« Home | Óhemju hnyttinn titill Nú er föstudagurinn 17. ok... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta Þau eru nú orð... » | 62 atriði um helgina (100 er ófrumlegt) 1. Vann t... » | Af Grand Buffet og öðrum uppákomum Eins og lesend... » | Ríjúníon og Conan O'Brien Jarlaskáldið var sem ku... » | Jarlaskáldið er orðið celebi! Bara komið á Batman.... » | Miðvikublogg ið þrítugasta Svo merkilega vill til... » | Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda Fólk h... » | 7-0 Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að... » | Vinur minn hann Björgólfur Björgólfur Guðmundsson... » 

mánudagur, október 20, 2003 

Fyrir sunnan Hofsjökul

Síðast þegar spurðist til Jarlaskáldsins var það á leið í jeppaleiðangur. Nú er það búið í jeppaleiðangri og tími til kominn að fræða lesendur hvernig það gekk. Góðar stundir.

Jarlaskáldið vaknaði um áttaleytið á laugardaginn við hamaganginn í Degi Tjörva systursyni sínum sem var í pössun hjá ömmu sinni og veit fátt skemmtilegra en að hafa hátt þegar aðrir kjósa næði. Reyndar hafði Skáldið sig ekki fram úr fyrr en hálftíma síðar, enda ekki vant því að vera árrisult um helgar, og hafði sem betur fer fundið til ferðagræjur og viðlegubúnað kvöldið áður og þurfti því ekki að gera annað en að skola af sér skítinn og halda svo af stað í Bryggjuhverfið þar sem ætlunin var að hitta hina ferðafélagana. Voru þeir þegar mættir þegar Skáldið bar að garði og hafði okkur öllum tekist að gleyma gönguskóm svo næsta mál á dagskrá var að ná í þá. Þeir Toggi og Maggi héldu svo austur fyrir fjall en vegna rangs misskilnings töfðumst við Stebbi um ca. 20 mínútur. Þegar leyst hafði verið úr honum héldum við í humátt á eftir þeim, og gerðum fyrsta stans á Selfossi þar sem keypt var feitt ket og annar matur. Héldum svo áfram og stoppuðum næst í Árnesi þar sem þeir Maggi og Toggi biðu eftir okkur. Þar fengu bílar að drekka og aðrir að éta. Sem var gott. Einnig hittum við þar ungan mann af nærliggjandi sveitabæ sem sýndi för okkar gríðarlegan áhuga og var ekki í rónni fyrr en við höfðum lýst í smáatriðum ferðaáætlun okkar og sýnt honum á korti. Greinilega koma ekki of margir gestir í sveitina.
Þegar allir voru mettir var ekið áfram upp í Þjórsárdal og rifjaðir upp góðir tímar þar. Var svo stoppað við Sultartanga og hleypt eilitlu lofti úr dekkjum enda von á að leikar færu að æsast fljótlega hvað jeppaskrölt á misjöfnum slóðum varðaði. Þó enginn Stóri sandur eins og oft var nefnt. Var s.s. ekin einhver að því er virðist ónefnd leið (eflaust kölluð Setursleið eða e-ð álíka) í svona ca. norðnorðaustur upp með Þjórsá og gekk stóráfallalaust, árnar voru vel viðráðanlegar og veður milt þó þoka væri sums staðar að læðast um og eitthvað yrjaði úr lofti á köflum. Á leiðinni stoppuðum við í tveimur skálum, annars vegar í Bjarnarlækjarbotnum og hins vegar í Tjarnarveri, áttu þessir skálar það sameiginlegt að vera fremur óvistlegir. Var næsta mál á dagskrá eftir stoppið í Tjarnarveri að aka áfram norður áleiðis að Þjórsárverum en sú ferð varð stutt. Slóðinn hafði greinilega þolað talsvert vatnsveður og skipti engum togum, Maggi sökk ofan í drullu og sat pikkfastur. Þurfti Willi að kippa í kaggann og gerði það án stórvandræða þrátt fyrir að grip væri ekki allt of mikið í drullunni. A.m.k. var ákveðið að reyna ekki frekar við þennan slóða enda óðs manns æði og verða Þjórsárver því bara að bíða betri tíma. Miðað við það sem við sáum verður allavega lítil eftirsjá af þessu svæði þegar því verður sökkt, þarna er ekkert, og ef íslensk náttúra á nóg af einhverju er það ekkertið.
Eftir þessar svaðilfarir í drullunni ákváðum við að líta inn í Setur og sjá hvort þar væri pláss fyrir fjóra unga séntilmenn. Gekk ferðin þangað vel fyrir sig, og skemmtum við Stefán okkur vel yfir Best of Laddi geisladisknum með frábærum lögum eins og Austurstræti, Búkolla og Jón spæjó. Þegar í Setrið kom blasti við okkur óvænt sjón, ekki kjaftur á svæðinu. Þá mundu sumir eftir því að árshátíð ferðaklúbbsins 4x4 var einmitt þetta sama kvöld og því ekkert skrýtið að þarna væri tómt. Voru þetta bæði góð og slæm tíðindi. Auðvitað var gott að vera einir á svæðinu og geta hagað okkur eins og við vildum (þó innan siðgæðismarka) en þetta þýddi að stór hluti skálans var læstur og þar á meðal eldhúsið og ljósavélin. Sem betur fer fannst lausn á hvoru tveggja, fundum pappadiska og hnífapör og glös sem við gátum notað og tengdum svo rafgeymi úr öðrum bílnum við húsið og gátum lýst upp þannig. Næsti höfuðverkur var svo olíukyndingin, gekk illa að kveikja á henni og þegar það loksins tókst vorum við búnir að dæla svo mikilli olíu inn á hana að hún snarbrjálaðist með miklum hávaða og gríðarhita en jafnaði sig sem betur fer fljótlega og var ljúf sem lamb það sem eftir lifði ferðar.
Næsta mál á dagskrá var að sjálfsögðu að grilla. Varð það skrautleg aðgerð. Fyrst þurfti að senda Togga eftir vatni og tók það hann ekki nema ca. hálftíma þótt á bíl væri. Kjötið var reyndar einfalt en furðuverk kvöldsins hlýtur að vera sósan hans Magga, sem hann matreiddi á grillinu með því að blanda saman sveppa- og piparsósu og hita í álbakkanum undan kjötinu. Var sósan merkilega góð, sem og allt annað þarna, enda bragðast allur matur betur úti í náttúrunni. Eftir matinn tók svo við sú iðja sem fjórir fullvaxnir karlmenn á besta aldri stunda þegir enginn sér til og fara ekki fleiri sögur af því.
Vöknuðu menn allhressir daginn eftir um ellefuleytið og tóku þegar til við hefðbundin morgunverk. Því miður hafði gleymst að taka með fulltrúa hreingerningardeildar VÍN og neyddumst við því sjálfir til að skúra og skrúbba húsið, sem var gjört af festu og röggsemi. Eftir þrifnaðinn var svo ekið áfram og þar sem okkur leiðist mjög að aka sömu leið til baka var ákveðið að keyra áfram yfir í Kerlingarfjöll og þá leið heim. Gekk ferðin þangað vel fyrir sig enda vanir menn á ferð, hjá okkur Stebbunum var Stubbastuðið allsráðandi enda eina vitið. Í Kerlingarfjöllum var algerlega mannlaust, tókum við okkur til og ókum upp með ánni þarna til að kanna heitan pott sem við höfðum haft fregnir af. Reyndist hann lítt spennandi þegar til kom, og því böðun sleppt. Eftir þessa svaðilför skoðuðum við gamlan skála og er hann einhver sá minnst spennandi sem Skáldið hefir kannað.
Eftir það var ekið heimleiðis með tilheyrandi pylsustoppi á Geysi og lúkum vér þar sögu þessari.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates