« Home | Hvað þá? Jamm, Jarlaskáldið er barasta heima. Á f... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfimmta Jarlaskáldið h... » | Kortabók Íslands Eitt og annað hefur gengið á í l... » | Tilvera okkar er undarlegt ferðalag Segir í einhv... » | Af jeppum (Uppfært 10. desember með auknum myndsk... » | Af eyðslusemi (þetta fer nú að hætta að vera fyndi... » | Af eyðslusemi og aumingjaskap - part deaux Hann L... » | Af eyðslusemi og aumingjaskap Djamm um helgina: e... » | Meiri snjó! Jarlaskáldið hefur ekki sinnt fréttaþ... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfjórða Stundum þegar ... » 

mánudagur, desember 22, 2003 

Hannes Hólmsteinn er snilli!

Það var nú eitt og annað á seyði um helgina. Byrjum þar sem helst skyldi, á byrjuninni.

Föstudagskvöldsins og alls stuðsins þá er áður getið og víkur sögunni því til laugardags. Þá vaknaði Jarlaskáldið á nokkuð sómasamlegum tíma, eða um hádegi, og gerði lítið eitt næstu þrjá tímana. Næsta mál á dagskrá var að sjá þriðju myndina um Hringadróttinssögu, Hilmir snýr heim. Hafði frk. Hrafnhildur útvegað Skáldinu 4 miða á sýningu klukkan 4 og í stað þess að bjóða með sér íðilfögrum yngismeyjum eins og flestir hefðu gert í sömu stöðu valdi Skáldið 3 feita karlmenn, þá Blöndahl, Vigni og Stefán. Var Laugarásbíóið smekkfullt eins og við var að búast svo ekki veitti af að mæta í fyrra fallinu. Um myndina þarf ekki að fjölyrða, snilld, 93 stjörnur af 100 mögulegum. Síðasta korterið sá til þess að hún fær ekki fullt hús.
Eftir ríflega 3 og hálfs tíma setu hélt Skáldið heimleiðis en hafði áður sammælst við þá Stefán og Vigni um að hitta þá í húsakynnum hins síðarnefnda stuttu síðar, horfa á Popppunkt og jafnvel tæma úr nokkrum ölkollum í leiðinni. Fór það eins og ráðgert var, auk okkar þriggja mættu hjónaleysin Þorvaldur og frú á svæðið og var glatt á hjalla þó engin væru skrílslætin. Frú Þorvalds var ólíkt okkur piltunum ekki að neyta göróttra drykkja og var hún því fengin til að skutla okkur í bæinn, ágætis sparnaður það. Var fyrsti viðkomustaður hús eitt við Öskjuhlíðina, fór þar fram einhver fögnuður læknanema og hafði frú Þorvalds lofað okkur einhleypu mönnunum að þar væri fjöldinn allur af lausgirtu og óvandlátu kvenfólki. Reyndust þær fullyrðingar þegar til kom úr lausu lofti gripnar, a.m.k. afrekaði enginn neitt í þeim efnum svo vitað sé til, en þó var nokkur bót í máli að fá öl á skaplegu verði. Annars var samkoma þessi heldur þunnur þrettándi og því haldið lengra niður á láglendið, enn með liðsinni frú Þorvalds. Var meiningin að gera strandhögg á heimavellinum, en þar reyndist heldur fjölmennt, og átti það við um flesta staði sem boðlegir þykja. Varð úr að við álpuðumst inn á hina skuggalegu búllu 11, og tókum þar nokkur létt Fússballspil. Næsti viðkomustaður var samkvæmt traustum heimildum Kaffi List, gott ef Magnús Blöndahl bættist ekki í hópinn þar, allslompaður. Enn var leitað nýrra vígvalla, og næst komið við á Prikinu. Má sá staður muna sinn fífill fegurri, hafi hinn yfirhöfuð einhvern tímann munað sinn fífil fagran. Hvað Jarlaskáldið varðar varð þetta síðasti áfangastaður þess í pöbbaröltinu, það fékk eitthvað óskiljanlegt skynsemiskast og ákvað að hypja sig heim eitt á báti. Vitaskuld kom það þó við á Nonnanum fyrst, og rétt slapp þaðan út áður en til ryskinga kom með pepperonibát í farteskinu. Næst var það leigarinn, og eitthvað fannst Skáldinu bílstjórinn kunnuglegur í útliti. Þegar hann opnaði munninn var ekki lengur um að villast, Oleg Titov, gamli línumaðurinn hjá Fram er hættur í pizzunum og farinn að keyra leigara. Átti Skáldið við hann ágætar samræður á heimleiðinni, merkilegt í ljósi þess að það skildi ca. þriðja hvert orð sem hann sagði. Svo gaf kallinn Skáldinu bara afslátt fyrir að vera Frammari, flottur.

Jarlaskáldið vaknaði klukkan níu morguninn eftir. Hvað í fjáranum gekk því til með slíkri vitleysu?! Jú, það hafði látið plata sig til að vinna þennan dag, Ítalíuferðir borga sig víst ekki sjálfar. Var heilsan merkilega góð miðað við verstu spár, og til allrar hamingju var ekkert að gera í vinnunni. Í hádeginu rættist svo einn helsti draumur Jarlaskáldsins, og það svo um munaði. Var Skáldið sent á KFC til að kaupa í skoltinn á liðinu, og þar var sko ekki skorið við nögl. Ofan í fimm manns þurfti ekkert minna en tvær fötur af kjúlla og franskar með. Loksins hefur Skáldið keypt fötu af kjúlla og það tvær! Einhverra hluta vegna var Skáldið með latara móti eftir átið, hvað sem því olli.

En víkjum þá að öðrum málum.

Mikið hefur Jarlaskáldið hlegið í dag yfir þeirri yfirdrullun sem herra Hólmsteinn hefur fengið hjá Gauta Kristmannssyni í Víðsjánni og Páli Baldvini í Íslandi í dag. Að það skuli hafa verið látið svona mikið með þessa bók sem stenst síðan ekki minnstu kröfur um heimildavinnu er ekkert minna en æðislegt. Kannski að herra Hólmsteinn ætti að kíkja á námskeiðið Aðferðir og vinnubrögð sem Jarlaskáldið tók sælla minninga í íslenskunni fyrir margt löngu? Gott ef þetta er ekki kennt í fyrsta eða öðrum tíma. Neinei, auðvitað eru þetta bara þessir helvítis vinstrimenn að mála skrattann á vegginn, djöfulsins vinstrislagsíða á bæði Víðsjánni og Íslandi í dag eins og öllu öðru á þessum miðlum, allt saman samsæri kommúnista og byltingarhyskis! Bókin er frábær enda skrifuð af besta vini Dabba!

Svo sá Skáldið að Ungir framsóknarmenn hafa sent frá sér ályktun þess efnis að ekki skuli taka Saddam af lífi. Æ hvað það er nú gott að það mál sé þá leyst, og Saddam geti notið jólanna án þess að að hafa nokkrar áhyggjur.

Jarlaskáldið er að sjálfsögðu ekki búið að kaupa eina einustu jólagjöf...

Eins og lesendur sjá hafa orðið nokkrar breytingar á síðunni. Soldið eins og Bítlarnir gerðu við Let It Be, þá er þetta svona "naked" útgáfa. Maður fiktar væntanlega í þessu yfir hátíðarnar....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates