miðvikudagur, desember 31, 2003 

Auld Lang Syne

Kalkúnn er afbragðsmatur.

Að venju tilnefnir Jarlaskáldið flón ársins. Flóni ársins 2002 tókst að verja titil sinn og er því réttkjörið flón ársins 2003. Þetta er að sjálfsögðu enginn annar en Sturla Böðvarsson.

mánudagur, desember 29, 2003 

My Shining Hour

Nú er sko gaman að vera jeppakall! Ójá! Að horfa á þessa titti liggja eins og hráviði pikkfasta út um allan bæ meðan maður þeysir fram hjá þeim og fram úr þeim veitir slíka lífsfyllingu að það hálfa væri nóg. Lifi snjórinn, lifi bensín!

Að þessu sögðu er kannski ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg, það er jú það sem lesendur leita helst eftir á síðu þessari, krassandi djamm- og ferðasögur. Ekki stundaði Jarlaskáldið mikil ferðalög um helgina, en eitthvað var djammað.

Öðrum degi jóla varði Skáldið í hefðbundna iðju framan af degi, svefn, át og leti. Allt fyrirtaks tómstundaiðja. Þegar kvölda tók fór sími Jarlaskáldsins að ókyrrast, menn og konur víða um bæinn greinilega óð og uppvæg að gleðja sig og aðra, og úr varð að Jarlaskáldið mætti ásamt hluta Kópavogsmafíunnar í Jöklafoldina stuttu síðar, en þar búa einmitt sæmdarhjónaleysin Andrésson og frú. Var þar fyrir nokkur hópur og fór fjölgandi þegar á leið. Skemmtanahald var með rólegum en þó lítt hátíðlegum blæ, urðu menn og konur drukkin svona almennt séð, en enginn náði að gera skandal. Enn sem komið var.
Er líða tók á nótt hélt hópurinn, eða a.m.k. stór hluti hans, niður á láglendið og var meiningin að heimsækja einhvern vandaðan skemmtistað. Illu heilli virtist stór hluti bæjarbúa og jafnvel nærsveitamanna hafa fengið sömu hugmynd og því óhægt um vik að koma sér inn á slíkan stað. Varð þrautalendingin sú að heimsækja því óvandaða staði, skulu þeir ekki upp taldir til að forðast leiðindi eða jafnvel meiðyrðamál. Mun Skáld og aðrir hafa gerst glaðir, en einhvern tímann um kvöldið lenti Skáldið þó í því að missa stjórn á talfærum sínum og hlutust nokkur óskemmtilegheit af. Það tók þó gleði sína fljótt á ný og til að gera langa og lítt eftirmunanlega sögu stutta entist Skáldið vel fram undir morgun við aðalfundarstörfin eða allt það hélt til síns heima ásamt kvenmanni einum og Hlöllabát um sjöleytið. Kvenmaðurinn hélt reyndar til síns heima, svo það fari ekki á milli mála. Þegar Skáldið var heim komið og byrjað að gera Hlöllanum skil hugsaði það með sér: „Nú á ég víst að vera að mæta í vinnuna.“ Það kláraði Hlöllann, slökkti á símanum, og fór að sofa.

Jarlaskáldið var ekki við bestu heilsu laugardaginn 27. desember 2003 en þó ekki nógu slæma því það lét draga sig út í álíka vitleysu og kvöldið áður. Nú var það víst boðið í teiti hjá manni sem það þekkti ekki baun (en gæti allt eins hafa heitið Pétur) á Vegamótum, en áður en að því kom var endurtekin teiti að Jöklafold með nokkurn veginn sömu gestum og sömu afleiðingum og kvöldið áður. Reyndar var ein breyting, horft var á Popppunkt, þar sem Selskælingurinn KGB landaði sigrinum u.þ.b. upp á eigin spýtur. Quisnördar leynast víða.
Á Vegamót mættum við einhverju fyrir miðnætti, náði Lilli eilítið að tefja okkur með smá hurðastælum, en honum hefur verið fyrirgefið það. Þekkti Jarlaskáldið þar fjöldann allan af fólki og það misvel, t.d var þar Karl Óskar Ólafsson íslenskufræðingur með meiru, skötuhjúin Doddi og Védís, að ógleymdum ýmsum fastagestum. Jarlaskáldið átti í jafnt góðum sem slæmum samræðum við fólk þetta, en lét barinn að sjálfsögðu ekki fram hjá sér fara, og endaði þetta, ja, einhvern veginn.

Sunnudagur: Úff!

föstudagur, desember 26, 2003 

Ruglumbull

Jamm, þá er þetta Ésúmömbódjömbó að verða búið, og aldeilis kominn tími til. Jarlaskáldið mun seint teljast til jólabarna. Lítum yfir farinn veg.

Jarlaskáldinu tókst að kaupa jólagjafirnar óvenju snemma í ár, um sexleytið á Þolláksmessu, og tók það ca. 45 mínútur. Beitti Jarlaskáldið aðferð sem oft hefur gagnast því vel, að kaupa aðeins hluti sem það langaði í sjálft með það að markmiði að fá þá lánaða síðar. Þannig er í raun hægt að tvöfalda jólagjafirnar sínar. Sniðugt.

Á Þolláksmessukvöld lét Skáldið plata sig í bæjarrölt þrátt fyrir manndrápskulda. Var það með fríðum flokki Vínverja sem Skáldið arkaði fyrst niður og svo upp Laugaveginn og endaði loks heima hjá þeim ágæta manni Reyni á Framnesveginum sem bauð öllu liðinu í heitt kakó sem rann ljúflega niður við tregafullt undirspil Bassajóladisksins. Var dvalið þar í góðu yfirlæti fram yfir miðnætti og svo haldið heim í bælið.

Ekki svo löngu síðar vaknaði Skáldið og fór í vinnuna. Klukkan sjö. Ekkert annað en mannréttindabrot. Þar var að sjálfsögðu minna en ekkert að gera svo Skáldið hélt heim um hádegi eftir lítt annasaman dag. Ekki gerðist mikið næstu tímana, ekki fyrr en um þrjúleytið þegar Skáldið heiðraði afmælisbarnið (ekki Ésú heldur þennan kall) sem fagnaði 26 ára afmælinu. Þar var einnig heitt kakó á könnunni og valinkunnur sveina flokkur viðstaddur til að njóta veitinganna. Jarlaskáldið dvaldi þar nokkra stund eða þangað til menn byrjuðu að rífast um pólitík, þá fannst því tími kominn á að hypja sig.
Í jólamatinn var eins og u.þ.b. lengur en Skáldið man Hamborgarhryggur með öllu því meðlæti sem við á, át Skáldið á sig gat og rétt rúmlega það enda hryggurinn afbragsgóður að þessu sinni, þrátt fyrir að vera norðlenskur. Jarlaskáldið átti svo heiðurinn af eftirréttinum, sem var vitaskuld ís. Næsta mál á dagskrá var spurningaspilið Leonardo & co. þar sem Skáldið tapaði með sannfærandi hætti fyrir bræðrum sínum. Ljóta vitleysan. Þarnæsta mál á dagskrá var að opna pakka, og var uppskeran aldeilis ágæt í ár. Hæst ber kannski DVD-spilari og nokkrar myndir frá stóra bróður, féll það í afar góðan jarðveg, annars fékk Skáldið aðallega peysur og boli, sem er sosum ágætt. Gjafir frá Skáldinu virtust einnig fá góðar viðtökur. Jájá, bara nokkuð vel heppnað allt saman.
Að sjálfsögðu var DVD-spilarinn ekki lengi að fá sína eldskírn, og hafa m.a. myndirnar Groundhog Day (snilld) og Marathon Man fengið að rúlla, að ógleymdum hinum frábæra diski LimbóRadíusTvíhöfði sem Skáldið gaf litla bróður. Gangi honum vel að fá hann aftur. Þá sjaldan Skáldið hefur ekki verið límt við sjónvarpið hefur það gluggað í bókina Stupid White Men eftir Michael Moore sem litli bróðir fékk líka, ef eitthvað er að marka hana (um það munu vera deildar meiningar, hehe) er eitthvað virkilega rotið í Kanaveldi. Hringadróttinssaga bíður næst í röðinni, en hana fékk litla systir, og svo fékk gamli maðurinn Bettý svo það verður nóg að gera við lestur á næstunni. Gott gott.

Jóladagurinn hefur venju samkvæmt farið í leti og ómennsku fram eftir degi, í kvöldmatinn átti að vera hangikjöt en þegar til kom reyndist rúmlega helmingur þess vera skemmdur, sem betur fer var keypt ansi ríflegt af hamborgarhryggnum og því nóg eftir af honum, ágætis sárabót það. Jón Ásgeir fær samt orð í eyra eftir hátíðarnar!

Eins og lesendur hafa e.t.v. orðið varir við hefur verið umhleypingasamt í útliti þessarar lítilmótlegu bullsíðu undanfarna daga. Jarlaskáldið er búið að fikta ótæpilega í útliti hennar og það yfirleitt endað með ósköpum, en núna er a.m.k. komið eitthvað útlit á hana sem virkar ágætlega. Auk þess hefur Jarlaskáldinu tekist að bæta við "linkum" á eldri skrif þannig að ef lesendur fýsir að vita hvað það var að sýsla sumarið 2002 er minnsta mál að komast að því. Oseiseijú....

mánudagur, desember 22, 2003 

Hannes Hólmsteinn er snilli!

Það var nú eitt og annað á seyði um helgina. Byrjum þar sem helst skyldi, á byrjuninni.

Föstudagskvöldsins og alls stuðsins þá er áður getið og víkur sögunni því til laugardags. Þá vaknaði Jarlaskáldið á nokkuð sómasamlegum tíma, eða um hádegi, og gerði lítið eitt næstu þrjá tímana. Næsta mál á dagskrá var að sjá þriðju myndina um Hringadróttinssögu, Hilmir snýr heim. Hafði frk. Hrafnhildur útvegað Skáldinu 4 miða á sýningu klukkan 4 og í stað þess að bjóða með sér íðilfögrum yngismeyjum eins og flestir hefðu gert í sömu stöðu valdi Skáldið 3 feita karlmenn, þá Blöndahl, Vigni og Stefán. Var Laugarásbíóið smekkfullt eins og við var að búast svo ekki veitti af að mæta í fyrra fallinu. Um myndina þarf ekki að fjölyrða, snilld, 93 stjörnur af 100 mögulegum. Síðasta korterið sá til þess að hún fær ekki fullt hús.
Eftir ríflega 3 og hálfs tíma setu hélt Skáldið heimleiðis en hafði áður sammælst við þá Stefán og Vigni um að hitta þá í húsakynnum hins síðarnefnda stuttu síðar, horfa á Popppunkt og jafnvel tæma úr nokkrum ölkollum í leiðinni. Fór það eins og ráðgert var, auk okkar þriggja mættu hjónaleysin Þorvaldur og frú á svæðið og var glatt á hjalla þó engin væru skrílslætin. Frú Þorvalds var ólíkt okkur piltunum ekki að neyta göróttra drykkja og var hún því fengin til að skutla okkur í bæinn, ágætis sparnaður það. Var fyrsti viðkomustaður hús eitt við Öskjuhlíðina, fór þar fram einhver fögnuður læknanema og hafði frú Þorvalds lofað okkur einhleypu mönnunum að þar væri fjöldinn allur af lausgirtu og óvandlátu kvenfólki. Reyndust þær fullyrðingar þegar til kom úr lausu lofti gripnar, a.m.k. afrekaði enginn neitt í þeim efnum svo vitað sé til, en þó var nokkur bót í máli að fá öl á skaplegu verði. Annars var samkoma þessi heldur þunnur þrettándi og því haldið lengra niður á láglendið, enn með liðsinni frú Þorvalds. Var meiningin að gera strandhögg á heimavellinum, en þar reyndist heldur fjölmennt, og átti það við um flesta staði sem boðlegir þykja. Varð úr að við álpuðumst inn á hina skuggalegu búllu 11, og tókum þar nokkur létt Fússballspil. Næsti viðkomustaður var samkvæmt traustum heimildum Kaffi List, gott ef Magnús Blöndahl bættist ekki í hópinn þar, allslompaður. Enn var leitað nýrra vígvalla, og næst komið við á Prikinu. Má sá staður muna sinn fífill fegurri, hafi hinn yfirhöfuð einhvern tímann munað sinn fífil fagran. Hvað Jarlaskáldið varðar varð þetta síðasti áfangastaður þess í pöbbaröltinu, það fékk eitthvað óskiljanlegt skynsemiskast og ákvað að hypja sig heim eitt á báti. Vitaskuld kom það þó við á Nonnanum fyrst, og rétt slapp þaðan út áður en til ryskinga kom með pepperonibát í farteskinu. Næst var það leigarinn, og eitthvað fannst Skáldinu bílstjórinn kunnuglegur í útliti. Þegar hann opnaði munninn var ekki lengur um að villast, Oleg Titov, gamli línumaðurinn hjá Fram er hættur í pizzunum og farinn að keyra leigara. Átti Skáldið við hann ágætar samræður á heimleiðinni, merkilegt í ljósi þess að það skildi ca. þriðja hvert orð sem hann sagði. Svo gaf kallinn Skáldinu bara afslátt fyrir að vera Frammari, flottur.

Jarlaskáldið vaknaði klukkan níu morguninn eftir. Hvað í fjáranum gekk því til með slíkri vitleysu?! Jú, það hafði látið plata sig til að vinna þennan dag, Ítalíuferðir borga sig víst ekki sjálfar. Var heilsan merkilega góð miðað við verstu spár, og til allrar hamingju var ekkert að gera í vinnunni. Í hádeginu rættist svo einn helsti draumur Jarlaskáldsins, og það svo um munaði. Var Skáldið sent á KFC til að kaupa í skoltinn á liðinu, og þar var sko ekki skorið við nögl. Ofan í fimm manns þurfti ekkert minna en tvær fötur af kjúlla og franskar með. Loksins hefur Skáldið keypt fötu af kjúlla og það tvær! Einhverra hluta vegna var Skáldið með latara móti eftir átið, hvað sem því olli.

En víkjum þá að öðrum málum.

Mikið hefur Jarlaskáldið hlegið í dag yfir þeirri yfirdrullun sem herra Hólmsteinn hefur fengið hjá Gauta Kristmannssyni í Víðsjánni og Páli Baldvini í Íslandi í dag. Að það skuli hafa verið látið svona mikið með þessa bók sem stenst síðan ekki minnstu kröfur um heimildavinnu er ekkert minna en æðislegt. Kannski að herra Hólmsteinn ætti að kíkja á námskeiðið Aðferðir og vinnubrögð sem Jarlaskáldið tók sælla minninga í íslenskunni fyrir margt löngu? Gott ef þetta er ekki kennt í fyrsta eða öðrum tíma. Neinei, auðvitað eru þetta bara þessir helvítis vinstrimenn að mála skrattann á vegginn, djöfulsins vinstrislagsíða á bæði Víðsjánni og Íslandi í dag eins og öllu öðru á þessum miðlum, allt saman samsæri kommúnista og byltingarhyskis! Bókin er frábær enda skrifuð af besta vini Dabba!

Svo sá Skáldið að Ungir framsóknarmenn hafa sent frá sér ályktun þess efnis að ekki skuli taka Saddam af lífi. Æ hvað það er nú gott að það mál sé þá leyst, og Saddam geti notið jólanna án þess að að hafa nokkrar áhyggjur.

Jarlaskáldið er að sjálfsögðu ekki búið að kaupa eina einustu jólagjöf...

Eins og lesendur sjá hafa orðið nokkrar breytingar á síðunni. Soldið eins og Bítlarnir gerðu við Let It Be, þá er þetta svona "naked" útgáfa. Maður fiktar væntanlega í þessu yfir hátíðarnar....

laugardagur, desember 20, 2003 

Hvað þá?

Jamm, Jarlaskáldið er barasta heima. Á föstudagskvöldi. Sem þýðir náttúrulega að síminn hefur ekki stoppað í kvöld, endalaust af drukknu (og vonandi vergjörnu) kvenfólki að spyrja hví Skáldið sé eigi við skemmtanahald. Það var og.

Aldrei skal Skáldið horfa á Ædol.

Simpsons var óvenju slappur í kvöld. Engu að síður betri en 95% sjónvarpsefnis.

Á morgun fer Skáldið í kvikmyndahús. Þar mun það sjá þriðja og síðasta kafla Hringadróttinsssögu. Gæti orðið ágætt.

Jarlaskáldið hefur milljón ástæður til að vera þunglynt núna. Það bara nennir því ekki. Of mikið vesen.

Hehehe......

miðvikudagur, desember 17, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogfimmta

Jarlaskáldið hefur gaman af kvikmyndum. Það mætti eiginlega ganga svo langt að kalla það bíónörd, en um leið alætu á kvikmyndir. T.d. myndi það líklega nefna The Shawshank Redemption og Dumb & Dumber ef það yrði spurt um uppáhaldsmyndir sínar. Það er nánast afrek að geta nefnt þær í sömu setningu. Snilldarmyndir.

Þó Jarlaskáldið sé duglegt að horfa á myndir kemst það ekki yfir að sjá þær allar. Það hefur t.a.m. hvorki séð þessa mynd né þessa. Önnur myndin þykir víst skelfileg í meira lagi og hrætt líftóruna úr ófárri hræðunni. Hin fjallar um einhvern vírus.

En af hverju er Jarlaskáldið að segja frá þessu? Er þetta hætis hót merkilegt? Jarlaskáldið ætlar sér ekki einu sinni að sjá þessar myndir! Hvern fjárann er það þá að þusa!?

Kannski að skapið lagist eitthvað eftir 28 daga.....



-----------------------------------------------------------------------------------


Í gær fékk Jarlaskáldið jólagjöf, og í stað þess að setja hana undir jólatréð (sem er að vísu ekki komið á sinn stað, og verður líklegast einhver hrísla frekar en tré) eins og siður er opnaði það hana strax eins og óþolinmóður krakkavargur. Það reyndist vera gáfulegt, því í pakkanum (sem var gríðarstór) var einkum að finna ís og osta af öllum stærðum og gerðum sem hefði væntanlega ekki verið girnilegt að háma í sig eftir vikudvöl í stofunni. Jólagjöfin var s.s. frá vinnunni. Auk mjólkurafurðanna fylgdi með ein dýrindis rauðvínsflaska, og líkast til fær innihald hennar ekki heldur tíma til að skemmast. Það held ég nú....

mánudagur, desember 15, 2003 

Kortabók Íslands

Eitt og annað hefur gengið á í lífi Jarlaskáldsins síðan til þess fréttist síðast, var síðasti pistill ritaður aðfararnótt laugardags og stuttu eftir ritun hans gerði Skáldið tilraun til að horfa á NBA-boltann, Dallas gegn Lakers, en játaði fljótlega ósigur sinn fyrir Óla lokbrá. Það hefði kannski átt að veita honum meiri mótspyrnu, því það missti af þeim ánægjulega viðburði að Lakers töpuðu. Því fagna allir góðir menn.

Á laugardaginn var sem fyrr var greint frá áætluð för nokkurra ungmenna í uppsveitir Árnessýslu til að stunda sálarbætandi iðju hvers konar í sumarbústað. Voru það ein 8 ungmenni sem réðust í þann leiðangur, áður er fimm þeirra getið en auk þeirra mættu Snorri inn argi og hjónaleysin Andrésson og Elín frú hans (sko, bara nefnd á nafn og allt).
Var sjálfur Lilli fenginn til að ferja hluta liðsins uppeftir, auk bílstjóra nutu þeir Snorri inn argi og Stefán þess heiðurs að þiggja far með honum, hjónaleysin fóru á sínum fjallabíl og restin með einhverjum Trooper. Í sjálfu sér gerðist ekkert svo markvert í ferð þessari að færa þurfi í annála, var hún hefðbundin að öllu leyti fyrir utan kannski það að Jarlaskáldið mun hafa farið með seinni skipunum í bælið. Var góður rómur gerður að því. Eflaust hafa síðan einhverjir skandalar verið framkvæmdir, þannig er það nú yfirleitt.

Sunnudagurinn, já, þá var að sjálfsögðu komið við á góðum stað á Selfossi á leiðinni heim, en góðir staðir á Selfossi munu annars fágætir. Var það óneitanlega hápunktur dagsins. Þegar heim var komið beið Jarlaskáldsins síðan glaðningur á batman.is. Hressandi.

Þess ber að geta að laugardaginn 14. febrúar næstkomandi, Valentínusardag, verður Jarlaskáldið upptekið. Einhver rómantík í spilinu? Ja, hver veit! Allavega verður étið á Holtinu.

Þess má einnig geta að miðvikudaginn 14. janúar verður Jarlaskáldið ekki síður upptekið, og þá verður alveg örugglega rómantík í spilinu, Jarlaskáldið á stefnumót á barnum í Leifsstöð klukkan 07:30 um morguninn. Aldrei að vita hvernig það endar.

laugardagur, desember 13, 2003 

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag

Segir í einhverju kvæði eftir einhvern kall. Er manni sagt.

Tilvera Jarlaskáldsins hefur ekki verið upp á marga fiska síðan spurðist til þess síðast. Stærstur hluti vikunnar fór í að snúa sólarhringnum á réttan kjöl eftir ævintýri síðustu helgar. Sem var meira en að segja það.

Fyrst að ekkert hefur gerst er kannski ekki úr vegi að segja lesendum hvað er í vændum. Magnús nokkur Blöndudals hafði samband við Skáldið fyrir skömmu, kvaðst hafa komist yfir sumarbústað annað kvöld og bauð þar til veislu. Mun bústaður þessi vera staddur í Brekkuskógi, og þar eð Jarlaskáldið er ekki þekkt fyrir annað en að mæta á alla viðburði sem það hefur heilsu til (og rúmlega það) verður að teljast líklegt að um svipað leyti annað kvöld verði það hið hressasta í ofanverðri Árnessýslu. Eitthvað mun á reiki hverjir verða Skáldinu til selskaps, auk Magnúsar munu þau Stefán frá Logafoldum og Alda vera líkleg auk Hauks sálfræðinema, hvort aðrir munu mæta kemur bara í ljós. Eins og spakur maður sagði eitt sinn: „Við erum hérna til að skemmta okkur, ekki öðrum!“ Ef maður lítur þannig á málið skiptir engu máli hverjir mæta. Oseiseijú.

Óskaplega virðast 32 dagar vera lengi að líða þessa stundina.

Afi gamli er víst 75 ára í dag. Til hamingju með það!

(Þessi mynd er alltaf jafnfyndin)

mánudagur, desember 08, 2003 

Af jeppum

(Uppfært 10. desember með auknum myndskreytingum í boði Runólfs)

Jarlaskáldið náði stórum áfanga í átt að stórmeistaratitli í jeppói um helgina. Þetta er sagan af því.

Saga vor hefst á sjöunda tímanum á föstudaginn. Mætti þá Runólfur nokkur í Kleifarselið til að sækja Skáldið. Er Runólfur þessi Skáldinu lítið eitt kunnugur, m.a. úr árlegri Þórsmerkurferð VÍN, og var hann á forláta Toyota Landcruiser bifreið sinni, svo ekki væsti um Skáldið. Næsti viðkomustaður var Select við Vesturlandsveg, þar sem duglega var gengið á takmarkaðar olíubirgðir heimsins. Á Select hittum við einnig fyrir þá Stefán og Vigni á Willa hins fyrrnefnda og þá Togga og Magnús á Hilux X/C hins síðarnefnda. Þegar allir bílar voru orðnir mettir og með nesti þar að auki í brúsum sáum við sexmenningarnir um að næra okkur sjálfa og héldum svo af stað austur fyrir fjall. Var sú ferð tíðindalaus með öllu og ekki frá neinu að segja fyrr en við komum upp í Hrauneyjar, hvar við hittum fimm ferðalanga til viðbótar á Hilux D/C og Jeep Wrangler. Þegar jeppum hafði verið brynnt að nýju var beygjan tekin í austur og stefnt á Jökulheima við Vatnajökul. Við sama tækifæri afhenti Runólfur Jarlaskáldinu ferðatölvu sem innihélt fjöldann allan af kvikmyndum og Friends-þáttum sem Skáldið skemmti sér yfir það sem eftir lifði ferðar.
Ferðin upp í Jökulheima gekk prýðilega, a.m.k. hvað okkur sexmenninga varðar, fín færð og lítil vandræði þó eitt vafasamt vað hafi neytt okkur til að gera smá krók á leið okkar. U.þ.b. 20 kílómetra frá áfangastað fór síðan að bera á einhverju banki í D/C-num sem ágerðist mjög og var að lokum ákveðið að draga hann aftur niður í Hrauneyjar. Tókum við Runólfur það að okkur, þeir Bogi og Logi stukku aftur í og skildu Willa eftir og Maggi og Toggi fylgdu í humátt á eftir. Olli þetta eðlilega talsverðri seinkun á okkur svo við vorum ekki komnir upp í Jökulheima fyrr en á fjórða tímanum. Þá voru þegar mættir þangað fimmtán fullvaxnir karlmenn, ein kona og eitt hundspott á átta bílum, og höfðu verið svo almennileg að skilja stóra skálann eftir fyrir okkur og kynda upp í honum þar að auki. Var tekið til matar síns við komuna og sumir stútuðu einni bjórkrús eða svo en fljótlega gengið til náða enda mikill dagur framundan.

Risu menn og kona nokkuð snemma úr rekkju, a.m.k. sé miðað við hvenær lagst var í bælið, og tóku hefðbundin morgunverk við af því. Áætlunarverk dagsins var að keyra upp í Grímsvötn ef þess væri nokkur kostur og gista um nóttina. Aðstæður voru svona bærilegar, stillt veður og þurrt en fullhlýtt þar eð hiti var yfir frostmarki og mikill skýjabakki yfir jöklinum. Engu að síður voru menn bjartsýnir og fór mikil skipulagning í gang. Alls voru 22 mannverur á 11 bílum á svæðinu auk hundsræksnisins, og fyrir jeppanörda er víst nauðsynlegt að telja þá upp:

3 Toyota Landcruiser
2 Toyota Hilux D/C
1 Toyota Hilux X/C
1 Mitsubishi L-200
1 Jeep Wrangler
1 Isuzu Trooper
1 Nissan Patrol
og að lokum náttúrulega eitt stykki Willy.

Brenndu fjórir þessara bíla bensíni en aðrir grút. Undir þeim öllum voru 38 tommu dekk og skal jeppanördaskap hér með hætt.

Var ákveðið að skipta hópnum í tvennt og vorum við sexmenningarnir í seinni hópnum. Var örstutt upp að jökuljaðrinum og fyrsta dekkjaúrhleyping þar. Í þessum seinni hóp var helvítis hundspottið og tókst honum þarna að sleppa frá eiganda sínum og vegna þess hve heimskt kvikindið var tók ca. klukkutíma að ná því aftur inn í bíl. Er eitthvað til heimskara en þessi dýr? Gekk ferðin upp jökulinn síðan vel enda för eftir fyrri hópinn til að fylgja en fljótlega fór skyggni að spillast og færið um leið. Þá varð að frelsa aðeins meira loft úr dekkjum og fljótlega vorum við búnir að ná fyrri hópnum. Var svo mjatlað upp jökulinn í hægðum sínum, reglulega þurfti að kippa bílum upp úr festum og var enginn að gera betri hluti en nokkur annar. Jarlaskáldið bar fyrir sig fótarmein þegar kom að þessum hasar og dundaði sér við það að glápa á snilldina Happy Gilmore og Friendsþætti á tölvunni á milli þess sem það fylgdist með hvernig förinni miðaði á GPS kortinu. Það var hvort sem er ekkert að sjá út úr bílnum annað en hvítt.
Engin er jeppaferð nema dekk séu rifin og auðvitað tókst það, var þar á ferð Landcruiserinn með hundinn og þurftum við Runólfur að keyra langa leið til baka með drullutjakk til að redda málum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði Krúsanum tekist að fá nagla í dekkið uppi á jökli og auk þess hafði drullusokkurinn rekist í það og rifið það svo það fóru ófáir tappar í að loka þessum götum.
Þegar þessu hafði verið reddað héldum við för áfram upp jökulinn og að þessu sinni með Togga skíðandi í spotta á eftir okkur. Færðin varð alltaf erfiðari og erfiðari og um fimmleytið gekk hvorki né rak hjá flestum. Þótti helstu stærðfræðingum ljóst að með sama áframhaldi myndum við komast upp í Grímsvötn einhvern tímann daginn eftir og upphófst nokkur reikistefna um hvað gera skyldi. Að lokum urðu allir ásáttir um það að snúa við, þá í tæplega 1400 metra hæð, og fórum við Runólfur þar fremstir í flokki og enn með Togga í eftirdragi, var hraðinn töluvert meiri á leiðinni niður einhverra hluta vegna með tilheyrandi hoppi og híi fyrir bæði okkur Runólf og Togga. Þegar við vorum svo komnir talsvert neðar fór að bera á nokkrum krapa og alveg neðst við jökulröndina beið okkar Runólfs myndarlegur krapapyttur sem við festum okkur kirfilega í. Tók litla stund að draga okkur upp og var síðan fundin önnur leið niður og vorum við komnir aftur niður í Jökulheima nálægt áttaleytinu.
Eins og gefur að skilja voru menn bæði svangir og þyrstir þegar í hús var komið svo strax var tekið til við eldamennsku og glasalyftingar. Vorum við sexmenningar með veglegt lambalæri með okkur og var það sett í álpappír á kolin þegar þau voru orðin heit. En þá kom babb í bátinn. Kolin dóu, og lambalærið eins hrátt og það gat verið. Ekki var hægt að hringja á Dominos, og heldur langt í næstu búð, svo úr vöndu var að ráða. Ekki dóu grillmeistararnir ráðalausir, heldur skelltu bara grillgrind ofan á gaseldavélina og grilluðu lærið þar. Með þessari og ýmsum öðrum patentlausnum tókst að elda mat ofan í á annan tug manna og konu sem bragðaðist aldeilis hreint prýðilega. Að öðru leyti fór kvöldið fram á hefðbundnum nótum, aðalfundarstörf stunduð í hvívetna og mikið stuð þegar tveir gítarleikarar létu ljós sitt skína. Skáldið fór hið sáttasta í bælið, hvenær sem það var.

Jarlaskáldið var ekki síður sátt þegar það vaknaði á ellefta tímanum daginn eftir, því engir iðnaðarmenn voru að sýsla í kollinum á því og heilsan öll hin besta. Morgunverkin voru hefðbundin, og svo kofarnir þrifnir í snarhasti. Ekki höfðu leiðangursmenn fengið nóg af jeppói og var því ákveðið að fara svokallaða Breiðbaksleið heimleiðis. Er þá farið yfir Tungnaá á vaði og ekið um Tungnaárfjöllin meðfram Langasjó og endað inni á Fjallabaki nyrðra. Þessa leið er ekki að finna á mörgum kortum, og átti eftir að verða afdrifarík ákvörðun.
Lagt var af stað um hádegisbil og ekið að Tungnaá. Þar fór einn Landcruiserinn fyrstur út í, hlammaðist niður með frammdekkin og sat fastur. Kostaði sú festa tvo drullusokka. Fór þá einn út í í vöðlum og í ljós kom að áin var grunn og greiðfær, Krúsinn hafði bara valið versta stað. Hinum megin við ánna ókum við upp á fjallgarðinn og reyndum að fylgja stikum, sem reyndist fljótlega örðugt vegna dapurs skyggnis. Runólfur var fyrir einskæra heppni með GPS-track í tölvunni fyrir þessa leið og því kom það í hlut okkar að leiða förina. Gekk það nokkuð kostulega á köflum, Jarlaskáldið glápti á tölvuna og kallaði út leiðbeiningar, hægri hér, meira til vinstri, hér kemur brekka o.s.frv., og stundum hallaði bíllinn ískyggilega á hliðina, en að lokum tókst okkur að komast yfir fjallgarðinn og niður á sléttlendi. Voru ekki allir jafnfljótir í förum og því beðið eftir að hópurinn náði saman, við það tilefni ákvað Runólfur aðeins að leika sér með þeim afleiðingum að minnstu mátti muna að hann prjónaði yfir sig, a.m.k vorum við nær lóðréttir og höfðu framdekkin yfirgefið jörðina á leið upp einn brattann. Gaman.
Eftir kannski 20 mínútur voru allir komnir og haldið áfram, var hægt að spretta nokkuð úr spori því um sléttlendi var að fara og skyggnið orðið prýðilegt. Sá Jarlaskáldið fram á með því áframhaldi að vera komið um tíuleytið heim. Ekki datt því hug þá að það yrði sannspátt. Fljótlega fóru fyrstu bílavandræði að gera vart við sig, að vísu léttvæg, sjálfskipting hafði ofhitnað og ekkert að gera nema hinkra aðeins á meðan hún kólnaði. Gekk ferðin annars vel þangað til við vorum ca. 200 metra frá Fjallabaksleið. Þá tókst báðum D/C-onum að festa sig, annar datt niður gegnum klaka hægra megin og lá fastur, en tókst fljótlega að losa, hinn pommsaði ofan í á með húddið og fékk vatn inn á vélina. Ekki gott mál. Tók upp undir tvo tíma að losa hann og þurrka það sem hafði blotnað, sem betur fer var þetta einn bensínbílanna.
Má segja að þessi seinni festa hafi verið ákveðinn vendipunktur, því eftir hana fór allt að ganga á afturfótunum. Fyrst lenti hópurinn í að elta för sem leiddi hann út í vitleysu svo snúa þurfti við tvisvar sinnum. Við Kirkjufellsvatn gekk síðan brösuglega að finna færa leið og tafði nokkuð. Þegar við héldum þaðan heyrðum við í talstöðinni að aftasti bíllinn, Jeep Wrangler, hafði fest sig í krapa og fóru tveir bílar að aðstoða hann en við Runólfur og aðrir héldu áfram. Við brúna yfir Jökulgilskvísl hjá Landmannalaugum stoppuðum við svo og byrjuðum að bæta í dekk, voru þar einnig þeir Stebbi og Maggi ásamt einum Landcruisernum, aðrir voru farnir áfram. Barst okkur þá kall um aðstoð, Wranglerinn enn pikkfastur. Úr varð að við Runólfur og hinn Landcruiserinn snerum við vopnaðir skóflum og járnkarli en þeir Stefán og Maggi héldu áfram og ætluðu að bíða í Hrauneyjum. Þá var klukkan ca. 22:30.
Það tók fimm tíma að losa Wranglerinn. Var hann gjörsamlega sokkinn í krapa og ís upp fyrir stigbretti og losnaði ekkert þó tveir bílar kipptu í af krafti, færðist bara til í pyttnum. Einnig var reynt að spila hann upp en þegar hann var hársbreidd frá því að velta var því snarlega hætt. Að lokum náðist hann upp eftir að hafa brotið honum leið ca. 30 metra gegnum ís og krapa og var þá hitt og þetta bilað eða skemmt, t.d. brotinn öxull og hjöruliðskross, brotinn brettakantur, beyglaður stuðari og fleira smálegt. Hvort eitthvað fleira væri farið, t.d. loftlæsing, var ómögulegt að segja. Tók nokkra stund að redda þessu og var Wranglerinn bara í afturhjóladrifinu það sem eftir lifði ferðar. Hún var nota bene ekki nærri því búin.
Á meðan við losuðum Wranglerinn hafði byrjað að snjóa og það af sífellt meiri krafti. Þegar við héldum áfram voru a.m.k. förin eftir hina bílana lítt eða ekki sýnileg, og þarf þó nokkuð til þess. Þurfti að draga Wranglerinn upp sumar brekkur en hann reyndist síðan vera minnsta vandamálið, því gamla Landcruisernum tókst að rífa aftur sama dekk og uppi á jökli og tók óratíma að bæta það. Tókst það svona sæmilega þó enn læki örlítið úr dekkinu eftir viðgerð, en allt kom fyrir ekki, eftir nokkur hundruð metra affelgaði bíllinn aftur og þá ákveðið að skilja hann eftir. Ókum við Runólfur svo áfram með tvo nýja farþega í snjókófi og lítt greinilegum förum, sem betur fer gat Jarlaskáldið fylgst með í tölvunni að við værum á réttri leið. Við Sigöldu fór svo loks að glitta í einhver merki um siðmenningu (þó vatnsaflsvirkjanir séu tæplega besta dæmið um hana), vegurinn að sjást og hraðinn að aukast. Sem betur fer fengum við smá dísellögg hjá öðrum bíl svo við gátum brunað áfram heimleiðis. Við Árnes var Runólfur við það að sofna enda búinn að standa í hasar alla nóttina svo Jarlaskáldið tók við stýrinu og ók á Selfoss þar sem við fengum loks eitthvað að éta, sársvangir enda ekki borðað neitt af viti í hálfan sólarhring. Ók Skáldið svo áfram í bæinn og var komið heim til sín klukkan tíu eins og það hafði spáð, þó 12 tímum hafi skeikað, 22 tímum eftir að hafa lagt af stað frá Jökulheimum. Sæmilegt það.

Þess má geta að Jarlaskáldið tók sér frí frá vinnu í dag.

fimmtudagur, desember 04, 2003 

Af eyðslusemi (þetta fer nú að hætta að vera fyndið)

Í dag keypti Jarlaskáldið sér skó. Fékk þá reyndar á ansi góðum díl, en eyðslusemi verður nú samt að kalla þetta. Veskið grætur þessa dagana.

Jarlaskáldið sýndi einnig áður óþekkta hæfileika í dag og tókst upp á eigin spýtur að koma inn á síðuna niðurtalningu fyrir Ítalíuför. Nú þarf enginn lengur að velkjast í vafa um hve langt er í brottför, bara að kíkja hingað og það sést svart á hvítu. Handhægt og notadrjúgt.

þriðjudagur, desember 02, 2003 

Af eyðslusemi og aumingjaskap - part deaux

Hann Lilli varð fyrir fólskulegri árás í nótt! Hann slapp sem betur fer ómeiddur, og er það mikil guðs mildi. Málsatvik voru þau að þegar Jarlaskáldið rölti út á bílastæði í morgun blasti við því furðuleg sjón, stór og ljótur grútarbrennari stóð eins og álfur út úr hól beint fyrir aftan Lilla, sennilega svona 1,5 metra fyrir aftan hann, og varnaði honum útgöngu. Furðaði Jarlaskáldið sig nokkuð á þessari staðsetningu en fljótlega rann upp fyrir því ljós, grútarbrennarinn hafði greinilega gert tilraun til að keyra á Lilla um nóttina! Þannig er mál með vexti að bílastæði þetta hallar eilítið og virðist Skáldinu augljóst að grútarbrennarinn hafi með einhverju móti tekist að láta sig renna niður hallann í þeim tilgangi að klessa utan í aumingja Lilla. Sem betur fer varð honum ekki kápa úr því klæðinu, staðnæmdist sem fyrr segir ca. 1,5 metra frá Lilla. Ekki er ljóst hvað lýsislampanum gekk til með þessu athæfi, líklegt þykir að öfund eigi stóran þátt í þessari grófu atlögu, enda ber Lilli af flestum öðrum jeppum og þá allra helst þeim er brenna lýsi. Var nokkur höfuðverkur að koma Lilla úr stæðinu en með lipurð bæði bíls og bílstjóra og glæsilegum Austin Powers-töktum tókst okkur Lilla að komast úr þessari prísund. Eftir stendur aumingjaskapur grútarbrennarans.

Fleira bar til tíðinda í dag í annars tíðindasnauðu lífi Jarlaskáldsins. Að vinnu lokinni (ef vinnu skyldi kalla) hélt það niður í Lágmúla, setti sig í sínar öflugustu samningastellingar, og hóf að semja um greiðslu á títt nefndri Ítalíuferð við gjaldkera Úrvals-Útsýnar. Eftir stutta og snarpa samningalotu hélt Skáldið heimleiðis glatt í bragði, enda fátt annað en limlestingar og dauði sem gætu komið í veg fyrir brottför 14. janúar næstkomandi. Á móti kemur að næsta hálfa árið mun hr. kredit rukka Skáldið um væna summu hver mánaðamót, en það er í besta lagi, því það er seinna. Jarlaskáldið hefur alltaf talið skammsýni einn sinna bestu kosta. Þetta var eyðslusemin.

43 dagar.

mánudagur, desember 01, 2003 

Af eyðslusemi og aumingjaskap

Djamm um helgina: ekkert. Aumingjaskapur.

Eyðsla um helgina: talsverð.

Já, Jarlaskáldið var hið rólegasta í skemmtanamálum um helgina, sjónvarpsdagskráin var líka með nokkrum ágætum, t.d. Austin Powers in Goldmember og fleira gott, og líka allt í lagi að gefa sér frí öðru hvoru. Samt ekki næstu helgi, meira um það síðar.

Þrátt fyrir þennan aumingjaskap tókst Jarlaskáldinu að eyða eitthvað á þriðja tug þúsunda króna. Flest af því var hefðbundið, maður þarf jú að næra sig og svona, en lunganum af peningunum var eytt um þrjúleytið á laugardaginn. Leit Skáldið þá við í þeirri ágætu verslun Útilíf og var tilgangurinn sá að kanna úrval og verð á snjóbrettum, Ítalíuferð stendur jú fyrir dyrum eins og flestum lesenda ætti að vera fullkunnugt um, og gamla brettið heldur farið að láta á sjá þó það hafi lengi staðið fyrir sínu. Ekki virtist úrvalið ríkulegt við fyrstu sýn, einhver tuttugu snjóbretti stóðu í rekkanum og virtust flest ætluð börnum. Þó leyndust þarna nokkur bretti sem virtust bærileg og þegar Skáldið leit á verðið á einu álitlegu kom það ánægjulega á óvart, búið að strika yfir töluna 43.990 og líma á brettið töluna 19.990. Þetta þótti Skáldinu vera góður díll og eftir að hafa ráðfært sig aðeins við afgreiðslumann og sannfærst um að vera ekki að kaupa köttinn í sekknum hélt það þessum 19.990 krónum fátækara út úr búðinni en brettinu ríkara.
Eitt hafði Skáldið alveg gleymt að athuga við kaupin, og það var hverrar tegundar brettið væri. Á því var flennistór mynd í draugalegum stíl af kvenmannshöfði og hauskúpum en hvergi neitt sem gaf tegundina upp. Að lokum fann Skáldið stafina HR Giger ritaða á brettið og með hjálp Google fann það heimasíðu svissnesks súrreallista sem gegnir þessu nafni. Var síðan öll hin drungalegasta á að líta og eftir litla leit fann Skáldið brettið sitt og söguna á bak við þessa myndskreytingu. Heitir brettið víst Li II, og mun konan á myndinni vera látin eiginkona listamannsins. Afar sorglegt. Má sjá myndina og um leið brettið efst til hægri hér. Eflaust er þessi maður mikill listamaður, a.m.k. á hann heiður skilinn fyrir hönnun Alien-skrýmslisins, svo ekki sé talað um listræna stjórn þeirrar stórkostlegu myndar Killer Condom, en ekki skiptir það Skáldið miklu máli, bara að brettið komi því heilu og höldnu niður snævi þaktar hlíðar Dólómítafjallana og jafnvel eitthvað rúmlega það. Eftir 45 daga.

Næsta helgi? Ekki alveg komið á hreint, en líkur benda til þess að Skáldið fari í jöklarannsóknir ásamt fríðum flokki sveina. Meira um það síðar.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates