fimmtudagur, nóvember 25, 2004 

Tot

Frásagnir af andláti Jarlaskáldsins eru stórlega ýktar. Ja, eða a.m.k. pínulítið ýktar. Það dregur enn andann, en kemur ekki miklu öðru í verk. Nóvember er enda leiðinlegasti mánuður ársins...

Það er víst liðin góð vika síðan Skáldið hafði orku til að setjast fyrir framan tölvuna og upplýsa alla alþýðu manna um fáfengilegt lífshlaup sitt. Hvað hefur gerst síðan þá? Jú, í fyrsta lagi þá drapst dr. Romano í ER, fékk þyrlu í hausinn, sem var sérlega broslegt. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.
Í öðru lagi þá fékk Jarlaskáldið það ágæta tilboð á föstudaginn að vinnan in meiri bauð því fullt starf frá áramótum, sem það og þáði. Mun Jarlaskáldið því væntanlega ljúka endanlega störfum hjá bændum um áramótin, og ættu lesendur því að birgja sig vel upp af mjólkurvörum því búast má við vöruskorti í verslunum eftir að Skáldið hættir störfum.
Þessari nýju vinnutilhögun Jarlaskáldsins munu væntanlega fylgja eilitlar kjarabætur og ekki var Skáldið lengi að eyða þeim. Strax daginn eftir lagði það leið sína í ágæta verslun hér í bæ og fjárfesti í forláta stafrænni myndavél. Hún kostaði helling. Í digital-heimi dugar ekkert annað.

Djamm síðustu helgi? Jújú...

Eitthvað meira? Nja, allavega er ekki frá miklu öðru að segja úr liðinni rúmlega viku. Þá er að líta fram á veg. Helgin er svona sæmilega óráðin, einn möguleiki er sá að Skáldið geri ekki baun, en hugsanlega bregður það undir sig betri fætinum og kíkir út í sveit. Jah, svo er alltaf fússball-borðið á 22...

Þess má til gamans geta að eftir 114 daga verður gaman.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004 

Gaman

Jarlaskáldið vildi bara koma á framfæri þakklæti sínu til veðurguðanna, því eins og öllum nema allra vonlausasta fólki ætti að vera ljóst hefur snjóað töluvert undanfarinn sólarhring og m.a.s. einhverjar líkur á að snjórinn verði ekki horfinn á morgun! Hinn daginn líklega...

mánudagur, nóvember 15, 2004 

Aumingjabloggari vaknar

Jarlaskáldið hefur barasta verið allt of upptekið undanfarið til að skrifa eitthvað á þessa síðu. Það er að vísu lygi. Það er bara letingi, og því minna sem það hefur að gera, þeim mun latara verður það. Jafnvel bara það að setjast fyrir framan tölvu og skrifa einhverja vitleysu úr reynslubankanum vex því svo í augum að það horfir bara áfram á sjónvarpið. Engin furða, með allar þessar nýju stöðvar...

Í síðustu viku sýndu foreldrar Jarlaskáldsins það vítaverða ábyrgðarleysi að hverfa af landi brott um nokkurra daga skeið og komu reyndar ekki heim fyrr en í gærkvöld. Þurfti því Skáldið að bjarga sér sjálft um skeið og kom það sér því vel að það var megavika. Á föstudagskvöld fór það reyndar ásamt Snorra tilvonandi Grænlendingi á KFC til að næra sig, en hafði fyrr um kvöldið stritað góða stund við að lesa yfir ritgerð fyrir pilt og það kauplaust. Smá innsýn í veruleika kennara, en ekki nóg til að fá samúð með þeim. Kvöldinu var svo eytt í mest lítið, hápunktur þess var líklega að horfa á það mikla listaverk Hefnd busanna. Aldeilis hreint fín mynd það og jafnvel betri en í minningunni.

Jarlaskáldið vaknaði fyrir allar aldir á laugardaginn og fór að vinna. Það var eiginlega alveg laust við að vera gaman. Skáldið fékk að vísu meiri kjúlla frá KFC að éta, það bjargaði einhverju. Um kvöldið boðaði það svo til mikillar veislu. Í hana mættu alls þrír. Stefán mætti langfyrstur manna og þónokkru síðar frk. Alda, en henni bauð Skáldið reyndar bara af því það var að vona að hún myndi kannski taka til. Sem hún gerði alls ekk. Jú, og Toggi leit einnig við, en ólíkt öðrum gestum lét hann allt brennivín í friði. Það var reyndar hið besta mál, því þegar líða tók á kvöldið fór fólk að langa á lendur skemmtanalífsins og var Toggi plataður til skutls á nýja Passatnum sínum. Lancerinn seldur, eftirsjáin eðlilega mikil. Að ráði Öldu lauk för þeirri á þeim ágæta stað 22, líkt og helgina á undan, en það er önnur saga. Ekki staldraði Stefán lengi þar, og er hann því úr sögunni, en Skáldið og Alda héldu öllu lengur til þar. Þónokkuð lengur m.a.s. Þarna var jú fussballspil og það er skemmtilegt, þó árangur hafi verið upp og ofan þessa nóttina einhverra hluta vegna. Hið sama má síðan segja um árangurinn á dansgólfinu, en þar sem lesendur þessarar síðu eru upp til hópa sómakært fólk verður ekki farið nánar út í það. Celebar voru nokkrir á staðnum, þeirra frægastur líklega Megas. Heim var haldið sem fyrr segir seint, með viðkomu á Hlölla þar eð Nonni var búinn að loka, 2500 kall í leigubíl, sem skilaði Skáldinu heim undir morgun. Ágætt.

Helgin þar á undan? Ósköp svipuð...

Rétt er að vekja athygli lesenda á því að sá mæti maður Þorvaldur er getið er hér að ofan rekur afar myndarlega myndasíðu á netinu og hefur eftir nokkuð hlé uppfært hana með glæsilegum myndum úr túrum eins og þessum sem farinn var í Áfangagil í janúarbyrjun, þessum sem var farinn í Tjéllingafjöll í júníbyrjun, að ógleymdum þessum túr sem endaði í Þjórsárdal í lok júlí, svo ekki sé minnst á þennan árvissa túr í Mörkina í FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Þarna má m.a. sjá myndir af Lilla að leika sér í snjó og ofan í á, auk þess sem Jarlaskáldið sýnir glæsilega takta og síður glæsilega takta. Eins og gengur...

Nýir bloggarar mættir á svæðið, Ríkey og Eyfi blogga sem mest þau mega frá Österreich og fara mikinn. Check it out...

Að lokum þá barst Jarlaskáldinu skeyti í dag. Efni skeytisins var allgleðilegt, því Skáldinu mun vera boðið að verða viðstatt brúðkaup í byrjun næsta árs. Brúðkaupið er reyndar ansi snemma á næsta ári, svo snemma reyndar að líkast til verða veisluhöld með minna móti á gamlárskvöld. Maður hlýtur nú að geta frestað því um sólarhring og munað í staðinn eftir áramótunum svona til tilbreytingar, er það ekki? Er það?

mánudagur, nóvember 08, 2004 

Óhappaskáldið

Ojæja, þá er maður loksins búinn að manna sig upp í að skrifa eilitla frásögn um atburði þarsíðustu helgar. Eilitla, nei, ætli hún verði ekki löng? Það er venjan. Lesið áfram á eigin ábyrgð:

Eins og áður er getið (rosalega notar maður þennan frasa oft) hugðist Jarlaskáldið halda í mikla för með Flubbum um ca. mitt landið um þarsíðustu helgi, og sko til, það var gert, en leikurinn barst þó mun víðar en stefnt var á. Byrjum þó á byrjuninni. Hana má sennilega setja um 7-leytið á föstudaginn síðasta þegar félagi vór Stefán mætti í Kleifarselið á lífsförunaut sínum, Jeep Willys árgerð 1982. Skáldið hlóð drasli sínu inn (þ.á m. sínum glænýja forláta svefnpoka) og lá leiðin því næst til svindlaranna og glæpamannanna hjá Skeljungi, að vísu með smá viðkomu í kjörbúð. Hjá bófunum hittum við fyrir einhverja 12-13 Flubba á sex skrjóðum og eyddum ófáum aurum í að láta taka okkur í ósmurðan afturendann í bensínkaupum. Að því loknu lá leiðin um kunnuglegar slóðir austur fyrir fjall og næsta stopp gjört hjá höfuðdjásni Suðurlands, kjúklingastaðnum í Hnakkaville. Þar átu menn, sumir meira af vilja en mætti (Ólympíuandinn), og svo haldið áfram. Halli Kristins gerði reyndar gott betur en að éta, því hann fleygði einnig debetkortinu sínu. Óvart reyndar.
Gerðist svo fátt merkilegt um hríð, á meðan ekið var áfram í norðaustur þar til komið var að Hrauneyjum. Þar var hinum þyrstari gefið að drekka (bílum þ.e.) og sumir litu við á Biskupnum og Fógetanum. Prestsfrúin og madamman fengu frið, enda kvenfólk ekki með í för. Svo var enn haldið áfram og nú norður í átt að Sprengisandi. Við Stefán byrjuðum reyndar á að taka smá aukarúnt um Vatnsfellsvirkjun og nágrenni, án þess að hafa ætlað okkur það, en náðum fljótlega hópnum enda hafði Andrésson, titlaður forsprakki fararinnar lánað okkur prýðisgóða vhf-talstöð til að samskipti gætu gengið sem greiðast fyrir sig. Stefán notaði hana reyndar fyrst og fremst til að tjá andúð sína á díselknúnum farartækjum, en það er ekkert nýtt.
Eftir því sem norðar dró fór veður að breytast. Í upphafi var orðið (er manni sagt), en svo fór að rigna, og svo að slydda, og loks að snjóa. Eftir nokkurn spöl fór m.a.s. að sjást snjór á veginum, svo litlir skaflar, og braust að lokum út mikið fagnaðaróp þegar fyrsta bílnum tókst að festa sig. Fyrsta festa vetrarins er alltaf svolítill áfangi. Merkilegt nokk var það Breska Heimsveldið sem það gerði. Minnkaði meðalhraði eðlilega þegar snjórinn tók að aukast en ekki er hægt að tala um neitt vesen af þeim sökum þessa aðfararnótt laugardags, og á slaginu 3 um nóttina komumst við á áfangastað, Nýjadal, eftir áfallalausan akstur. Það var svo sem ekki mikið gert þar annað en að menn rifu í sig smá næringu, og héldu svo til hvílu. Jarlaskáldið fékk að prufukeyra svefnpokann góða og boj ó boj, djöfuls snilld sem hann er. 6 stiga frost inni í kofanum og skáldið svaf bara á brókinni. Reyndar þurfti það að deila hvílu sinni með karlmanni, en það er alger óþarfi að ræða það frekar.

Jarlaskáldið vaknaði við einhverja vekjaraklukku um níuleytið morguninn eftir og var eins og aðrir ekkert á því að dröslast á fætur eftir ca. 5 tíma svefn. Það gerði það þó fljótlega því ekki dugði að drolla, nóg af akstri fram undan. Eða svo héldum við. Menn rifu í sig næringu og pökkuðu niður á tæpum klukkutíma og hófu svo að koma bílunum í gang. Það gekk sæmilega vandræðalaust, allir voru þeir ágætlega hélaðir svo skafan var dregin upp, og þegar allir voru tilbúnir voru myndavélar dregnar upp og náðist þar þessi fína mynd af hópnum.
Var svo haldið áfram norður á ellefta tímanum, og stefnan tekin á Laugafell. Það var sem fyrr áfallalaus ferð, ein og ein festa öðru hverju svo það þurfti stundum að hleypa aðeins úr og jafnvel brúka spottann. Aðeins í neyðartilvikum samt. Á leiðinni voru einhver vatnsföll, og mátti hafa af þeim nokkuð gaman. Í Laugafell komum við svo í kringum þrjúleytið og byrjuðu menn þar á að næra sig auk þess sem sumir prófuðu upphituð salernin. Ekki þótti síðan annað koma til greina en að hafa umferð í Sprettlellahlaupi, og var laugin dúndurgóð, þó græn væri.
Áfram héldum við, og ókum í ca. kortér þar til komið var að ísilagðri á. Að fróðra manna sögn átti hún að vera lítið mál svo fyrsti bíllinn skrölti yfir og hélt ísinn honum þótt vel hafi brakað í honum. Hið sama var að segja um annan og þriðja bílinn en þegar fjórði bíllinn, FBSR2 sem vegur hátt á þriðja tonn, hélt út á ísinn hlaut eitthvað undan að láta, sem það og gerði. Hófust þá björgunaraðgerðir. Fyrst var reynt að kippa skrjóðnum upp en það reyndist vonlaust, svo reynt að spila hann upp en það gekk ekki, en að lokum tókst að spila hann upp með því að skipta um spil og taka öflugra af bílnum hans Jóns. Ekki gekk það samt betur en svo að vinstra afturdekk rifnaði og affelgaðist á bólakafi. Voru þá góð ráð dýr. Því máli redduðu þeir bræður Jón og Bjarni, því vitaskuld voru þeir með froskmannabúninga meðferðis og dembdu sér bara ofan í vökina og komu dekkinu á land. Að sjálfsögðu.
Dekkið fór svo aftur undir eftir drjúga stund þar sem tappað var í gat og tókst að lokum að spila bílinn upp á land, ca. tveimur tímum eftir að hann lagði út á ísinn. Ágætis árangur það.
Þegar þarna var komið sögu voru sumsé fjórir bílar komnir yfir, og þrír áttu það eftir. Steini á Datsun Patrol fékk það verðuga verkefni að reyna sig næstur við ána. Eftir á að hyggja var það ekki sérlega góð hugmynd. Svo vægt sé til orða tekið. Út í lagði hann, fór fyrst með framdekkin ofan í vök og sat þar fastur. Var kippt í hann frá hinum bakkanum þannig að hann fór allur ofan í vökina og þá fyrst byrjuðu vandræðin, áin var þónokkuð djúp og kagginn sat alveg pikkfastur. Ekki nóg með það heldur byrjaði að flæða inn í hann auk þess sem allur rafmagnsbúnaður varð alveg spinnegal, t.d. sýndi hraðamælirinn þessa stöðu meðan jeppinn var fastur ofan í ánni. Ekki gott mál. Fyrst var reynt að spila bílinn upp með spilinu á FBSR2 sem var kominn yfir en það hreinlega réð ekki við verkið, hvað þá að reyna að kippa í með spotta. Þá var næsta lausnin að reyna að spila hann upp til baka en þá klikkaði spilið hjá Jóni og vildi ekkert fyrir okkur gera. Þá var annar kostur reyndur sem var að kippa hressilega í hann með spotta. Það var gert nokkrum sinnum en með litlum árangri, þar til spottinn hreinlega slitnaði við átökin og braut afturrúðuna í Pattanum við afturkastið. Eins gott að enginn varð fyrir því. Hvað var þá eftir að gera? Jú, ekkert annað en að rifja upp "ljúfar" minningar frá Grímsvatnatúrnum fyrir tæpu ári síðan, rífa upp járn- og álkarla og skóflur og brjóta skrjóðnum leið út úr prísund sinni. Það tókst þótt hægt gengi, og mikill fögnuður þegar bíllinn losnaði loks tæpum þremur tímum eftir að hann lagði út í ána.
Næsta mál: kanna skemmdir eftir átökin. Þær voru því miður talsverðar. Fyrir utan skemmdir vegna vatns var afturrúðan sem fyrr segir brotin, stýrisbúnaður farinn í kássu, bretti og brettakantar og stuðarar beyglaðir og brotnir auk eflaust slatta annarra skemmda sem of langt mál yrði að telja upp. Ansi dýrt spaug þessi Hnjúkskvísl.
Þarna var ljóst að Patrolinn færi ekki lengra, og enginn hafði mikinn áhuga á að reyna meira við þessa á. Þar sem fjórir bílar voru komnir yfir en tveir áttu það eftir var ekki annað að gera en að láta leiðir skilja, þeir sem komnir voru yfir héldu nokkurn veginn upphaflegri áætlun og stefndu á Ingólfsskála, en Jarlaskáldið var ekki í þeim hópi og er hann því úr sögunni í bili. Við sem eftir voru, Stebbinn og Jarlaskáldið og þeir froskmannabræður ásamt viðbótunum Steina og Kjartani, fengum okkar skerf af lambalærunum sem ætlunin hafði verið að grilla í Ingólfsskála, og snerum við í átt að Laugafelli. Þar hittum við fyrir stóran hóp frá einhverjum af bensínbófunum (skiptir ekki máli hvaða fyrirtæki það var, þeim er víst öllum stjórnað sameiginlega), og Jón tók sig til og hringdi í björgunarsveitina Súlur á Agureyri til að kanna hvernig leiðin til Agureyrish væri um þetta leyti. Þeir sögðu okkur að ef við værum ekki hræddir við smá hliðarhalla ætti leiðin niður í Eyjafjörð að vera pís of keik og buðu okkur einnig gistingu ef við þyrftum. Tókum við því boði með þökkum og lögðum af stað til Agureyrish eftir að við höfðum fengið okkur smá næringu. Þá hafði reyndar einn Patrol frá bensínbófunum slegist með í för, sem var hið besta mál því hann var mjög duglegur að troða fyrir okkur leið. Þarna var klukkan farin að ganga í ellefu um kvöldið og reiknaðist okkur til að ef vel gengi ættum við að vera komnir svona um eitt-tvöleytið til Agureyrish enda stutt leið skv. korti. Það fór ekki alveg eins og gert var ráð fyrir.
Í fyrsta lagi þá var heilmiklu meiri snjór þarna en við höfðum rekist á áður, enda liggur leiðin í rúmum 900 metrum, svo bílarnir (Willy var oftast sökudólgurinn) voru að festa sig trekk í trekk. Við mjökuðumst þó alltaf áfram þó hægt gengi. Eftir drjúga stund komum við svo að afar brattri brekku sem liggur niður í Eyjafjarðardal og þá fyrst byrjaði fjörið. Hliðarhallinn sem okkur hafði verið sagt frá reyndist nefnilega heldur meiri en okkur grunaði, sem Jón komst skyndilega að þegar hann var næstum búinn að velta bílnum og hefði það gerst hefði hann endað einhverjum tugum metra neðar. Upp með skóflurnar og mokað undan bílnum þar til hann rétti sig bærilega af, og næstu klukkustundirnar fóru bókstaflega í það að moka sig í gegnum Eyjafjarðardalinn ofanverðan, því alls staðar lá slóðinn utan í fjallshlíðum og snjórinn hafði skafið þannig að bílarnir áttu ekki séns á að komast fyrir hliðarhalla. Aldeilis hreint gaman að eyða sunnudagsmorgni í þetta!
Smátt og smátt fórum við svo að lækka og snjórinn að minnka og að lokum var hægt að keyra af einhverju viti, en þá var líka farið að birta. Einhvern veginn tókst okkur svo að halda okkur vakandi til að keyra til Agureyrish, og vorum þangað komnir klukkan níu um morguninn, 24 tímum eftir að við vöknuðum, allsúrir. Merkilegt nokk nenntum við ekki að grilla lambalærin sem við höfðum haft með okkur, heldur héldum inn í ansi myndarlegt húsnæði björgunarsveitarinnar Súlna, fundum okkur bedda og sofnuðum svefni hinna réttlátu. Það var ekkert sérstaklega vont að fara úr rennblautum skóm sem höfðu blotnað einhverjum 14 tímum áður...

Klukkan var víst að verða þrjú þegar maður loksins skreið á lappir síðar sama dag, og þá höfðu þeir JónFús og Steini þegar farið út í bakarí og keypt sérbökuð vínarbrauð og kók í morgunmat, eða líklega frekar miðdegiskaffi, þó við værum nývaknaðir. Að áti loknu gengum við frá eftir okkur og skráðum þakkir vorar í gestabók, eiga Súlnamenn miklar þakkir skildar. Eitthvað voru menn að gæla við að fara aftur upp á Sprengisand og reyna að bjarga Pattanum en sem betur fer var horfið frá því, og stefnan tekin þess í stað í sund. Það veitti ekki af. Svo var enn einum bensíndreitlinum bætt á kaggann og stefnan tekin heim, en samkvæmt fregnum hafði restin af hópnum komist í Ingólfsskála síðla nætur eftir eitthvert basl, og þeir grilluðu. Á leið þaðan hafði síðan dekk gefið sig á FBSR2, og biðu þeir okkar í Varmahlíð á meðan dekki var reddað. Öxnadalsheiðin var skemmtileg að vanda, og í Varmahlíð hittum við Andrésson og fleiri eins og um var rætt, en ekkert bólaði á ferðafélögum okkar um Eyjafjörð. Hafði dekk víst gefið sig á leiðinni og þeir snúið við til Agureyrish, sjaldan er ein báran stök. Ekki nenntum við að bíða eftir þeim enda lítil hjálp í okkur, svo við héldum bara áfram og sosum fátt af þeirri ferð að segja, fengum pulsur á Brú og vorum orðnir heldur þreyttir á Holtavörðuheiðinni. Vorum við því farnir að hlakka til að komast heim þegar við vorum að nálgast Bifröst, en hvað haldiði, auðvitað var ekki komið nóg af veseni, vatnsdælan í Willa gaf sig og hann því ekki á leið lengra. Æði.
Við vorum vitaskuld utan gsm-sambands og með hálfdauða síma hvort sem er, svo það var ekki annað að gera en að rölta að næsta bóndabæ og fá að hringja. Var okkur tekið með kostum og kynjum, og reyndum svo að hringja í ýmsa. Jón og félagar voru nýlagðir af stað frá Agureyri svo lítið var á þeim að græða. Andrésson flutti okkar síðan þær fregnir að hann hefði þurft að skilja sinn FBSR2 eftir í næsta nágrenni vegna rifins dekks, annað dekkið þá helgi hjá honum. Þá var fátt eftir oss til bjargar, og að lokum var ekki um annað að ræða en að láta sækja sig og skilja kaggann eftir. Voru hjónin að Hraunsnefi svo almennileg að bjóða okkur í kaffi á meðan við biðum og eiga miklar þakkir skildar. Að lokum mætti svo móðir Stefáns á svæðið í kringum miðnætti og heim var Skáldið komið á öðrum tímanum. Það var svolítið þreytt þá. Sem sagt, 7 bílar lögðu af stað, 4 komust heim, og tjón upp á fleiri hundruð þúsund krónur. Og þetta þykir manni gaman?

Hvað björgunaraðgerðir varðar mun FBSR2 hafa verið sóttur daginn eftir, Willy degi síðar, og um helgina var gerður út leiðangur til að koma Pattanum niður á láglendi. Hann ku enn vera á Agureyri með dauða vél. Aldeilis hreint ekki prýðilegt. Eftir 3 vikur er svo ráðgert að taka þátt í annarri eins vitleysu. Ef að sú ferð endar með ósköpum eins og nær allar vetrarferðir Jarlaskáldsins hingað til er það hætt þessu. Byrjar bara að spila golf eins og aðrir aular. Nei, andskotinn hafi það...

fimmtudagur, nóvember 04, 2004 

Það held ég nú






þriðjudagur, nóvember 02, 2004 

NBA-spádómur Jarlaskáldsins 2004-2005!

Það gekk ýmislegt á um helgina, og ferðasaga ein mikil í smíðum. Hún verður þó að bíða betri tíma, því í nótt hefst NBA-deildin að nýju og að vanda hyggst Jarlaskáldið birta spádóma sína eins og 2002 og 2003. Mummi og Oddi hafa þegar birt sína spádóma og eru þeir vitanlega vitlausir mjög, en við spyrjum að leikslokum í þeim efnum. Allavega, let's go:

MVP

Jarlaskáldið hefur spáð Tim Duncan þessum titli síðustu tvö skipti og hlaut hann þau í fyrra skiptið en var annar í kjörinu á eftir Garnett í fyrra. Það má búast við að þeir muni enn og aftur bítast um heiðurinn, ef Shaq heldur sér heilum allt tímabilið (afar ólíklegt) gæti hann blandað sér í slaginn og svo mun Kobe örugglega skjóta tuðrunni nógu andskoti oft til að skora 30+ stig í leik og blekkja þannig fólk til að halda að hann sé góður. Skáldið sér enga ástæðu til að breyta til, Duncan er besti leikmaður heims, punktur, basta.

NBA-lið ársins

Fyrsta lið:
F: Kevin Garnett (No-brainer)
F: Tim Duncan (No-brainer)
C: Shaquille O´Neal (Sjáið þið trendið?)
G: Kobe Bryant (Athugið, þetta er spá, ekki skoðun)
G: Tracy McGrady (Houston mun vinna leiki og hjálpa upp á hans skemmda rep)

Annað lið
F: Jermaine O'Neal (Ef hann heldur heilsu)
F: Dirk Nowitski (Verulega skemmtilegur leikmaður)
C: Yao Ming (Styttist mjög í að hann verði besti centerinn)
G: Paul Pierce (Fær einhverja hjálp í ár og ætti að ná gömlum hæðum)
G: Allen Iverson (Obie á eftir að hafa góð áhrif á hann)

Þriðja lið
F: Ron Artest (Snarklikkaður, og það stundum á góðan hátt)
F: Andrei Kirilenko (AK-47 kann að fylla upp í box-score)
C: Ben Wallace (Humm, einhver annar?)
G: Lebron James (Ætti líklega heima í öðru liðinu, en þetta verður að duga)
G: Ray Allen (Ömurlegt lið, en hver annar í þessu liði á að skora?)


Nýliði ársins

Sjaldan eða aldrei hefur maður rennt jafnblint í sjóinn með þessa nýliða, enda ekkert nema útlendingar og smákrakkar sem voru valdir. Emeka Okafor væri líklega öruggasti kosturinn, en Dwight Howard hefur víst verið að taka menn í bakaríið í pre-season, og þó það geti oft verið villandi ætlar Skáldið að binda trúss sitt við hann. Ef ekki hann, þá Andres Nocioni. Hann er flottur.

Nýliðalið ársins

Þetta verður ansi mikið út í loftið, en Skáldið ætlar a.m.k. að vera svo bjartsýnt að spá sínum mönnum í Chicago góðu gengi:

Fyrsta lið
Dwight Howard, Orlando (Augljóst)
Emeka Okafor, Charlotte (Næstum jafnaugljóst)
Nick Collison, Seattle (Valinn í fyrra en spilaði ekkert vegna meiðsla, ku góður)
Andres Nocioni, Chicago (Spilar eins og 10 ára veteran, enda er hann það nánast)
Luol Deng, Chicago (Hefur byrjað vel með Chicago)

Annað lið
Ben Gordon, Chicago (Vont pre-season, en nær sér vonandi á strik)
Andre Igoudala, Philly (Fær að byrja inni á, svo eitthvað hlýtur hann að geta)
Devin Harris, Dallas (-"-)
Josh Childress, Atlanta (Valinn ofarlega, og hlýtur að fá að spila)
Andris Biedrins, Golden State (Varamaður Adonal Foyle hlýtur að fá séns)

Varnarmaður ársins
Humm... Hér munu væntanlega þrír menn bítast um titilinn, sigurvegarar síðustu ára, þeir Ron Artest og Ben Wallace, en auk þeirra Andrei Kirilenko. Rússinn tekur þetta.

Varnarlið árins

Bæði Mummi og Oddi víla ekki fyrir sér að ljúga upp á menn nýjum stöðum til að velja liðið, svo Skáldið gerir það bara líka kinnroðalaust. Here goes:

Ben Wallace (En ekki hvað?)
Andrei Kirilenko (En ekki hvað?)
Ron Artest (Nja, brandarinn er orðinn þreyttur)
Kevin Garnett (Sem point guard bara)
Bruce Bowen (Sennilega ekkert meira pirrandi en að hafa þennan á sér)

Sjötti maður ársins

Alltaf svolítið erfitt að spá í þetta, því það er oft erfitt að vita hver byrjar inni á og svoleiðis. Jarlaskáldið hefði giskað á Jamal Crawford, en það lítur út fyrir að hann byrji inni á eftir allt saman. Skáldið ætlar því að leita á sömu slóðir og í fyrra, til Dallas. Þar eru bæði Jerry Stackhouse og Jason Terry á bekknum, og er það spá Skáldsins að sá fyrrnefndi fari í fýlu en sá síðarnefndi muni hirða titilinn.

Þjálfari ársins

Þessi titill helst oft í hendur við besta árangur liða, eða óvæntasta árangur liðs. Jerry Sloan var svikinn um þetta í fyrra, og svo verður aftur í ár. Hjartað segir Scott Skiles, en heilinn segir Gregg Popovich. Treystum heilanum.

Framkvæmdastjóri ársins

Svipaða sögu að segja um þetta, og ætlar Skáldið að þessu sinni að vera sammála Odda um það að Joe Dumars hljóti þetta. Annars er þetta leiðinlegur flokkur.

Endurkoma ársins

Þetta er loðið og teygjanlegt hugtak (eins og sagt var um klámið), og má túlka á ýmsa vegu. Jafnan á þetta við um leikmann sem mátti muna sinn fífil fegurri og mundi hann svo, en einnig á þetta oft við um leikmenn sem yfirstíga erfið meiðsli. Jarlaskáldið tippar á hið síðarnefnda, Grant Hill mun eiga solid season, spila 70+ leiki og skora ca. 12 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Ekki slæmt fyrir löggiltan öryrkja.

Vonbrigði ársins

Síðustu 6 ár hafa vonbrigði ársins verið hin sömu. Alger óþarfi að tala meira um það. Í ár verður annað uppi á teningnum. Þó Skáldinu sé það þvert um geð ætlar það að spá Minnesota þessum vafasama titli. Það eru væringar meðal liðsmanna, menn að karpa um peninga og þá er ekki von á góðu. Vonandi rætist þessi spádómur ekki, en Skáldið er ekki vongott um það.

LVP (Least Valuable Player

Þetta er annar titill sem er háður mjög huglægu mati. Í fyrra spáði Skáldið nafna sínum Stefánssyni titlinum, og sjá, hann spilaði ekki sekúndu með liðinu. Á móti kemur að piltur var á algerum verkamannalaunum. Í ár ætlar Skáldið að leggja aðra merkingu í titilinn, þ.e. leikmaður sem er á háum launum en skilar litlu sem engu. Hér eru margir líklegir, en aðeins einn útvalinn: Chris Webber. Einn launahæsti leikmaður deildarinnar, en liðið er betra án hans. Þarf fleiri vitnanna við?

Playofflið, austan

Hér velja fyrstu 3 liðin sig sjálf, en svo vandast málið. Látum oss sjá:

1. Detroit (þeir eru fokking meistararnir!)
2. Indiana (Besti árangur síðasta árs, og hafa jafnvel bætt sig)
3. Miami (Bættu við sig 327 pundum sem skipta máli)
4. Philadelphia (Hef trú á þeim)
5. Orlando (Hafa stórbætt sig)
6. New York (Hljóta að geta eitthvað með dýrasta lið deildarinnar)
7. Milwaukee (Yrðu tveim sætum ofar með T.J. Ford)
8. Boston (Þeir verða a.m.k. skemmtilegir að fylgjast með)

Bubble-lið: Chicago. Ef þetta gengur ekki í ár er alveg eins gott að henda þeim!

Playofflið, vestan

Eins og í austandeildnni velja fyrstu liðin sig sjálf en hér er vandamálið að hafna liðum, ekki að hafa trú á þeim til afreka. Látum oss sjá að nýju:

1. San Antonio Spurs (Duncan er m.a.s. reiður í ár)
2. Minnesota (Munu skila góðum árangri í deildinni, en svo...)
3. Sacramento (Of margir góðir leikmenn til að geta ekki neitt)
4. Dallas (Vonandi að einn bolti dugi þeim)
5. Houston (Gætu jafnvel hækkað um 2 sæti ef T-Mac gets with the program)
6. Denver (Dálítið vafasamir karakterar þarna, gæti allt farið til helvítis)
7. Utah (Hafa bætt sig, þó ekki eins mikið og margir vilja halda)
8. Memphis (Munu ekki koma neinum á óvart í ár)

Bubble-lið: Phoenix. Ef Nash a gott season gætu þeir farið ansi langt. Þrátt fyrir að hafa japanskan þriðja point guard sem er á stærð við Skáldið!

Sigurvegari austurdeildar

Óvæntasti spádómur ársins: Detroit! Þetta lið er bara of massívt.

Sigurvegari vesturdeildar

Næstóvæntasti spádómur ársins: San Antonio! Bjóst einhver við öðru?

NBA-meistarar

Uss, ef þessi lið mætast í úrslitum er það spá Skáldsins að það verði einhver skemmtilegasta Finals-viðureign í mörg ár (Chicago-Phoenix '93 verður seint toppuð). Skáldið spáir því að það fari í sjö leiki og heimavöllurinn ráði úrslitum. Þriðja árið í röð:

San Antonio.

Ef þú kláraðir að lesa þetta og heitir hvorki Oddi né Mummi átt þú lof skilið. Húrra fyrir þér!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates