Af jeppum
(Uppfært 10. desember með auknum myndskreytingum í boði
Runólfs)
Jarlaskáldið náði stórum áfanga í átt að stórmeistaratitli í jeppói um helgina. Þetta er sagan af því.
Saga vor hefst á sjöunda tímanum á föstudaginn. Mætti þá
Runólfur nokkur í Kleifarselið til að sækja
Skáldið. Er Runólfur þessi Skáldinu lítið eitt kunnugur, m.a. úr árlegri
Þórsmerkurferð VÍN, og var hann á forláta
Toyota Landcruiser bifreið sinni, svo ekki væsti um Skáldið. Næsti viðkomustaður var Select við Vesturlandsveg, þar sem duglega var gengið á takmarkaðar olíubirgðir heimsins. Á Select hittum við einnig fyrir þá
Stefán og
Vigni á
Willa hins fyrrnefnda og þá
Togga og Magnús á
Hilux X/C hins síðarnefnda. Þegar allir bílar voru orðnir mettir og með nesti þar að auki í brúsum sáum við sexmenningarnir um að næra okkur sjálfa og héldum svo af stað austur fyrir fjall. Var sú ferð tíðindalaus með öllu og ekki frá neinu að segja fyrr en við komum upp í
Hrauneyjar, hvar við hittum fimm ferðalanga til viðbótar á Hilux D/C og Jeep Wrangler. Þegar jeppum hafði verið brynnt að nýju var beygjan tekin í austur og stefnt á
Jökulheima við Vatnajökul. Við sama tækifæri afhenti Runólfur Jarlaskáldinu ferðatölvu sem innihélt fjöldann allan af kvikmyndum og Friends-þáttum sem Skáldið skemmti sér yfir það sem eftir lifði ferðar.
Ferðin upp í Jökulheima gekk prýðilega, a.m.k. hvað okkur sexmenninga varðar, fín færð og lítil vandræði þó eitt vafasamt vað hafi neytt okkur til að gera smá krók á leið okkar. U.þ.b. 20 kílómetra frá áfangastað fór síðan að bera á einhverju banki í D/C-num sem ágerðist mjög og var að lokum ákveðið að draga hann aftur niður í Hrauneyjar. Tókum við Runólfur það að okkur, þeir
Bogi og Logi stukku aftur í og skildu Willa eftir og Maggi og Toggi fylgdu í humátt á eftir. Olli þetta eðlilega talsverðri seinkun á okkur svo við vorum ekki komnir upp í Jökulheima fyrr en á fjórða tímanum. Þá voru þegar mættir þangað fimmtán fullvaxnir karlmenn, ein kona og eitt hundspott á átta bílum, og höfðu verið svo almennileg að skilja stóra skálann eftir fyrir okkur og kynda upp í honum þar að auki. Var tekið til matar síns við komuna og sumir stútuðu einni bjórkrús eða svo en fljótlega gengið til náða enda mikill dagur framundan.
Risu menn og kona nokkuð snemma úr rekkju, a.m.k. sé miðað við hvenær lagst var í bælið, og tóku hefðbundin morgunverk við af því. Áætlunarverk dagsins var að keyra upp í Grímsvötn ef þess væri nokkur kostur og gista um nóttina. Aðstæður voru svona bærilegar, stillt veður og þurrt en fullhlýtt þar eð hiti var yfir frostmarki og mikill skýjabakki yfir jöklinum. Engu að síður voru menn bjartsýnir og fór mikil skipulagning í gang. Alls voru 22 mannverur á 11 bílum á svæðinu auk hundsræksnisins, og fyrir jeppanörda er víst nauðsynlegt að telja þá upp:
3
Toyota Landcruiser
2
Toyota Hilux D/C
1
Toyota Hilux X/C
1
Mitsubishi L-200
1
Jeep Wrangler
1
Isuzu Trooper
1
Nissan Patrol
og að lokum náttúrulega eitt stykki
Willy.
Brenndu fjórir þessara bíla bensíni en aðrir grút. Undir þeim öllum voru 38 tommu dekk og skal jeppanördaskap hér með hætt.
Var ákveðið að skipta hópnum í tvennt og vorum við sexmenningarnir í seinni hópnum. Var örstutt upp að jökuljaðrinum og fyrsta dekkjaúrhleyping þar. Í þessum seinni hóp var helvítis hundspottið og tókst honum þarna að sleppa frá eiganda sínum og vegna þess hve heimskt kvikindið var tók ca. klukkutíma að ná því aftur inn í bíl. Er eitthvað til heimskara en þessi dýr? Gekk ferðin upp jökulinn síðan vel enda för eftir fyrri hópinn til að fylgja en fljótlega fór skyggni að spillast og færið um leið. Þá varð að frelsa aðeins meira loft úr dekkjum og fljótlega vorum við búnir að ná fyrri hópnum. Var svo mjatlað upp jökulinn í hægðum sínum, reglulega þurfti að
kippa bílum upp úr festum og var enginn að gera betri hluti en nokkur annar. Jarlaskáldið bar fyrir sig fótarmein þegar kom að þessum hasar og dundaði sér við það að glápa á snilldina
Happy Gilmore og Friendsþætti á tölvunni á milli þess sem það fylgdist með hvernig förinni miðaði á GPS kortinu. Það var hvort sem er ekkert að sjá út úr bílnum annað en hvítt.
Engin er jeppaferð nema dekk séu rifin og auðvitað tókst það, var þar á ferð
Landcruiserinn með hundinn og þurftum við Runólfur að keyra langa leið til baka með drullutjakk til að redda málum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði Krúsanum tekist að fá nagla í dekkið uppi á jökli og auk þess hafði drullusokkurinn rekist í það og rifið það svo það fóru ófáir tappar í að loka þessum götum.
Þegar þessu hafði verið reddað héldum við för áfram upp jökulinn og að þessu sinni með Togga skíðandi í spotta á eftir okkur. Færðin varð alltaf erfiðari og erfiðari og um fimmleytið gekk hvorki né rak hjá flestum. Þótti helstu stærðfræðingum ljóst að með sama áframhaldi myndum við komast upp í Grímsvötn einhvern tímann daginn eftir og upphófst nokkur reikistefna um hvað gera skyldi. Að lokum urðu allir ásáttir um það að snúa við, þá í tæplega 1400 metra hæð, og fórum við Runólfur þar fremstir í flokki og enn með Togga í eftirdragi, var hraðinn töluvert meiri á leiðinni niður einhverra hluta vegna með tilheyrandi hoppi og híi fyrir bæði okkur Runólf og Togga. Þegar við vorum svo komnir talsvert neðar fór að bera á nokkrum krapa og alveg neðst við jökulröndina beið okkar Runólfs myndarlegur krapapyttur sem við festum okkur kirfilega í. Tók litla stund að draga okkur upp og var síðan fundin önnur leið niður og vorum við komnir aftur niður í Jökulheima nálægt áttaleytinu.
Eins og gefur að skilja voru menn bæði
svangir og
þyrstir þegar í hús var komið svo strax var tekið til við eldamennsku og glasalyftingar. Vorum við sexmenningar með veglegt lambalæri með okkur og var það sett í álpappír á kolin þegar þau voru orðin heit. En þá kom babb í bátinn. Kolin dóu, og lambalærið eins hrátt og það gat verið. Ekki var hægt að hringja á Dominos, og heldur langt í næstu búð, svo úr vöndu var að ráða. Ekki dóu grillmeistararnir ráðalausir, heldur skelltu bara grillgrind ofan á gaseldavélina og
grilluðu lærið þar. Með þessari og ýmsum öðrum patentlausnum tókst að elda mat ofan í á annan tug manna og konu sem bragðaðist aldeilis hreint prýðilega. Að öðru leyti fór kvöldið fram á hefðbundnum nótum,
aðalfundarstörf stunduð í hvívetna og mikið stuð þegar
tveir gítarleikarar létu ljós sitt skína. Skáldið fór hið sáttasta í bælið, hvenær sem það var.
Jarlaskáldið var ekki síður sátt þegar það vaknaði á ellefta tímanum daginn eftir, því engir iðnaðarmenn voru að sýsla í kollinum á því og heilsan öll hin besta. Morgunverkin voru hefðbundin, og svo kofarnir þrifnir í snarhasti. Ekki höfðu leiðangursmenn fengið nóg af jeppói og var því ákveðið að fara svokallaða Breiðbaksleið heimleiðis. Er þá farið yfir Tungnaá á vaði og ekið um Tungnaárfjöllin meðfram Langasjó og endað inni á Fjallabaki nyrðra. Þessa leið er ekki að finna á mörgum kortum, og átti eftir að verða afdrifarík ákvörðun.
Lagt var af stað um hádegisbil og ekið að Tungnaá. Þar fór einn Landcruiserinn fyrstur út í, hlammaðist niður með frammdekkin og
sat fastur. Kostaði sú festa tvo drullusokka. Fór þá einn út í
í vöðlum og í ljós kom að áin var
grunn og greiðfær, Krúsinn hafði bara valið versta stað. Hinum megin við ánna ókum við upp á fjallgarðinn og reyndum að fylgja stikum, sem reyndist fljótlega örðugt vegna dapurs skyggnis. Runólfur var fyrir einskæra heppni með GPS-track í tölvunni fyrir þessa leið og því kom það í hlut okkar að leiða förina. Gekk það nokkuð kostulega á köflum, Jarlaskáldið glápti á tölvuna og kallaði út leiðbeiningar, hægri hér, meira til vinstri, hér kemur brekka o.s.frv., og stundum hallaði bíllinn
ískyggilega á hliðina, en að lokum tókst okkur að komast yfir fjallgarðinn og niður á
sléttlendi. Voru ekki allir jafnfljótir í förum og því beðið eftir að hópurinn náði saman, við það tilefni ákvað Runólfur aðeins að leika sér með þeim afleiðingum að minnstu mátti muna að hann prjónaði yfir sig, a.m.k vorum við nær lóðréttir og höfðu framdekkin yfirgefið jörðina á leið upp einn brattann. Gaman.
Eftir kannski 20 mínútur voru allir komnir og haldið áfram, var hægt að spretta nokkuð úr spori því um sléttlendi var að fara og skyggnið orðið prýðilegt. Sá Jarlaskáldið fram á með því áframhaldi að vera komið um tíuleytið heim. Ekki datt því hug þá að það yrði sannspátt. Fljótlega fóru fyrstu bílavandræði að gera vart við sig, að vísu léttvæg, sjálfskipting hafði ofhitnað og ekkert að gera nema hinkra aðeins á meðan hún kólnaði. Gekk ferðin annars vel þangað til við vorum ca. 200 metra frá Fjallabaksleið. Þá tókst báðum D/C-onum að festa sig, annar datt niður gegnum klaka hægra megin og
lá fastur, en tókst fljótlega að losa, hinn pommsaði ofan í á með
húddið og fékk vatn inn á vélina. Ekki gott mál. Tók upp undir tvo tíma að losa hann og þurrka það sem hafði blotnað, sem betur fer var þetta einn bensínbílanna.
Má segja að þessi seinni festa hafi verið ákveðinn vendipunktur, því eftir hana fór allt að ganga á afturfótunum. Fyrst lenti hópurinn í að elta för sem leiddi hann út í vitleysu svo snúa þurfti við tvisvar sinnum. Við Kirkjufellsvatn gekk síðan brösuglega að finna færa leið og tafði nokkuð. Þegar við héldum þaðan heyrðum við í talstöðinni að aftasti bíllinn, Jeep Wrangler, hafði fest sig í krapa og fóru tveir bílar að aðstoða hann en við Runólfur og aðrir héldu áfram. Við brúna yfir Jökulgilskvísl hjá Landmannalaugum stoppuðum við svo og byrjuðum að bæta í dekk, voru þar einnig þeir Stebbi og Maggi ásamt einum Landcruisernum, aðrir voru farnir áfram. Barst okkur þá kall um aðstoð, Wranglerinn enn pikkfastur. Úr varð að við Runólfur og hinn Landcruiserinn snerum við vopnaðir skóflum og járnkarli en þeir Stefán og Maggi héldu áfram og ætluðu að bíða í Hrauneyjum. Þá var klukkan ca. 22:30.
Það tók fimm tíma að losa Wranglerinn. Var hann gjörsamlega
sokkinn í krapa og ís upp fyrir stigbretti og losnaði ekkert þó tveir bílar
kipptu í af krafti, færðist bara til í pyttnum. Einnig var reynt að spila hann upp en þegar hann var
hársbreidd frá því að velta var því snarlega hætt. Að lokum náðist hann upp eftir að hafa brotið honum leið ca. 30 metra gegnum ís og krapa og var þá hitt og þetta bilað eða skemmt, t.d. brotinn öxull og hjöruliðskross, brotinn brettakantur, beyglaður stuðari og fleira smálegt. Hvort eitthvað fleira væri farið, t.d. loftlæsing, var ómögulegt að segja. Tók nokkra stund að redda þessu og var Wranglerinn bara í afturhjóladrifinu það sem eftir lifði ferðar. Hún var nota bene ekki nærri því búin.
Á meðan við losuðum Wranglerinn hafði byrjað að snjóa og það af sífellt meiri krafti. Þegar við héldum áfram voru a.m.k. förin eftir hina bílana lítt eða ekki sýnileg, og þarf þó nokkuð til þess. Þurfti að draga Wranglerinn upp sumar brekkur en hann reyndist síðan vera minnsta vandamálið, því gamla Landcruisernum tókst að rífa aftur sama dekk og uppi á jökli og tók óratíma að bæta það. Tókst það svona sæmilega þó enn læki örlítið úr dekkinu eftir viðgerð, en allt kom fyrir ekki, eftir nokkur hundruð metra affelgaði bíllinn aftur og þá ákveðið að skilja hann eftir. Ókum við Runólfur svo áfram með tvo nýja farþega í snjókófi og lítt greinilegum förum, sem betur fer gat Jarlaskáldið fylgst með í tölvunni að við værum á réttri leið. Við Sigöldu fór svo loks að glitta í einhver merki um siðmenningu (þó vatnsaflsvirkjanir séu tæplega besta dæmið um hana), vegurinn að sjást og hraðinn að aukast. Sem betur fer fengum við smá dísellögg hjá öðrum bíl svo við gátum brunað áfram heimleiðis. Við Árnes var Runólfur við það að sofna enda búinn að standa í hasar alla nóttina svo Jarlaskáldið tók við stýrinu og ók á Selfoss þar sem við fengum loks eitthvað að éta, sársvangir enda ekki borðað neitt af viti í hálfan sólarhring. Ók Skáldið svo áfram í bæinn og var komið heim til sín klukkan tíu eins og það hafði spáð, þó 12 tímum hafi skeikað, 22 tímum eftir að hafa lagt af stað frá Jökulheimum. Sæmilegt það.
Þess má geta að Jarlaskáldið tók sér frí frá vinnu í dag.