« Home | Agureyris Jarlaskáldið var á Agureyri um helgina.... » | Miðvikublogg ið ellefta Það fór eins og Jarlaskál... » | Gaman Hahahahahahahahahahahah!! » | Boruglenna Þriðjudagar eru vondir dagar. Versti d... » | Iðjuleysi Já, góðir hálsar, Jarlaskáldið lá í let... » | Handbók um íslenskan framburð Enn hefur Jarlaskál... » | Miðvikublogg ið tíunda Fussogsvei, haldiði að mað... » | Íslenska vegahandbókin Íslenska vegahandbókin er ... » | Miðvikublogg ið níunda Enn eitt miðvikubloggið, e... » | Blúður Jarlaskáldið skrapp einu sinni sem oftar u... » 

miðvikudagur, mars 19, 2003 

Miðvikublogg ið tólfta

Það hafa margir komið að máli við Jarlaskáldið á liðnum dögum og lýst yfir undrun sinni, vonbrigðum, og í versta falli reiði yfir því að Jarlaskáldið skuli ekki hafa gert umræddri Agureyrishferð betri skil en gert var. Margir munu reiða sig á frásagnir þess af hvers kyns gleðskap sér til dægrastyttingar, og í sumum tilfellum til upprifjunar. Eftir vandlega íhugun hefur Skáldið því ákveðið að rita öllu nákvæmari frásögn af dögunum 13. - 16. mars, bæði til að gleðja dygga lesendur, en þó einkum fyrir sagnfræðinga og bókmenntafræðinga framtíðarinnar, það á víst að fara að kenna blogg í sjálfum Háskóla Íslands, maður verður nú að sjá þessum greyjum fyrir rannsóknarefnum. Ekki meira bull, byrjum frásögn.

Saga vor hefst þegar mikið lið safnaðist saman í Heiðarás í Árbæjarhverfi. Voru þar á ferð Viffi og Alda, Stebbi, Vignir, Eyfi og Gústi, og að lokum Magnús frá Þverbrekku ásamt sjálfu Jarlaskáldinu. Lagði hópur þessi af stað á þremur bílum um sjöleytið, en áður höfðu Toggi og frú og Andrésson og frú lagt í hann frá öðrum stöðum. Gekk leiðin norður áfallalaust, skemmti Jarlaskáldið sér hið besta ásamt bílstjóranum Magnúsi, ekki síst í ljósi þess að aðeins annar okkar dreypti á áfengi á leiðinni. Vorum komnir til Agureyrish stuttu eftir miðnætti, og Skáldið þá orðið hið kátasta af ýmsum orsökum, hið sama mátti segja um aðra er vermdu farþegasæti hverrar bifreiðar. Eitthvað vesen var að redda lyklum að íbúðunum, svo byrjað var á að skunda á ölkrána Dátann, og nýta sér þar kostatilboð er hljóðaði upp á fötu á 1500. Að því loknu kom í ljós að bílum hafði fækkað allverulega á svæðinu, og neyddist því Skáldið ásamt Vigni að sitja á pallinum á Hiluxnum hans Viffa síðasta spölinn í hús. Ekki var það þægilegt.
Upphafleg áætlun hafði verið sú að fara í háttinn skömmu eftir komu til að vera hressir á skíðin daginn eftir, en sakir þess hve upphitunin á leiðnni hafði gengið vel fauk sú áætlun út í veður og vind, og upphófst hið ágætasta partý. Vakti þar sérleg Ítalíuspóla Jarlaskáldsins mikla lukku, en hún innihélt alla helstu slagarana frá rómaðri Ítalíuför flestra partýgesta, lög eins og Living on a Prayer, Life is Live, YMCA, Smoke on the Water, Hey Baby, og að sjálfsögðu allt með viðbættum Eurotakti undir. Jarlaskáldið mun hafa sofnað svefni hinna réttlátu einhvern tímann undir morgun, og kann því ekki frá fleiru að segja, en að sögn var galsinn þá hvergi nærri hættur.

Skáldið vaknaði eftir lítinn svefn að morgni föstudags, og var þá merkilegt nokk ekki í áætluðu fleti sínu heldur á sófanum. Ekki í fyrsta sinn, ekki í það síðasta. Viffi brá sér í bakarí og reddaði brauðmeti, að því loknu var svo skundað upp í fjall (með viðkomu í Ríkinu vitaskuld). Ekki leit fjallið glæsilega út, nánast enginn snjór á neðra svæðinu, en virtist skárra ofar. Veðrið var reyndar frábært, sól og logn, það bætti úr. Var svo skíðað eftir megni fram eftir degi, og fátt markvert sem gerðist á þeim vígstöðvum. Færið var fyrst hart, en blotnaði allhressilega er leið á daginn, minnti meira á sjóskíði undir lokin. Entust menn mislengi, Jarlaskáldið þraukaði alveg til sjö þegar lokaði ásamt nokkrum öðrum, var þreytan þá orðin allyfirgengileg. Rugl dagsins var þegar Skáldið pantaði sér grillaða samloku, og þessir agureyrsgu vitleysingar grilluðu hana vafða í bréfsnifsi, sem leiddi til þess að samlokan varð bréfloka. Skipti Skáldið henni fyrir roastbeef samloku, sem það skipti svo aftur við Eyfa fyrir hálft Price Polo, 400 kall fyrir það er nú sæmilegt.
Eftir skíðin þaut liðið í sund, og keypti svo pizzur, og að því loknu gátu hefðbundin aðalfundarstörf loks hafist af alvöru. Byrjuðum á að horfa á Disneymyndina Tómasínu, að vísu án hljóðs, en smátt og smátt tóku hljómflutningstækin völdin, sem síðar kom í ljós að var við litla kátínu ýmissa nágranna. Hafði heldur fjölgað í hópnum þegar þarna var komið sögu, suma þekkti Skáldið, aðra ekki, og suma þekkti kannski enginn, bara eitthvað lið sem droppaði inn. Eftir heilmikið havarí hélt svo liðið niður í bæ, og varð Kaffi Akureyri fyrir valinu, að sögn. Mun stemmning þar hafa verið heldur döpur, engu að síður entist liðið þar fram eftir nóttu, þar til flestir rötuðu heim, höldum við.

Á laugardagsmorguninn vaknaði Skáldið enn og aftur í sófanum, greinilegt að þetta lærist seint, og var dagskráin þennan dag keimlík gærdeginum. Með nokkrum útúrdúrum. Fyrst byrjaði Alda á því að taka ansi væna byltu í fyrstu ferð niður sem hafði glæsilegt glóðarauga og fleira skemmtilegt í för með sér, fór á slysó, heldur endasleppt hjá henni. Hún tapaði þó ekki gleðinni, sem er mikilvægt. Einhverjir voru enn heldur eftir sig eftir gærkvöldið og létu eina (vafasama) ferð niður brekkuna nægja, settust svo að sumbli og gerðu grín að antikbúnaði Jarlaskáldsins í bland við almenn drykkjulæti. Eftir skíði klukkan fimm var svo sund, og gátu því hefðbundin aðalfundarstörf hafist í fyrra fallinu. Áttum við pantað borð á Greifanum klukkan hálfníu, og var tíminn þangað til óspart nýttur. Maturinn á Greifanum varð svo í meira lagi sögulegur. Eins og Gneistinn varð líklega var við var Skáldið orðið hið hressasta þegar þangað var komið. Pantaði það sér pizzu al Fuego, og með því bjór, appelsín, rauðvín og vatn. Einhverra hluta vegna þótti starfsfólkinu þjóðráð að gera Skáldið að skotspæni heilmikils gríns, því þegar drykkirnir komu á borðið fylgdu með litabók og vaxlitir, smekkur og glas með pelastúti ofan á. Vakti þetta eðlilega nokkra kátínu, ekki síst þegar smekkurinn var kominn á sinn stað og rauðvínið ofan í pelann. Ekki veit Skáldið hvað vakti fyrir ágætu starfsfólki greifans, en æsti sig ekki mikið yfir þessu þegar í ljós kom að það fékk frostpinna og flottan bol með áletruninni „Litli greifinn“ fyrir að klára matinn sinn. Það var greinilega ekki gert ráð fyrir á Litli greifinn væri stór, ef þið skiljið.
Eftir þessa ágætu máltíð var haldið aftur í heimahús, og hófst þá gleðskapurinn af alvöru. Fullt af liði af svæðinu, en skemmtilegast var þó að sjá sæmdarhjónin Hauk og Ragnheiði, ferðafélaga frá Ítalíu, þau litu í heimsókn og tjúttuðu eins og þau hefðu aldrei gert annað. Fimmtugt lið að djamma með „villimönnunum“, eins og þau kalla okkur. Um tvöleytið kom svo babb í bátinn. Heldur misþroska Securitaskappar mættu á svæðið og vildu henda öllum út. Upphófst þá mikil orrahríð, þar sem lögfræðingurinn og sálfræðingurinn á svæðinu fóru einna fremstir í flokki, þar til einhver fattaði að það væri hvort sem er að verða of seint að fara í bæinn svo allt liðið strollaði út að lokum. Endaði förin sú á þeim arma stað Kaffi Amor, og er Jarlaskáldið slæm heimild um atburði þar. Minnist þess þó að hafa verið fleygt út ósjaldan, og ekki alltaf verðskuldað, en jafnan stormað inn aftur við fyrsta tækifæri. Ræddi við dyraverðina nokkrum sinnum á nokkuð kjarnyrtu máli, en náði þó að hanga inni fram að lokum, og eflaust komist heim á endanum.

Ekki vaknaði Skáldið á sunnudagsmorguninn og fór upp í fjall, heldur eftir hádegi, og að sjálfsögðu í sófanum, sem það hafði tekið nokkru ástfóstri við. Var heilsan nokkuð farin að daprast eftir þriggja daga aðalfundarstörf, og tók því þann kostinn að þiggja fyrsta far með Viffa og Öldu í bæinn, þótt það þýddi að það þyrfti að kúldrast aftur í Hiluxnum, sem verður seint sagður rúmgóður. Komst til byggða á áttunda tímanum eftir aðra áfallalausa ferð, og var enn að glíma við eftirköst AGUREYRISH 2003 í gær. Geri aðrir betur.

Að öðru. Atli týr Ægisson gerist svo óforskammaður að halda því fram að kominn sé fram á sjónarsviðið meiri partýbloggari en Jarlaskáldið. Aðrar eins svívirðingar hefur Skáldið varla nokkurn tímann heyrt, og krefst réttlætis. Atli Týr hefur 48 stundir til að draga orð sín til baka, en tekur ellegar afleiðingunum. Þær verða grimmilegar, framkvæmdar á tíma að vali Jarlaskáldsins.

Að enn öðru. Aumingjabloggarinn hefur einnig 48 stundir til að sýna fram á að hann sé ekki dauður úr öllum æðum, en tekur ellegar afleiðingunum. Þær verða grimmilegar, framkvæmdar á tíma að vali Jarlaskáldsins.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates