« Home | Allur lurkum laminn Jarlaskáldið er allt lurkum l... » | Miðvikublogg ið sjötta Það var stirður skrokkur s... » | Endurfundir Jarlaskáldið var á faraldsfæti í dag,... » | Fjör á Fróni Þar sem nær öll síðasta vika fór í a... » | Lengsta partýblogg sögunnar!!! Jamm, þá er bara ... » | Miðvikublogg ið fimmta Nei, því miður, engin ferð... » | Grámygla hversdagsleikans Það er ekki mjög hýrt y... » | Undanfari partýbloggsins mikla Eins og lesendum e... » | Kominn heim! Jarlaskáldið er mætt á svæðið, meira... » | Miðvikublogg ið fjórða Miðvikubloggið er snemma á... » 

mánudagur, febrúar 10, 2003 

Jarlaskáldið í menningarreisu - Stóra neftóbakshneykslið

Eflaust hefur það vakið nokkra furðu gesta Hverfisbarsins um helgina að þar var hvergi að sjá Jarlaskáldið. Kemur það reyndar til af góðu einu, því Jarlaskáldið var á faraldsfæti þessa helgina. Fór það við fjórða mann norður í land, alla leið til Agureyris, til að kynna sér menningarlíf innfæddra. Með í för voru þeir Magnús frá Þverbrekku og Vignir Jónsson að ógleymdum sjálfum Logafoldargreifanum, Stefáni Twist. Farið var á tveimur bílum, enda feitir menn á ferð, og fékk Jarlaskáldið lánaðan fjölskyldubílinn til ferðalagsins. Lagt var af stað í ljósaskiptunum á föstudag, og var Logafoldargreifinn með Jarlaskáldinu í bíl, var það talið ráðlegt sakir einstaks einkahúmors þeirra félaga sem enginn annar skilur. Skemmtum við félagar okkur enda gríðarvel með hjálp fjöldans alls af Radíusflugum, sem við kunnum reyndar flestar utan að og hlógum sem vitskertir værum.
Aksturinn gekk stóráfallalaust norður, víða var hálka og stundum munaði litlu að illa færi, og í Hrútafirðinum byrjaði einnig að snjóa allhressilega svo lítið sást út. Einhvern veginn komumst við þó á leiðarenda, og var klukkan þá orðin um eitt um nóttina. Stefán hafði sem von er ástundað stífa drykkju á leiðinni, en Jarlaskáldið eðliega ekki. Gist var hjá hinni einkar gestrisnu frænku Magnúsar, Helgu Möller, sem var svo sannarlega í hátíðarskapi. Býr hún á stúdentagörðum, og eftir að hafa komið draslinu okkar fyrir voru tappar dregnir úr flöskum og flipar opnaðir á dósum, en merkilegt nokk varð lítið um óspektir og drykkjulæti, heldur farið í fyrra fallinu í rúmið, því vakna þurfti snemma...

...eða um níuleytið. Var ætlunin nefnilega sú að halda til fjalla og skíða niður þau ef kostur væri á. Að vísu var ekki búið að opna í fjallinu þegar við vöknuðum, en það var gert um tíuleytið, og þá fórum við á fætur, við nokkra furðu húsráðanda, sem undraðist nokkuð hve árrisulir gestir hennar voru. Byrjað var á því að keyra í bakaríið við brúna og éta á sig gat, en svo ekið upp í fjall, með viðkomu í skíðaþjónustu og brennivínsbúðinni. Fjallið heilsaði okkur með næðingi og skítakulda, ekkert sem við létum aftra okkur þó, nepjan orsakaði það að fámennt var í fjallinu sem er jú kostur. Var skíðafæri afar hart og jafnvel bara ís á köflum í troðnu brautunum, en Jarlaskáldinu tókst að finna ótroðnar slóðir þar sem mun betra færi var, og jafnvel smá púður á köflum. Voru brettamenn í í meirihluta í fjallinu, og sem fyrr langflestir litlum hæfileikum gæddir í íþrótt þeirri. Var skíðað af krafti og litlar pásur teknar, enda eftir litlu að slægjast þar sem engar knæpur voru í fjallinu líkt og á Ítalíu, en við björguðum okkur þó með því að hafa „nesti“ með. Upp úr hádegi var svo Strýtan, efsta lyftan í fjallinu opnuð, og þá fyrst komumst við í alvöru brekkur, og þá voru allir glaðir.
Um hálfimmleytið hvarf Jarlaskáldið á braut, því það hafði gleymt sundbrókum og neyddist til að kaupa sér einar slíkar, dálaglegar Speedobrækur á hálft fjórða þúsund, sæmilegt það. Varð Sundlaug Akureyrar svo næsti viðkomustaður, þar sem Jarlaskáldið hitti aftur samferðamenn sína, og var næsta klukkutíma eða svo eytt þar, mestmegnis í algjöru hreyfingarleysi, að vísu var tekin ein salíbuna í rennibrautinni eins og lög gera ráð fyrir, annars var mestmegnis glápt á stelpur.
Að sundferð lokinni þótti okkur ferðalöngum tími til kominn að huga að snæðingi, og varð úr að fara á Greifann, var pantað borð þar um níuleytið. Það gaf okkur um tvo tíma til að þjóra, og nýtti Jarlaskáldið þann tíma vel svo ekki sé meira sagt, munu einir átta hafa legið í valnum að tímunum tveim liðnum. Var gerður góður rómur að frammistöðu þessari. Leiddi þetta til þess að Skáldið var orðið allslompað þegar á Greifann var komið, sem m.a. lýsir sér í því að Skáldið pantaði sér rauðvín með flatbökunni, auk bjórsins. Svo skemmtilega vildi til að stúlka sú er þjónustaði okkur var okkur Magnúsi vel málkunnug, Stína vinkona Laufeyjar, og mátti sjá að hún var kona eigi einsömul. Stefán opinberaði við sama tækifæri að hann væri faðirinn, þrátt fyrir að hafa aldrei séð manneskjuna áður. Merkasta fregn þessa málsverðar hlýtur þó að teljast sú að Skáldið fetaði í fótspor Öldu innar viðurnefnislausu og var fyrst til að klára bökuna sína. Er þetta í annað sinn á einni viku sem einhver klárar matinn sinn á undan Magnúsi, og er þetta frammistöðuleysi hans farið að valda okkur talsverðum áhyggjum, er meistarinn að hrynja af stalli sínum?
Að átinu loknu var arkað sem leið lá niður í bæ, og þar sem við gengum fram hjá Sjallanum sáum við að Mannakorn var að spila um kvöldið. Þótti þjóðráð að mæta á þá samkomu. Í miðasölunni gerðist svo einhver alfyndnasti atburður sem Jarlaskáldið hefur orðið vitni að. Helga húsráðandi, annars dagfarsprúð manneskja, en greinilega eitthvað við skál að þessu sinni, fór gjörsamlega hamförum í miðasölunni þegar hana grunaði að okra ætti á okkur, og til að gera langa sögu stutta var hún komin með sjálfan Pálma Gunnarsson í símann áður en yfir lauk („Er ég einhver annars flokks hóra?“). Miðana fengum við ódýrt. Fram að konsertinum var ákveðið að heimsækja Kaffi Agureyris, og varð sú heimsókn söguleg. Að vísu var þar fámennt þegar okkur bar að garði, en um miðnætti bættust aldeilis góðir gestir í hópinn. Voru þar á ferð Iðnaðarráðherra og Heilbrigðisráðherra ásamt fríðu föruneyti, og ber þar helst að nefna gamlan félaga úr íslenskunni, sjálfa framsóknargimbrina Dagnýju Jónsdóttur. Framboðslisti X-B í Norðausturkjördæmi var s.s. mættur á svæðið og urðu kynni okkar VÍN-liða af þeim nokkur. Sem betur fer tókst okkur að stilla okkur um að fara að ræða einhver hitamál, ólíkt ýmsum öðrum þarna. Þess í stað buðum við Heilbrigðisráðherra bara í nefið, sem hann og þáði, merkilegt í ljósi þess að það var einmitt Heilbrigðisráðherra sem bannaði innflutning og sölu neftóbaksins fyrir nokkrum árum síðan. Varð hann nokkuð sposkur á svip þegar við bentum honum á þetta. Annars virtist þetta nú vera hið ágætasta fólk, þó það sé gjörsamlega clueless í pólitík.
Einhvern tímann seinna um nóttina röltum við svo yfir á ballið með Mannakornum, og verður Jarlaskáldið að játa það að Óminnishegrinn hefur farið nokkuð ómildum vængjum um seinni tíma heimildir. Að fróðra manna sögn var fremur fámennt á ballinu, og þeir fáu sem voru á staðnum allir Framsóknarmenn. Eins og allir vita eru ungir Framsóknarmenn teljandi á fingrum annarrar handar og var meðalaldurinn því nokkuð hár. Aftraði þetta okkur VÍN-liðum nokkuð í eilífri kvonfangsleit okkar. Að minnsta kosti var ekki gerð mjög löng dvöl á Sjallanum, heldur haldið aftur á Kaffi Agureyris og tjúttað þar fram eftir nóttu eða þangað til okkur var hent út. Hafði Helga þá helst úr lestinni. Eftir að hafa innbyrt einhvern mat (svo segir debetkortanótan, man ekkert eftir því) fundum við fjórir okkur svo leigubíl og ókum heim á leið. Við útidyrahurðina fór að vandast málið, við vorum að sjálfsögðu lyklalausir og húsráðandi einhvers staðar niðri í bæ og svaraði ekki í síma. Fyrst reyndum við að brjótast inn með hjálp krítarkorta, en ekki gekk það. Svo fundum við pínulítinn glugga fyrir utan sem Jarlaskáldið reyndi að smokra sér í gegnum, en þrátt fyrir að teljast seint heljarmenni að burðum varð það án árangurs. Glugginn hefur nota bene verið ca. 20 cm. á kant, og hvers vegna í ósköpunum Skáldinu datt í hug að þetta gengi verður líklega seint svarað. Að endingu tókst Magnúsi að grafa upp eitthvað símanúmer hjá stelpu í húsinu sem hleypti okkur inn og við gátum loksins sofið svefni hinna réttlátu.

Á sunnudagsmorgun vöknuðum við í ca. 30 sekúndur klukkan níu og hringdum upp í fjall. Þar var lokað, og ekkert útlit fyrir að opnað yrði, og því veltum við okkur bara á hina hliðina og sváfum vel fram yfir hádegi. Eftir á að hyggja var það kannski eins gott, líkast til hefðum við verið ansi skrautlegir í fjallinu um morguninn. Þegar við loksins vöknuðum bárust okkur svo fréttir af því að Öxnadalsheiðin væri ófær, og útlit fyrir að nokkuð framhald yrði á menningarreisu vorri. Sem betur fer var Heiðin opnuð stuttu seinna, og eftir að hafa séð erkisnillinginn Shaun Goater skora gegn Manure lögðum við af stað heimleiðis. Var sú ferð tíðindalítil, við Stefán hlustuðum áfram á Radíusflugur og skemmtum okkur konunglega, en ekki veit Skáldið hvað fram fór í hinum bílnum. Heim komum við um áttaleytið, og þá er sagan búin. Fínasta upphitun fyrir Agureyrisferðina 13.-16. mars, allir að mæta þá!

PS. Það var kannski orðum aukið að Jarlaskáldið hafi verið lamið með lurkum um helgina, sbr. næstu færslu á undan. En einhverra hluta vegna eru marblettirnir sem nú prýða Jarlaskáldið ekki teljandi á fingrum annarrar handar. Alltaf gaman að detta í harðfenni!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates