mánudagur, maí 26, 2003 

Tilraun til partýbloggs

Jarlaskáldið var að spá í rita eitt af sínum víðfrægu partýbloggum um atburði liðinnar helgar, en nennir því eiginlega ekki, það gerðist ósköp fátt sem í frásögur er færandi. Hér má lesa frásögn óháðs aðila um hegðun VÍN-liða í partýinu hans Togga, hún kallar okkur að minnsta kosti bestu skinn, það er nú jákvætt. Annars nennir Skáldið ekkert að skrifa um þetta, lesiði bara gamalt partýblogg, þetta er allt mjög svipað.

Annað sem er svo sannarlega í frásögur færandi er atburðir sunnudagskvölds. Hafði þá Stefán frá Logafoldum samband við Jarlaskáldið og kastaði fram þeirri hugmynd að heimsækja kvikmyndahús. Þótti Skáldinu það þjóðráð mikið, og varð úr að líta í Laugarásbíó á kvikmyndina Old School. Reyndist þessi mynd vera hin mesta snilld. Will Ferrell er einfaldlega svo mikill snilli að það hálfa væri nóg. Reyndar þótti okkur Stefáni efni myndarinnar ansi kunnuglegt, þrír félagar um þrítugt sem haga sér eins og táningspiltar, minnti okkur á einhverja sem við þekkjum. Eða u.þ.b. alla sem við þekkjum.

Það gæti orðið nokuð langt þangað til að Hverfisbarinn verður heimsóttur aftur. Útilegutörn mikil er nefnilega að hefjast, og strax um næstu helgi er stefnan sett norður á Strandir. Yfirlýst markmið ferðarinnar mun vera að skoða boðaðan sólmyrkva, en óopinbert markmið er að sjálfsögðu að detta í það úti í sveit. Helgina þar á eftir er svo stefnan sett á Skaftafell, þar sem yfirlýst markmið er að labba upp á Hvannadalshnjúk, en óopinbert markmið sem endranær að detta í það úti í sveit. Eru flestar helgar sumarsins nú þegar skipulagðar í slíkar ferðir, þannig að ferðagleði Jarlaskáldsins ætti að ná alveg nýjum víddum í sumar. Maður kíkir nú samt á Hverfó þegar tækifæri gefst til, ekki viljum við að staðurinn fari á hausinn.......

laugardagur, maí 24, 2003 

Júró

Jájá, þá er Skáldið bara við það að leggja af stað í júróvisjónpartý þessa árs, og ekki bara eitt heldur tvö og jafnvel fleiri ef illa fer. Eftir ca. korter mætir frú Védís á svæðið og skutlar Jarlaskáldinu upp í Kópavog, með stuttri viðkomu í kjörbúð, til hjónaleysanna Hrafnhildar og Elvars sem bjóða til grilljúróvisjónpartýs. Þar verður væntanlega horft á keppnina í góðra vina og annarra hópi, áfram t.A.T.u.! Þegar þær stöllur hafa fagnað sannfærandi sigri sínum verður för Skáldsins svo beint upp í Bryggjuhverfi, þar sem Toggi býður til veislu. Hvað síðar verður er ómögulegt að segja, líkast til verður leitað niður á láglendið í fyllingu tímans, annars best að fullyrða sem minnst. Vilji einhver lesenda heilsa upp á Skáldið í nótt mætti þó benda þeim á að líta við hér, það er aldrei að vita. Góðar stundir.

fimmtudagur, maí 22, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugasta

Nei sko, bara tuttugasta miðvikubloggið! Hver hefði trúað því? Þetta hafa nú ekki alltaf verið innihaldsríkustu bloggin, en vonandi hefur enginn beðið skaða af. Ekki verður þetta blogg ríkt að vöxtum, en sjáum hvað setur.

Leikar eru heldur farnir að æsast í vinnunni, Jarlaskáldinu barst liðsauki á mánudaginn og þar var aldeilis vanþörf á. Aumingjabloggarinn (sem að vísu virðist vera að vakna til lífsins) og ungur piltur að nafni Gulli hafa bæst í hópinn, og eru því þrír menn á launaskrá Orkuveitunnar þessa dagana sem gera lítið sem ekkert gagn. Reyndar grunar Jarlaskáldið að það séu mun fleiri á launaskránni þar sem mættu missa sín, en það er önnur saga. Keyrum við um á lítt glæsilegum Hilux og tökum stöku sinnum til hendinni, erum auk þess að verða helvíti góðir í Manna. Svona verður þetta allavega út næstu viku, en 2. júní mætir svo skríllinn, úff...

Af heimavígstöðvunum er nú fátt merkilegt að frétta, kannski það merkilegasta er það að tölva Skáldsins sem verið hefur í lamasessi í rúmlega ár virðist loksins að vera að rétta úr kútnum, gamla manninum var sleppt lausum á hana og hún er öll að koma til. Í sjálfu sér er það ekkert merkilegt, en þetta þýðir a.m.k. að nú ætti Skáldið aftur að geta farið að skrifa geisladiska, þannig að Þórsmerkurdiskur sumarsins ætti að líta dagsins ljós fyrr en síðar. Það sem er ekki síður mikilvægt er að nú gengur Championship Manager miklu hraðar á tölvunni, jibbíjei!

Í dag framlengdi Jarlaskáldið yfirdráttarheimildina sína fram á haust. Sumrinu er borgið. Í dag fór Skáldið líka í hádegismat í nýja Orkuveituhúsinu. Sat við hliðina á Helga Pé. Var að spá í að fá hann til að syngja með sér Ljómaauglýsinguna, en hætti við. Sem betur fer líklega. Annars góður matur í nýja Orkuveituhúsinu.

Þetta er nú meira bullið.

sunnudagur, maí 18, 2003 

Hekla-part two

Dömur mínar og herrar, stór tíðindi! Jarlaskáldið djammaði ekkert um helgina. Trúiði því ekki? Jæja, best að rifja þá upp alla sólarsöguna...

...ef við byrjum þar sem frá var horfið þá heyrðust drunur miklar hér í Kleifarselinu og giskaði Skáldið á að þeir Stebbi og Willy væru komnir að sækja það. Svo reyndist að vísu ekki vera, heldur var það Vignir Jónsson á sínum „fjallabíl“, og með honum var Eyfi. Hvaðan þessar drunur komu er enn óútskýrt. Var stefna tekin austur fyrir fjall, og ekki stoppað fyrr en við Landvegamót, þar sem áðurnefndir Stebbi og Willy biðu ásamt Togga. Voru þeir búnir að sækja lykla að gististað okkar í Áfangagili, og var stefnan því næst tekin þangað. Í tilefni dagsins settum við Villa Vill í græjurnar og sungum hástöfum með á leiðinni. Beygðum inn á Dómadalsleið og tókst að sjálfsögðu að keyra fram hjá afleggjaranum inn í Áfangagil, en föttuðum það reyndar fljótlega og vorum komnir þangað innan tíðar. Þar blasti við reisulegur burstabær, sem reyndist vera hinn glæsilegasti þegar inn var komið. Var einstök veðurblíða, heiðskírt og logn, og vildi Eyfi helst arka upp á fjall þá þegar þótt farið væri að nálgast miðnætti, en sakir þreytu annarra liðsmanna þurfti hann að bíta í súrt epli. Ekki var þreytan þó svo mikil að farið væri strax í háttinn, heldur dreypt á örfáum ölkollum og rætt um feminisma og önnur hitamál um stund, en ekki entust menn lengi þar eð mikil þolraun beið daginn eftir.

Svo undarlega vildi til á laugardeginum að Jarlaskáldið reis fyrst úr rekkju um þriðjung fyrir klukkan níu, gerist það vonandi aldrei aftur. Ekki leið á löngu fyrr en allir voru komnir á fætur og tóku þá hefðbundin morgunverk við, matur, messa og Müllersæfingar. Gengu þau hratt og örugglega fyrir sig enda vanir menn á ferð, og um hálftíuleytið vorum við orðnir ferðbúnir. Veðurblíðan frá því um nóttina var sem betur fer enn ríkjandi, léttskýjað, hlýtt og logn. Var ekið upp í Skjólkvíar og gekk ágætlega þrátt fyrir stöku holur á veginum sem birtust öllum að óvörum. Við Skjólkvíar birtist fyrsti snjórinn og var stoppað alveg við snælínuna til þess að geta rennt sér alla leið niður að bíl. Voru þeir Vignir, Stefán og Eyfi búnir skíðum en Toggi bara á gönguskónum. Jarlaskáldið var aftur á móti vopnað einblöðungi sínum venju samkvæmt. Var þessum búnaði komið fyrir ýmist á baki eða fótum og svo tekið til við að arka upp. Gekk gangan bara nokkuð vel fyrir sig, sumir drógust aðeins aftur úr um tíma en enginn varð þó örmagna. Á miðri leið virtist sem einhver þoka ætlaði að eyðileggja fyrir okkur útsýnið, en þá sagði Heklan bara „hingað og ekki lengra“ og hélt henni í skefjum í austurhlíðinni. Tókst okkur að komast upp á topp á ca. þremur tímum og þótti bara ansi gott.
Þar var eðlilega heldur kalt og nokkur vindur og því nauðsynlegt að klæða sig betur. Fengum við okkur þar smá næringu, m.a. ameríska auðvaldsdrykkinn og fleira gott. Tókum nokkrar myndir og svona og svo lagði Toggi fljótlega af stað niður þar eð hann var án skíðaprika. Við hinir nutum aðeins útsýnisins en fórum svo að festa prikin við lappirnar á okkur til þess að komast niður. Það gekk svona misjafnlega, Stefán var á einhverjum fornskíðum sem létu illa að stjórn og fleygðu honum í sífellu í jörðina, og Jarlaskáldið var bara í gönguskónum á brettinu sem þýddi að maður var ekkert allt of fastur. Fljótlega fóru menn þó að standa í lappirnar og var barasta hið mesta stuð að skíða niður, færið prýðilegt og veðrið ekki síðra. Höfðu menn á orði að Jarlaskáldið tæki sig bara prýðilega út á fornu brettinu sínu. Á ca. miðri leið niður var um tvær leiðir að ræða, til hægri og vinstri. Í samræmi við pólitíska hugsjón okkar ákváðu þeir Stefán og Vignir að fara til hægri en við Eyfi til vinstri. Fengum við Eyfi aldeilis frábæra brekku sem við skemmtum okkur konunglega í, var Skáldið nær örmagna þegar niður hana var komið. Lengi vel sást ekkert til þeirra Stefáns og Vignis, en eftir dúk og disk birtust þeir og höfðu þá snúið við og voru komnir á sömu leið og við Eyfi. Höfðu víst lent í miklum ógöngum á leiðinni, sem kom okkur Eyfa ekkert á óvart, hægristefnan leiðir alltaf út í ógöngur. Þeir sáu sem betur fer rétta leið undir lokin.
Eftir brekkuna góðu tók við stutt labb en síðasta hlutann var sem betur fer hægt að skíða, sem var og gert og skíðað alveg inn í skott á bílnum. Á þeim hluta tókst Vigni að detta á einhvern þann glæsilegasta hátt sem um getur, og það besta er að Toggi náði því öllu á mynd. Það voru þreyttir en glaðir kappar sem hittust við bílana þegar allir voru komnir niður.
Næst lá leiðin aftur í Áfangagil þar sem við fögnuðum afreki okkar á viðeigandi hátt. Pökkuðum svo draslinu saman og héldum heimleiðis, og okkur til mikillar ánægju var komin hellirigning, gott á liðið sem var uppi á fjalli þá stundina. Heim var Jarlaskáldið komið um sjöleytið, og það fyrsta sem það gerði var að fá sér feitan borgara. Hressandi.
Það verður seint sagt að laugardagskvöldið hafi verið kvöld mikilla aðgerða, einhverra hluta vegna þóttust menn þreyttir og því varð úr að fara í Heiðarásinn og glápa þar á spólu. Rules of Attraction hét ræman, nokkuð sniðug mynd, m.a.s. gæinn sem leikur Dawson (ekki það að Skáldið hafi séð stakan þátt af þeirri vellu) var helvíti góður sem dópsali. Það besta við myndina var þó þessi manneskja, sem gerði það gott á öllum sviðum. Mætti alveg henda **1/2 á þessa mynd. Um hálftvöleytið var spólan búin og haldið heim, þar var einhver körfuboltaleikur í gangi sem Skáldið reyndi að horfa á, en gafst fljótlega upp sakir syfju. Skilst að Dallas hafi unnið.

Í dag fór Skáldið á KFC. Það var u.þ.b. allt.

Jahá, þannig var nú það, enginn ólifnaður og djöfulgangur við lýði þessa helgina. Öfuga sálfræðin virkaði bara helvíti vel. Eitthvað segir þó Skáldinu að engin sálfræði muni duga næstu helgi, þá er jú Júróvisjón, og það þýðir bara eitt. Áfram t.A.T.u.!

Að lokum sendir Jarlaskáldið árnaðaróskir sínar vestur yfir haf, alla leið til Beib-fjölskyldunnar sem eignaðist litla stúlku í gær. Til hamingju Solla og Gunni!

föstudagur, maí 16, 2003 

Hekla

Jarlaskáldið lætur ekki deigan síga í fjallapríli og annarri vitleysu. Nú er það sjálf Heklan sem er áskorunin, er meiningin að arka þar upp vopnaður ýmist skíðum eða bretti og renna sér svo niður ef kostur er. Ætti að vera feiknafjör. Nú heyrast drunur miklar, það þýðir bara eitt, Stebbi og Willy eru komnir. Bless á meðan...

 

Burst

Þetta er ansi hreint hressandi svona í morgunsárið...

miðvikudagur, maí 14, 2003 

Miðvikublogg ið nítjánda

Þetta er búin að vera hálfskrýtin vika hingað til, þó Jarlaskáldinu sé ómögulegt að benda á hvers vegna. Svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið (Blöndahl vildi endilega að á þetta yrði minnst) vaknaði Skáldið á heldur framandi slóðum um hádegisbil á sunnudaginn, tók dálítinn tíma að fatta hvar í heiminum maður væri staddur, en Skáldið reyndist enn vera í hægindastólnum frá því kvöldið áður. Ekki sást til nokkurs annars manns, og sá Skáldið þann kost vænstan að hafa sig á brott hið fyrsta áður en húsráðandi (hver sem hann var) birtist. Úti var þessi líka blíðan og ákvað Skáldið því að taka léttan sunnudagsgöngutúr niður Laugaveginn. Áttaði sig síðan á að heldur langt væri í heimahagana og bjallaði því í Blöndahl sem lét sig hafa það að sækja Skáldið niður í bæ þrátt fyrir ýmsa vanheilsu, á hann þakkir skildar fyrir. Á heimleiðinni voru að sjálfsögðu innbyrtir drulluborgarar, en það var það síðasta sem Skáldið afrekaði þennan dag. Svefn er góður.

Afköst Jarlaskáldsins í vinnunni hafa ekki verið glæsileg hingað til, má þar eflaust kenna afleiðingum kosninganæturinnar eitthvað um og þá einna helst hægindastólnum, sem reyndist ekki vera til mikilla hæginda eftir allt saman, hálsrígur dauðans fylgdi þessari næturgistingu. Jarlaskáldið hefur sem betur fer getað setið við „vinnu“ sína, hvort heldur á skrifstofunni eða skrjóðnum, þessum líka ágæta Land Rover. Á mánudaginn fær Skáldið svo Hilux, double-cab nota bene, því þá mæta aumingjabloggarinn og annar kappi til í vinnuna, vonandi kann sá að spila Manna.

Í dag fór Skáldið til tannlæknis. Illu heilli virtist sem Tommi tönn hafi verið að horfa á Marathon Man fyrir eigi alllöngu síðan. Sá sársauki sem meðferð hans olli komst þó ekki í hálfkvisti við þá pínu sem Skáldið upplifði þegar það sá reikninginn. Enn herðist sultarólin.

Félagar Skáldsins úr nördasamkundunni 1997, þeir Kötturinn og Ormurinn greina báðir frá undarlegum draumum á bloggsíðum sínum. Hvort sem það er tilviljun eður ei man Jarlaskáldið ekki eftir öðrum eins draumförum og liðna nótt, bæði hvað magn og undarlegheit varðar. Það að vakna upp á ca. klukkutíma fresti og hugsa „what the f**k was that!“ í hvert sinn gerist ekki hverja nótt. Að vísu man Skáldið nánast ekkert eftir innihaldi draumanna (minnisleysi virðist loða við Skáldið), best að hafa blað og penna tilbúinn á náttborðinu framvegis svo maður geti hripað innihald þeirra niður, sagt svo frá þeim hér og jafnvel látið einhvern spekinginn ráða í vitleysuna. Fyrirtaks hugmynd!

Það er orðinn fastur liður í miðvikublogginu að spá í spilin fyrir næstu helgi. Næsta helgi átti að vera ein af þessum helgum sem maður „ætlar ekki að gera neitt.“ Jarlaskáldið hefur ósjaldan mælt þessi orð um miðja viku, en staðreyndirnar tala sínu máli, það eru einmitt þessar helgar sem enda í mestu vitleysunni. Jarlaskáldið hefir því ákveðið að venda kvæði sínu í kross og beita ákveðinni tegund af öfugri sálfræði með því að fullyrða að um næstu helgi muni Skáldið djamma sem aldrei fyrr, eyða öllum sínum krónum og rúmlega það og líkast til vakna á sunnudaginn í fangageymslum lögreglunnar. Það er vonandi að þetta dugi...

mánudagur, maí 12, 2003 

Bleikt naglalakk

Það fór eins og við mátti búast, Jarlaskáldið sat síður en svo með hendur í skauti um helgina. Látum okkur nú sjá...

Það var nú heldur fátt í spilunum hjá Skáldinu þegar líða tók á föstudagskvöldið, það var búið að koma sér makindalega fyrir framan sjónvarpið og stefndi á að hreyfa sig sem minnst þaðan næstu klukkustundirnar. Svo virðist sem æðri máttarvöld, og í þessu tilviki er átt við Magnús Blöndahl, hafi skynjað aðgerðaleysi þetta og talið úrbóta þörf. Að vísu voru flestir annaðhvort staddir í fögnuði hjá stuttbuxnadeildinni eða löglega afsakaðir á annan hátt, og við Magnús því einir á báti. En ekki lengi, því ólétta konan tók vel í að kíkja með okkur á kaffihús og draga kallinn með. Ari í Ögri varð fyrir valinu, og settumst við fjögur þar niður með þrjá stóra og tvær kók og ræddum málin. Fór það friðsamlega fram að mestu leyti. Að þeim stóru kláruðum og öðrum eins skammti til þótti Magnúsi sem heldur hægt gengi að öðlast heppilegt skemmtanaástand og dró SKáldið því á barinn. Sem oft áður varð rússneski eðaldrykkurinn fyrst fyrir valinu og hafði tilætluð áhrif. En betur mátti ef duga skyldi. Barþjónninn, sem var nota bene argur mjög og renndi óspart hýru auga til Magnúsar, stakk upp á því að við gæddum okkur á öðrum eðaldrykk sem hann hefði nýverið fundið upp. Ekki leist okkur Magnúsi allt of vel á innihaldið í fyrstu en barþjónninn tók bara Guðföðurinn á þetta og gerði okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað. Ekki getur Jarlaskáldið haft nafn drykkjarins eftir þar eð það var afar dónalegt, en það er skemmst frá því að segja að hann brást síður en svo væntingum. Þótti oss félögunum við vera komnir í hæfilegt ástand eftir þessa barferð og kvöddum því fljótlega þau hjónaleysin og héldum á heimavöllinn. Þar gerðumst við svo frægir að komast fram fyrir röðina sakir kunnugleika við dyraverði, þeir þyrftu reyndar að vera ansi illa haldnir af Alzheimer til að þekkja okkur ekki eftir nær stanslausa veru þar í vetur. Innan dyra hittum við svo fyrir stuttbuxnadeildina, allslompaða, en þó mismikið. Var Jarlaskáldinu tekið vel þrátt fyrir vinstrivilluna. Var svo skemmt sér eftir hefðbundnum leiðum fram eftir nóttu, Skáldið hitti menn og konur og þekkti allmarga. Að vísu varð fjörið með styttra móti þetta kvöldið, það eru nú takmörk fyrir því hve lengi er hægt að skemmta sér með frjálshyggjupúkunum. Endaði gleðin líkt og venjulega á Nonnanum, með stuttri viðkomu hjá Stjórnarráðinu þar sem Skáldið gerði atlögu að eigin Íslandsmeti í fasteignaklifri, án mikils árangurs.

Jarlaskáldið fór heldur seint fram úr fleti sínu á laugardeginum, en var þó blessunarlega við ágæta heilsu, þökk sé Nonna. Þrátt fyrir þynnkuleysið ákvað Skáldið að tefla ekki á tvær hættur og fór því á KFC með Blöndahl sem naut ekki jafngóðrar heilsu og Skáldið. Kenndi hann dónalega drykknum um og hafði líklega talsvert til síns máls. Eftir kjúllann þóttist Skáldið vera fært í flestan sjó og því tilvalið að skunda á kjörstað og sinna þar sínum borgaralegu skyldum. Eftir vandlega íhugun ákvað Jarlaskáldið að kjósa VG, bæði vegna þess að Kata Jakobs var á listanum og svo náttúrulega Ögmundur, Skáldið fór nefnilega einu sinni í fínt partý heim til hans. Á miðvikudegi. Auk þess spáði Jarlaskáldið talsvert í því að fara að dæmi gárunga um áraraðir og rita eins og eina smellna vísu á kjörseðilinn, en datt ekkert orð í hug sem rímaði við kjósa nema fjósa og það féll heldur illa inn í samhengið svo Skáldið hætti við. Kannski eins gott, því eftir á komst það að því að vísan myndi gera atkvæðið ógilt. Hvusslags húmorsleysi er það?
Gerðist svo heldur fátt uns kvölda tók. Klæddi Jarlaskáldið sig þá í betri fötin og leit við í Logafoldinni þar sem Stefán Twist bauð til eilítillar grillveislu. Upp úr níu lá leiðin þaðan í Heiðarásinn, þar sem Vignir bauð ekki til veislu. Þar komst Skáldið að því að samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands er Jarlaskáldið afar ógnandi maður. Jafnvel þótt það sitji á sundskýlunni í heitum pott, tíu metra frá hinum skelkaða manni, og snúi auk þess baki í hann. Þetta hefur Skáldið alltaf grunað, að það skjóti fólki skelk í bringu, ef ekki tá, þegar það fer úr fötunum. Humm...
Frá Vigni var haldið í Bláskógana, þar sem Erna hélt e.k. útskriftarveislu, þrátt fyrir að hún muni ekki útskrifast fyrr en eftir tvær vikur. Nógu góð ástæða til að halda partý samt. Mætti þangað hinn fríðasti flokkur manna. Einhverra hluta vegna snerust umræður að stórum hluta um pólitík þetta kvöld. Skemmti Jarlaskáldið sér konunglega við að fylgast með biturð stuttbuxnadeildarinnar yfir óförum sinna manna. Einnig reyndi það af veikum mætti að útskýra fyrir ýmsum að þótt maður kjósi einhvern flokk þýðir það ekki að maður sé sammála honum í einu og öllu og ósammála öllum öðrum. Stjórnmálaflokkar lúta nefnilega ekki sömu lögmálum og fótboltalið (úbbs, næstum byrjaður að tala um pólitík, best að hætta).
Entist þessi gleði eitthvað fram eftir nóttu, og um það leyti sem söngvatnið fór að þverra þótti þjóðráð að halda niður á láglendið og leita fanga þar. Áður en að því kom varð Skáldið að vísu fyrir því að stúlkur tvær tóku upp á því að snyrta það aðeins til með þeim afleiðingum sem greinir frá í titlinum hér að ofan. Félagi Frosti var svo almennilegur að vera á bíl og inn í hann tróðust sex menn í trássi við lög þessa lands. Þar sem stuttbuxnadeildin var fjölmenn innan bílsins varð Hótel Nordica fyrsti áfangastaðurinn. Þar var stemmning með daprara móti, a.m.k. þótti Jarlaskáldinu lítið fútt í þessu, og tók því á það ráð að þefa uppi staðsetningu kosningavöku grænkommanna, sem var í Iðnó. Lét sig svo hverfa upp í leigara og hélt þangað. Þar var heldur meiri gleði ríkjandi, þótt menn væru misánægðir með gengi flokksins lét liðið það ekkert á sig fá og tjúttaði sem mest það mátti. Var bloggarafjöld per fermeter með allra hæsta móti, og þekkti Jarlaskáldið ósköpin öll af fólki á staðnum. Dvaldi því Skáldið þar lengi vel og leiddist það ekki. Seint og um síðir fór þó heimavöllurinn að kalla og tók Skáldið þá það til bragðs að halda þangað með Orminn í eftirdragi. Einhverjir partýgesta frá því fyrr um kvöldið höfðu einnig ratað þangað og urðu með oss fagnaðarfundir. Var svo þraukað þar til ljós kviknuðu á sjötta tímanum og byrjað var að fleygja fólki út, en ekki hafði skemmtanafýsn Jarlaskáldsins enn verið svalað. Gaf það sig á tal við stúlkur nokkrar og varð útkoman úr því samtali að Skáldinu var boðið í eftirteiti þar sem meiningin væri að skella sér í gufubað. Þáði Skáldið að sjálfsögðu boðið með þökkum. Reyndar fóru að renna tvær grímur á Skáldið þegar stúlkurnar tóku að spyrja nærstadda karlmenn um hjúskaparstöðu þeirra og bjóða hinum einhleypu að slást með í för, ekki síst þegar fjöldi karlmanna sem þáði boðið varð talsvert meiri en kvenna. Lét þó til leiðast, lá leiðin fyrst með leigubíl upp í Bústaðahverfi að sækja nauðsynleg aðföng í drykkjaformi og svo aftur niður í miðbæ. Þegar að teitisstað var komið biðu þar fyrir utan allmargir piltar, gírugir mjög á svip, eflaust hugsandi sér gott til glóðarinnar. Ansi fyndin sjón svo ekki sé meira sagt. Inn hélt hersingin en eitthvað lítið varð úr gufubaðshugmyndunum, var það líkast til mikil blessun eftir á að hyggja. Kom Jarlaskáldið sér makindalega fyrir í hægindastól og horfði á kosningasjónvarpið sem enn var í gangi með öðru auganu. Einhvern veginn hafði Eyfa líka tekist að komast inn fram hjá eftirlitinu, þrællofaður maðurinn. Einnig var Rolf, gamall bekkjarfélagi Skáldsins á staðnum, aðra þekkti Skáldið ekki. Þegar ljóst þótti að úr þessu yrði ekki það svall sem einhverjir höfðu eflaust vonast eftir fór að fækka í hópnum. Jarlaskáldið lét þó engan bilbug á sér finna, en varð að lokum að láta í minni pokann fyrir Óla lokbrá. Það síðasta sem Skáldið minnist var að Inga Bogga Solla datt út, svo það hlýtur að hafa gerst seint. Lúkum við hér sögu þessari.

 

Andsk!

Óskapleg þreyta er þetta. Af hverju ætli hún sé? Reyni kannski að rifja það upp fljótlega, best að fara að leggja sig.....

miðvikudagur, maí 07, 2003 

Miðvikublogg ið átjánda

Jæja, á maður eitthvað að reyna að blogga? Gerum a.m.k. tilraun, það bara hlýtur eitthvað að hafa gerst...

Ferill Jarlaskáldsins sem atvinnuleysingi var stuttur að þessu sinni, því það hóf störf enn eitt sumarið hjá Don Alfredo núna á mánudaginn. Þetta ku vera níunda sumarið í röð sem Jarlaskáldið vinnur á Nesjavöllum, og tíunda sumarið sé allt tekið til. Geri aðrir betur. Ekki hefur Jarlaskáldið þurft að taka mikið á honum stóra sínum hingað til, fékk reyndar að taka tvo ágætis göngutúra upp í Dalasel og Múlasel, og tókst m.a.s. að lenda í smá jeppói á leiðinni upp að Dalaseli, þurfti að setja í lága drifið og allt. Að öðru leyti hefur lítið verið um að vera, enda allt fremur óljóst enn sem komið er hvernig vinnu verður hagað í sumar. Það eina sem Jarlaskáldið veit og skiptir máli er að það mun drottna yfir fleiri manns en nokkru sinni fyrr, sennilega yfir 40 hræðum, og verður líklega á Land Rover í sumar. Skárra en þessar helvítis L-300 druslur sem allir eru á, þó farþegarnir séu e.t.v. ósammála. Skítt með þá.

Einhvern tímann lofaði Jarlaskáldið að blogga aldrei um pólitík. Við það verður staðið.

Er þetta ekki Skógafoss þarna bak við? Ekki vildi Jarlaskáldið mæta þessum valkyrjum í dimmu skuggasundi.

Um daginn var Jarlaskáldið sent upp í lager Orkuveitunnar í Mosfellsdal til að gera þar skýrslu um málningareign fyrir komandi sumar (don't ask me why!). Meðal annars mátti þar finna þó nokkuð magn af pallaolíu. Á leiðinni til baka á Land Rovernum fór Skáldið svo einhverra hluta vegna að pæla í því hvað svona pallaolía skyldi kosta. Þá heyrðist allt í einu í útvarpinu: „Pallaolía á 30% afslætti. Litaver.“ Skáldið keyrði næstum út af.

Merkilegt nokk þá er barasta ekkert planað fyrir næstu helgi, nema náttúrulega þetta sem rúm 80% Íslendinga munu gera. Eitthvað segir þó Jarlaskáldinu að það muni ekki sitja með hendur í skauti alla helgina, hvað það verður veit nú enginn, en eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá. Veriði sæl að sinni!

þriðjudagur, maí 06, 2003 

NBA-blogg að beiðni Mumma

Mummi fór þess á leit við Jarlaskáldið að birta spádóma sína um úrslit í úrslitakeppni NBA-deildarinnar, auk þess að rifja upp spádóma sína síðan í byrjun tímabils. Byrjum á hinu síðarnefnda:

Versta lið ársins

Hér spáði Jarlaskáldið réttilega að Denver og Cleveland yrðu lélegust, reyndar að Denver yrði lélegra en þau voru víst jafnléleg, 17-65. Jarlaskáldið á nú alveg A- skilið fyrir þessa framsýni.

Sjötti maður ársins

Jarlaskáldið féll líkt og Mummi í þá gryfju að trúa orðum Jordansins um að hann yrði varamaður í vetur og veðjaði á hann. Mummi reyndar giskaði á að Vin Baker fengi þetta að öðrum kosti, það er alveg skelfilegt. Skáldið á nú ekki meira skilið en C fyrir þetta, þrátt fyrir allt.

Varnarmaður ársins

Hér veðjaði Skáldið á réttan hest, Ben Wallace, en það var reyndar doldið mikill no-brainer. Mummi gefur sér A+ fyrir sama gisk, varla á Jarlaskáldið skilið minna.

Nýliði ársins

Mummi giskaði á Caron Butler, Skáldið á Drew Gooden, og einhverra hluta vegna telur Mummi sitt pick miklu betra. Skáldið leyfir sér að andmæla því, Caron Butler var í einhverju lélegasta liði deildarinnar og fékk því eðlilega að skjóta eins og hann vildi, auk þess að vera að spila sína stöðu allt tímabilið. Gooden byrjaði vel hjá Memhis meðan hann fékk að spila PF, dalaði svo þegar hann var settur í SF, en eftir að honum var skipt til Orlando standast tölurnar hans fyllilega samanburð við bæði Ming og Stoudemire, 13+ stig og 8+ fráköst. Auk þess var hann þrælgóður í úrslitakeppninni, 14 stig og 13 fráköst að meðaltali, á meðan Butler var heima að klóra sér í rassinum. Skáldið hikar ekki við að henda C+ á þetta pick.

Þjálfari ársins

Ekki reyndist framsýni Skáldsins í þessum efnum mikil, veðjaði á Paul Silas, sem vann ekki heldur var rekinn sama dag. Hann átti engu að síður ágætis tímabil þrátt fyrir meiðsli leikmanna, en varla á Skáldið meira skilið en C- fyrir þetta

MVP

Spá Skáldsins síðan í haust hljóðaði á þá leið að ef Grant Hill yrði heill og Orlando ynnu einhverja leiki yrði T-Mac valinn, að öðrum kosti yrði Tim Duncan fyrir valinu. Hill meiddist, Orlando vann rétt um 50%, og Tim Duncan hirti styttuna. Ágætis spádómur þetta. Allavega B+, er það ekki?

Aðrir spádómar síðan í haust eru ekki enn komnir í ljós, svo þeir bíða betri tíma. Víkjum þá að úrslitakeppninni:

New Jersey - Boston (4-2)

Detroit Philadelphia (3-4)

Dallas - Sacramento (2-4)

San Antonio - Los Angeles (4 - 3)

Var að spá í að jinxa Lakers eins og Mummi með því að spá þeim sigri, en tveir mínusar gera víst plús og því vissara að gera það ekki. Skáldið vill að það komi fram að það hugsaði mjög illa til Rick Fox fyrir rúmri viku síðan, best að senda illar hugsanir til Kaupajárnsins næst, þetta virðist virka.

mánudagur, maí 05, 2003 

Stórkostlegar tilviljanir lambakjötsverðs

Jarlaskáldið var ekki iðjulaust þessa helgina, nósörríbobb, það mætti jafnvel halda því fram að það hafi verið þó nokkuð pródúktíft. Best að rita um það nokkur orð.

Ekki fékk Jarlaskáldið að njóta atvinnuleysisins lengi á föstudaginn, þurfti að vakna um hádegi og skutla Lillebror út á flugvöll, kappinn er líkast til að spila golf eða drekka bjór þessa stundina, nema hvort tveggja sé. Golf er asnaleg íþrótt, bjór er aftur á móti fínn.
Ekki afrekaði Jarlaskáldið meira þann daginn, ekki fyrr en á níunda tímanum þegar Stefán Twist mætti á svæðið á sínum ágæta fjallabíl. Var hann búinn að lækka sig niður á 35 tommu dekk og m.a.s. laga pústið, þannig að það var viðræðuhæft inni í kagganum. Þar sem við Stefán erum báðir frekar leiðinlegir menn stilltum við bara græjurnar hátt svo við þyftum ekki að tala saman. Fórum því næst í Nóatún og keyptum nýlenduvörur hvurs konar. Því næst lá leiðin á Esso til að gefa Willa aðeins að drekka, hann er jú þyrstur að eðlisfari. Þar hittum við fyrir þá Magnúsa, Blöndahl og Andrésson, á X-Cab hins síðarnefnda. Þá gat loks ferðin hafist fyrir alvöru, íþrótta- og menningarferð til Þórsmerkur.
Miðaði förinni ágætlega áfram, hálka á Hellisheiðinni, menn að keyra á eins og þeir ættu lífið að leysa, en við sluppum heilir á húfi. Stoppuðum ekki fyrr en á Hvolsvelli, þar fengum við okkur pulsu, og Willi fékk meira að drekka. Á Hlíðarenda var í gangi einhver Sjallafundur, Haarde sjálfur á staðnum, það er nú ekki fallegur maður frekar en Sjallar almennt. Svakalega getur Jarlaskáldið verið málefnalegt í pólitík. Þegar allir voru mettir var svo för haldið áfram. Afar lítið vatn var í ánum, sennilega hefði Golfinn komist langleiðina inn í Bása, ef ekki inn í Bolagil. Okkur til mikillar gleði var ca. 10 cm. jafnfallinn snjór yfir öllu inni í Básum, og ca. 5 stiga frost. Í ljósi aðstæðna og þar sem enginn var í stóra skálanum ákváðum við að sleppa því að tjalda og gista í skálanum. Nema Andrésson, hann heimtaði að tjalda og gerði það, einn, eftir að hafa mokað snjónum af tjaldstæðinu. Skrýtinn maður hann Andrésson. Við hinir hentum bara draslinu inn og settumst að sötri, sem varð að vísu með minnsta móti þetta kvöldið, því daginn eftir var meiningin að gera e-ð af viti. Sváfum við skálagestir allir þversum á flatsænginni, af því það var hægt.

Ekki var farið snemma á fætur á laugardeginum, enda er það argasta vitleysa. Skröltum á lappir á ellefta tímanum, og höfðum ekki einu sinni þynnku okkur til málsbóta. Gleyptum svo í okkur smá morgunverð, og eftir messu og Múllersæfingar klifruðum við aftur upp í jeppana og ókum af stað. Ekki var farið langt að þessu sinni, stoppuðum við Gígjökul, því meiningin var að finna þar einhverjar sprungur til að klifra í. Fyrst eyddum við óratíma í að græja okkur til, og ekki laust við það hafi komið smá Rambófílingur yfir mann við að hengja allt þetta drasl utan á sig. Röltum svo áleiðis að jöklinum, og varð sú ganga heldur lengri en venjulega þar sem jökullinn hafði hopað alveg heilan helling. Alls ekki gott fyrir menn eins og okkur, komna af léttasta skeiði. Fundum svo nokkrar vænar sprungur eftir smá leit, en áður en við fórum að gera einhverjar æfingar þótti tilhlýðilegt að gera eins og einn snjókall, sem var og gjört á mettíma. Um svipað leyti sáum við Patrol einn hvítan niðri á bílastæði, og voru þar á ferð þeir Toggi og Vignir, auk þeirra einn fulltrúi hreingerningadeildar VÍN. Við byrjuðum að klifra og gekk barasta vel fyrir sig, sýndi Jarlaskáldið bara nokkuð góða takta þrátt fyrir að hafa látið fasteignir bæjarins í friði um langt skeið. Svo byrjaði að snjóa. Og ekki bara snjóa, heldur kom þessi líka glæsilega jólasnjókoman þannig að maður sá varla út um buxnaklaufina á sér, svo vitnað sé í fleyg orð. En svo hætti að snjóa.
Þegar allir voru orðnir dauðþreyttir eftir klifrið (nema Vignir, hann er lofthræddur) var svo tölt aftur niður, og þótti við það tækifæri sniðugt að sinna aðeins nemdarstörfum og kíkja inn í Bolagil. Þar var allt með kyrrum kjörum, Stebbi athugaði eins og venjulega með kamarinn á meðan Blöndahl gróf síki kringum steininn ógurlega. Jarlaskáldið vill nota tækifærið og minna einhleypar stúlkur á aldrinum 18-22 ára að enn eru nokkrir miðar á góðum prís í boði fyrir fyrstu helgina í júlí, tjaldgisting hjá myndarlegum einhleypum karlmönnum getur fylgt í kaupbæti.
Að loknum nemdarstörfum voru gaulir nokkuð farnar að garna og því brunað aftur inn í Bása og tekið til við að grilla. Urðu þar atburðir svo fáheyrðir að einsdæmi hlýtur að vera. Jarlaskáldið og Stefán höfðu nefnilega ekki eingöngu keypt sér nákvæmlega eins kjöt, lambatvírifjur frá SS, heldur var það nákvæmlega jafndýrt og þungt, 919 krónur, 648 grömm. Hvílík tilviljun! Var kjötið svo etið með bestu lyst, og um svipað leyti hófst almennt svall og svínarí sem fór fram á hefðbundnum nótum. Entist það fram eftir nóttu, eða þar til fólk fór að hrynja niður hvert af öðru og var borið inn í rúm. Eða svo er Skáldinu sagt altént.

Enn og aftur var vaknað, og að þessu sinni á sunnudegi. Voru skálagestir flestir við merkilega góða heilsu, sennilega blessað fjallaloftið sem hefur þessi áhrif. Var tekin sú ákvörðun að kíkja í sund á Seljavöllum, með viðkomu í Húsadal og Merkurkeri. Á Seljavöllum stóð að laugin væri lokuð, en þar sem VÍN-liðar eru fremur vitlaust fólk var engu að síður arkað af stað, því menn trúðu því og treystu á það að þar væru fáklæddar lesbíur í góðum fíling. En svo var nú aldeilis ekki, það var ekki einu sinni vatn í helvítis lauginni! Aldrei aftur að treysta Sálar-myndböndum! Var ekki annað að gera en að borga sig inn í Seljavallalaug ina neðri og busla þar. Þar er líklega heitasti heiti pottur á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Svo var keyrt heim, að sjálfsögðu með stoppi á Hvolsvelli til að gefa Willa að drekka og öðrum að éta. Fínasta ferð.

(Bætt við 6. maí) Hér má nú sjá glæsilegar myndir úr þessari ágætu ferð, sem fyrr í boði Togga.

föstudagur, maí 02, 2003 

Síðbúið miðvikublogg, ið seytjánda í röðinni

Miðvikubloggið er seint á ferðinni þessa vikuna, á því eru að sjálfsögðu eðlilegar skýringar, látum oss sjá:

Skýringin á bloggleti Jarlaskáldsins er eins og glöggir lesendur gætu hafa getið sér til um sú að síðustu tvo daga hefur Skáldið verið atvinnulaus eymingi. Já, starfsferli Jarlaskáldsins hjá Osta og smjörsölunni er lokið. Aldrei aftur þarf Skáldið að raða 17% osti þrískornum, Stóra dímoni, Léttu og laggóðu 15 gramma eða Guðbrandsdalsosti á bretti eður í kassa. Og er það vel. Þegar þessi orð eru rituð hefur Skáldið gegnt hlutverki atvinnuleysingans með miklum sóma í einar 38 klukkustundir. Kannski að maður lýsi því nánar, því það er afar mikilvægt að fólk viti hvurs lags lífi atvinnuleysingjar lifa, ekki síst nú þegar kosningar eru í aðsigi.

Fyrstu tveimur klukkustundunum sem atvinnuleysingi eyddi Skáldið í svefn. Sem var gott. Því næst snæddi það málsverð, hinn prýðilegasta kjúkling. Svo horfði það á sjónvarpið. Ekki var meira gjört þann daginn.
Á öðrum degi atvinnuleysis vaknaði Skáldið á tólfta tímanum. Eftir smá umhugsun ákvað Skáldið að rölta út í búð, og keypti þar snæðing. Settist svo fyrir framan sjónvarpið með snæðinginn. Pleasantville, ágætis mynd. Svo reið áfallið yfir. Magnús frá Þverbrekku hringdi, vildi fá Skáldið með í hjólatúr. Sakir æfingarleysis datt Skáldinu engin afsökun í hug og neyddist því til að draga hjólið út úr bílskúrnum og hjóla af stað. Það var kalt. Þegar á rendevouz-staðinn var komið kom í ljós að hjól Þverbrekkings var í lamasessi og hann því löglega afsakaður. Eftir stóðu því aðeins nafni hans Andrésson og undirritaður. Var hjólað niður í Nauthólsvík í þeirri veiku von að berja þar augum fáklætt kvenfólk, vitanlega rættist það ekki. Til að bæta úr því var síðan ákveðið að kíkja í sund, í Árbæjarlaug nánar tiltekið. Til nokkurrar óhamingju hafði stór hluti Stór-Reykjavíkursvæðisins fengið sömu hugmynd og var því þröng á þingi þar. Síld í tunnu væri ágætis líking um ástandið í heitu pottunum. Ágætis útsýni þó. Að sundi loknu gæddi Jarlaskáldið sér á ruslfæði (what else is new?), og settist því næst fyrir framan imbann. Stóð ekki upp fyrr en fyrir ca. fimmtán mínútum, og hóf þá að rit þennan pistil. Good times!

Jæja, best að líta þessu næst fram á veginn. Jarlaskáldið er enn eina helvítis ferðina að taka stefnuna út úr bænum. Þórsmörk er áfangastaðurinn að þessu sinni, smávegis upphitun fyrir árshátíðina í byrjun júlí. Að vísu er víst stefnan að gera e-ð af viti um helgina, ólíkt því sem verður uppi á teningnum í júlí, t.d. að klifra í jöklinum eða jafnvel leggja land undir fót. Að sjálfsögðu er stefnan líka tekin á að gera e-ð einstaklega heimskulegt um helgina, og stefnir Jarlaskáldið á að fara þar fremst í flokki. Eins og venjulega......

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates