miðvikudagur, október 29, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogannað

Ó vei mig auman! Hvílíkur skepnuskapur, hvílíkar hörmungar! Þetta var u.þ.b. það síðasta sem fór í gegnum kollinn á Jarlaskáldinu áður en Tommi tannlæknir rak inn í ginið á því töng eina allvígalega og bjó sig undir að gera þar mikinn óskunda. Nokkru áður hafði hann rekið sprautu á kaf í tannholdið á því og átti það víst að deyfa Skáldið í kjaftinum en engu að síður leist því alls ekki á blikuna. Næst heyrði Skáldið brak og bresti koma úr tanngarðinum og fann fyrir einhverjum undarlegum þrýstingi og ca. tuttugu sekúndum síðar heyrði það einhver fegurstu orð íslenskrar tungu: „Jæja, allt búið, var þetta nokkuð vont?“ Þetta var nefnilega alls ekkert vont, eiginlega bara hlægilega ekki vont, þó maður mæli kannski ekki með þessu fyrir samkvæmisleiki. Hefur Jarlaskáldið nú beðið í á annan sólarhring eftir því að finna fyrir einhverjum kvölum af þessum völdum en þær hafa haldið sig mestmegnis til hlés hingað til, aðallega óbragðið í kjaftinum sem er óskemmtilegt. Þrátt fyrir að sáralítið amaði að því ákvað Jarlaskáldið að fylgja leiðbeiningum tannlæknisins og taka sér frí úr vinnu í dag, enda öll ástæða til að nýta sér veikindadaga þegar tækifæri gefst. Rifjaði upp kynnin við NBA live 2001 í ljósi nýhafinnar leiktíðar, voru það kærkomnir endurfundir eins og nærri má geta. Á morgun hefst svo grámygla hversdagslífsins aftur, en hey, bara tveir dagar í helgi!

Eiginlega bara eitt slæmt við hvað þessi endajaxlataka var einfalt mál, allir þeir ófáu brandarar sem hægt var að mynda með orðunum „harðjaxl“ eða „bíta á jaxlinn“ misstu talsvert vægi og jafnvel marks. Eins og þeir hefðu getað orðið góðir sumir.

Að öðru. Það styttist með hverjum deginum í hina gríðartilhlökkuðu Ítalíuferð, aðeins 77 dagar þegar þetta er ritað, og ekki skemmir fyrir að líta á vefmyndavélar og sjá að það er byrjaðsnjóa á staðnum. Ólíkt Íslandi t.d. eru nefnilega ágætis líkur á að snjórinn verði þarna enn þá á morgun og jafnvel lengur, og það sem meira máli skiptir, verði þarna um miðjan janúar. 7, 9,13. Og alltaf bætast við hugsanlegir ferðafélagar, í fótboltanum á mánudaginn hittum við Kidda, félaga úr síðustu ferð (sem virðist vera einhvers konar fimleikadrottning en ekki fótboltamaður eins og hann laug að okkur), varð hann allur hinn upptrekktasti þegar við sögðum honum af væntanlegri ferð og ætlaði svo sannarlega að athuga sín mál og sjá hvort þeir Gunni myndu ekki bara drífa sig. Það yrði ekki amalegt.

Það er líklega ekki frá miklu öðru að segja að sinni, nú ætlar Skáldið að fá sér eitthvað að éta, og nota til þess einungis hægri hlið munnholsins. Gæti orðið gaman.

mánudagur, október 27, 2003 

Af afmælum, útskriftum, góðkunningjum lögreglunnar og öðru smálegu

Eins og einhverjir lesendur eflaust uppgötvuðu fagnaði Jarlaskáldið því að vera komið á ofanverðan þrítugsaldurinn (mikið hljómar það illa) á föstudaginn, bárust því fjölmargar afmæliskveðjur og er þeim öllum þakkað sem þær sendu. Þeir sem ekki sendu afmæliskveðjur mega hins vegar fara norður og niður. Reyndar verður að viðurkennast að skemmtanahald Jarlaskáldsins á föstudagskvöld var með tempraðasta móti, leit það við í heimsókn hjá Magnúsi að Þverbrekku ásamt Stefáni þeim er við twist er kenndur, en auk húsráðanda var kollegi hans Haukur á staðnum. Var tæmt úr örfáum ölkollum og hlýtt á fagra tóna Leoncie í bland við alvarlegar samræður um ýmsustu mál, og var teitinni slitið á þriðja tímanum eftir flatbökuát þegar hver hélt til síns heima. Fer ekki meiri sögum af því kvöldi.

Laugardagurinn var öllu tíðindaríkari. Að vísu var hann venju samkvæmt hinn rólegasti fram að kvöldmat, það eina sem Skáldið afrekaði var að fara á McDonalds og glápa á sjónvarp. Fastir laugardagsliðir eins og venjulega, þó breyting hafi verið gerð í vali skyndibitastaðar að þessu sinni. Um kvöldið mallaði móðir Skáldsins svo dýrindis kjúklingarétt, en Skáldið fór sér rólega við matarborðið þar eð því var boðið til veislu stuttu síðar. Voru gestgjafarnir Eyjólfur Magnússon og Ríkey frú hans, og tilefnið meistaragráða í jarðeðlisfræði sem Eyjólfi hafði hlotnast fyrr um daginn. Auk Jarlaskáldsins voru á gestalista þau Magnús frá Þverbrekku, Vignir Jónsson, Stefán Twist, Ágúst Sturla og Alda, en allt mun þetta fólk ólofað, nema hugsanlega einn, auk þeirra skötuhjúin Stefán Geir og Hildur og Þorvaldur og frú. Jú, svo var ein stúlka sem Jarlaskáldið kann engin deili á. Var matseðillinn mexíkanskur að þessu sinni, burrito með hverju því sem hugurinn girntist, enda sjálfsafgreiðslufyrirkomulag notað. Auk þess vín bæði rautt og hvítt sem gert var góð skil, nema einhverjir gikkir sem fengu öl. Var matur þessi mikið góðgæti og eiga gestgjafar lof skilið fyrir.
Þegar allir voru mettir og sumir kannski rúmlega það tóku við hin hefðbundnu aðalfundarstörf, og bauð Eyjólfur í því skyni upp á ávaxtasaft, sem Skáldið fór fljótlega að gruna að innihéldi görótta drykki, því gestir tóku að gleðjast við drykkju hans. Að vísu þótti Eyjólfi sem gestir gleddust ekki nóg og hafði æ minna af ávaxtasafa í saftinni þegar á leið en engu að síður fór teitin prúðmannlega fram. Um síðir kláraðist svo saftin en sem betur fer voru flestir með nesti og var því drykklangri stund eytt þarna í Kópavoginum. Að lokum fór sumt fólk svo að ókyrrast og vilja leita niður á láglendið, nánar tiltekið á Hverfisbarinn. Var klukkan þá farin að ganga í fjögur og menn því heldur seint á ferð og röðin inn á staðinn eftir því. Tókst okkur með lævíslegum brögðum að snarast fljótlega í gegnum þann pakka, og það þrátt fyrir að ryskingar ættu sér stað milli annarra manna í röðinni. Var Jarlaskáldið ekki fyrr komið inn en þorsti sótti að Öldu og dreif hún Skáldið með á barinn. Þar var líkt og í fuglabjargi um að litast og vandséð hvernig ætti að fá afgreiðslu en einhvern veginn tókst okkur að smokra okkur að barnum enda hvorugt í flokki gildvaxnara fólks. Fyrir aftan okkur var svo maður einn alldrukkinn sem leiddist biðin mjög, otaði að okkur fimmþúsund konu og fór þess á leit við okkur að kaupa fyrir sig nokkra drykki. Var það samþykkt af Öldu með þeim skilmálum að við fengjum að eiga afganginn. Þess má geta að fyrir afganginn keyptum við tvo stóra bjóra, tvö skot og áttum fimm hundruð kall í afgang. Ah, fullt fólk!
Varð þessi búbót til þess að fólk hresstist mjög og fór mikinn á dansgólfi, líkt og Jón Baldvin Hannibalsson sem þarna var og sýndi góða takta ef minnið svíkur ekki. Annars fer ekki miklum sögum af vistinni á Hverfisbarnum, var hún góð líkt og oftast og fólk misgáfulegt eins og gengur. Um síðir kviknuðu svo ljósin og fólki smalað út, voru þá einugis Jarlaskáldið, Stefán Twist og Alda enn á staðnum, aðrir væntanlega lotið í lægra haldi fyrir Bakkusi fyrr um nóttina. Úti var alger úrhellisrigning og stefnan tekin niður í bæ að finna leigubíl. Á leiðinni varð fyrir okkur á hægri hönd hús eitt nokkuð áberandi sem eitt sinn var fangelsi en geymir nú annars konar glæpamenn. Er hér að sjálfsögðu átt við Stjórnarráðið.
Eins og dyggari lesendum er eflaust kunnugt fór Jarlaskáldið hér áður fyrr hamförum í jaðarsporti því er fasteignaklifur kallast. Hafa ófá húsin verið klifin í gegnum tíðina og var Stjórnarráðið í sérlegu uppáhaldi þegar Skáldið var upp á sitt besta. Svo vikið sé aftur að laugardagskvöldinu (reyndar kominn sunnudagsmorgunn) þá horfir Skáldið í átt að Stjórnarráðinu og spyr svona í hálfkæringi hvort það ætti ekki að rifja upp gamla takta í fasteignaklifri. Voru aðstæður ekki góðar, hellirigning og Skáldið í jakkafötum og lakkskóm, og bjóst það því við því að samferðamennirnir myndu tæplega taka undir þessa hugmynd. En því var nú öðru nær, Alda var óð og uppvæg í að klifra og kallaði Skáldið gungu þegar það færðist undan svo það var ekki annað að gera en láta slag standa, ekki dugir að sitja undir frýjunarorðum konu. Gekk Skáldinu nokkuð vel og var fljótt upp en heldur gekk stúlkunni verr og gafst upp við fyrsta erfiða hjallann. Var því ekki annað að gera en að koma sér niður aftur. Þegar þangað var komið heilsuðu okkur tveir lögregluþjónar kvenkyns, og vildu vita hvað okkur gengi til með þessu athæfi. Reyndi Skáldið að útskýra þetta nýstárlega jaðarsport fyrir þeim en skilningsleysið var nær algjört. Stefán reyndi síðan að „hjálpa til“ með því að benda á rétt okkar til tjáningar-, atvinnu-, ferða- og gott ef ekki trúfrelsis enda frjálshyggjumaður mikill en við litlar undirtektir lögregluþjónanna, sem hljóta samkvæmt því að vera vinstrivillingar. Engu að síður sluppum við við að vera leidd burtu í járnum, líkast til af því við vorum svo holdvot að það hefði getað skemmt áklæðið í bílnum. Enn og aftur veldur skilningsleysi yfirvalda í garð jaðaríþrótta í þéttbýli Jarlaskáldinu vonbrigðum. Eftir þessi viðskipti okkar við laganna verði héldum við loks heim á leið og líkast til hefur leigubílstjórinn þurft að þurrka sætin sín eftir þá ferð, hehe....

Sunnudagurinn var líkt og laugardagurinn hefðbundinn fram eftir degi, Jarlaskáldið þurfti ekki einu sinni að sækja bílinn ( er hann ekki flottur?) og gat því legið í leti fram að kvöldmat þá loksins það vaknaði. Það er hverjum manni hollt. Um kvöldið bar móðir Skáldsins fram dýrindis hamborgarhrygg með brúnuðum og tilbehör, jólin komu snemma í ár. Eftir mat fór hún svo að draga fram tertur og brauðrétti sem hún hafði græjað fyrr um helgina því von var á nokkrum fjölda fólks í afmæliskaffi. Áttu gestir þessir það allir sameiginlegt að hafa verið í teitinni kvöldið áður og fór því drjúgur tími í að skiptast á djammhetjusögum. Fékk Skáldið nokkrar góðar gjafir, t.d. WD-40 brúsa (stóran) og afar tæknilega rúðusköfu frá Stefáni og Vigni, Simpsons dagatal frá Þverbrekkingi, fimm hundruð króna pening (afganginn síðan kvöldið áður) og glæsilegt kort með enn glæsilegri mynd frá Öldu og kvöl og pínu frá foreldrunum (skýrist síðar í pistlinum). Var bakkelsinu gerð góð skil þrátt fyrir heilsuleysi hjá sumum (af hverju ætli það sé?), og ýmislegt skrafað fram eftir kvöldi. Létu margir sig hverfa á ellefta tímanum en sumir fóru ekki fyrr en um miðnætti eftir að hafa horft á Popppunkt sem var afar skemmtilegur að þessu sinni og mikil synd að Sniglabandið skuli hafa dottið út, þeir áttu örugglega besta „hljómsveitin spreytir sig“ móment síðan Ham spiluðu Hátíðarskap fyrir tæpu ári. Ekki fer meiri sögum af sunnudegi.

Kvölin og pínan já. Jarlaskáldið fær væntanlega að upplifa vænan skammt af því á morgun og næstu daga, því um hálffimmleytið á morgun ætlar Tommi tannlæknir að taka upp sín skelfilegustu tól og byrja að hamast á einum endajaxli Jarlaskáldsins sem hefur verið til mikilla leiðinda undanfarið (í stað þess að vaxa í suður eins og tennur í efri gómi gera yfirleitt vex hann meira í austsuðaustur) og því tími til kominn að úthýsa honum. Verður þetta afmælisgjöfin frá foreldrunum, enda dýrt spaug og ekki á færi láglauna verkamanns að borga slíkt. Ekki nema maður geri eins og Júlli í Draumnum og geri þetta bara sjálfur með naglbít. Nei, þá er nú betra að fá fagmann í verkið og bryðja svo Parkódín forte eða aðrar eðalpillur eins og smartís. Ef heilsan leyfir mun Jarlaskáldið veita lesendum innsýn í líðan þess með reglulegu millibili, þ.e.a.s. ef það verður ekki svo high á pillum að það veit ekki hvað það heitir. Allavega, senda góða strauma á morgun, og étiði svo skít....

föstudagur, október 24, 2003 

Tilgangslaust

Þessi færsla hefur engan tilgang. Nei, Jarlaskáldið hefur nákvæmlega ekkert fram að færa, það hefur frá engu að segja, og það er ekkert að gerast. Það er gjörsamlega ekkert sem Skáldinu dettur í hug að rita um, og því líklega bara best að hætta þessu.

En áður en það er gert er ekki úr vegi að benda lesendum á að með því að beina músarbendlinum á „comment“ hlekkinn hér fyrir neðan og smella þar með vinstri hnappi ætti að birtast nýr gluggi og í honum er mögulegt að koma skilaboðum til Jarlaskáldsins, ef það er eitthvað sem þeim liggur á hjarta. Þetta getur verið hvað sem er, og takmarkast eingöngu af hugarflugi þess er ritar. Ekki það að Jarlaskáldið búist við því að lesendur vilji koma einhverju á framfæri við Jarlaskáldið, ekki í dag frekar en aðra daga, en það er gott að lesendur viti af þessum möguleika. Og þá er þessu loksins lokið.

þriðjudagur, október 21, 2003 

NBA spá Jarlaskáldsins tímabilið 2003-2004

Þá fer að líða að því að NBA tímabilið hefjist, og þar sem Jarlaskáldið hefur um alllangt skeið talið sig NBA-nörd af stærri gerðinni ætlar það að miðla lesendum af visku sinni í þeim fræðum og birta spá sína um hverjir verða bestir og verstir á komandi tímabili.

MVP

Tim Duncan hefur tekið þennan titil síðustu tvö ár og verður enn að teljast einna líklegastur til þess í ár. Ef hann skilar svipuðum tölum og í fyrra er þetta bókað dæmi því margir helstu keppinautar hans, t.d. Kobe Bryant (kvennavandamál + Malone og Payton), Shaquille O'Neal (meiðsli og fita + Malone og Payton), Tracy McGrady (bakmeiðsli + Juwan Howard), Dirk Nowitzki (of fáir boltar á vellinum) og Jason Kidd (nýr samningur=þarf ekki að sanna sig + Alonzo Mourning) verða væntanlega allir með lakari tölur en í fyrra en Duncan hefur alla burði til að jafna eða bæta sinn árangur. Ef eitthvað klikkar hjá honum verður Kevin Garnett að teljast líklegastur til að hreppa hnossið.

Spá: Tim Duncan

Lið ársins 1-3

Spá:

1. lið
Kevin Garnett
Tim Duncan
Shaquille O'Neal
Jason Kidd
Tracy McGrady

2. lið
Dirk Nowitzki
Chris Webber
Yao Ming
Allen Iverson
Paul Pierce

3. lið
Jermaine O'Neal
Vince Carter
Zydrunas Ilgauskas
Kobe Bryant
Stephon Marbury

Nýliði ársins

Á undirbúningstímabilinu hefur Carmelo Anthony sýnt langbestu taktana og verður að teljast líklegur til að landa þessum titli, bæði verður hann vopn Denver nr. 1 og hefur auk þess góðan leikstjórnanda sér til hjálpar. Lebron James er sá sem flestir veðja á en hann þarf væntanlega að deila boltanum með eigingjarnari leikmönnum og á því ekki eftir að skora eins mikið.

Spá: Carmelo Anthony

Nýliðalið ársins (án tillits til stöðu)

Þetta er nú dálítið út í loftið, en látum það vaða.

Spá:
Carmelo Anthony
Lebron James
Dwyane Wade
Kirk Hinrich
Chris Bosh

Varnarmaður ársins

Þennan titil hefur Ben Wallace unnið afar verðskuldað undanfarin tvö ár og verður væntanlega líklegur til að verja titil sinn. Jarlaskáldið ætlar engu að síður að veðja á að Ron Artest taki þennan titil, því flestir eru á því að hann sé besti varnarmaður deildarinnar, hann þurfi bara að skrúfa á sig hausinn til að njóta sannmælis. Hefur Skáldið trú á að honum takist það.

Spá: Ron Artest

Varnarlið ársins

Ben Wallace
Ron Artest
Kevin Garnett
Allen Iverson
Jason Kidd

Varamaður ársins

Þennan titil er alltaf erfitt að spá í því það er aldrei að vita hverjir verða í byrjunarliðinu þegar til kemur. Einhvern verður þó að velja og þykir Skáldinu líklegt að annað hvort Antoine Walker eða Antawn Jamison hirði þennan titil, því annar þeirra mun örugglega byrja á bekknum og líklegur til að verða með góðar tölur engu að síður. Veljum annan hvorn.

Spá: Antawn Jamison

Þjálfari ársins

Þennan titil hirðir oftar en ekki þjálfari besta liðsins eða þess liðs í efri hlutanum sem kemur mest á óvart. Jarlaskáldið ætlar að veðja á hið síðarnefnda í þetta skiptið og tilnefna Flip Saunders, þjálfara Minnesota. Reyndar ætti Jerry Sloan þetta mest skilið ef Utah nær að vinna 20 leiki en það verður að teljast ólíklegt að hann landi dollunni hvernig sem fer.

Spá: Flip Saunders

Framkvæmdastjóri ársins

Um þennan titil gilda svipuð lögmál og um þjálfara ársins. Jarlaskáldið ætlar að leita í sama brunn og tilnefna Kevin McHale hjá Minnesota, þeir hafa gert miklar breytingar og hefur Skáldið mikla trú á þeim. Auk þess á hann þetta skilið bara fyrir að ná nýjum samningi við KG.

Spá: Kevin McHale

Endurkoma ársins

Þennan titil sem ekki tíðkast lengur að veita í NBA deildinni ætlar Jarlaskáldið engu að síður að veita, og fyrir valinu verður að þessu sinni Vince Carter. Carter hefur átt erfið ár undanfarið eftir að hafa verið einhver hæpaðasti leikmaðurinn í deildinni um skeið, og hefur Skáldið trú á að hann sé loks orðinn heill heilsu og troði yfir heilu liðin að nýju.

Spá: Vince Carter

Vonbrigði ársins

Þetta er titill sem NBA-deildin veitir ekki sjálf (skiljanlega e.t.v.), en Jarlaskáldið ætlar að veita. Þennan titil ætti vart að þurfa að útskýra, hann hlýtur sá leikmaður sem miklar vonir eru bundnar við en bregst algerlega. Þau hlýtur enginn annar en Kobe Bryant, fyrir að verða dæmdur í fangelsi fyrir nauðgun.

Spá: Kobe Bryant

L.V.P.

L.V.P. stendur fyrir least valuable player, og það er algjör óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn í þessum flokki, þau hlýtur óskabarn þjóðarinnar.

Spá: Jón Arnór Stefánsson

Austurdeild

Detroit Pistons vinnur Indiana Pacers í úrslitum

Vesturdeild

San Antonio Spurs vinnur Minnesota Timberwolves í úrslitum

Úrslit

San Antonio Spurs vinnur Detroit Pistons

Spá: San Antonio Spurs meistarar

Að lokum vill Jarlaskáldið benda þeim örfáu sem entust til að lesa þetta til enda á samsvarandi grein Mumma og að bera saman spádóma okkar. Góðar stundir.

mánudagur, október 20, 2003 

Fyrir sunnan Hofsjökul

Síðast þegar spurðist til Jarlaskáldsins var það á leið í jeppaleiðangur. Nú er það búið í jeppaleiðangri og tími til kominn að fræða lesendur hvernig það gekk. Góðar stundir.

Jarlaskáldið vaknaði um áttaleytið á laugardaginn við hamaganginn í Degi Tjörva systursyni sínum sem var í pössun hjá ömmu sinni og veit fátt skemmtilegra en að hafa hátt þegar aðrir kjósa næði. Reyndar hafði Skáldið sig ekki fram úr fyrr en hálftíma síðar, enda ekki vant því að vera árrisult um helgar, og hafði sem betur fer fundið til ferðagræjur og viðlegubúnað kvöldið áður og þurfti því ekki að gera annað en að skola af sér skítinn og halda svo af stað í Bryggjuhverfið þar sem ætlunin var að hitta hina ferðafélagana. Voru þeir þegar mættir þegar Skáldið bar að garði og hafði okkur öllum tekist að gleyma gönguskóm svo næsta mál á dagskrá var að ná í þá. Þeir Toggi og Maggi héldu svo austur fyrir fjall en vegna rangs misskilnings töfðumst við Stebbi um ca. 20 mínútur. Þegar leyst hafði verið úr honum héldum við í humátt á eftir þeim, og gerðum fyrsta stans á Selfossi þar sem keypt var feitt ket og annar matur. Héldum svo áfram og stoppuðum næst í Árnesi þar sem þeir Maggi og Toggi biðu eftir okkur. Þar fengu bílar að drekka og aðrir að éta. Sem var gott. Einnig hittum við þar ungan mann af nærliggjandi sveitabæ sem sýndi för okkar gríðarlegan áhuga og var ekki í rónni fyrr en við höfðum lýst í smáatriðum ferðaáætlun okkar og sýnt honum á korti. Greinilega koma ekki of margir gestir í sveitina.
Þegar allir voru mettir var ekið áfram upp í Þjórsárdal og rifjaðir upp góðir tímar þar. Var svo stoppað við Sultartanga og hleypt eilitlu lofti úr dekkjum enda von á að leikar færu að æsast fljótlega hvað jeppaskrölt á misjöfnum slóðum varðaði. Þó enginn Stóri sandur eins og oft var nefnt. Var s.s. ekin einhver að því er virðist ónefnd leið (eflaust kölluð Setursleið eða e-ð álíka) í svona ca. norðnorðaustur upp með Þjórsá og gekk stóráfallalaust, árnar voru vel viðráðanlegar og veður milt þó þoka væri sums staðar að læðast um og eitthvað yrjaði úr lofti á köflum. Á leiðinni stoppuðum við í tveimur skálum, annars vegar í Bjarnarlækjarbotnum og hins vegar í Tjarnarveri, áttu þessir skálar það sameiginlegt að vera fremur óvistlegir. Var næsta mál á dagskrá eftir stoppið í Tjarnarveri að aka áfram norður áleiðis að Þjórsárverum en sú ferð varð stutt. Slóðinn hafði greinilega þolað talsvert vatnsveður og skipti engum togum, Maggi sökk ofan í drullu og sat pikkfastur. Þurfti Willi að kippa í kaggann og gerði það án stórvandræða þrátt fyrir að grip væri ekki allt of mikið í drullunni. A.m.k. var ákveðið að reyna ekki frekar við þennan slóða enda óðs manns æði og verða Þjórsárver því bara að bíða betri tíma. Miðað við það sem við sáum verður allavega lítil eftirsjá af þessu svæði þegar því verður sökkt, þarna er ekkert, og ef íslensk náttúra á nóg af einhverju er það ekkertið.
Eftir þessar svaðilfarir í drullunni ákváðum við að líta inn í Setur og sjá hvort þar væri pláss fyrir fjóra unga séntilmenn. Gekk ferðin þangað vel fyrir sig, og skemmtum við Stefán okkur vel yfir Best of Laddi geisladisknum með frábærum lögum eins og Austurstræti, Búkolla og Jón spæjó. Þegar í Setrið kom blasti við okkur óvænt sjón, ekki kjaftur á svæðinu. Þá mundu sumir eftir því að árshátíð ferðaklúbbsins 4x4 var einmitt þetta sama kvöld og því ekkert skrýtið að þarna væri tómt. Voru þetta bæði góð og slæm tíðindi. Auðvitað var gott að vera einir á svæðinu og geta hagað okkur eins og við vildum (þó innan siðgæðismarka) en þetta þýddi að stór hluti skálans var læstur og þar á meðal eldhúsið og ljósavélin. Sem betur fer fannst lausn á hvoru tveggja, fundum pappadiska og hnífapör og glös sem við gátum notað og tengdum svo rafgeymi úr öðrum bílnum við húsið og gátum lýst upp þannig. Næsti höfuðverkur var svo olíukyndingin, gekk illa að kveikja á henni og þegar það loksins tókst vorum við búnir að dæla svo mikilli olíu inn á hana að hún snarbrjálaðist með miklum hávaða og gríðarhita en jafnaði sig sem betur fer fljótlega og var ljúf sem lamb það sem eftir lifði ferðar.
Næsta mál á dagskrá var að sjálfsögðu að grilla. Varð það skrautleg aðgerð. Fyrst þurfti að senda Togga eftir vatni og tók það hann ekki nema ca. hálftíma þótt á bíl væri. Kjötið var reyndar einfalt en furðuverk kvöldsins hlýtur að vera sósan hans Magga, sem hann matreiddi á grillinu með því að blanda saman sveppa- og piparsósu og hita í álbakkanum undan kjötinu. Var sósan merkilega góð, sem og allt annað þarna, enda bragðast allur matur betur úti í náttúrunni. Eftir matinn tók svo við sú iðja sem fjórir fullvaxnir karlmenn á besta aldri stunda þegir enginn sér til og fara ekki fleiri sögur af því.
Vöknuðu menn allhressir daginn eftir um ellefuleytið og tóku þegar til við hefðbundin morgunverk. Því miður hafði gleymst að taka með fulltrúa hreingerningardeildar VÍN og neyddumst við því sjálfir til að skúra og skrúbba húsið, sem var gjört af festu og röggsemi. Eftir þrifnaðinn var svo ekið áfram og þar sem okkur leiðist mjög að aka sömu leið til baka var ákveðið að keyra áfram yfir í Kerlingarfjöll og þá leið heim. Gekk ferðin þangað vel fyrir sig enda vanir menn á ferð, hjá okkur Stebbunum var Stubbastuðið allsráðandi enda eina vitið. Í Kerlingarfjöllum var algerlega mannlaust, tókum við okkur til og ókum upp með ánni þarna til að kanna heitan pott sem við höfðum haft fregnir af. Reyndist hann lítt spennandi þegar til kom, og því böðun sleppt. Eftir þessa svaðilför skoðuðum við gamlan skála og er hann einhver sá minnst spennandi sem Skáldið hefir kannað.
Eftir það var ekið heimleiðis með tilheyrandi pylsustoppi á Geysi og lúkum vér þar sögu þessari.

föstudagur, október 17, 2003 

Óhemju hnyttinn titill

Nú er föstudagurinn 17. október u.þ.b. að verða búinn, og enn eitt skiptið gerir Jarlaskáldið sig sekt um að vera dauðyfli og aumingi á þeim drottins degi. Jarlaskáldið er s.s. að gera nákvæmlega ekki neitt, vafrar bara um á netinu, spilar smá CM og dánlódar (stelur) lögum á Kazaa. Síðusta föstudag tók Skáldið allavega spólu, en ekki einu sinni því er að heilsa núna. Sveiattan!

Skáldið á sér reyndar nokkrar málsbætur. Þrátt fyrir að mikill öræfaótti hafi stungið sér niður í hópi VÍNverja undanfarið hafa a.m.k. fjórir aðilar blessunarlega sloppið við hann og hyggja af þeim sökum á heljarinnar jeppatúr eldsnemma á morgun og er heimkoma ekki áætluð fyrr en á sunnudag. Eru þetta auk Jarlaskáldsins þeir Stefán, gjarnan kenndur við twist, Magnús, oft kallaður Andrésson til aðgreiningar frá Tudda tuð, og síðast en ekki síst Toggi, sem er eiginlega bara kallaður Toggi. Verður farið á tveimur torfærutröllum, annars vegar X-Cabnum hans Magga og hins vegar á Willa, betri helmingi Stefáns. Súkka Jarlaskáldsins neyðist til að bíða heima á meðan sakir manneklu, hún fékk nú að fara með síðast en ekki Willi og betra að halda öllum góðum, bæði bílum og bílstjórum. Jarlaskáldið er líka afbragðs aðstoðarökumaður, og getur Stefán vottað það eftir ófáar ferðirnar.
Er meining vor að aka austur fyrir fjall og eitthvað lengra og stefnan líkast til tekin á Þjórsárdalinn, þaðan verður ekið áleiðis að Sultartanga og þar fundinn slóði sem liggur upp með Þjórsá að vestan. Er þetta alllöng leið og að sögn þrælskemmtileg, en hana hefur Jarlaskáldið aldrei farið. Er eitt af meginmarkmiðum farar þessarar að líta í kringum sig á svæðinu við Norðlingaöldu og Þjórsárver, einkum og sér í lagi af þeirri ástæðu að ef að líkum lætur verður þessu öllu sökkt undir vatn innan fárra ára. Þegar við höfum svo fengið okkur fullsadda á náttúrufegurðinni verður væntanlega fundinn einhver skáli, þar grillað feitt ket og étið við undirspil Sven Ingvars, og e.t.v. dreginn tappi úr flösku eða tveimur, hver veit? Skáldið veit.

Þau eru ófá merkisafmælin þessa dagana. Stelpan, Lilja Rós Jóhannesdóttir, fagnar þeim merku tímamótum í dag að vera orðin hálfþrítug, ferfalt húrra fyrir henni! Að sögn mun stúlkan standa fyrir allsherjar fögnuði í nánustu framtíð af þeim sökum, vill Jarlaskáldið koma þeim tilmælum til hennar að halda þann fögnuð á öðrum degi en 8. nóvember, þann dag er þegar búið að skipuleggja afmæli, ríjúníon og jeppaferð. Gæti orðið erfitt að bæta inn í dagskrána. Talandi um afmæli...

Þá verður þetta ekki mikið lengra í kvöld. Að lokum sendir Jarlaskáldið henni Sveinu Berglindi geðbilaðar stuðkveðjur og þakkar fyrir ánægjuleg samskipti á liðnum árum. Veriði sæl...

miðvikudagur, október 15, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta

Þau eru nú orðin ansi stopul miðvikubloggin í seinni tíð, en það er nú ekki eins og maður fái borgað fyrir þetta svo það verður bara að hafa það. Bullum bara.

Í fyrsta lagi vill Jarlaskáldið nota tækifærið og óska honum Mumma til hamingju með að vera orðinn 27 ára gamall. Af því tilefni ætlar Jarlaskáldið að lofa því að hugsa vel til Vin Baker á komandi leiktíð, honum veitir víst ekki af (ókei, hversu margir skilja þetta?).

Jarlaskáldið brá undir sig betri fætinum (bensínfætinum) í gærkvöld og leit við á kaffihúsi. Kaffihúsið sem fyrir valinu varð var sjálfur heimavöllurinn, og var afar tómlegt um að litast þar. Þótti Skáldinu það skrýtið, enda vanara því að standa í mikilli baráttu helgi eftir helgi við það eitt að komast þar inn. Ásamt Skáldinu mætti á staðinn valinkunnur hópur fyrrverandi og núverandi íslenskunema, t.d. aumingjabloggarinn Oddi, kverúlantinn Haukur, íþróttafréttaritarinn Bjössi (þessi með hárið), Skagamaðurinn Sævar og gamli meðleigjandinn hans sem Jarlaskáldið getur ómögulega munað hvað heitir. Var glatt á hjalla og tímanum einkum varið í að rifja upp gömul afrek og tala illa um aðra fyrrverandi og núverandi íslenskunema. Var þetta ágætis tilbreyting að hafa sig út úr húsi á þriðjudagskvöldi, enda með eindæmum lélegt sjónvarpskvöld. Jarlaskáldið græddi einnig talsvert á þessu, því á leiðinni heim kom það höndum yfir tvö íslensk lög frá níunda áratug síðustu aldar, hið óskiljanlega Lalív með Smartbandinu og síðan Vals nr. 1 eftir Magnús Eiríksson. Segið svo að aumingjabloggarinn sé alveg gagnslaus!

Enn og aftur gerist þess þörf að taka til í bloggaralistanum. Jarlaskáldið var ekki fyrr búið að bæta bloggara dauðans inn á listann en að hann fremur bloggsjálfsmorð öðru sinni. Dettur hann því átómatískt út af listanum. Í hans stað fær Skúli Arnlaugsson, bróðir afmælisbarnsins og samverkamaður Jarlaskáldsins til margra ára sinn gamla sess að nýju. Hefur hann hafið blogg af krafti eftir nokkra magra mánuði og vonandi að hann standi undir þessu trausti sem honum er sýnt. Aðrir sem banka á dyrnar eru t.d. Sjonni sem hefur sýnt smá lífsmark að undanförnu en betur má ef duga skal. Svo eru að sjálfsögðu nokkrir sem þurfa að fara að passa sig, fer Mokkurinn þar fremstur í flokki, en til hans hefur ekkert spurst í á þriðju viku. Sýni hann ekkert lífsmark fyrir mánaðamót má hann búast við grimmilegri refsingu.

Á þessum tímapunkti er ekki úr vegi að nefna það að eftir nákvæmlega þrjá mánuði, eða 91 dag, mun Jarlaskáldið ásamt fleiri góðum mönnum vera búið að yfirgefa landið og væntanlega statt í annarlegu ástandi einhvers staðar á norðurhluta Ítalíu. Ó hvað það verður gaman!

Kannski ein lauflétt getraun að lokum (aumingjabloggaranum er meinuð þátttaka): Úr hvaða sjónvarpsþætti er lagið Vals nr. 1 eftir Magnús Eiríksson og hvers eðlis var sá þáttur? Vegleg verðlaun í boði, glæný Toyota Landcruiser bifreið!

sunnudagur, október 12, 2003 

62 atriði um helgina (100 er ófrumlegt)

1. Vann til klukkan sex á föstudaginn.
2. Fór svo í apótek og keypti Íbúfen.
3. Það gerir nákvæmlega ekkert gagn.
4. Var Jarlaskáldið þreytt um kvöldið, nennti engu.
5. Horfði á Simpsons, reyndi að horfa á Edduna, en það var bara of pínlegt á að horfa.
6. Fór því út á vídjóleigu og tók Confessions of a Dangerous Mind.
7. Fékk hana frítt, bónusspóla.
8. Sofnaði yfir henni upp úr eitt, náði aldrei að klára hana.
9. Ekki skrifa hvernig hún endar í kommentin!
10. Vaknaði upp úr hádegi á laugardaginn, áttundi þynnkulausi laugardagurinn í röð.
11. Það hlýtur að vera persónulegt met.
12. Gerði Skáldið fátt fyrstu tímana, fór rétt fyrir þrjú og sótti Öldu.
13. Við fórum svo heim til Eyfa og horfðum á leikinn.
14. Þar voru auk húsráðenda Stebbi, Vignir, Maggi Andrésar og Gústi.
15. Ríkey bjó til einhvers konar pizzuböku handa okkur, hún var sérdeilis prýðileg.
16. Vignir, Stebbi og Eyfi drukku bjór, aðrir kók.
17. Það voru allir sammála um að að dómarinn væri hálfviti.
18. Jarlaskáldinu fannst það sama eiga við um Geir Magnússon.
19. „Við verðum nú að muna það að þetta er silfurþjóðin úr síðustu HM og við erum bara 280.000.“ „Lítum á björtu hliðarnar, fyrst þeir þurftu að skora var nú gott að þeir gerðu það strax!“ Maðurinn er hálfviti.
20. Tók Skáldið úrslitin ekki nærri sér, og hefur reyndar aldrei tekið íþróttaúrslit nærri sér.
21. Strákarnir fóru heim til Vignis að glápa á Tyrkland-England, Jarlaskáldið skutlaði Öldu heim til sín og fór sjálft heim að spila CM.
22. Merkilegt hvað Skáldið getur orðið pirrað þegar illa gengur í CM miðað við hve lítið það pirrar það þegar illa gengur hjá t.d. Liverpool.
23. Í kvöldmat var Bayonneskinka og brúnaðar kartöflur, það bragðaðist afbragðsvel.
24. Sótti Magga Blö um níuleytið, fórum við svo niður í bæ
25. Enduðum förina hjá Kjarra og Laufeyju, þau voru með innflutningspartý
26. Þekktum fáa á staðnum, Skáldið byrjaði á að sýna Lilju og Gísla nýja bílinn.
27. Fékk sér svo bollu, en var bent á það eftir eitt glas að hún væri óáfeng.
28. Fékk sér svo áfenga bollu, og þá varð heimurinn betri.
29. Fljótlega fylltist allt af kunnuglegum andlitum, sem áttu það flest sameiginlegt að vera pör, yfirleitt ólétt eða nýbúin að eiga.
30. Við þetta tilefni tilkynnti eitt parið að þau séu líka ólétt, er þeim óskað til hamingju með það.
31. Eftir á að hyggja vorum við Magnús líklega einu ólofuðu mennirnir þarna inni.
32. Bollan leyndi á sér.
33. Skáldið gerðist glatt.
34. Einhvern tímann seint og um síðir mætti frægi gesturinn sem Skáldið hafði beðið eftir með óþreyju.
35. Hafði reyndar verið þarna í hálftíma þegar Skáldið tók eftir því.
36. Athyglisgáfu Skáldsins er við brugðið.
37. Illu heilli var frægi gesturinn með viðhengi með sér.
38. Hann var hálflúðalegur, sem var skrýtið því frægi gesturinn er megabeib.
39. Kappinn var m.a.s með træbaltattú á hálsinum eins og Einar Ágúst, gerist það verra?
40. Skáldið lét þetta lítið á sig fá.
41. Magnús tók síðan fræga gestinn í sálfræðimeðferð og kjaftaði á honum hver tuska langa hríð.
42. Þegar hann loksins þagnaði var orðið tómlegt um að litast í kotinu.
43. Um svipað leyti fer minni Jarlaskáldsins að bregðast.
44. Takið eftirfarandi atriðum með fyrirvara.
45. Úr varð að þeir sem eftir stóðu (sem voru u.þ.b. við Magnús, og samkvæmt nýjustu fregnum Kjartan) ákváðu að kíkja á þá fóstbræður Styrmi og Dúllarann.
46. Voru þeir að drekka frá sér vit og rænu enn eina ferðina.
47. Staðsettir í einhverju húsi við Borgartún.
48. Þegar þangað kom var fámennt í kotinu, og þeir sem þar voru í annarlegu ástandi.
49. Engu að síður var áð þar um hríð.
50. Eftir litla stund var ákveðið að halda á heimavöllinn.
51. Hverjir þangað fóru er ekki alveg víst, a.m.k. Skáldið, Styrmir og Magnús, líkast til Dúllarinn, en um Kjarra er ekkert vitað.
52. Um vistina á Hverfisbarnum hefur Jarlaskáldið fátt að segja.
53. Myndir segja meira en mörg orð.
54. Sé eitthvað að marka þessa mynd mun Stebbi twist hafa rekið inn nefið, og því góðar líkur á að Vignir hafi gert það líka, og gott ef ekki Andrésson.
55. Svo virðist sem Skáldið hafi a.m.k. ekki gerst stórtækt á barnum.
56. Sem er ágætt.
57. Hvað sem öðru líður rataði Skáldið út af Hvebbanum um síðir og af hreinni eðlisávísun rambaði það inn á Nonnann.
58. Pantaði sér þar Pepperonibát og appelsín, rétt eins og síðustu 100 skipti.
59. Fann svo leigara og hélt heimleiðis.
60. Bílstjórinn var við það að sofna, viðurkenndi það m.a.s.
61. Þegar heim var komið horfði Skáldið á formúluna og man hana merkilegt nokk allvel.
62. Fór í háttinn seint og um síðir, og verða þá atriðin ekki fleiri.

þriðjudagur, október 07, 2003 

Af Grand Buffet og öðrum uppákomum

Eins og lesendum er kunnugt var Jarlaskáldið að skuldsetja sig um ókomna tíð með því að fjárfesta í litlum jeppaskrjóð með hjálp lánastofnana. Þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu í kjölfar þess brá Skáldið undir sig betri fætinum um helgina og kom víða við. Hér eftir fer sagan af því.

Við hefjum sögu vora á sjötta tímanum á föstudaginn. Jarlaskáldið hélt þá heimleiðis úr vinnu sinni og tók þegar til við undirbúning brottfarar í mikið ferðalag. Upphaflega höfðu sex manns ætlað að leggja í hann á föstudagskvöldinu en tveir höfðu forfallast þegar þarna var komið sögu og mega eftir það hundar heita. Eftir stóðu því einungis Jarlaskáldið, Stefán, Andrésson og frú. Sakir fámennis var ákveðið að fara því „bara“ á tveimur bílum og fékk Willysinn hans Stebba að bíða heima. Ekki laust við að sést hafi tár á hvarmi Stefáns er hann kvaddi Willa sinn þegar Skáldið sótti hann rétt fyrir átta. Byrjuðum við félagarnir á því að koma við í kjörbúð til að kaupa nauðsynleg aðföng, mjólkurbúðina höfðum við báðir heimsótt fyrr um daginn. Því næst var komið við á bensínstöð og gefið hinum enn óskírða jeppa Jarlaskáldsins að drekka í fyrsta skipti, voru það einir 42,30 lítrar sem fóru ofan í hann að þessu sinni. Eftir það var ekki eftir neinu að bíða, heldur brunað sem leið lá um Mosfellsheiðina í átt að Þingvöllum. Stefán stóð sig vonum framar í hlutverki aðstoðarökumanns þrátt fyrir að vera vanari því að sitja vinstra megin, steig hann vart feilspor í stjórnun CD/MP3 spilarans góða og það þrátt fyrir að vera byrjaður á ölinu. Á Þingvöllum biðu svo eftir okkur skötuhjúin Andrésson og frú á X-Cabnum sínum sem herra Andrésson hafði nýlega sett á 38 tommu vetrarbomsur og hann því allur hinn vígalegasti. Lá leiðin síðan yfir Lyngdalsheiði, upp að Geysi og þar yfir Hvítá og ekki stoppað fyrr en á Flúðum þar sem við áttum að finna sumarbústað. Ekki gekk það vel í fyrstu en eftir smá leiðbeiningar heimamanna og eilítinn villing fannst húsið og var það hið snotrasta. Kvöldið fór svo í rólegheit og rómantík, sötruðum eilítinn bjór og kíktum á pottinn en fórum svo tiltölulega snemma í bælið þar eð morgundagurinn var planaður í jeppó...

...og merkilegt nokk tókst okkur að vakna á sómasamlegum tíma og ekki ómerkilegra að það var sjálfur Stefán sem fyrstur reis úr rekkju, var hann enda stoltur af. Vitanlega voru allir við hestaheilsu svo að eftir morgunverkin var tölt upp í bíl og ekið af stað upp á fjöll og firnindi. Reyndar var það ekki erfiðasta jeppaleiðin sem plönuð var, en þó smá sull á leiðinni og eitthvað hopp og hí. Byrjuðum við á að keyra að bænum Skáldabúðum þarna skammt frá og þaðan upp á Skáldabúðaheiði sem liggur í norðurátt og endar á ca. miðri svokallaðri Tangaleið sem ætlunin var síðan að aka í aðra hvora áttina. Úr varð að keyra í vestur vegna góðs millitíma. Einmuna blíða var á svæðinu þó heldur væri kalt og skemmst frá því að segja að nýi jeppinn stóð sig eins og hetja og gaf 38 tommu tröllinu ekkert eftir þrátt fyrir að hafa „einungis“ 31 tommu til umráða. Fór hann m.a. yfir, ja, ekki Litlu-Laxá, heldur Stóru-Laxá, og það ekki bara einu sinni heldur þrisvar og eins og ekkert væri. Var eigandinn líka bara nokkuð stoltur af kappanum og sér fram á fátt muni stöðva hann í framtíðinni nema vera skyldi bensínskortur vegna peningaleysis. Það reddast.
Á Flúðir vorum við svo aftur komin í kringum fjögur og hófu sumir þegar aðalfundarstörfin, þótt hægt væri farið í byrjun. Fór svo annað fólk smátt og smátt að tínast inn í bústaðinn, en kærkomnustu gestirnir voru líklega Þau Toggi og frú ásamt Öldu því þau voru með matinn. Auk þeirra mættu þeir Vignir og Gústi, Eyfi og Ríkey, og það sem kannski mesta furðu vakti, Snorri pervert ásamt kvenmanni og virtist vinskapur þeirra í millum talsverður. Snorri horfir s.s. til beggja átta í þeim málum ef eitthvað er að marka undangengna mánuði.
Maturinn á nú alveg skilið að fá vandlega umfjöllun, slík snilld var hann. Í forrétt var boðið upp á reyktan og grafinn lax á brauði og var afar vel af því látið. Aðalrétturinn var síðan stök snilld. Í fyrsta lagi var boðið upp á eitthvað hið meyrasta og safaríkasta lambaket sem skáldið hefur tönnum tuggið. Auk þess var boðið upp á svínakjöt á grillpinnum ásamt grænmeti hvurs konar, ekki var það minni snilld. Að lokum þótti ekki annað hægt en að prófa hrefnukjötið, það fékk heldur misjafnari undirtektir, Jarlaskáldinu þótti það afbragð og því betra sem það var minna grillað. Fékk það m.a.s. að klára hrefnukjöt af diskum annarra, en í staðinn var stolið af því papriku sem varð næstum til vinslita en leystist sem betur fer úr að lokum.
Eftirrétturinn var síðan eins og rúsinan í pylsuendanum, ís með Marssósu, sá sem datt í hug að bræða Marssúkkulaðistykki út á ís á skilið Fálkaorðu. Að minnsta kosti.
Að mat loknum var fátt annað hægt en að liggja afvelta á meltunni þar til heilsan leyfði annað, Ríkey og Eyfi létu sig hverfa um þetta leyti vegna annarra skuldbindinga en þeirra í stað birtist Magnús Blöndahl galvaskur á svæðið, látum aðra dæma um ágæti þeirra skipta. Piltur má nú eiga það að hann sló ekki slöku við drykkjuna þá loksins hann mætti, betra seint en aldrei.
Næsti dagskrárliður Grand Buffet að þessu sinni var hugarfóstur hennar Öldu, þótti henni sem ærin ástæða væri til að verðlauna hina og þessa V.Í.N.-verja fyrir afrek liðin árs og tók upp á því upp á sitt einsdæmi að útbúa glæsileg viðurkenningarskjöl fyrir þetta tilefni, fyrstu árlegu úthlutun V.Í.N.-verðlaunanna, sem heita hinu lýsandi nafni „Bokkan“. Gott að sjá að tölvunámskeiðið er strax farið að borga sig. Auk þess fengu allir verðlaunahafar verðlaunagrip sem vart ætti að þurfa að lýsa. Að þessu sinni voru afhent fern verðlaun. Í fyrsta lagi fékk Stefán verðlaunin „Óheppni ársins“, fyrir að hafa á óskiljanlegan hátt tekist að týna öðru skíðinu sínu í miðri brekku í rómaðri Ítalíuför. Þótti hann vel að titlinum kominn. Önnur verðlaun kvöldsins tengdust einnig Ítalíu, en þau hlaut Magnús Blöndahl, var hann útnefndur „Aumingi ársins“ fyrir að hætta við næstu Ítalíuför. Þótti hann ekki síður vel að titlinum kominn.
Þriðja „Bokka“ kvöldsins var afhent fyrir „Dauða ársins“. Þóttu úrslit í þeim flokki afar fyrirsjáanleg og handhafi verðlaunanna sérlega vel að þeim kominn, en þau voru fyrir „Glæsilega frammistöðu á Snæfellsjökli 12. júlí 2003“ eins og segir á viðurkenningarskjali. Reyndar vildu sumir meina að sigurvegarinn hefði einnig unnið annað og þriðja sætið ef í boði væru en það er önnur saga.
Fjórðu og síðustu verðlaun kvöldsins hlaut svo Vignir sem „Friðarspillir ársins“ fyrir frammistöðu sína í síðasta Grand Buffet en þá þurfti einmitt að kalla til lögreglu og endaði það mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Glæsileg frammistaða hjá pilti og vel að verðlaununum kominn.
Eftir verðlaunaafhendinguna má segja að aðalfundarstörfin hafi tekið yfirhöndina, bæði innan dyra og úti í potti og sennilega víðar. Ekki er ástæða til að tíunda það í smáatriðum hvernig það fór fram, handhafi verðlaunanna „Dauði ársins“ mun hafa staðið undir nafni og það nokkrum sinnum, enda titil að verja. Stefán mun hafa gert sig sekan um ósiðsamlegt athæfi síðla nætur en lesendur fá ekki að vita meira. Af athæfinu munu vera til myndir, og er myndasmiðurinn vinsamlegast beðinn um að farga þeim. Skandalar? Tja....

Það er óhætt að segja að töluverð þreyta hafi verið ríkjandi á sunnudeginum, og jafnvel vanheilsa á stöku stað. Að vísu létu Toggi og frú ásamt Gústa sig hverfa heimleiðis fyrir allar aldir og Snorri gerði slíkt hið sama stuttu síðar ásamt „félaga“ sínum. Aðrir sváfu eins og þeir fengju borgað fyrir það og fóru ekki á lappir fyrr en klukkan var að nálgast fjögur. Jarlaskáldið var reyndar við ágæta heilsu enda betur sofið en margir en einhver vanheilsa virtist víða ríkjandi. Ekki hjálpaði þýski nútímaballettinn í sjónvarpinu til og var því ákveðið að þrífa pleisið einn tveir og bingó og drífa sig á KFC á Selfossi þar sem hann þykir allra meina bót og ekki síst sunnudagsmeinabót. Stóð hann vel undir væntingum og var aldeilis hreint fínn endir á töluvert frábærri ferð. Við erum nefnilega svo ógeðslega skemmtileg....



Toggólfur tók einhverjar milljón myndir í ferðinni og hótaði að birta á netinu. Er hér með skorað á hann að gera það ið fyrsta, fyrir utan sumar myndir, þeim skal farga....

 

Ríjúníon og Conan O'Brien

Jarlaskáldið var sem kunnugt er á faraldsfæti um helgina. Áhugasamir lesendur verða því miður að bíða um sinn eftir ferðasögu, en hún er í vinnslu.

Annars rakst Jarlaskáldið á „skemmtilega“ heimasíðu um daginn. Var víst stofnað til hennar af því tilefni að í ár eru liðin tíu ár síðan Jarlaskáldið og aðrir nemendur Seljaskóla fæddir 1977 útskrifuðust með gagnfræðapróf. Á víst að halda heljarinnar ríjúníon af því tilefni eftir ca. mánuð. Það gæti orðið ljóta samkoman. Maður sér til hvort maður mætir, gæti orðið forvitnilegt þó ekki væri nema til að vita hverjir sitja inni á Litla-Hrauni þessi misserin, en að sögn óljúgfróðra manna fyllti '77 árgangurinn úr Seljaskóla hátt í heila álmu á Hrauninu um tíma. Góður árgangur.
Á þessari ágætu síðu má einnig finna fjölmargar myndir frá þessum tíma. Jarlaskáldinu fannst síðasta myndin á þessari síðu einna áhugaverðust. Greinilegt að Jarlaskáldið var fljótt í fararbroddi hvað varðar tísku.

Jarlaskáldið tekur heilshugar undir orð doktorsins, hvers vegna í ósköpunum er ekki byrjað að sýna Conan O'Brien á Íslandi þegar allt þetta rusl er í boði? Þangað til einhver góður maður sér til þess að Conan mæti á skjáinn má benda öðrum aðdáendum á þessa síðu sem doktorinn benti á fyrir margt löngu. Skárra en ekkert.

Að lokum sendir Jarlaskáldið hamingjuóskir sínar til Hrafnhildar og Elvars með skírnina á sunnudaginn (sem Jarlaskáldið missti af af ástæðum sem síðar verður greint frá), Eyrún Alda heitir stúlkan og þykir Skáldinu það hið ágætasta nafn.

fimmtudagur, október 02, 2003 

Jarlaskáldið er orðið celebi! Bara komið á Batman.is!

Sjáiði bara: Ýta hér!

miðvikudagur, október 01, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugasta

Svo merkilega vill til að þessu sinni að Jarlaskáldið hefur frá bara nokkuð merkum atburðum að segja. En byrjum á byrjuninni:

Síðan síðast spurðist til Jarlaskáldsins og fram til gærdagsins verður seint sagt að líf þess hafi verið viðburðaríkt.

Föstudagur: Kvöldið fór í sjónvarpsgláp enn eitt skiptið, Ædolinn virðist ætla að verða áhorfandi eftir allt saman, þó það sé líklegt til að breytast þegar búið er að sía út lélega liðið sem hefur óneitanlega mun hærra skemmtanagildi en þeir sem hafa talent.

Laugardagur: Þá tók Jarlaskáldið sig svo til og mætti til vinnu klukkan níu, svo bregðast krosstré. Kom svo heim síðla dags og lagði sig fram að kvöldmat, en eftir hann lá leiðin upp í Logafold hvar við Stefán skemmtum okkur yfir Popppunkti með nokkrar ölkollur í hönd, síðar um kvöldið bættist aðeins í hópinn en enginn þó líklegur til stóraðgerða og fór skemmtunin því einkar prúðmannlega fram. Endaði það svo á því að Jarlaskáldið hélt heimleiðis fyrir klukkan tvö, og merkilegt nokk ásamt aðila af hinu kyninu. Ágætis tilbreyting það.

Sunnudagur: Hefðbundinn, fyrir utan það að heilsan var talsvert betri en oft áður um sama leyti vikunnar. Sunnudagur er þá frá.

Mánudagur: Einnig hefðbundinn, fótbolti um kvöldið þar sem Skáldið fór að sjálfsögðu á kostum, þó það hafi e.t.v. ekki verið öllum ljóst er þar voru. Sumir fatta bara ekki fótbolta.

Þriðjudagur: Þá var eilítið brugðið út af venjunni, en þó ekki, því afmæli eru jú með reglubundnari fyrirbærum. Það var amma gamla sem fagnaði 73 ára afmælinu og auðvitað heiðraði sonarsonurinn ömmu sína með nærveru sinni á þessum merkisdegi.

Miðvikudagur: Nú fer að hitna í kolunum. Jarlaskáldið mætti líkt og venjulega í vinnuna klukkan sjö (jebb, klukkan sjö. Sem er snemmt) og dundaði sér þar til klukkan fimm, þegar það stimplaði sig út og hélt á Bílasölu Reykjavíkur. Þar reiddi það fram einar 600.000 krónur íslenskar (sem vinur þess Björgólfur hafði einmitt „lánað“ Skáldinu skömmu áður) og fékk í staðinn jeppa einn allglæsilegan að flestra mati. Er hann af gerðinni Suzuki hliðarspark, framleiddur á því herrans ári 1996, upphækkaður og nýskóaður með alls kyns fíneríi, og ætti að vera vel liðtækur þegar kemur að jeppaferðum hins ágæta félagsskapar V.Í.N.. Ekki á Skáldið mynd af skrjóðnum enn, en til að gefa lesendum hugmynd má skoða þessa mynd, ímynda sér að bíllinn sé hvítur, á stærri dekkjum og að flestu leyti flottari. Sorrý Vignir!

Ekki dugir að eiga jeppa og keyra hann bara innan bæjarmarkanna. Vill því svo vel til að um helgina boðar áðurnefndur félagsskapur V.Í.N. til mikillar veislu í bústað að Flúðum í Árnessýslu. Nefnist fögnuður þessi Grand Buffet og felst einkum í því að eta feitt ket og drekka beiskt brennivín í miklu magni. Er þetta árviss viðburður og hefur jafnan endað með ósköpum, jafnvel þannig að lögreglan hefur þurft að skerast í leikinn, og því nokkuð öruggt að þetta verður talsvert húllumhæ. M.a. þar sem a.m.k tveir félagsmanna V.Í.N. hafa eignað sér jeppa síðan síðast (auk Jarlaskáldsins er það herra Andrésson á þessum bíl (sá til hægri), er honum um leið óskað til hamingju með nýju dekkin) hefur verið ákveðið að bæta smá jeppói við svallið og fær nýi kagginn því sína eldskírn um helgina. Það verður fjör. Verður hér látið staðar numið, en um leið lofað djúsí ferðasögu eftir helgi. Nema Óminnishegrinn hafi eitthvað um það að segja...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates