einan að ganga með linsur öllum stundum, með tilheyrandi óþægindum sem þær valda. Hefur Jarlaskáldið þegar hafist handa við samningu níðkvæðis um þjófinn, og mun sá áheitakveðskapur að öllum líkindum valda honum öllu illu, eins og hann á skilið. Hvaða fífl stelur gleraugum?

Eitthvað virðist þó hafa misfarist við samningu níðkvæðisins, því skáldið hefur tekið sótt með tilheyrandi hálsbölgum, höfuðverk og nefstíflum. Það er orðið ansi langt síðan skáldið samdi síðast níðkvæði og greinilegt að æfingarleysið hefur valdið því að það fær bölvunina beint í hausinn. Hefur það af þeim sökum legið rúmfast (eða sófafast framan við sjónvarpið) í dag og unað hag sínum illa. Vonandi nær þó skáldið að lagfæra kvæðið og ná aftur heilsu fyrir helgina, því þá er fyrirhuguð mikil jeppareisa um hálendi Íslands, ekki seinna vænna áður en því verður sökkt. Helgina þar á eftir er svo boðaður mikill fögnuður, meira um það síðar...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates