« Home | Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda Fólk h... » | 7-0 Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að... » | Vinur minn hann Björgólfur Björgólfur Guðmundsson... » | Breytingar Stelpan segist vera hætt að blogga eft... » | Heimtur úr helju Já, lesendur góðir, Jarlaskáldið... » | Ó vei mig auman! Það er ekki gott hljóðið í Jarla... » | Jarlaskáldið snýr blaðinu við Það er ekki laust v... » | Af kappleikjum og öðru Þessi vinnuvika hefur nú a... » | Sumarið var tíminn Það hefur nú eitt og annað ver... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogáttunda Síðustu þrír ... » 

miðvikudagur, október 01, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugasta

Svo merkilega vill til að þessu sinni að Jarlaskáldið hefur frá bara nokkuð merkum atburðum að segja. En byrjum á byrjuninni:

Síðan síðast spurðist til Jarlaskáldsins og fram til gærdagsins verður seint sagt að líf þess hafi verið viðburðaríkt.

Föstudagur: Kvöldið fór í sjónvarpsgláp enn eitt skiptið, Ædolinn virðist ætla að verða áhorfandi eftir allt saman, þó það sé líklegt til að breytast þegar búið er að sía út lélega liðið sem hefur óneitanlega mun hærra skemmtanagildi en þeir sem hafa talent.

Laugardagur: Þá tók Jarlaskáldið sig svo til og mætti til vinnu klukkan níu, svo bregðast krosstré. Kom svo heim síðla dags og lagði sig fram að kvöldmat, en eftir hann lá leiðin upp í Logafold hvar við Stefán skemmtum okkur yfir Popppunkti með nokkrar ölkollur í hönd, síðar um kvöldið bættist aðeins í hópinn en enginn þó líklegur til stóraðgerða og fór skemmtunin því einkar prúðmannlega fram. Endaði það svo á því að Jarlaskáldið hélt heimleiðis fyrir klukkan tvö, og merkilegt nokk ásamt aðila af hinu kyninu. Ágætis tilbreyting það.

Sunnudagur: Hefðbundinn, fyrir utan það að heilsan var talsvert betri en oft áður um sama leyti vikunnar. Sunnudagur er þá frá.

Mánudagur: Einnig hefðbundinn, fótbolti um kvöldið þar sem Skáldið fór að sjálfsögðu á kostum, þó það hafi e.t.v. ekki verið öllum ljóst er þar voru. Sumir fatta bara ekki fótbolta.

Þriðjudagur: Þá var eilítið brugðið út af venjunni, en þó ekki, því afmæli eru jú með reglubundnari fyrirbærum. Það var amma gamla sem fagnaði 73 ára afmælinu og auðvitað heiðraði sonarsonurinn ömmu sína með nærveru sinni á þessum merkisdegi.

Miðvikudagur: Nú fer að hitna í kolunum. Jarlaskáldið mætti líkt og venjulega í vinnuna klukkan sjö (jebb, klukkan sjö. Sem er snemmt) og dundaði sér þar til klukkan fimm, þegar það stimplaði sig út og hélt á Bílasölu Reykjavíkur. Þar reiddi það fram einar 600.000 krónur íslenskar (sem vinur þess Björgólfur hafði einmitt „lánað“ Skáldinu skömmu áður) og fékk í staðinn jeppa einn allglæsilegan að flestra mati. Er hann af gerðinni Suzuki hliðarspark, framleiddur á því herrans ári 1996, upphækkaður og nýskóaður með alls kyns fíneríi, og ætti að vera vel liðtækur þegar kemur að jeppaferðum hins ágæta félagsskapar V.Í.N.. Ekki á Skáldið mynd af skrjóðnum enn, en til að gefa lesendum hugmynd má skoða þessa mynd, ímynda sér að bíllinn sé hvítur, á stærri dekkjum og að flestu leyti flottari. Sorrý Vignir!

Ekki dugir að eiga jeppa og keyra hann bara innan bæjarmarkanna. Vill því svo vel til að um helgina boðar áðurnefndur félagsskapur V.Í.N. til mikillar veislu í bústað að Flúðum í Árnessýslu. Nefnist fögnuður þessi Grand Buffet og felst einkum í því að eta feitt ket og drekka beiskt brennivín í miklu magni. Er þetta árviss viðburður og hefur jafnan endað með ósköpum, jafnvel þannig að lögreglan hefur þurft að skerast í leikinn, og því nokkuð öruggt að þetta verður talsvert húllumhæ. M.a. þar sem a.m.k tveir félagsmanna V.Í.N. hafa eignað sér jeppa síðan síðast (auk Jarlaskáldsins er það herra Andrésson á þessum bíl (sá til hægri), er honum um leið óskað til hamingju með nýju dekkin) hefur verið ákveðið að bæta smá jeppói við svallið og fær nýi kagginn því sína eldskírn um helgina. Það verður fjör. Verður hér látið staðar numið, en um leið lofað djúsí ferðasögu eftir helgi. Nema Óminnishegrinn hafi eitthvað um það að segja...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates