« Home | Síðbúið miðvikublogg, ið seytjánda í röðinni Miðv... » | Bara tveir dagar enn Jarlaskáldinu varð ekki miki... » | Breytingar Jarlaskáldið gerir enn og aftur breyti... » | Það er sko komið sumar Jarlaskáldið er að niðurlo... » | Miðstjórnin að störfum Fimm dagar af rugli og bul... » | Miðvikublogg ið sextánda Mikið lifandi skelfingar... » | Bústaður, Bláfjöll og Betarokk Hahahahahahahaha, ... » | Miðvikublogg ið fimmtánda Jæja, bara ekkert blogg... » | Miðvikublogg ið fjórtánda Miðvikublogg birtist hé... » | Bullumsull og sullumdrull Jahá, barasta 1. apríl ... » 

mánudagur, maí 05, 2003 

Stórkostlegar tilviljanir lambakjötsverðs

Jarlaskáldið var ekki iðjulaust þessa helgina, nósörríbobb, það mætti jafnvel halda því fram að það hafi verið þó nokkuð pródúktíft. Best að rita um það nokkur orð.

Ekki fékk Jarlaskáldið að njóta atvinnuleysisins lengi á föstudaginn, þurfti að vakna um hádegi og skutla Lillebror út á flugvöll, kappinn er líkast til að spila golf eða drekka bjór þessa stundina, nema hvort tveggja sé. Golf er asnaleg íþrótt, bjór er aftur á móti fínn.
Ekki afrekaði Jarlaskáldið meira þann daginn, ekki fyrr en á níunda tímanum þegar Stefán Twist mætti á svæðið á sínum ágæta fjallabíl. Var hann búinn að lækka sig niður á 35 tommu dekk og m.a.s. laga pústið, þannig að það var viðræðuhæft inni í kagganum. Þar sem við Stefán erum báðir frekar leiðinlegir menn stilltum við bara græjurnar hátt svo við þyftum ekki að tala saman. Fórum því næst í Nóatún og keyptum nýlenduvörur hvurs konar. Því næst lá leiðin á Esso til að gefa Willa aðeins að drekka, hann er jú þyrstur að eðlisfari. Þar hittum við fyrir þá Magnúsa, Blöndahl og Andrésson, á X-Cab hins síðarnefnda. Þá gat loks ferðin hafist fyrir alvöru, íþrótta- og menningarferð til Þórsmerkur.
Miðaði förinni ágætlega áfram, hálka á Hellisheiðinni, menn að keyra á eins og þeir ættu lífið að leysa, en við sluppum heilir á húfi. Stoppuðum ekki fyrr en á Hvolsvelli, þar fengum við okkur pulsu, og Willi fékk meira að drekka. Á Hlíðarenda var í gangi einhver Sjallafundur, Haarde sjálfur á staðnum, það er nú ekki fallegur maður frekar en Sjallar almennt. Svakalega getur Jarlaskáldið verið málefnalegt í pólitík. Þegar allir voru mettir var svo för haldið áfram. Afar lítið vatn var í ánum, sennilega hefði Golfinn komist langleiðina inn í Bása, ef ekki inn í Bolagil. Okkur til mikillar gleði var ca. 10 cm. jafnfallinn snjór yfir öllu inni í Básum, og ca. 5 stiga frost. Í ljósi aðstæðna og þar sem enginn var í stóra skálanum ákváðum við að sleppa því að tjalda og gista í skálanum. Nema Andrésson, hann heimtaði að tjalda og gerði það, einn, eftir að hafa mokað snjónum af tjaldstæðinu. Skrýtinn maður hann Andrésson. Við hinir hentum bara draslinu inn og settumst að sötri, sem varð að vísu með minnsta móti þetta kvöldið, því daginn eftir var meiningin að gera e-ð af viti. Sváfum við skálagestir allir þversum á flatsænginni, af því það var hægt.

Ekki var farið snemma á fætur á laugardeginum, enda er það argasta vitleysa. Skröltum á lappir á ellefta tímanum, og höfðum ekki einu sinni þynnku okkur til málsbóta. Gleyptum svo í okkur smá morgunverð, og eftir messu og Múllersæfingar klifruðum við aftur upp í jeppana og ókum af stað. Ekki var farið langt að þessu sinni, stoppuðum við Gígjökul, því meiningin var að finna þar einhverjar sprungur til að klifra í. Fyrst eyddum við óratíma í að græja okkur til, og ekki laust við það hafi komið smá Rambófílingur yfir mann við að hengja allt þetta drasl utan á sig. Röltum svo áleiðis að jöklinum, og varð sú ganga heldur lengri en venjulega þar sem jökullinn hafði hopað alveg heilan helling. Alls ekki gott fyrir menn eins og okkur, komna af léttasta skeiði. Fundum svo nokkrar vænar sprungur eftir smá leit, en áður en við fórum að gera einhverjar æfingar þótti tilhlýðilegt að gera eins og einn snjókall, sem var og gjört á mettíma. Um svipað leyti sáum við Patrol einn hvítan niðri á bílastæði, og voru þar á ferð þeir Toggi og Vignir, auk þeirra einn fulltrúi hreingerningadeildar VÍN. Við byrjuðum að klifra og gekk barasta vel fyrir sig, sýndi Jarlaskáldið bara nokkuð góða takta þrátt fyrir að hafa látið fasteignir bæjarins í friði um langt skeið. Svo byrjaði að snjóa. Og ekki bara snjóa, heldur kom þessi líka glæsilega jólasnjókoman þannig að maður sá varla út um buxnaklaufina á sér, svo vitnað sé í fleyg orð. En svo hætti að snjóa.
Þegar allir voru orðnir dauðþreyttir eftir klifrið (nema Vignir, hann er lofthræddur) var svo tölt aftur niður, og þótti við það tækifæri sniðugt að sinna aðeins nemdarstörfum og kíkja inn í Bolagil. Þar var allt með kyrrum kjörum, Stebbi athugaði eins og venjulega með kamarinn á meðan Blöndahl gróf síki kringum steininn ógurlega. Jarlaskáldið vill nota tækifærið og minna einhleypar stúlkur á aldrinum 18-22 ára að enn eru nokkrir miðar á góðum prís í boði fyrir fyrstu helgina í júlí, tjaldgisting hjá myndarlegum einhleypum karlmönnum getur fylgt í kaupbæti.
Að loknum nemdarstörfum voru gaulir nokkuð farnar að garna og því brunað aftur inn í Bása og tekið til við að grilla. Urðu þar atburðir svo fáheyrðir að einsdæmi hlýtur að vera. Jarlaskáldið og Stefán höfðu nefnilega ekki eingöngu keypt sér nákvæmlega eins kjöt, lambatvírifjur frá SS, heldur var það nákvæmlega jafndýrt og þungt, 919 krónur, 648 grömm. Hvílík tilviljun! Var kjötið svo etið með bestu lyst, og um svipað leyti hófst almennt svall og svínarí sem fór fram á hefðbundnum nótum. Entist það fram eftir nóttu, eða þar til fólk fór að hrynja niður hvert af öðru og var borið inn í rúm. Eða svo er Skáldinu sagt altént.

Enn og aftur var vaknað, og að þessu sinni á sunnudegi. Voru skálagestir flestir við merkilega góða heilsu, sennilega blessað fjallaloftið sem hefur þessi áhrif. Var tekin sú ákvörðun að kíkja í sund á Seljavöllum, með viðkomu í Húsadal og Merkurkeri. Á Seljavöllum stóð að laugin væri lokuð, en þar sem VÍN-liðar eru fremur vitlaust fólk var engu að síður arkað af stað, því menn trúðu því og treystu á það að þar væru fáklæddar lesbíur í góðum fíling. En svo var nú aldeilis ekki, það var ekki einu sinni vatn í helvítis lauginni! Aldrei aftur að treysta Sálar-myndböndum! Var ekki annað að gera en að borga sig inn í Seljavallalaug ina neðri og busla þar. Þar er líklega heitasti heiti pottur á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Svo var keyrt heim, að sjálfsögðu með stoppi á Hvolsvelli til að gefa Willa að drekka og öðrum að éta. Fínasta ferð.

(Bætt við 6. maí) Hér má nú sjá glæsilegar myndir úr þessari ágætu ferð, sem fyrr í boði Togga.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates