mánudagur, mars 31, 2003 

Af gleðsköpum og öðrum hamförum

Þegar vinnu var lokið liðinn föstudag hafði Jarlaskáldið jafnað sig á þunglyndinu sem fylgdi skattaskýrsluskilunum (hvað varð um alla þessa peninga!?) og horfði bjart til framtíðar. Reyndar ekki mjög langt, það fór bara í Ríkið og birgði sig upp af söluvarningi þess. Um kvöldið var Skáldinu svo boðið í samsæti hjá þeim hjónum Gunnari og Védísi í Engjaselinuog var meiningin að glápa þar á Gettu betur og éta nachos. Hvort tveggja gekk prýðilega. Auk húsráðenda mátti þarna finna þau hjónaleysin Hrafnhildi og Elvar, að ógleymdum Sölva Gunnarssyni, sem sýndi komu Jarlaskáldsins mikla athygli. Keppnin sjálf varð lítið spennandi eins og flestir ættu að vita, en engu að síður mátti hafa af henni nokkuð gaman. Undi Skáldið hag sínum vel í þessum félagsskap fram eftir kvöldi en á tólfta tímanum ákvað það að venda kvæði sínu í kross og leita niður á láglendið, nánar tiltekið í Lynghagann hvar fram fór mikil veisla. Voru þar á ferð nýkrýndir sigurvegarar Gettu betur og var Skáldinu tekið með kostum og kynjum. Sem fyrr er frá greint var Jarlaskáldið elst manna, einn fárra veislugesta sem gátu kneifað öl sitt án þess að fremja lögbrot. Ekki að það hafi stoppað neinn, en þó allra síst hina nýkrýndu, og mátti maður hafa sig allan við að halda í við þá. Var veislan annars hin fjölmennasta, og jafnframt góðmenn. Fæsta þekkti Skáldið reyndar, en þarna voru þó nokkrar gamlar kempur og svo mættu keppendur Flensborgarskóla og voru þeir hinir hressustu, einnig mætti Úlfur M.S.-ingur en illu heilli sást hvorki til Ásbjögns né busastelpunnar. Að auki gerði hluti af liði M.H.-inga tilraun til inngöngu en var vísað á dyr, rétt eins og í fyrra, sumt fólk bara lærir ekki af reynslunni. Eitthvað hefur Óminnishegrinn komist í seinni tíma heimildir, samkvæmt einum Flensborgaranum mun Skáldið hafa verið hið hressasta og skipað sér í kvartett ásamt öðrum góðum söngmönnum og sungið Bítlana og Bowie og fleira gott stöff, ósköp væri nú gaman ef Skáldið gæti munað eftir þessu. Seint og um síðir (líklega) mun Skáldið svo hafa ratað í sófa einn kunnugan því og lagst til hvílu, sama sófa reyndar og í sigurveislu M.R.-inga í fyrra. Vaknaði svo á tíunda tímanum morguninn eftir og hitti þá fyrir annan húsráðanda, sem var hinn hressasti með gleðina. Ekki gat Skáldið fundið gleraugun sín, þau fundust undir einhverju drasli hinum megin í húsinu og var annað glerið dottið úr þeim. Gaman. Skáldið þakkaði fyrir sig og keyrði heim, líklega eins gott að það var ekki stoppað af laganna vörðum því blásturspróf hefði líklega haft slæma niðurstöðu.

Þegar heim var komið nennti Skáldið ómögulega að leggjast aftur til hvílu og tók því upp á því að grípa snjóbretti sitt og rúnta upp í Bláfjöll. Þar voru prýðisaðstæður til skíðaiðkunar, að vísu dálítið fjölmennt, og eins og venjulega tókst Jarlaskáldinu að detta með tilþrifum og í þetta sinnið varð mjóbakið fyrir meiðslum. Vont. Fór síðan Nesjavallaleiðina heim, ekki spyrja hvers vegna.

Um kvöldið átti svo bara að taka það rólega, hehe, horfa á Spaugstofuna og Gísla Martein og vera bara almennt plebbi, en það falla víst öll vötn til Dýrafjarðar og á ellefta tímanum var Skáldið komið með kippu í hönd upp í Grafarvog ásamt þeim Stebba og Vigni, en þar hafði Gústi boðið til samdrykkju. Þar voru mál rædd og svona, síðar um kvöldið mætti Adolf á svæðið og enn síðar rataði Sigurgeir þangað. Adolf var okkur til hagsbótar á bíl og keyrði því skrílinn niður í bæ, en Sigurgeir fór eitthvað annað. Þetta endaði að sjálfsögðu allt saman á heimavellinum, þar sem rússneskt kókaín var lykilorðið. Hitti Skáldið þar fyrir pilt sem það hafði farið í steggjapartý með fyrir margt löngu síðan, hann gæti heitið Gummi, og kenndi honum helstu aðferðir við neyslu hins rússneska eðaldrykkjar. Eftir á að hyggja voru kennslustundirnar fullmargar, því það var heldur lágt risið á Jarlaskáldinu daginn eftir þegar það vaknaði loksins til meðvitundar. Aðalástæða heilsubrestsins er þó að sjálfsögðu sú að það gleymdist að fara á Nonnann, slík mistök verða ekki endurtekin.

Vonandi hafði frú Hansen gaman af lestrinum, Jarlaskáldið þakkar hlý orð í sinn garð, og reynir eftir sem áður að passa málfarið, það er nottla bara ekkva sem mar verður að gera. Jæja, farinn að tjilla.

laugardagur, mars 29, 2003 

Meira GB
Enn í þessu partýi, enn jafnelstur. Hér er fullmikið af fólki. Ojæja.

 

GB
Þetta var létt. Sem er gaman. Verst að fólk þekki ekki prinspólólagið. En hér er Skáldið í partýi, og er allelst. Sem er ekki síðra.

þriðjudagur, mars 25, 2003 

Þunglyndi

Mjök erum tregt
tungu at hræra
eða loptvætt
ljóðpundara

Var að skila skattskýrslunni. 'Nough said.

mánudagur, mars 24, 2003 

Óskar

Flottastur: Michael Moore

Flottur: Adrien Brody

Ömurlegt: Allt hitt

Ömurlegast: Chicago

Svo mælti Jarlaskáldið.

sunnudagur, mars 23, 2003 

Fauna

Hvað gerði Jarlaskáldið af sér um helgina?

Ekki mikið í fyrstu, föstudagskvöldið fór í sjónvarpsgláp, horfði á þá skítsæmilegu mynd Mr. Deeds, það má nú alltaf brosa aðeins að Sandlernum. Vaknaði Skáldið svo hið hressasta í gær, ágætis tilbreyting um helgar. Laugardagurinn fór að mestu í koma upp myndasíðu á netinu. Þar eð Jarlaskáldið er ekki svo efnað að eiga digitalmyndavél, heldur notast við gamaldags filmur og ljósmyndapappír, þurfti það að komast í skanna. Kemur þar til sögunnar Sverrir nokkur sonur Guðmundar, er gengur undir nafninu Ormurinn í bloggheimum. Lumaði hann á slíku apparati og var svo almennilegur að leyfa Jarlaskáldinu að hafa afnot af því. Var Jarlaskáldið mætt í Lynghagann á þriðja tímanum, og hitti þar fyrir marga góða menn, því þar var á sama tíma í gangi spurningaliðsæfing M.R.-inga. Var Jarlaskáldið m.a.s. fengið til að rifja upp gamla takta og taka nokkra hraðaspurningapakka. Eitthvað virtist nú viðbragstíminn hafa lengst hjá Skáldinu, en einhverju tókst þó að svara, a.m.k. virtust kapparnir ekki hafa misst allt álit á gamla manninum. Tókst svo Skáldinu í millitíðinni að skanna inn einhverjar 50 myndir, og má sem fyrr segir skoða þær hér hafi menn áhuga. Er Orminum og Snabbanum enn og aftur þökkuð veitt aðstoð, og ekki síður fyrir pizzuna. Og fyrst verið er að ræða um myndir er ekki úr vegi að benda á myndasíðuna hans Togga, en þar má m.a. finna aragrúa mynda úr annálaðri Ítalíuför sem og úr Þórsmerkurför síðasta sumars.

Og hvað haldiði, Jarlaskáldið var svo bara platað út á lendur skemmtanalífsins um kvöldið! Hver hefði trúað því? Eins og svo oft áður átti þetta að vera „bara eitthvað svona létt, bara strákarnir að spjalla“, en endaði að sjálfsögðu með óhóflegri peningasóun og öðru rugli. Byrjaði Skáldið á að sækja þá Stebba og Gústa upp í Grafarvog og svo var haldið upp í Þverbrekku. Þar var fyrir húsráðandi ásamt móður sinni og nokkrum öðrum og allt bara rólegt og rómantískt. Einhverjum áfengiseiningum síðar var Skáldið komið á milli sætanna í leigubíl á leið niður í bæ, og þið vitið sennilega hvar sú ferð endaði. Þar var stemmning eftir atvikum, og eflaust var eitthvað brallað þar. Jarlaskáldið tók sig svo einhvern tímann til og kíkti yfir á Celtic Cross, en hrökklaðist fljótt þaðan og aftur á heimavöllinn undan óskaplegum trúbador og drukknum kellingum. Hafði þá borið vel í veiði hjá félaga Magnúsi, svo hann hafði öðrum hnöppum að hneppa en að ræða við Jarlaskáldið. Ekki var heldur hægt að hafa mikið gagn af Stefáni, hann gerir ekki annað þessa dagana en að tala um hvað George W. sé mikið mikilmenni, svo Skáldið sá fljótlega sæng sína útbreidda og yfirgaf samkvæmið. Kom reyndar við á Sólon, þar var fúlt sem endranær, svo ekkert nema Nonninn gat bjargað málunum, sem hann og gerði. Það síðasta sem Skáldið minnist er að sitja fyrir framan sjónvarpið með Nonnann við hönd, glápandi á þá e.t.v. ágætu mynd Rat Race. Það reynir kannski að klára hana fljótlega.

laugardagur, mars 22, 2003 

Hvað er hér á seyði?

Kíkiði bara!

föstudagur, mars 21, 2003 

Saddam og Bush

Sorrí, hér verður sko ekki talað um stríð og soleiðis vesen, þykir Skáldinu leitt hafi það platað einhvern hingað á fölskum forsendum. Nei, nei, hef sosum ekkert að segja, vildi bara sýna aumingjabloggaranum fram á það að maður þarf ekki að hafa neitt að segja til að skrifa einhverja vitleysu (The clock is ticking dude!).

1. Skáldið komst að því í dag að einhver manneskja sem kallar sig Gusa Hansen hafði linkað á Jarlaskáldið. Ekki fattaði Skáldið í fyrstu hver manneskjan væri, en eftir smá rannsókn kom í ljós að þar voru á ferð eðalhjónin Gvendur Hansen og Sara Björg frú hans. Gvend þekkir Skáldið frá fornu fari, var hann bekkjarbróðir Skáldsins um níu ára skeið í þeirri ágætu menntastofnun Seljaskóla. Frú hans þekkir Skáldið minna, en einungis af góðu. Þar sem þau skötuhjú voru svo almennileg að skipa Skáldinu í flokk „skemmtilegra blogga“ telur Skáldið sér ekki annað fært en að gjalda greiðann í sömu mynt. Vessgú.

2. Sem endranær horfði Skáldið á Spurningakeppni framhaldsskólanna í kvöld. Það verður seint sagt að Skáldinu hafi mislíkað úrslitin. Einn úr liði ósigurvegaranna fer nefnilega allmikið í taugarnar á Skáldinu, getiði hver? Annars var keppnin bara ágæt, að vísu aðeins léttari en síðast en þó ekkert of létt, og sem betur fer fór betra liðið með sigur af hólmi. Ættu úrslitin eftir rúma viku að geta orðið þrælspennandi, M.R.-ingarnir eru óneitanlega betri en á góðum degi ætti M.S að geta gert þeim talsverða skráveifu. Það er til mikils að vinna, mikill stökkpallur fyrir framtíðina. Tökum Jarlaskáldið sem dæmi, hefði það ekki unnið þessa keppni á sínum tíma er því til efs að það væri að vinna í Osta- og smjörsölunni núna!

3. Sá ágæti maður Atli Týr Ægisson hefur sýnt það drenglyndi að taka orð sín um að Jarlaskáldið væri ekki mesti partýbloggarinn til baka, og er maður að meiri á eftir. Hafa þeir Jarlaskáldið því sæst fullum sáttum, einungis eftir að innsigla sættirnar yfir eins og einu bjórglasi. Af aumingjabloggaranum er aðra sögu að segja. Hann hefur ekki enn gengið að úrslitakostum Jarlaskáldsins, og má því búast við válegum tíðindum um þetta leyti á morgun bæti hann ekki ráð sitt. Vonandi sér hann villu síns vegar áður en það er um seinan.

miðvikudagur, mars 19, 2003 

Miðvikublogg ið tólfta

Það hafa margir komið að máli við Jarlaskáldið á liðnum dögum og lýst yfir undrun sinni, vonbrigðum, og í versta falli reiði yfir því að Jarlaskáldið skuli ekki hafa gert umræddri Agureyrishferð betri skil en gert var. Margir munu reiða sig á frásagnir þess af hvers kyns gleðskap sér til dægrastyttingar, og í sumum tilfellum til upprifjunar. Eftir vandlega íhugun hefur Skáldið því ákveðið að rita öllu nákvæmari frásögn af dögunum 13. - 16. mars, bæði til að gleðja dygga lesendur, en þó einkum fyrir sagnfræðinga og bókmenntafræðinga framtíðarinnar, það á víst að fara að kenna blogg í sjálfum Háskóla Íslands, maður verður nú að sjá þessum greyjum fyrir rannsóknarefnum. Ekki meira bull, byrjum frásögn.

Saga vor hefst þegar mikið lið safnaðist saman í Heiðarás í Árbæjarhverfi. Voru þar á ferð Viffi og Alda, Stebbi, Vignir, Eyfi og Gústi, og að lokum Magnús frá Þverbrekku ásamt sjálfu Jarlaskáldinu. Lagði hópur þessi af stað á þremur bílum um sjöleytið, en áður höfðu Toggi og frú og Andrésson og frú lagt í hann frá öðrum stöðum. Gekk leiðin norður áfallalaust, skemmti Jarlaskáldið sér hið besta ásamt bílstjóranum Magnúsi, ekki síst í ljósi þess að aðeins annar okkar dreypti á áfengi á leiðinni. Vorum komnir til Agureyrish stuttu eftir miðnætti, og Skáldið þá orðið hið kátasta af ýmsum orsökum, hið sama mátti segja um aðra er vermdu farþegasæti hverrar bifreiðar. Eitthvað vesen var að redda lyklum að íbúðunum, svo byrjað var á að skunda á ölkrána Dátann, og nýta sér þar kostatilboð er hljóðaði upp á fötu á 1500. Að því loknu kom í ljós að bílum hafði fækkað allverulega á svæðinu, og neyddist því Skáldið ásamt Vigni að sitja á pallinum á Hiluxnum hans Viffa síðasta spölinn í hús. Ekki var það þægilegt.
Upphafleg áætlun hafði verið sú að fara í háttinn skömmu eftir komu til að vera hressir á skíðin daginn eftir, en sakir þess hve upphitunin á leiðnni hafði gengið vel fauk sú áætlun út í veður og vind, og upphófst hið ágætasta partý. Vakti þar sérleg Ítalíuspóla Jarlaskáldsins mikla lukku, en hún innihélt alla helstu slagarana frá rómaðri Ítalíuför flestra partýgesta, lög eins og Living on a Prayer, Life is Live, YMCA, Smoke on the Water, Hey Baby, og að sjálfsögðu allt með viðbættum Eurotakti undir. Jarlaskáldið mun hafa sofnað svefni hinna réttlátu einhvern tímann undir morgun, og kann því ekki frá fleiru að segja, en að sögn var galsinn þá hvergi nærri hættur.

Skáldið vaknaði eftir lítinn svefn að morgni föstudags, og var þá merkilegt nokk ekki í áætluðu fleti sínu heldur á sófanum. Ekki í fyrsta sinn, ekki í það síðasta. Viffi brá sér í bakarí og reddaði brauðmeti, að því loknu var svo skundað upp í fjall (með viðkomu í Ríkinu vitaskuld). Ekki leit fjallið glæsilega út, nánast enginn snjór á neðra svæðinu, en virtist skárra ofar. Veðrið var reyndar frábært, sól og logn, það bætti úr. Var svo skíðað eftir megni fram eftir degi, og fátt markvert sem gerðist á þeim vígstöðvum. Færið var fyrst hart, en blotnaði allhressilega er leið á daginn, minnti meira á sjóskíði undir lokin. Entust menn mislengi, Jarlaskáldið þraukaði alveg til sjö þegar lokaði ásamt nokkrum öðrum, var þreytan þá orðin allyfirgengileg. Rugl dagsins var þegar Skáldið pantaði sér grillaða samloku, og þessir agureyrsgu vitleysingar grilluðu hana vafða í bréfsnifsi, sem leiddi til þess að samlokan varð bréfloka. Skipti Skáldið henni fyrir roastbeef samloku, sem það skipti svo aftur við Eyfa fyrir hálft Price Polo, 400 kall fyrir það er nú sæmilegt.
Eftir skíðin þaut liðið í sund, og keypti svo pizzur, og að því loknu gátu hefðbundin aðalfundarstörf loks hafist af alvöru. Byrjuðum á að horfa á Disneymyndina Tómasínu, að vísu án hljóðs, en smátt og smátt tóku hljómflutningstækin völdin, sem síðar kom í ljós að var við litla kátínu ýmissa nágranna. Hafði heldur fjölgað í hópnum þegar þarna var komið sögu, suma þekkti Skáldið, aðra ekki, og suma þekkti kannski enginn, bara eitthvað lið sem droppaði inn. Eftir heilmikið havarí hélt svo liðið niður í bæ, og varð Kaffi Akureyri fyrir valinu, að sögn. Mun stemmning þar hafa verið heldur döpur, engu að síður entist liðið þar fram eftir nóttu, þar til flestir rötuðu heim, höldum við.

Á laugardagsmorguninn vaknaði Skáldið enn og aftur í sófanum, greinilegt að þetta lærist seint, og var dagskráin þennan dag keimlík gærdeginum. Með nokkrum útúrdúrum. Fyrst byrjaði Alda á því að taka ansi væna byltu í fyrstu ferð niður sem hafði glæsilegt glóðarauga og fleira skemmtilegt í för með sér, fór á slysó, heldur endasleppt hjá henni. Hún tapaði þó ekki gleðinni, sem er mikilvægt. Einhverjir voru enn heldur eftir sig eftir gærkvöldið og létu eina (vafasama) ferð niður brekkuna nægja, settust svo að sumbli og gerðu grín að antikbúnaði Jarlaskáldsins í bland við almenn drykkjulæti. Eftir skíði klukkan fimm var svo sund, og gátu því hefðbundin aðalfundarstörf hafist í fyrra fallinu. Áttum við pantað borð á Greifanum klukkan hálfníu, og var tíminn þangað til óspart nýttur. Maturinn á Greifanum varð svo í meira lagi sögulegur. Eins og Gneistinn varð líklega var við var Skáldið orðið hið hressasta þegar þangað var komið. Pantaði það sér pizzu al Fuego, og með því bjór, appelsín, rauðvín og vatn. Einhverra hluta vegna þótti starfsfólkinu þjóðráð að gera Skáldið að skotspæni heilmikils gríns, því þegar drykkirnir komu á borðið fylgdu með litabók og vaxlitir, smekkur og glas með pelastúti ofan á. Vakti þetta eðlilega nokkra kátínu, ekki síst þegar smekkurinn var kominn á sinn stað og rauðvínið ofan í pelann. Ekki veit Skáldið hvað vakti fyrir ágætu starfsfólki greifans, en æsti sig ekki mikið yfir þessu þegar í ljós kom að það fékk frostpinna og flottan bol með áletruninni „Litli greifinn“ fyrir að klára matinn sinn. Það var greinilega ekki gert ráð fyrir á Litli greifinn væri stór, ef þið skiljið.
Eftir þessa ágætu máltíð var haldið aftur í heimahús, og hófst þá gleðskapurinn af alvöru. Fullt af liði af svæðinu, en skemmtilegast var þó að sjá sæmdarhjónin Hauk og Ragnheiði, ferðafélaga frá Ítalíu, þau litu í heimsókn og tjúttuðu eins og þau hefðu aldrei gert annað. Fimmtugt lið að djamma með „villimönnunum“, eins og þau kalla okkur. Um tvöleytið kom svo babb í bátinn. Heldur misþroska Securitaskappar mættu á svæðið og vildu henda öllum út. Upphófst þá mikil orrahríð, þar sem lögfræðingurinn og sálfræðingurinn á svæðinu fóru einna fremstir í flokki, þar til einhver fattaði að það væri hvort sem er að verða of seint að fara í bæinn svo allt liðið strollaði út að lokum. Endaði förin sú á þeim arma stað Kaffi Amor, og er Jarlaskáldið slæm heimild um atburði þar. Minnist þess þó að hafa verið fleygt út ósjaldan, og ekki alltaf verðskuldað, en jafnan stormað inn aftur við fyrsta tækifæri. Ræddi við dyraverðina nokkrum sinnum á nokkuð kjarnyrtu máli, en náði þó að hanga inni fram að lokum, og eflaust komist heim á endanum.

Ekki vaknaði Skáldið á sunnudagsmorguninn og fór upp í fjall, heldur eftir hádegi, og að sjálfsögðu í sófanum, sem það hafði tekið nokkru ástfóstri við. Var heilsan nokkuð farin að daprast eftir þriggja daga aðalfundarstörf, og tók því þann kostinn að þiggja fyrsta far með Viffa og Öldu í bæinn, þótt það þýddi að það þyrfti að kúldrast aftur í Hiluxnum, sem verður seint sagður rúmgóður. Komst til byggða á áttunda tímanum eftir aðra áfallalausa ferð, og var enn að glíma við eftirköst AGUREYRISH 2003 í gær. Geri aðrir betur.

Að öðru. Atli týr Ægisson gerist svo óforskammaður að halda því fram að kominn sé fram á sjónarsviðið meiri partýbloggari en Jarlaskáldið. Aðrar eins svívirðingar hefur Skáldið varla nokkurn tímann heyrt, og krefst réttlætis. Atli Týr hefur 48 stundir til að draga orð sín til baka, en tekur ellegar afleiðingunum. Þær verða grimmilegar, framkvæmdar á tíma að vali Jarlaskáldsins.

Að enn öðru. Aumingjabloggarinn hefur einnig 48 stundir til að sýna fram á að hann sé ekki dauður úr öllum æðum, en tekur ellegar afleiðingunum. Þær verða grimmilegar, framkvæmdar á tíma að vali Jarlaskáldsins.

þriðjudagur, mars 18, 2003 

Agureyris

Jarlaskáldið var á Agureyri um helgina. Þar voru líka fjölmargir vinir Skáldsins. Þar var skíðað og drukkið, stundum hvort tveggja í einu, sumir fóru á slysó, aðrir fengu smekk og litabók, öllum var hent út, og allir skemmtu sér hið ágætasta. Eru þá ekki bara allir í stuði? Nennir Skáldið ekki að skrifa langa ferðasögu, lesiði bara eitthvað gamalt partýblogg, og margfaldið svo með fimm.

Vill Skáldið að lokum taka það fram að það var hið ánægðasta með síðasta GB-þátt, orðnar passlega þungar spuringarnar, án þess að tapa skemmtanagildinu, greinilegt að fyllerísröfl Skáldsins í ágætum dómara þáttarins á Hverfisbarnum hefur borið árangur. Meira svona.

fimmtudagur, mars 13, 2003 

Miðvikublogg ið ellefta

Það fór eins og Jarlaskáldið grunaði, afturendinn var lítið skárri í morgun en í gær og tók Skáldið því þann kostinn að snúa sér bara á hina hliðina og sofa til hádegis. Sem var alls ekki slæmt. Er jafnvel að spá í að endurtaka leikinn á morgun, því enn er sá óæðri afar ósáttur við þá meðferð sem hann hlaut í gær. Að vísu er nú ekkert sérstaklega gaman að hanga bara og horfa á sjónvarpið allan daginn, en það hlýtur að venjast. Svo þurftu þessar helvítis alþingisframboðsræður að eyðileggja kvöldið fyrir manni, enginn Ed og ekkert '70s show, hvað á maður þá að gera? Horfa á Fólk með Sirrý? Fyrr myndi maður éta súrt selspik.

Á morgun dregur svo til tíðinda þegar sparnaður síðustu daga fýkur út í veður og vind, Agureyrishferð 2003 stendur fyrir dyrum. Eins og fyrr hefur verið greint frá stefnir múgur og margmenni norður í land í þeim tilgangi að skíða þar niður fjöll, þótt líklega vanti dáldið upp á snjóinn, en þá snýr maður sér bara að hinu viðfangsefninu. Jarlaskáldinu hefur samkvæmt nýjustu fréttum verið skipað í sæti í drossíu Magnúsar Blöndahl, og er brottför áætluð um sexleytið á morgun eða svo, sem þýðir væntanlega um áttaleytið fyrst Magnús er á bílnum. Nánari umfjöllun um ferð þessa má lesa hér. Á sama vettvangi sá Jarlaskáldið að einhverjir óprúttnir aðilar hafa verið að taka myndir af Skáldinu í annarlegu ástandi og birta þær á netinu. Af hverju man maður ekki eftir þessum myndatökumanni? Skrýtið.

miðvikudagur, mars 12, 2003 

Gaman

Hahahahahahahahahahahah!!

 

Boruglenna

Þriðjudagar eru vondir dagar. Versti dagur vikunnar.

Jarlaskáldið mætti eins og venjulega í vinnuna í dag, mikið er það komið með leið á þessari vinnu, getur ekki beðið eftir því að komast á Nesjó enn eitt skiptið. Allavega var Skáldið staðráðið í því að reyna að gera eitthvað af viti í dag, og úr varð að bregða sér á snjóbretti. Hringdi í mann og annan en enginn nennti með, svo Skáldið fór bara einsamalt, maður er nú orðinn fullfær um að renna sér einn. Ekki byrjaði það vel, Woffinn gafst upp þegar um kílómetri var eftir upp í Bláfjöll og drap á sér, en Skáldinu tókst eftir dúk og disk að koma honum aftur í gang og komast á svæðið. Var afar fámennt í fjallinu, sennilega innan við tvöhundruð manns. Eigi að síður hitti Skáldið eitt kunnuglegt andlit. Í fyrstu ferð kom í ljós að færið var ekki upp á sitt besta, hart og jafnvel ís á köflum. Ekkert sem Skáldið er svo sem ekki vant, maður bara brunaði hraðar og sleppti því að beygja, það gekk fínt.
Eftir nokkrar ferðir niður Gilið ákvað Skáldið að prófa að fara niður Öxlina. Á leiðinni niður álpaðist það svo inn á sérmerkt snjóbrettasvæði, þar sem var búið að reisa stökkpalla allvolduga. Hugsaði Skáldið sér gott til glóðarinnar, fátt jafngaman og að svífa um loftin blá. Eða svo hélt það. Fyrir ofan voldugasta pallinn voru nokkrir strákpjakkar sem renndu sér á lúsarhraða niður og stukku hátt á einn meter og duttu svo. Skáldið sá að betur mætti ef duga skyldi og hóf atrennu sína að pallinum allnokkru ofar í brekkunni en strákpjakkarnir. Reiknaðist því til að þannig ætti að takast að svífa jafnvel eitthvað á þriðja meter, dágott það. Því miður gleymdi Jarlaskáldið einni breytu í reikningsdæmi þessu: núningsviðnámi. Svo virtist sem hið forláta snjóbretti Jarlaskáldsins anno 1990 rynni öllu hraðar niður brekkuna en bretti pjakkanna, og af þeim sökum varð stökkið allmiklu meira en ætlað var, sjálfur Vilhjálmur Einarsson hefði líklega ekkert skammast sín fyrir vegalengdina. Var það mál manna að stökkið hafi verið einkar glæsilegt, a.m.k framan af. Tókst Skáldinu m.a.s. að lenda á réttum kili, og ef klippt hefði verið á útsendingu í sama mund hefði Skáldið mátt stolt við una. En því var aldeilis ekki að heilsa. Þar sem stökkið varð öllu lengra en búist var við lenti Skáldið ekki á áætluðum lendingarstað í þægilegum halla heldur á jafnsléttu, og þar sem þyngdaraflið vill jafnan skipta sér af þessum lendingum varð hún harðari fyrir vikið. Afleiðingin: Skáldið skall með sinn óæðri enda beint í klakann, og er hann allt annað en sáttur við þá meðferð. Afrekið var þó ekki unnið fyrir gýg, því strákpjökkunum þótti svo mikið til stökks þessa koma að Skáldið hlaut bæði aðdáun og virðingu fyrir. Það á sko eftir að hlýja manni í ellinni.
Ekki gafst Skáldið upp við byltu þessa, heldur renndi sér nokkrar ferðir í viðbót, en hefði líklega betur sleppt því. A.m.k. er alveg helvíti óþægilegt að sitja hérna og skrifa þessar línur. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, nú er Skáldið komið með þessa líku fínu afsökun fyrir því að mæta ekki í vinnuna á morgun! Og ef einhver hafði áhyggjur af því, Jarlaskáldið mætir á Agureyrish, hvað sem tautar og raular!

Þriðjudagar eru vondir dagar. Versti dagur vikunnar.

mánudagur, mars 10, 2003 

Iðjuleysi

Já, góðir hálsar, Jarlaskáldið lá í leti þessa helgina, ekkert djamm, ekki neitt. Ástæðan er svo sem ekkert mjög frumleg, alger blankheit, auk þess sem næsta helgi verður væntanlega tekin með trukki. Eitthvað sýslaði maður þó, og ekki var það allt spennandi.

Á föstudaginn var Jarlaskáldið helst í því að slást við herra blogger.com. Hann hefur verið með önugasta móti síðustu vikur (ætli það hafi eitthvað með það að gera að hann var keyptur af google fyrir skömmu?), eins og reyndar flestir hafa væntanlega orðið varir við. Íslensku stafirnir hafa birst sem kassar og alls kyns tákn, en Jarlaskáldinu tókst að lokum að finna tímabunda lausn á því (hægrismella á textann, breyta encoding í western european, ef einhver skyldi ekki vita það). Reyndi líka lengi vel að gera hlekki á gömul skrif, sem hurfu einhvern tímann af síðunni af einhverjum óútskýrðum ástæðum, en gafst upp á því, kannski getur einhver tölvunörd reddað því við tækifæri. Ansi bagalegt, því þegar þessi færsla verður birt hverfur Ferðasagan góða frá Ítalíu af síðunni.

Á laugardaginn var meiningin að skella sér á snjóbretti, en þar sem enginn nennti að vera Skáldinu samferða varð ekkert úr því, svo dagurinn fór í leti. Spilaði Championship Manager til dauða, vann bæði deild, bikar og Meistaradeildina með Barcelona, sæmilegt það. Um kvöldið varð svo úr að fara á videóleiguna og taka þrjár misgóðar myndir: Orange County (góð), Big Trouble (alltílæ) og Freddy Got Fingered (myndir verða ekki mikið verri). Síðasta myndin var sem betur fer ókeypis, Skáldið tók hana eiginlega bara til að sjá hvort hún væri jafnvond og sagt var. Hún er það. Shaq leikur m.a.s. í henni, sem er vont.

Sunnudagurinn fór í álíka leti, sjónvarpsgláp (formúla, fótbolti, körfubolti, o.fl.), meiri CM, en þó aðallega vesenast á netinu við að leita að lögum fyrir Agureyrishdiskinn 2003. Fer hann að líta allvel út, vantar eiginlega bara Halldór Ásgrímsson lagið, og hann verður fullkominn. Agureyrishferðin 2003 er víst eftir litla 4 daga, ekki seinna vænna að klára helvítis diskinn.

föstudagur, mars 07, 2003 

Handbók um íslenskan framburð

Enn hefur Jarlaskáldið neyðst til að taka til í hlekkjasafni sínu. Fyrir stuttu var Dengsi gerður brottrækur sakir aumingjabloggs, og nú hefur Hjörtur framið bloggsjálfsmorð. Í stað þeirra kynnir Skáldið til sögunnar tvo nýja liðsmenn. Fyrst ber að telja jánei-bloggið, sem er á vegum frænku Skáldsins en hún dvelur þessa mánuðina í Hondúras og virðist bera því landi vel söguna. Hinn liðsmaðurinn er öllu verri, en eins og Pálmi Gunnarsson sagði, gleymdu ekki þínum minnsta bróður, en hann (lillebror, ekki Pálmi) á einmitt veg og vanda af þessum vonda vef. Allavega, þið skoðið þetta á eigin ábyrgð.

Í öðrum fréttum er það helst að Jarlaskáldið er allt að braggast eftir pestina litlu, og telur það þjóðráð að halda eina æfingu eða svo um helgina fyrir Agureyrishferðina miklu. Er hér átt við það að renna sér í brekkum, verði til þess veður, í hinu aðalviðfangsefni Agureyrishferðar þarfnast Skáldið tæplega æfingar, það er í ágætis formi.

Horfði Skáldið líkt og venjulega á Gettu betur í kvöld, ekki voru þau góð liðin í kvöld, annað sýnu verra. Þurfti m.a.s. samúðarstig til að komast í tveggja stafa tölu. Þó svo að Skáldið sé enn á því að spurningarnar (einkum hraðaspurningarnar) séu í það léttasta má dómarinn eiga það að spurningarnar hafa sjaldan eða aldrei verið skemmtilegri. Vonandi verða spurningarnar aðeins þyngri í næstu þremur keppnum, og að lokum leggur Jarlaskáldið til í ljósi „skemmtiatriðis“ M.S.-inga í kvöld að skemmtiatriðum verði sleppt algjörlega í framtíðinni, þetta var hreinlega pínlegt á að horfa.


miðvikudagur, mars 05, 2003 

Miðvikublogg ið tíunda

Fussogsvei, haldiði að maður sé ekki búinn að sér í enn eina pestina þennan veturinn! Kannski ekki sú alvarlegasta sem dunið hefur yfir Jarlaskáldið, en það er nú samt verulega pirrandi að vera með annað hvort Dettifoss lekandi út úr nefinu á manni eða þá allt svo stíflað að nánast þarf að barkaþræða mann til að geta andað. Í ofanálag er svo hálsinn ekkert alltof sáttur, þrátt fyrir að ca. fimm pokar af Vicks hálsbrjóstsykri hafi farið þar um síðustu daga. S.s. ekki gaman, sérstaklega af því maður hefur það hundslæmt en samt ekki nógu slæmt til að liggja bara í fletinu og vorkenna sjálfum sér. Ætli þessi pestagangur í vetur hafi eitthvað með það að gera að Jarlaskáldið vinnur níu tíma á dag inni í kæliklefa? Humm....

Eitt er þó sem gleður, og það er endurkoma hins ágæta sjónvarpsþáttar Ed á skjáinn. Ekki er Skáldið sátt við að upphafslaginu, sem var nota bene með hinni stórgóðu hljómsveit Foo Fighters, hefur verið skipt út fyrir eitthvað annað leiðinlegra lag, en er allsátt engu að síður. Merkilegt að nú eru eiginlega allir uppáhaldsþættir Jarlaskáldsins sýndir í Ríkissjónvarpinu ( Scrubs, '70s Show, Frasier, Gettu betur), af er það sem áður var. Ef Stöð 2 fer ekki að sýna Simpsons aftur fer maður nú bara að íhuga að slíta samningum við hann, það er bókstaflega ekkert af viti þar þessa dagana. Maður getur samt eiginlega ekki kvartað yfir Skjánum, það er álíka heimskulegt og að nöldra yfir því að fólk sé að blogga, hann er þarna ókeypis ef maður vill hann, annars getur maður leitt hann algjörlega hjá sér.

Á morgun verður Eurocardreikningurinn borgaður, og í kjölfar þess má búast við að sparsemi, hagsýni og ráðdeild verði í hávegum höfð hjá Jarlaskáldinu. Yeah right! Reyndar ekkert að gerast næstu vikuna eða svo, en eftir eina átta daga verður Agureyrisferð in seinni, og þá má búast við að allar flóðgáttir peningaveskisins opni. Maður verður nú að leggja sitt af mörkum svo að hjól hagkerfisins snúist, er það ekki? Víst búið að redda annarri íbúð á sama stað fyrir hópinn, það var kannski fullmikið að vera 20+ í einni lítilli íbúð, en aumingja fólkið sem verður í íbúðinni á milli! Núna er bara að krjúpa með hausinn í norðurátt og biðja fyrir snjó, allir saman nú!mánudagur, mars 03, 2003 

Íslenska vegahandbókin

Íslenska vegahandbókin er aldeilis fín bók, en umfjöllun um hana verður að bíða betri tíma, því lesendur þyrstir að vita hvað dreif á daga Jarlaskáldsins um helgina. Sem var þetta:

Föstudagurinn varð eiginlega nákvæmlega eins og spáð hafði verið fyrir um í síðasta miðvikubloggi, með eilitlum útúrdúrum. Skáldið fór sannarlega í vísindaferð með gömlum félögum í íslenskunni, JPV-forlag var svo almennilegt að hella oní okkur, á þakkir skildar fyrir. Annars bara merkilega fróðleg vísindaferð, miðað við margar sem Skáldið hefur farið í, tengdist m.a.s. náminu eitthvað. Ýmsir góðir menn á svæðinu, Aumingjabloggarinn, Hafnfirðingurinn Atli Týr, Skagamaðurinn Sævar ofurplögg, og svo náttúrulega mestmegnis stelpur. Ekki er það nú verra.
Eftir tvo tíma var okkur að lokum fleygt út, og einhverra hluta vegna varð Café Victor næsti áfangastaður. Þar gæddi Jarlaskáldi sér á fyrirtaks Búrrító, og ræddi ýmis andans mál yfir bjórglasi, en upp úr níu hélt það upp á hálendið, alla leið upp í Grafarvog, hvar frú Andrésson bauð til afmælisveislu. Jarlaskáldið var framan af fulli gæjinn í partýinu, enda byrjaði það talsvert fyrr en aðrir, en missti þann titil fljótlega þegar Gústi mætti á svæðið, en hvann hafði einmitt líka verið í vísindaferð, þar sem var sennilega veitt aðeins betur. Annars fór teitin prúðmannlega fram, og fátt meira um hana að segja.
Merkilegt nokk var haldið á Hverfisbarinn síðar um nóttina, þar tókst Jarlaskáldinu m.a. að tala af sér, skamma dómara fyrir of léttar spurningar, og að týna engu, sem er líklega merkilegast. Endaði svo í leigara með alldrukknum Magnúsi um fimmleytið eftir heimsókn á Nonnann, Magnús kveðst ekki muna eftir bílferð þeirri, kannski eins gott hans vegna.
Á laugardaginn var nú ekki beint á stefnuskránni að leita út á lendur skemmtanalífsins, en Jarlaskáldið stóðst ekki mátið þegar því voru boðnar þrjúhundruð milljónir króna fyrir að mæta á djammið. Síðar kom í ljós að það var bara plat, sagt í hálfkæringi. Bull. Hvað sem því líður varð úr að við Stefán enduðum á því að fara tveir niður í bæ, var meiningin að hitta þar félaga Magnús á þeim vonda stað Thorvaldsensbar, en þangað hafði Magnús einmitt lofað að fara aldrei aftur. Merkilegt hvað frítt brennivín getur oft hjálpað til í þeim efnum. Magnús var reyndar svo flottur á því þarna að hann reddaði okkur Stefáni inn fram fyrir röð, og blæddi svo á alla á barnum sem vildu. Vonandi var hann ekki að borga þetta sjálfur. Beibstandard var góður, svo mikið man Skáldið. Meiningin var að halda hér áfram frásögn af atburðum næturinnar, en rétt í þessu var ónafngreind manneskja að hringja og bjóða Jarlaskáldinu þrjú hundruð milljónir króna gegn því að hafa hljótt um þá atburði. Vonandi er þetta ekki líka plat....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates