« Home | Meira GB Enn í þessu partýi, enn jafnelstur. Hér ... » | GB Þetta var létt. Sem er gaman. Verst að fólk þek... » | Þunglyndi Mjök erum tregt tungu at hræra eða lopt... » | Óskar Flottastur: Michael Moore Flottur: Adrien... » | Fauna Hvað gerði Jarlaskáldið af sér um helgina? ... » | Hvað er hér á seyði? Kíkiði bara! » | Saddam og Bush Sorrí, hér verður sko ekki talað u... » | Miðvikublogg ið tólfta Það hafa margir komið að m... » | Agureyris Jarlaskáldið var á Agureyri um helgina.... » | Miðvikublogg ið ellefta Það fór eins og Jarlaskál... » 

mánudagur, mars 31, 2003 

Af gleðsköpum og öðrum hamförum

Þegar vinnu var lokið liðinn föstudag hafði Jarlaskáldið jafnað sig á þunglyndinu sem fylgdi skattaskýrsluskilunum (hvað varð um alla þessa peninga!?) og horfði bjart til framtíðar. Reyndar ekki mjög langt, það fór bara í Ríkið og birgði sig upp af söluvarningi þess. Um kvöldið var Skáldinu svo boðið í samsæti hjá þeim hjónum Gunnari og Védísi í Engjaselinuog var meiningin að glápa þar á Gettu betur og éta nachos. Hvort tveggja gekk prýðilega. Auk húsráðenda mátti þarna finna þau hjónaleysin Hrafnhildi og Elvar, að ógleymdum Sölva Gunnarssyni, sem sýndi komu Jarlaskáldsins mikla athygli. Keppnin sjálf varð lítið spennandi eins og flestir ættu að vita, en engu að síður mátti hafa af henni nokkuð gaman. Undi Skáldið hag sínum vel í þessum félagsskap fram eftir kvöldi en á tólfta tímanum ákvað það að venda kvæði sínu í kross og leita niður á láglendið, nánar tiltekið í Lynghagann hvar fram fór mikil veisla. Voru þar á ferð nýkrýndir sigurvegarar Gettu betur og var Skáldinu tekið með kostum og kynjum. Sem fyrr er frá greint var Jarlaskáldið elst manna, einn fárra veislugesta sem gátu kneifað öl sitt án þess að fremja lögbrot. Ekki að það hafi stoppað neinn, en þó allra síst hina nýkrýndu, og mátti maður hafa sig allan við að halda í við þá. Var veislan annars hin fjölmennasta, og jafnframt góðmenn. Fæsta þekkti Skáldið reyndar, en þarna voru þó nokkrar gamlar kempur og svo mættu keppendur Flensborgarskóla og voru þeir hinir hressustu, einnig mætti Úlfur M.S.-ingur en illu heilli sást hvorki til Ásbjögns né busastelpunnar. Að auki gerði hluti af liði M.H.-inga tilraun til inngöngu en var vísað á dyr, rétt eins og í fyrra, sumt fólk bara lærir ekki af reynslunni. Eitthvað hefur Óminnishegrinn komist í seinni tíma heimildir, samkvæmt einum Flensborgaranum mun Skáldið hafa verið hið hressasta og skipað sér í kvartett ásamt öðrum góðum söngmönnum og sungið Bítlana og Bowie og fleira gott stöff, ósköp væri nú gaman ef Skáldið gæti munað eftir þessu. Seint og um síðir (líklega) mun Skáldið svo hafa ratað í sófa einn kunnugan því og lagst til hvílu, sama sófa reyndar og í sigurveislu M.R.-inga í fyrra. Vaknaði svo á tíunda tímanum morguninn eftir og hitti þá fyrir annan húsráðanda, sem var hinn hressasti með gleðina. Ekki gat Skáldið fundið gleraugun sín, þau fundust undir einhverju drasli hinum megin í húsinu og var annað glerið dottið úr þeim. Gaman. Skáldið þakkaði fyrir sig og keyrði heim, líklega eins gott að það var ekki stoppað af laganna vörðum því blásturspróf hefði líklega haft slæma niðurstöðu.

Þegar heim var komið nennti Skáldið ómögulega að leggjast aftur til hvílu og tók því upp á því að grípa snjóbretti sitt og rúnta upp í Bláfjöll. Þar voru prýðisaðstæður til skíðaiðkunar, að vísu dálítið fjölmennt, og eins og venjulega tókst Jarlaskáldinu að detta með tilþrifum og í þetta sinnið varð mjóbakið fyrir meiðslum. Vont. Fór síðan Nesjavallaleiðina heim, ekki spyrja hvers vegna.

Um kvöldið átti svo bara að taka það rólega, hehe, horfa á Spaugstofuna og Gísla Martein og vera bara almennt plebbi, en það falla víst öll vötn til Dýrafjarðar og á ellefta tímanum var Skáldið komið með kippu í hönd upp í Grafarvog ásamt þeim Stebba og Vigni, en þar hafði Gústi boðið til samdrykkju. Þar voru mál rædd og svona, síðar um kvöldið mætti Adolf á svæðið og enn síðar rataði Sigurgeir þangað. Adolf var okkur til hagsbótar á bíl og keyrði því skrílinn niður í bæ, en Sigurgeir fór eitthvað annað. Þetta endaði að sjálfsögðu allt saman á heimavellinum, þar sem rússneskt kókaín var lykilorðið. Hitti Skáldið þar fyrir pilt sem það hafði farið í steggjapartý með fyrir margt löngu síðan, hann gæti heitið Gummi, og kenndi honum helstu aðferðir við neyslu hins rússneska eðaldrykkjar. Eftir á að hyggja voru kennslustundirnar fullmargar, því það var heldur lágt risið á Jarlaskáldinu daginn eftir þegar það vaknaði loksins til meðvitundar. Aðalástæða heilsubrestsins er þó að sjálfsögðu sú að það gleymdist að fara á Nonnann, slík mistök verða ekki endurtekin.

Vonandi hafði frú Hansen gaman af lestrinum, Jarlaskáldið þakkar hlý orð í sinn garð, og reynir eftir sem áður að passa málfarið, það er nottla bara ekkva sem mar verður að gera. Jæja, farinn að tjilla.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates