« Home | Tilgangslaust Þessi færsla hefur engan tilgang. N... » | NBA spá Jarlaskáldsins tímabilið 2003-2004 Þá fer... » | Fyrir sunnan Hofsjökul Síðast þegar spurðist til ... » | Óhemju hnyttinn titill Nú er föstudagurinn 17. ok... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta Þau eru nú orð... » | 62 atriði um helgina (100 er ófrumlegt) 1. Vann t... » | Af Grand Buffet og öðrum uppákomum Eins og lesend... » | Ríjúníon og Conan O'Brien Jarlaskáldið var sem ku... » | Jarlaskáldið er orðið celebi! Bara komið á Batman.... » | Miðvikublogg ið þrítugasta Svo merkilega vill til... » 

mánudagur, október 27, 2003 

Af afmælum, útskriftum, góðkunningjum lögreglunnar og öðru smálegu

Eins og einhverjir lesendur eflaust uppgötvuðu fagnaði Jarlaskáldið því að vera komið á ofanverðan þrítugsaldurinn (mikið hljómar það illa) á föstudaginn, bárust því fjölmargar afmæliskveðjur og er þeim öllum þakkað sem þær sendu. Þeir sem ekki sendu afmæliskveðjur mega hins vegar fara norður og niður. Reyndar verður að viðurkennast að skemmtanahald Jarlaskáldsins á föstudagskvöld var með tempraðasta móti, leit það við í heimsókn hjá Magnúsi að Þverbrekku ásamt Stefáni þeim er við twist er kenndur, en auk húsráðanda var kollegi hans Haukur á staðnum. Var tæmt úr örfáum ölkollum og hlýtt á fagra tóna Leoncie í bland við alvarlegar samræður um ýmsustu mál, og var teitinni slitið á þriðja tímanum eftir flatbökuát þegar hver hélt til síns heima. Fer ekki meiri sögum af því kvöldi.

Laugardagurinn var öllu tíðindaríkari. Að vísu var hann venju samkvæmt hinn rólegasti fram að kvöldmat, það eina sem Skáldið afrekaði var að fara á McDonalds og glápa á sjónvarp. Fastir laugardagsliðir eins og venjulega, þó breyting hafi verið gerð í vali skyndibitastaðar að þessu sinni. Um kvöldið mallaði móðir Skáldsins svo dýrindis kjúklingarétt, en Skáldið fór sér rólega við matarborðið þar eð því var boðið til veislu stuttu síðar. Voru gestgjafarnir Eyjólfur Magnússon og Ríkey frú hans, og tilefnið meistaragráða í jarðeðlisfræði sem Eyjólfi hafði hlotnast fyrr um daginn. Auk Jarlaskáldsins voru á gestalista þau Magnús frá Þverbrekku, Vignir Jónsson, Stefán Twist, Ágúst Sturla og Alda, en allt mun þetta fólk ólofað, nema hugsanlega einn, auk þeirra skötuhjúin Stefán Geir og Hildur og Þorvaldur og frú. Jú, svo var ein stúlka sem Jarlaskáldið kann engin deili á. Var matseðillinn mexíkanskur að þessu sinni, burrito með hverju því sem hugurinn girntist, enda sjálfsafgreiðslufyrirkomulag notað. Auk þess vín bæði rautt og hvítt sem gert var góð skil, nema einhverjir gikkir sem fengu öl. Var matur þessi mikið góðgæti og eiga gestgjafar lof skilið fyrir.
Þegar allir voru mettir og sumir kannski rúmlega það tóku við hin hefðbundnu aðalfundarstörf, og bauð Eyjólfur í því skyni upp á ávaxtasaft, sem Skáldið fór fljótlega að gruna að innihéldi görótta drykki, því gestir tóku að gleðjast við drykkju hans. Að vísu þótti Eyjólfi sem gestir gleddust ekki nóg og hafði æ minna af ávaxtasafa í saftinni þegar á leið en engu að síður fór teitin prúðmannlega fram. Um síðir kláraðist svo saftin en sem betur fer voru flestir með nesti og var því drykklangri stund eytt þarna í Kópavoginum. Að lokum fór sumt fólk svo að ókyrrast og vilja leita niður á láglendið, nánar tiltekið á Hverfisbarinn. Var klukkan þá farin að ganga í fjögur og menn því heldur seint á ferð og röðin inn á staðinn eftir því. Tókst okkur með lævíslegum brögðum að snarast fljótlega í gegnum þann pakka, og það þrátt fyrir að ryskingar ættu sér stað milli annarra manna í röðinni. Var Jarlaskáldið ekki fyrr komið inn en þorsti sótti að Öldu og dreif hún Skáldið með á barinn. Þar var líkt og í fuglabjargi um að litast og vandséð hvernig ætti að fá afgreiðslu en einhvern veginn tókst okkur að smokra okkur að barnum enda hvorugt í flokki gildvaxnara fólks. Fyrir aftan okkur var svo maður einn alldrukkinn sem leiddist biðin mjög, otaði að okkur fimmþúsund konu og fór þess á leit við okkur að kaupa fyrir sig nokkra drykki. Var það samþykkt af Öldu með þeim skilmálum að við fengjum að eiga afganginn. Þess má geta að fyrir afganginn keyptum við tvo stóra bjóra, tvö skot og áttum fimm hundruð kall í afgang. Ah, fullt fólk!
Varð þessi búbót til þess að fólk hresstist mjög og fór mikinn á dansgólfi, líkt og Jón Baldvin Hannibalsson sem þarna var og sýndi góða takta ef minnið svíkur ekki. Annars fer ekki miklum sögum af vistinni á Hverfisbarnum, var hún góð líkt og oftast og fólk misgáfulegt eins og gengur. Um síðir kviknuðu svo ljósin og fólki smalað út, voru þá einugis Jarlaskáldið, Stefán Twist og Alda enn á staðnum, aðrir væntanlega lotið í lægra haldi fyrir Bakkusi fyrr um nóttina. Úti var alger úrhellisrigning og stefnan tekin niður í bæ að finna leigubíl. Á leiðinni varð fyrir okkur á hægri hönd hús eitt nokkuð áberandi sem eitt sinn var fangelsi en geymir nú annars konar glæpamenn. Er hér að sjálfsögðu átt við Stjórnarráðið.
Eins og dyggari lesendum er eflaust kunnugt fór Jarlaskáldið hér áður fyrr hamförum í jaðarsporti því er fasteignaklifur kallast. Hafa ófá húsin verið klifin í gegnum tíðina og var Stjórnarráðið í sérlegu uppáhaldi þegar Skáldið var upp á sitt besta. Svo vikið sé aftur að laugardagskvöldinu (reyndar kominn sunnudagsmorgunn) þá horfir Skáldið í átt að Stjórnarráðinu og spyr svona í hálfkæringi hvort það ætti ekki að rifja upp gamla takta í fasteignaklifri. Voru aðstæður ekki góðar, hellirigning og Skáldið í jakkafötum og lakkskóm, og bjóst það því við því að samferðamennirnir myndu tæplega taka undir þessa hugmynd. En því var nú öðru nær, Alda var óð og uppvæg í að klifra og kallaði Skáldið gungu þegar það færðist undan svo það var ekki annað að gera en láta slag standa, ekki dugir að sitja undir frýjunarorðum konu. Gekk Skáldinu nokkuð vel og var fljótt upp en heldur gekk stúlkunni verr og gafst upp við fyrsta erfiða hjallann. Var því ekki annað að gera en að koma sér niður aftur. Þegar þangað var komið heilsuðu okkur tveir lögregluþjónar kvenkyns, og vildu vita hvað okkur gengi til með þessu athæfi. Reyndi Skáldið að útskýra þetta nýstárlega jaðarsport fyrir þeim en skilningsleysið var nær algjört. Stefán reyndi síðan að „hjálpa til“ með því að benda á rétt okkar til tjáningar-, atvinnu-, ferða- og gott ef ekki trúfrelsis enda frjálshyggjumaður mikill en við litlar undirtektir lögregluþjónanna, sem hljóta samkvæmt því að vera vinstrivillingar. Engu að síður sluppum við við að vera leidd burtu í járnum, líkast til af því við vorum svo holdvot að það hefði getað skemmt áklæðið í bílnum. Enn og aftur veldur skilningsleysi yfirvalda í garð jaðaríþrótta í þéttbýli Jarlaskáldinu vonbrigðum. Eftir þessi viðskipti okkar við laganna verði héldum við loks heim á leið og líkast til hefur leigubílstjórinn þurft að þurrka sætin sín eftir þá ferð, hehe....

Sunnudagurinn var líkt og laugardagurinn hefðbundinn fram eftir degi, Jarlaskáldið þurfti ekki einu sinni að sækja bílinn ( er hann ekki flottur?) og gat því legið í leti fram að kvöldmat þá loksins það vaknaði. Það er hverjum manni hollt. Um kvöldið bar móðir Skáldsins fram dýrindis hamborgarhrygg með brúnuðum og tilbehör, jólin komu snemma í ár. Eftir mat fór hún svo að draga fram tertur og brauðrétti sem hún hafði græjað fyrr um helgina því von var á nokkrum fjölda fólks í afmæliskaffi. Áttu gestir þessir það allir sameiginlegt að hafa verið í teitinni kvöldið áður og fór því drjúgur tími í að skiptast á djammhetjusögum. Fékk Skáldið nokkrar góðar gjafir, t.d. WD-40 brúsa (stóran) og afar tæknilega rúðusköfu frá Stefáni og Vigni, Simpsons dagatal frá Þverbrekkingi, fimm hundruð króna pening (afganginn síðan kvöldið áður) og glæsilegt kort með enn glæsilegri mynd frá Öldu og kvöl og pínu frá foreldrunum (skýrist síðar í pistlinum). Var bakkelsinu gerð góð skil þrátt fyrir heilsuleysi hjá sumum (af hverju ætli það sé?), og ýmislegt skrafað fram eftir kvöldi. Létu margir sig hverfa á ellefta tímanum en sumir fóru ekki fyrr en um miðnætti eftir að hafa horft á Popppunkt sem var afar skemmtilegur að þessu sinni og mikil synd að Sniglabandið skuli hafa dottið út, þeir áttu örugglega besta „hljómsveitin spreytir sig“ móment síðan Ham spiluðu Hátíðarskap fyrir tæpu ári. Ekki fer meiri sögum af sunnudegi.

Kvölin og pínan já. Jarlaskáldið fær væntanlega að upplifa vænan skammt af því á morgun og næstu daga, því um hálffimmleytið á morgun ætlar Tommi tannlæknir að taka upp sín skelfilegustu tól og byrja að hamast á einum endajaxli Jarlaskáldsins sem hefur verið til mikilla leiðinda undanfarið (í stað þess að vaxa í suður eins og tennur í efri gómi gera yfirleitt vex hann meira í austsuðaustur) og því tími til kominn að úthýsa honum. Verður þetta afmælisgjöfin frá foreldrunum, enda dýrt spaug og ekki á færi láglauna verkamanns að borga slíkt. Ekki nema maður geri eins og Júlli í Draumnum og geri þetta bara sjálfur með naglbít. Nei, þá er nú betra að fá fagmann í verkið og bryðja svo Parkódín forte eða aðrar eðalpillur eins og smartís. Ef heilsan leyfir mun Jarlaskáldið veita lesendum innsýn í líðan þess með reglulegu millibili, þ.e.a.s. ef það verður ekki svo high á pillum að það veit ekki hvað það heitir. Allavega, senda góða strauma á morgun, og étiði svo skít....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates