« Home | Bleikt naglalakk Það fór eins og við mátti búast,... » | Andsk! Óskapleg þreyta er þetta. Af hverju ætli h... » | Miðvikublogg ið átjánda Jæja, á maður eitthvað að... » | NBA-blogg að beiðni Mumma Mummi fór þess á leit v... » | Stórkostlegar tilviljanir lambakjötsverðs Jarlask... » | Síðbúið miðvikublogg, ið seytjánda í röðinni Miðv... » | Bara tveir dagar enn Jarlaskáldinu varð ekki miki... » | Breytingar Jarlaskáldið gerir enn og aftur breyti... » | Það er sko komið sumar Jarlaskáldið er að niðurlo... » | Miðstjórnin að störfum Fimm dagar af rugli og bul... » 

miðvikudagur, maí 14, 2003 

Miðvikublogg ið nítjánda

Þetta er búin að vera hálfskrýtin vika hingað til, þó Jarlaskáldinu sé ómögulegt að benda á hvers vegna. Svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið (Blöndahl vildi endilega að á þetta yrði minnst) vaknaði Skáldið á heldur framandi slóðum um hádegisbil á sunnudaginn, tók dálítinn tíma að fatta hvar í heiminum maður væri staddur, en Skáldið reyndist enn vera í hægindastólnum frá því kvöldið áður. Ekki sást til nokkurs annars manns, og sá Skáldið þann kost vænstan að hafa sig á brott hið fyrsta áður en húsráðandi (hver sem hann var) birtist. Úti var þessi líka blíðan og ákvað Skáldið því að taka léttan sunnudagsgöngutúr niður Laugaveginn. Áttaði sig síðan á að heldur langt væri í heimahagana og bjallaði því í Blöndahl sem lét sig hafa það að sækja Skáldið niður í bæ þrátt fyrir ýmsa vanheilsu, á hann þakkir skildar fyrir. Á heimleiðinni voru að sjálfsögðu innbyrtir drulluborgarar, en það var það síðasta sem Skáldið afrekaði þennan dag. Svefn er góður.

Afköst Jarlaskáldsins í vinnunni hafa ekki verið glæsileg hingað til, má þar eflaust kenna afleiðingum kosninganæturinnar eitthvað um og þá einna helst hægindastólnum, sem reyndist ekki vera til mikilla hæginda eftir allt saman, hálsrígur dauðans fylgdi þessari næturgistingu. Jarlaskáldið hefur sem betur fer getað setið við „vinnu“ sína, hvort heldur á skrifstofunni eða skrjóðnum, þessum líka ágæta Land Rover. Á mánudaginn fær Skáldið svo Hilux, double-cab nota bene, því þá mæta aumingjabloggarinn og annar kappi til í vinnuna, vonandi kann sá að spila Manna.

Í dag fór Skáldið til tannlæknis. Illu heilli virtist sem Tommi tönn hafi verið að horfa á Marathon Man fyrir eigi alllöngu síðan. Sá sársauki sem meðferð hans olli komst þó ekki í hálfkvisti við þá pínu sem Skáldið upplifði þegar það sá reikninginn. Enn herðist sultarólin.

Félagar Skáldsins úr nördasamkundunni 1997, þeir Kötturinn og Ormurinn greina báðir frá undarlegum draumum á bloggsíðum sínum. Hvort sem það er tilviljun eður ei man Jarlaskáldið ekki eftir öðrum eins draumförum og liðna nótt, bæði hvað magn og undarlegheit varðar. Það að vakna upp á ca. klukkutíma fresti og hugsa „what the f**k was that!“ í hvert sinn gerist ekki hverja nótt. Að vísu man Skáldið nánast ekkert eftir innihaldi draumanna (minnisleysi virðist loða við Skáldið), best að hafa blað og penna tilbúinn á náttborðinu framvegis svo maður geti hripað innihald þeirra niður, sagt svo frá þeim hér og jafnvel látið einhvern spekinginn ráða í vitleysuna. Fyrirtaks hugmynd!

Það er orðinn fastur liður í miðvikublogginu að spá í spilin fyrir næstu helgi. Næsta helgi átti að vera ein af þessum helgum sem maður „ætlar ekki að gera neitt.“ Jarlaskáldið hefur ósjaldan mælt þessi orð um miðja viku, en staðreyndirnar tala sínu máli, það eru einmitt þessar helgar sem enda í mestu vitleysunni. Jarlaskáldið hefir því ákveðið að venda kvæði sínu í kross og beita ákveðinni tegund af öfugri sálfræði með því að fullyrða að um næstu helgi muni Skáldið djamma sem aldrei fyrr, eyða öllum sínum krónum og rúmlega það og líkast til vakna á sunnudaginn í fangageymslum lögreglunnar. Það er vonandi að þetta dugi...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates