« Home | Ríjúníon og Conan O'Brien Jarlaskáldið var sem ku... » | Jarlaskáldið er orðið celebi! Bara komið á Batman.... » | Miðvikublogg ið þrítugasta Svo merkilega vill til... » | Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda Fólk h... » | 7-0 Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að... » | Vinur minn hann Björgólfur Björgólfur Guðmundsson... » | Breytingar Stelpan segist vera hætt að blogga eft... » | Heimtur úr helju Já, lesendur góðir, Jarlaskáldið... » | Ó vei mig auman! Það er ekki gott hljóðið í Jarla... » | Jarlaskáldið snýr blaðinu við Það er ekki laust v... » 

þriðjudagur, október 07, 2003 

Af Grand Buffet og öðrum uppákomum

Eins og lesendum er kunnugt var Jarlaskáldið að skuldsetja sig um ókomna tíð með því að fjárfesta í litlum jeppaskrjóð með hjálp lánastofnana. Þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu í kjölfar þess brá Skáldið undir sig betri fætinum um helgina og kom víða við. Hér eftir fer sagan af því.

Við hefjum sögu vora á sjötta tímanum á föstudaginn. Jarlaskáldið hélt þá heimleiðis úr vinnu sinni og tók þegar til við undirbúning brottfarar í mikið ferðalag. Upphaflega höfðu sex manns ætlað að leggja í hann á föstudagskvöldinu en tveir höfðu forfallast þegar þarna var komið sögu og mega eftir það hundar heita. Eftir stóðu því einungis Jarlaskáldið, Stefán, Andrésson og frú. Sakir fámennis var ákveðið að fara því „bara“ á tveimur bílum og fékk Willysinn hans Stebba að bíða heima. Ekki laust við að sést hafi tár á hvarmi Stefáns er hann kvaddi Willa sinn þegar Skáldið sótti hann rétt fyrir átta. Byrjuðum við félagarnir á því að koma við í kjörbúð til að kaupa nauðsynleg aðföng, mjólkurbúðina höfðum við báðir heimsótt fyrr um daginn. Því næst var komið við á bensínstöð og gefið hinum enn óskírða jeppa Jarlaskáldsins að drekka í fyrsta skipti, voru það einir 42,30 lítrar sem fóru ofan í hann að þessu sinni. Eftir það var ekki eftir neinu að bíða, heldur brunað sem leið lá um Mosfellsheiðina í átt að Þingvöllum. Stefán stóð sig vonum framar í hlutverki aðstoðarökumanns þrátt fyrir að vera vanari því að sitja vinstra megin, steig hann vart feilspor í stjórnun CD/MP3 spilarans góða og það þrátt fyrir að vera byrjaður á ölinu. Á Þingvöllum biðu svo eftir okkur skötuhjúin Andrésson og frú á X-Cabnum sínum sem herra Andrésson hafði nýlega sett á 38 tommu vetrarbomsur og hann því allur hinn vígalegasti. Lá leiðin síðan yfir Lyngdalsheiði, upp að Geysi og þar yfir Hvítá og ekki stoppað fyrr en á Flúðum þar sem við áttum að finna sumarbústað. Ekki gekk það vel í fyrstu en eftir smá leiðbeiningar heimamanna og eilítinn villing fannst húsið og var það hið snotrasta. Kvöldið fór svo í rólegheit og rómantík, sötruðum eilítinn bjór og kíktum á pottinn en fórum svo tiltölulega snemma í bælið þar eð morgundagurinn var planaður í jeppó...

...og merkilegt nokk tókst okkur að vakna á sómasamlegum tíma og ekki ómerkilegra að það var sjálfur Stefán sem fyrstur reis úr rekkju, var hann enda stoltur af. Vitanlega voru allir við hestaheilsu svo að eftir morgunverkin var tölt upp í bíl og ekið af stað upp á fjöll og firnindi. Reyndar var það ekki erfiðasta jeppaleiðin sem plönuð var, en þó smá sull á leiðinni og eitthvað hopp og hí. Byrjuðum við á að keyra að bænum Skáldabúðum þarna skammt frá og þaðan upp á Skáldabúðaheiði sem liggur í norðurátt og endar á ca. miðri svokallaðri Tangaleið sem ætlunin var síðan að aka í aðra hvora áttina. Úr varð að keyra í vestur vegna góðs millitíma. Einmuna blíða var á svæðinu þó heldur væri kalt og skemmst frá því að segja að nýi jeppinn stóð sig eins og hetja og gaf 38 tommu tröllinu ekkert eftir þrátt fyrir að hafa „einungis“ 31 tommu til umráða. Fór hann m.a. yfir, ja, ekki Litlu-Laxá, heldur Stóru-Laxá, og það ekki bara einu sinni heldur þrisvar og eins og ekkert væri. Var eigandinn líka bara nokkuð stoltur af kappanum og sér fram á fátt muni stöðva hann í framtíðinni nema vera skyldi bensínskortur vegna peningaleysis. Það reddast.
Á Flúðir vorum við svo aftur komin í kringum fjögur og hófu sumir þegar aðalfundarstörfin, þótt hægt væri farið í byrjun. Fór svo annað fólk smátt og smátt að tínast inn í bústaðinn, en kærkomnustu gestirnir voru líklega Þau Toggi og frú ásamt Öldu því þau voru með matinn. Auk þeirra mættu þeir Vignir og Gústi, Eyfi og Ríkey, og það sem kannski mesta furðu vakti, Snorri pervert ásamt kvenmanni og virtist vinskapur þeirra í millum talsverður. Snorri horfir s.s. til beggja átta í þeim málum ef eitthvað er að marka undangengna mánuði.
Maturinn á nú alveg skilið að fá vandlega umfjöllun, slík snilld var hann. Í forrétt var boðið upp á reyktan og grafinn lax á brauði og var afar vel af því látið. Aðalrétturinn var síðan stök snilld. Í fyrsta lagi var boðið upp á eitthvað hið meyrasta og safaríkasta lambaket sem skáldið hefur tönnum tuggið. Auk þess var boðið upp á svínakjöt á grillpinnum ásamt grænmeti hvurs konar, ekki var það minni snilld. Að lokum þótti ekki annað hægt en að prófa hrefnukjötið, það fékk heldur misjafnari undirtektir, Jarlaskáldinu þótti það afbragð og því betra sem það var minna grillað. Fékk það m.a.s. að klára hrefnukjöt af diskum annarra, en í staðinn var stolið af því papriku sem varð næstum til vinslita en leystist sem betur fer úr að lokum.
Eftirrétturinn var síðan eins og rúsinan í pylsuendanum, ís með Marssósu, sá sem datt í hug að bræða Marssúkkulaðistykki út á ís á skilið Fálkaorðu. Að minnsta kosti.
Að mat loknum var fátt annað hægt en að liggja afvelta á meltunni þar til heilsan leyfði annað, Ríkey og Eyfi létu sig hverfa um þetta leyti vegna annarra skuldbindinga en þeirra í stað birtist Magnús Blöndahl galvaskur á svæðið, látum aðra dæma um ágæti þeirra skipta. Piltur má nú eiga það að hann sló ekki slöku við drykkjuna þá loksins hann mætti, betra seint en aldrei.
Næsti dagskrárliður Grand Buffet að þessu sinni var hugarfóstur hennar Öldu, þótti henni sem ærin ástæða væri til að verðlauna hina og þessa V.Í.N.-verja fyrir afrek liðin árs og tók upp á því upp á sitt einsdæmi að útbúa glæsileg viðurkenningarskjöl fyrir þetta tilefni, fyrstu árlegu úthlutun V.Í.N.-verðlaunanna, sem heita hinu lýsandi nafni „Bokkan“. Gott að sjá að tölvunámskeiðið er strax farið að borga sig. Auk þess fengu allir verðlaunahafar verðlaunagrip sem vart ætti að þurfa að lýsa. Að þessu sinni voru afhent fern verðlaun. Í fyrsta lagi fékk Stefán verðlaunin „Óheppni ársins“, fyrir að hafa á óskiljanlegan hátt tekist að týna öðru skíðinu sínu í miðri brekku í rómaðri Ítalíuför. Þótti hann vel að titlinum kominn. Önnur verðlaun kvöldsins tengdust einnig Ítalíu, en þau hlaut Magnús Blöndahl, var hann útnefndur „Aumingi ársins“ fyrir að hætta við næstu Ítalíuför. Þótti hann ekki síður vel að titlinum kominn.
Þriðja „Bokka“ kvöldsins var afhent fyrir „Dauða ársins“. Þóttu úrslit í þeim flokki afar fyrirsjáanleg og handhafi verðlaunanna sérlega vel að þeim kominn, en þau voru fyrir „Glæsilega frammistöðu á Snæfellsjökli 12. júlí 2003“ eins og segir á viðurkenningarskjali. Reyndar vildu sumir meina að sigurvegarinn hefði einnig unnið annað og þriðja sætið ef í boði væru en það er önnur saga.
Fjórðu og síðustu verðlaun kvöldsins hlaut svo Vignir sem „Friðarspillir ársins“ fyrir frammistöðu sína í síðasta Grand Buffet en þá þurfti einmitt að kalla til lögreglu og endaði það mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Glæsileg frammistaða hjá pilti og vel að verðlaununum kominn.
Eftir verðlaunaafhendinguna má segja að aðalfundarstörfin hafi tekið yfirhöndina, bæði innan dyra og úti í potti og sennilega víðar. Ekki er ástæða til að tíunda það í smáatriðum hvernig það fór fram, handhafi verðlaunanna „Dauði ársins“ mun hafa staðið undir nafni og það nokkrum sinnum, enda titil að verja. Stefán mun hafa gert sig sekan um ósiðsamlegt athæfi síðla nætur en lesendur fá ekki að vita meira. Af athæfinu munu vera til myndir, og er myndasmiðurinn vinsamlegast beðinn um að farga þeim. Skandalar? Tja....

Það er óhætt að segja að töluverð þreyta hafi verið ríkjandi á sunnudeginum, og jafnvel vanheilsa á stöku stað. Að vísu létu Toggi og frú ásamt Gústa sig hverfa heimleiðis fyrir allar aldir og Snorri gerði slíkt hið sama stuttu síðar ásamt „félaga“ sínum. Aðrir sváfu eins og þeir fengju borgað fyrir það og fóru ekki á lappir fyrr en klukkan var að nálgast fjögur. Jarlaskáldið var reyndar við ágæta heilsu enda betur sofið en margir en einhver vanheilsa virtist víða ríkjandi. Ekki hjálpaði þýski nútímaballettinn í sjónvarpinu til og var því ákveðið að þrífa pleisið einn tveir og bingó og drífa sig á KFC á Selfossi þar sem hann þykir allra meina bót og ekki síst sunnudagsmeinabót. Stóð hann vel undir væntingum og var aldeilis hreint fínn endir á töluvert frábærri ferð. Við erum nefnilega svo ógeðslega skemmtileg....



Toggólfur tók einhverjar milljón myndir í ferðinni og hótaði að birta á netinu. Er hér með skorað á hann að gera það ið fyrsta, fyrir utan sumar myndir, þeim skal farga....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates