« Home | 62 atriði um helgina (100 er ófrumlegt) 1. Vann t... » | Af Grand Buffet og öðrum uppákomum Eins og lesend... » | Ríjúníon og Conan O'Brien Jarlaskáldið var sem ku... » | Jarlaskáldið er orðið celebi! Bara komið á Batman.... » | Miðvikublogg ið þrítugasta Svo merkilega vill til... » | Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda Fólk h... » | 7-0 Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að... » | Vinur minn hann Björgólfur Björgólfur Guðmundsson... » | Breytingar Stelpan segist vera hætt að blogga eft... » | Heimtur úr helju Já, lesendur góðir, Jarlaskáldið... » 

miðvikudagur, október 15, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta

Þau eru nú orðin ansi stopul miðvikubloggin í seinni tíð, en það er nú ekki eins og maður fái borgað fyrir þetta svo það verður bara að hafa það. Bullum bara.

Í fyrsta lagi vill Jarlaskáldið nota tækifærið og óska honum Mumma til hamingju með að vera orðinn 27 ára gamall. Af því tilefni ætlar Jarlaskáldið að lofa því að hugsa vel til Vin Baker á komandi leiktíð, honum veitir víst ekki af (ókei, hversu margir skilja þetta?).

Jarlaskáldið brá undir sig betri fætinum (bensínfætinum) í gærkvöld og leit við á kaffihúsi. Kaffihúsið sem fyrir valinu varð var sjálfur heimavöllurinn, og var afar tómlegt um að litast þar. Þótti Skáldinu það skrýtið, enda vanara því að standa í mikilli baráttu helgi eftir helgi við það eitt að komast þar inn. Ásamt Skáldinu mætti á staðinn valinkunnur hópur fyrrverandi og núverandi íslenskunema, t.d. aumingjabloggarinn Oddi, kverúlantinn Haukur, íþróttafréttaritarinn Bjössi (þessi með hárið), Skagamaðurinn Sævar og gamli meðleigjandinn hans sem Jarlaskáldið getur ómögulega munað hvað heitir. Var glatt á hjalla og tímanum einkum varið í að rifja upp gömul afrek og tala illa um aðra fyrrverandi og núverandi íslenskunema. Var þetta ágætis tilbreyting að hafa sig út úr húsi á þriðjudagskvöldi, enda með eindæmum lélegt sjónvarpskvöld. Jarlaskáldið græddi einnig talsvert á þessu, því á leiðinni heim kom það höndum yfir tvö íslensk lög frá níunda áratug síðustu aldar, hið óskiljanlega Lalív með Smartbandinu og síðan Vals nr. 1 eftir Magnús Eiríksson. Segið svo að aumingjabloggarinn sé alveg gagnslaus!

Enn og aftur gerist þess þörf að taka til í bloggaralistanum. Jarlaskáldið var ekki fyrr búið að bæta bloggara dauðans inn á listann en að hann fremur bloggsjálfsmorð öðru sinni. Dettur hann því átómatískt út af listanum. Í hans stað fær Skúli Arnlaugsson, bróðir afmælisbarnsins og samverkamaður Jarlaskáldsins til margra ára sinn gamla sess að nýju. Hefur hann hafið blogg af krafti eftir nokkra magra mánuði og vonandi að hann standi undir þessu trausti sem honum er sýnt. Aðrir sem banka á dyrnar eru t.d. Sjonni sem hefur sýnt smá lífsmark að undanförnu en betur má ef duga skal. Svo eru að sjálfsögðu nokkrir sem þurfa að fara að passa sig, fer Mokkurinn þar fremstur í flokki, en til hans hefur ekkert spurst í á þriðju viku. Sýni hann ekkert lífsmark fyrir mánaðamót má hann búast við grimmilegri refsingu.

Á þessum tímapunkti er ekki úr vegi að nefna það að eftir nákvæmlega þrjá mánuði, eða 91 dag, mun Jarlaskáldið ásamt fleiri góðum mönnum vera búið að yfirgefa landið og væntanlega statt í annarlegu ástandi einhvers staðar á norðurhluta Ítalíu. Ó hvað það verður gaman!

Kannski ein lauflétt getraun að lokum (aumingjabloggaranum er meinuð þátttaka): Úr hvaða sjónvarpsþætti er lagið Vals nr. 1 eftir Magnús Eiríksson og hvers eðlis var sá þáttur? Vegleg verðlaun í boði, glæný Toyota Landcruiser bifreið!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates