« Home | Fjör á Fróni Þar sem nær öll síðasta vika fór í a... » | Lengsta partýblogg sögunnar!!! Jamm, þá er bara ... » | Miðvikublogg ið fimmta Nei, því miður, engin ferð... » | Grámygla hversdagsleikans Það er ekki mjög hýrt y... » | Undanfari partýbloggsins mikla Eins og lesendum e... » | Kominn heim! Jarlaskáldið er mætt á svæðið, meira... » | Miðvikublogg ið fjórða Miðvikubloggið er snemma á... » | Norrön grammatikk Það er nokkuð um liðið síðan hé... » | Kvaraske? Jarlaskáldið heima við á föstudagsnóttu... » | Afmæli Það er stórafmæli hjá fjölskyldu Jarlaská... » 

miðvikudagur, febrúar 05, 2003 

Endurfundir

Jarlaskáldið var á faraldsfæti í dag, lét plata sig upp í Bláfjöll í þeim tilgangi að renna sér þar niður brekkur. Samkvæmt útreikningum munu hafa verið ca. 7 ár síðan Jarlaskáldið renndi sér síðast niður brekkur þessar. Í för með Jarlaskáldinu voru þrír Ítalíufarar, þeir Magnús frá Þverbrekku og Stefán Twist auk fröken Öldu, sem hefur enn ekki unnið sér almennilegt viðurnefni. Það stendur vonandi til bóta. Upp í fjall vorum við komin seint á sjöunda tímanum, og þar lentum við í óskaplegri röð. Ekki í lyftur, ónei, heldur til að kaupa kort í lyfturnar. Biðum í meira en hálftíma í röð, stórkostleg þjónusta þetta. Loks fengum við lyftukort, og þá var opin heil lyfta, stólalyftan. Sem betur fer var röðin ekki löng, sé miðað við íslenskar aðstæður, ca. korters bið. Upp fórum við, og kalt var það. Sáum á leiðinni upp að afar fáir voru í gilinu, og komumst að því hvers vegna þegar við renndum okkur þar niður, því færið var ansi hart, og jafnvel bara ís á köflum. Einnig vakti það strax athygli Jarlaskáldsins hve óskaplega lélegir allir þessir snjóbrettagæjar sem fylltu brekkurnar fullir af attitúdi voru. Runnu á rassgatinu niður brekkurnar á meðan Jarlaskáldið skíðaði eins og sá sem valdið hefur (erum við aftur byrjuð í þessari djöfulsins sjálfhælni?!). Sorglegt, en satt. Á annarri ferð niður brekkurnar fórum við Öxlina, og þar var ekki þverfótað fyrir þessu snjóbrettapakki sem taldi það mestu skemmtun að sitja á rassgatinu í miðri brekku. Asnar!
Með mikili harðfylgi tókst okkur að komast „heilar“ fjórar ferðir þetta kvöldið, þrjár niður gilið og eina um Öxlina, og mikið saknar maður Ítalíu eftir þessa reynslu. Gaman að vísu, en maður fattaði enn betur hvað var gaman á Ítalíu eftir að prófa þetta.
Þar sem við erum ekki vön öðru en að fá okkur eins og einn öllara í brekkunni var ákveðið að skíðaiðkun lokinni að stefna á öldurhús og stúta þar einni kollu eða svo. Bar þar helst til tíðinda að Alda hin viðurnefnislausa kom öllum á óvart og var fyrst til að klára hamborgarann sinn. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem einhver klárar matinn sinn á undan Magnúsi í votta viðurvist, enda var Alda stolt sem von er af afreki sínu. Ekki gerðist fleira markvert kvöld þetta, a.m.k. ekkert sem fært verður í sögubækur. Eða hvað?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates