föstudagur, september 26, 2003 

Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda

Fólk hefur víst eitthvað verið að tjá sig í kommentunum, sem er í sjálfu sér hið besta mál, en það kvartar sáran yfir fréttaleysi af Jarlaskáldinu, sem er verra mál. Hefur fólkinu ekki dottið í hug að slá á þráðinn, eða jafnvel bara kíkja í heimsókn, fyrst það hefur svona miklar áhyggjur? Skáldið er höfðingi heim að sækja. Onei, það bara kvartar og kveinar og nennir ekkert að hafa fyrir hlutunum. Týpískt. Ætli Skáldið verði þá ekki að rita örfá orð um athafnir sínar og hugleiðingar liðna daga, svona til að friða pöpulinn. Og eitthvað um sjónvarp, það er gaman.

Tilvonandi jeppakaup Jarlaskáldsins er væntanlega sá atburður sem lesendur fýsir helst að fá fregnir af. Hefur Skáldið farið á stúfana á vikunni og það víða, oftar en ekki með félaga vorn Stebba twist í för, þar eð hann þykist allfróður um þessa tilteknu gerð ökutækja. Hafa fjölmargar druslur verið skoðaðar og um leið útilokaðar, en þó tókst okkur að finna einn skrjóð sem lofar nokkuð góðu, og ef hann stenst nánari skoðun og semst um verð er alllíklegt að kagginn verði keyptur, vonandi í næstu viku. Þangað til brúkar Skáldið hjólfák sinn í og úr vinnu, sem er miður skemmtilegt, ekki síst þar sem hann er bremsulaus að aftan, auk þess sem það er búið að vera alveg ógeðslega kalt undanfarna daga.

Að öðru leyti hefur Jarlaskáldið fátt afrekað ef nokkuð síðan um helgina. Það fer í sinn fótbolta á mánudögum og fimmtudögum, en reynir þess utan að nýta frítíma sinn virka daga í að gera sem minnst. T.d. að horfa á sjónvarpið. Þar hjálpar til að hafnar eru sýningar á nokkrum þrælgóðum sjónvarpsþáttum. Ríkissjónvarpið er búið að gera mánudagskvöld áhorfanleg að nýju, fyrst er Frasier sem má alltaf glápa á þó þreyttur sé hann að verða, en hann er líka bara upphitun fyrir hinn stórmagnaða þátt Scrubs sem sýningar eru hafnar á að nýju. Þvílík snilld þessir þættir hafi fólk ekki gerst svo frægt að horfa á. Reyndar missir Skáldið alltaf af síðustu mínútunum af Scrubs þegar það þarf að drífa sig í boltann en þá kemur blessað vídjótækið til hjálpar.
Þriðjudags- og miðvikudagskvöld eru eiginlega alveg einstaklega döpur hvað sjónvarp varðar, Skáldið man barasta ekki eftir neinum þætti þau kvöld sem það þyrstir á að horfa á fyrir utan að sjálfsögðu That '70s Show á miðvikudögum. Einhvern veginn endar það líka alltaf þannig að Skáldið glápir á Law and Order, þó sá þáttur sé nú ekkert spes.
Á fimmtudögum vænkast hagur Strympu talsvert, t.d. lofar Andy Richter Controls the Universe nokkuð góðu. Allir gamanþættir sem ekki nota hláturvél eiga reyndar lof skilið. Þessi þáttur virðist reyndar hafa floppað úti, sem segir líklega meira um áhorfendurna en þáttinn. Hálfvitakanar! Klukkan hálftíu byrjar svo Atvinnumaðurinn með Þorsteini Guðmunds og eins og flest annað sem þessi maður hefur komið nálægt er hann algjör snilld. Reyndar á það sama við um Atvinnumanninn og Scrubs, Skáldið missir alltaf af hluta þáttarins þegar það þarf að rjúka í fimmtudagsboltann en Skjárinn endursýnir hvort sem er alla þætti þannig að það gerir minna til.
Sjónvarpsdagskrá hinna daganna lætur Skáldið liggja milli hluta, Skáldið horfir á Simpsons og Popppunkt sé þess kostur en lætur flest annað í friði enda hægt að nota kvöldin um helgar í margt skárra en sjónvarpsgláp.

Talandi um helgar, það líður að þeirri næstu. Best að segja sem minnst um fyrirætlanir Skáldsins, fæst orð bera minnsta ábyrgð. Helgina þar á eftir má svo búast við að bresti allar flóðgáttir, meira um það síðar.

110

mánudagur, september 22, 2003 

7-0

Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að ljúka. Smá recap:

Á föstudaginn var bókstaflega ekkert gert enda Skáldið þreytt eftir tvo ellefu tíma vinnudaga í röð. Ætlunin hafði líka hvort sem er verið sú að gera ekkert um helgina og það plan gekk því vel upp í fyrstu. Síðan tók að halla undan fæti...

Laugardagurinn byrjaði að vísu með svipuðum hætti, um tvöleytið hófust fjölmargir knattspyrnuleikir sem Skáldið fylgdist með í sjónvarpi og víðar og voru úrslit í þeim öllum afar ánægjuleg. Einkum voru það þó sigrar Liverpool, Frammara og Fimleikafélags Hafnarfjarðar sem glöddu Skáldið. Ekki það að Skáldinu sé sérstaklega hlýtt til Hafnfirðinga, en þegar þeir gera svona hluti hljóta allir góðir menn að fagna.
Um kvöldið var síðan fátt í spilunum, Skáldið horfði á sinn Popppunkt og gerði sig síður en svo líklegt til skemmtanaiðju, en ákvað þó að PPP loknum að heyra í Twistinum og athuga hvort eitthvað væri planað. Kvaðst hann vænta komu Magnúsar Blöndahl og væri meiningin síðar að kíkja í bæinn í bjór eða tvo. Þótti Skáldinu sem það hlyti að vera saklaus skemmtun og slóst því með í för. Var fyrsti viðkomustaður Blái barinn þar sem hver og einn gerði tveim ölkollum skil og allt enn með rólegasta móti. Vissum við svo af samkomu á Laugaveginum þar skammt frá og var ákveðið að líta þar við, svona aðallega fyrir kurteisissakir, enda vorum við Magnús nestislausir og birgðastaða Stefáns döpur. En það fór á annan veg en ætlað var.
Sem hefði svo sem ekki þurft að koma á óvart ef gestalisti þessarar samkomu hefði verið kannaður, hann skipuðu vínþyrstir menn og konur með afbrigðum sem létu okkur ekki komast upp með neitt múður heldur helltu í okkur brennivíninu eins og þau fengju borgað fyrir það. Varð því snemma ljóst að fögur fyrirheit um heilbrigði og ráðdeild þessa helgina væru fokin út í veður og vind, og því fátt annað að gera en að taka rækilega á því fyrst maður var fallinn. Fékk Skáldið einkar ógeðfellt SMS af þeim sökum frá ákveðnum aðila. Þú veist hver þú ert!
Einhverju síðar var búið að tæma síðustu bokkuna í húsinu og því ákveðið að leita út á lendur skemmtanalífsins. Fyrst var gerð tilraun við Ölstofuna en þar var röð svo Vegamót urðu ofan á. Þar var hið ágætasta stuð. Fyrir einhverra hluta sakir þótti Dúllaranum, sem var orðinn nokkuð rakur er hér var komið sögu, sem Jarlaskáldið væri heldur vanbúið til frekara skemmtanahalds og sá engin ráð önnur en að rífa sig úr skyrtunni og klæða Skáldið í hana. Enn skrýtnara var þó að Skáldið var hið sáttasta með þetta inngrip og spókaði sig glatt um í skyrtunni, sem var nota bene vel við vöxt enda stærðarmunur nokkur á umræddum aðilum.
Einhverju síðar ákvað stór hluti hópsins að gera aðra tilraun við Ölstofuna en við félagarnir töldum ráðlegra að halda á kunnuglegri slóðir. Ef minnið svíkur ekki tókst Magnúsi að notfæra sér ímyndaðan celebstatus sinn og troðast fram fyrir röð en við Stefán tókum slíkt að sjálfsögu ekki í mál, Hillsbororöðin er helmingurinn af ástæðunni fyrir því að maður endar alltaf þarna. Inni var síðan gleði að vanda, og eitthvað þekkti maður af fólki, en suma hefði kannski verið betra að þekkja ekki. Þannig er það stundum. Entumst við félagarnir mislengi, Magnús mun hafa týnst fyrstur, en við Stefán þraukuðum fram yfir fimm. Hélt þá Skáldið venju samkvæmt á Nonnann þar sem Nonni sjálfur sá um að brasa þennan líka gómsæta pepperonibátinn fyrir það. Hélt Skáldið þannig vopnað heimleiðis með leigara og átti á leiðinni heim í hrókasamræðum við dræverinn um byggðastefnu, einkum samgöngumál og línuívilnun. Það var aldeilis stuð. Heima var svo Ocean's Eleven skellt í tækið og sofnað yfir henni. Ganz prima!

Skyrtan bíður eiganda síns.

Dagurinn í dag hefur verið hefðbundinn, KFC upp úr hádegi, leti og ómennska þess utan. Horfði á villimennina og skíthælana eigast við í knattspyrnu, þeir stóðu undir nafni líkt og venjulega. Þegar maður horfir á svona leiki vonar maður nánast bara að einhver meiðist. Ljótt að segja það, en satt. Þessa stundina er Skáldið að spá hvort það eigi að horfa á Emmy verðlaunin, það hefur einhvern undarlegan áhuga á svona verðlaunahátíðum, þær eru alltaf langar og leiðinlegar en samt horfir Skáldið alltaf á þær, sefur svo í tvo tíma og vaknar í vinnuna. Ætli það endi ekki þannig. Svei...

Enn enginn bíll.

Það er ekki fallegt sem maður er lesa um sumt fólk. Hvað er nú þetta? Já, eða þetta!

114

föstudagur, september 19, 2003 

Vinur minn hann Björgólfur

Björgólfur Guðmundsson er víst aðalgæjinn í dag, búinn að kaupa hálft Ísland og ríflega það og gleypa eins og eitt stykki kolkrabba í leiðinni. Eflaust eru skiptar skoðanir um ágæti þessa manns, en Jarlaskáldið hefur gott eitt um manninn að segja eftir daginn í dag (leiðr: eitt slæmt reyndar - maðurinn ku vera kr-ingur). Þrátt fyrir annir sínar við að eyða peningum gleymdi hann ekki sínum minnsta bróður, Jarlaskáldinu, því í dag lét hann Skáldið hafa fullt af peningum svo að það geti keypt sér jeppaling. Að vísu minntist hann eitthvað á að Skáldið þyrfti e.t.v. að borga þetta til baka í fyllingu tímans en það verður bara að koma í ljós hvernig það fer. Björgólf munar nú ekkert um þennan pening. Núna er s.s. næsta mál á dagskrá að finna jeppaling sem hæfir Skáldinu og byrja svo að æða um óbyggðir Íslands. Jarlaskáldið mun láta lesendur vita hvernig það gengur ef það gengur.

Jarlaskáldið brá sér í fótbolta í kvöld og komst að merkilegum hlut þegar hann var búinn. Síðast þegar Skáldið fór klæddist það landsliðsbúning Brasílíu frá HM 1994 með nafni markakóngsins Romario á bakinu, skoraði í gríð og erg og merkilegt nokk voru öll mörkin „Romarioleg“, pot úr vítateignum eftir klafs og barning. Í kvöld var Skáldið aftur á móti í sinni ágætu A.C Milan treyju, sem var einmitt keypt á Guiseppe Meazza leikvanginum í frægri Ítalíuför, og er nafn varnarsnillingsins Alessandro Nesta á baki hennar. Hvort sem það var treyjunni að kenna/þakka eða ekki þá voru Skáldinu afar mislagðir fætur fyrir framan mark andstæðinganna og kom tuðrunni aldrei inn fyrir línuna, en þótti aftur á móti sýna ágætis varnartilþrif á köflum. Það er þá spurning hvort maður reddi sér ekki bara Zidane treyju fyrir næsta bolta og sóli alla upp úr skóm og sokkum. Já, eða ekki...

Hvað á svo að gera um helgina? Jarlaskáldið er að spá í að gera barasta sem allra minnst, og allra síst að fara á djammið, því ef Skáldið færi á djammið með þær fúlgur fjár sem Björgólfur var að „lána“ því væri voðinn vís. Sennilega gáfulegast að halda sig heima. Ekki það að Skáldið gefi sig út fyrir að gera alltaf það gáfulegasta, en það er kannski kominn tími á að prófa það. Sjáum til...

117 eftir.

sunnudagur, september 14, 2003 

Breytingar

Stelpan segist vera hætt að blogga eftir einhverja slöppustu endurkomu seinni tíma (enginn toppar þó aumingjabloggarann hvað það varðar). Hefur henni því verið fleygt út af bloggaralistanum með skömm. Maður kemur í manns stað, Frænkan hefur hafið blogg að nýju og enn er hún stödd í frumstæðu samfélagi, síðast var það Hondúras, nú er það Akureyri. Talandi um Akureyri, maður þarf kannski að kíkja þangað á næstunni. Humm....

 

Heimtur úr helju

Já, lesendur góðir, Jarlaskáldið hafði betur í baráttu sinni við pestir og sóttir, þó tæpt hafi staðið um tíma. Það var ekki fyrr en á föstudagskvöldið sem Skáldið tók að hressast og hafði þá misst þrjá daga úr vinnu, vinnuveitendum eflaust til mikillar sorgar. Reyndar tókst Skáldinu að afreka ýmislegt þessa daga, tók t.d. til í herberginu sínu og fundust margir dýrgripir við moksturinn sem höfðu fyrir löngu verið taldir glataðir að eilífu. Auk þess hefur geisladiskabrennarinn aldeilis fengið að vinna fyrir kaupinu sínu, svo ekki sé talað um blessað sjónvarpstækið.
Á föstudagskvöldið var Skáldinu svo boðið í innflutningspartý hjá Dengsgrími og frú hans, en þau eru einmitt nýflutt inn í gamla mjólkurbúð. Hinn ágætasti kofi, og var boðið upp á góðar veitingar, bæði votar og þurrar, en sakir undangenginna veikinda hélt Jarlaskáldið sig bara við Mixið. Í teiti þessari var fjöldi fólks og þekkti Skáldið m.a.s. suma og átti við þá gagnlegar samræður í bland við gamanmál. Heim var Skáldið svo komið um miðnætti og fer ekki meiri sögum af því kvöldinu.

Laugardagur fór venju samkvæmt í leti fram eftir degi, og var það bara prýðilegt. Jarlaskáldið fagnaði endurkomu Popppunkts um kvöldið og ekki síður tapi Hnakkanna. Lengi vel leit allt út fyrir að þetta yrði önnur helgin í röð sem Skáldið léti lendur skemmtanalífsins í friði, en það fór víst á annan veg. Um ellefuleytið hafði Stefán Twist samband og var þá staddur í nálægu húsi við Skáldið. Kvað hann nokkra gleði vera í gangi og varð niðurstaða samtalsins sú að Skáldið hélt til fundar við pilt. Hafi Skáldið gert sér vonir um að hitta þar fyrir íðilfagrar yngismeyjar hurfu þær eins og dögg fyrir sólu þegar á staðinn var komið, því að Stefáni frátöldum voru gestir allir karlkyns á aldrinum 40-70 ára, þar að auki flestir á sundskýlu einni fata drekkandi öl í heitum potti. Skáldið lét það lítið á sig fá enda er stundum barasta fínt að hafa ekkert kvenkyns á svæðinu, samræður eiga það til að verða heldur berorðari við þær aðstæður, en þær snerust vitaskuld að mestum hluta um bíla og fótbolta. Ekki sakaði heldur að hafa Súkkat á fóninum, karlmannleg tónlist það.
Þegar komið var þónokkuð yfir miðnætti var svo ákveðið að halda niður á láglendið og á lendur skemmtanalífsins. Var fyrsti viðkomustaður Thorvaldsen, því miður var engin röð þar því Stebbi þekkti einhvern í dyrunum sem hefði getað reddað okkur fram fyrir. Inni var hin ágætasta síldartunnustemmning en ekki þekkti Skáldið deili á mörgum svo stoppið varð eigi langt. Ákveðið var að leita næst fanga á heimavellinum og var röðin bara bærilega löng, en því miður lítil stemmning fyrir Hillsborofíling þrátt fyrir viðleitni okkar Stefáns í þá átt. Innan dyra var svo fjölmennt og jafnvel góðmennt, t.d. var allt kvennalandsliðið í fótbolta á svæðinu, en þær virtu okkur Stefán ekki viðlits. Kunna greinilega ekki gott að meta þessar stelpur, þ.e.a.s. þær sem ekki eru haldnar kynvillu.
Heim var svo haldið í fyrra fallinu en að sjálfsögðu ekki fyrr en Nonninn hafði verið heimsóttur. Skáldið gerði sér lítið fyrir og keypti tvo Nonnabita, einn kjúklinga og einn pepperoni, og hélt sælt og glatt heimleiðis með þá. Pepperonibáturinn gerði góða hluti þegar heim var komið og Simpsons fór að rúlla í tækinu, og kjúklingabáturinn gerði ekki síðri hluti þegar Skáldið skreið á lappir í dag. Dagurinn í dag fór líka í leti.

Mikið verður gaman að vakna á morgun....

miðvikudagur, september 10, 2003 

Ó vei mig auman!

Það er ekki gott hljóðið í Jarlaskáldinu þessa stundina. Einhver illvæg sótt (líklega bráðalungnabólgan (SARS-HABL eða hvað hún nú heitir), hún er víst komin á kreik aftur) hefur lagt Skáldið í bælið hvar það kveinkar sér sem mest það má eins og sönnum karlmanni sæmir og bíður endaloka sinna. Eins og það sé ekki nóg er Skáldið líka á annarri löppinni þá sjaldan það fer fram úr rúminu eftir tuðruspark mánudagsins þar sem Skáldinu tókst að teygja á hinum og þessum liðböndum sem himnafaðirinn gerði aldrei ráð fyrir að teygt væri á, með tilheyrandi eymslum og strengjum. Sjaldan er ein báran stök. Jæja, fátt er svo með öllu illt, frí í vinnunni!

Annars hefur Jarlaskáldið eytt frítíma sínum undanfarið einkum í það að skoða bíla á netinu, nánar tiltekið torfærutröll, og hefur jafnvel í hyggju að fjárfesta í einu slíku ef eitthvað finnst sem rúmast innan fjárhags Skáldsins. Ekki leyfir fjárhagurinn margar tommur undir tröllið þannig að líkast til verður einhver slyddujeppi keyptur ef af verður, það má nú alltaf fá far með Willa ef torfærurnar bera hann ofurliði. Einnig ættu þessi kaup að tryggja það endanlega að lífi Skáldsins eins og lesendur þekkja það verður endanlega lokið, ekkert meira fyllerí og vitleysa hverja helgi, bara vinna eins og berserkur og í mesta lagi vídjó um helgar. Jájá, sjáum til hvernig það gengur.

Kominn er tími á að geta úrslita í könnun þeirri er staðir hefur yfir undanfarna daga um þá ákvörðun Magnúsar frá Þverbrekku að mæta eigi til Ítalíu á vetri komanda. 24 greiddu atkvæði, og úrslit urðu sem hér segir:

Maðurinn er gunga: 6 atkvæði (25%)

Maðurinn er nirfill: 3 atkvæði (13%)

Maðurinn er frábær: 7 atkvæði (29%)

Maðurinn er hagsýnn: 4 atkvæði (17%)

Hver er maðurinn?: 4 atkvæði (17%)


Þetta eru sannarlega athyglisverðar niðurstöður. Alls 9 manns finna pilti allt til foráttu og kalla hann gungu og nirfil, en enn fleiri eða 11 manns finnst ákvörðun hans vel ígrunduð og 7 ganga svo langt að finnast maðurinn frábær. Loks voru 4 lesenda sem ekki höfðu hugmynd um hver Magnús frá Þverbrekku er og var hann að sögn sjálfur einn þeirra. Það virðist því sem ákvörðunin sé í meira lagi umdeild. En þetta er ekki eina mögulega túlkunin á tölunum. 7 manns finnst maðurinn frábær fyrir þessa ákvörðun, en svo merkilega vill til að það verða einmitt 7 ferðalangar sem halda í téða för um miðjan janúar. Einhver kynni að draga þá ályktun að Magnús sé maður eigi vinsæll og ferðalöngum þyki blessun að fjarveru hans, en slíka ályktun myndi Jarlaskáldið að sjálfsögðu aldrei draga, til þess þyrfti barasta skítlegt eðli. Eflaust má rýna í þessar tölur um ókomna tíð og túlka í hinar og þessar áttir, en látum þetta duga að sinni.

Og að lokum má geta þess að nú eru aðeins 23 dagar í le Grand Buffet. Og 126 í eitthvað annað....

sunnudagur, september 07, 2003 

Jarlaskáldið snýr blaðinu við

Það er ekki laust við að Jarlaskáldið hafi fengið undarlegt augnaráð frá ýmsum samferðamanna sinna um helgina. Er nokkur saga að útskýra tilurð þess.

Föstudagurinn og sérstaklega kvöldið munu seint rata í sögubækurnar hvað Skáldið varðar. Í vinnunni var reyndar nóg að gera og í ofanálag fékk Skáldið nokkra launahækkun og rætt um að það fengi jafnvel eilitla stöðuhækkun á næstunni. Ekki svo illa af sér vikið eftir aðeins vikutíma "on the job". Kvöldið fór síðan ágætlega af stað enda Simpsons í sjónvarpinu, Skáldið tók að sjálfsögðu þáttinn upp enda eru þeir bráðnauðsynlegir seint á næturna og stundum snemma á morgnana þegar Skáldið mætir heim af djamminu með Hlölla ellegar Nonna í hönd. Leiðin lá síðan niður á við eftir Simpsons. Skáldið hafði planað að glápa á myndina um Elling sem auglýst var á dagskrá Stöðvar 2 en í stað hennar var einhverra hluta vegna sýnd sú annars ágæta mynd Naked Gun. Á hana glápti Skáldið s.s. og það EKKI í fyrsta skipti. Þegar hr. Nielsen hafði lokið sér af ætlaði Skáldið að gera eitthvað en hætti svo við. Svo ætlaði það að gera eitthvað annað en úr því varð ekkert. Því næst datt því eitthvað annað í hug að gera en varð svo ekkert úr verki. Eftir allt þetta maus var Skáldið svo orðið dauðsyfjað og skellti sér því bara í háttinn. Að vísu hringdi frk. Védís eilítið slompuð í Skáldið um svipað leyti af Hverfisbarnum og kvartaði sáran undan fjarveru þess en annars varð ferðin inn í draumalandið hnökralaus.

Skáldið vaknaði svo bara hresst í bragði (sem er ágætis tilbreyting) um hádegisbil á laugardeginum og dreif sig strax í verkefni dagsins, sem var að kaupa sér fótboltaskó. Skáldið hefur sem kunnugt er ekki snefil af verslunarmótstöðu þegar kræfir sölumenn eiga í hlut og gekk því tólfþúsund krónum fátækara með silfurlitaða og rauða Adidasskó í farteskinu út úr Útilífi stuttu síðar. Þeir eiga víst nánast að sjá um að skora fyrir mann, eða ættu a.m.k. að gera það fyrir þennan pening. Fyrst Skáldið var statt í Skeifunni gat það síðan ekki annað en komið við á rómuðum veitingastað er þar er til húsa og ekki ætti að þurfa að nafngreina.
Ekki bar svo fleira til tíðinda fyrr en um hálfsexleytið en þá var Skáldið mætt í nýju skónum upp í Kópavog hvar Eyjólfur bauð til fótboltagláps, en þar voru auk hans staddir þeir Stefán, Gústi og hr. Níels (sem ekki skyldi rugla við hr. Nielsen). Höfðu þeir félagar áfengi um hönd en Skáldið ekki og var gys gert að Skáldinu af þeim sökum. Var svo næstu tveimur tímum eytt í að koma með gáfulegar athugasemdir um knattspyrnu auk sjálfs glápsins en að leik loknum hélt Skáldið heimleiðis og skildi drengina eftir við drykkjuna.
Ekki var lengi dvalið á heimaslóðum heldur haldið að nýju í Kópavoginn upp úr níu þar sem þeir piltar sátu enn að drykkju. Reyndar hafði heldur fjölgað í kotinu og átti eftir að fjölga en sá galli var á gjöf Njarðar að sumra mati að enginn hinna viðbættu var undir áhrifum né hafði hug á því. Jarlaskáldið meðtalið, sem þótti einna skrýtnast, og útskýrast hin undarlegu augnaráð hér með. Fór þessi samkoma því prúðmannlega fram þar eð ríflega helmingur var í eðlilegu ástandi (þó sumir hafi lýst efasemdum um að ástand Jarlaskáldsins hafi verið því eðlilegt). Reyndar þóttu þeir Eyjólfur, Gústi og hr. Níels eyða grunsamlega löngum tíma saman inni í svefnherbergi en Skáldið vill ekki einu sinni ímynda sér hvað þar fór fram. Svo fór að lokum að Skáldið lét sig hverfa heim á leið á tólfta tímanum og gerði þar heiðarlega tilraun til sjónvarpsgláps án teljandi árangurs svo það var fljótlega lagst í flet sitt. Reyndar hringdi í það drukkin manneskja af hinu kyninu um svipað leyti og saknaði Skálds síns, en það virðist ekki bregðast að þá sjaldan Skáldið heldur sig heima við um helgar að í það hringja ólíklegustu aðilar, jafnan vel drukknir, og heimta að Skáldið sýni sig í bænum. Það væri nú gaman ef eftirspurnin væri jafnmikil þegar maður sýnir sig þar, segi ekki meira...

Sunnudagurinn hefur að mestu farið í leti og ómennsku enda til þess gerður, en Skáldinu bárust þó þær góðar fréttir um miðjan dag að fröken Hrafnhildi hafði þá nýlega tekist að fjölga mannkyninu með 17 marka og 51 sentimetra langri stúlku, sendir Jarlaskáldið þeim hjónaleysum Hrafnhildi og Elvari hamingjuóskir sínar af því tilefni. Einnig þykir Skáldinu ástæða til að hrósa Hrafnhildi fyrir að fresta fæðingunni um einn dag (átti víst að fæða í gær samkvæmt vísindalegum rannsóknum) svo að Elvar gæti horft á leikinn, hann er sko lukkunnar pamfíll með slíka konu sér við hlið.

Þess má til gamans geta að nú eru aðeins 129 dagar þangað til Skáldið fer til Ítalíu við sjöunda mann. Þess má einnig geta að Magnús Blöndahl verður ekki í þeim hópi. Óheppinn.

föstudagur, september 05, 2003 

Af kappleikjum og öðru

Þessi vinnuvika hefur nú aldeilis verið viðburðarík, en þó jafnvel ekki...

Helst ber til tíðinda að Jarlaskáldinu fannst orðið nóg um sitt bágborna líkamlega ástand og hefur hafið tuðruspark tvisvar í viku með þeim dáðadrengjum Vigni og Gústa ásamt nokkrum fjölda annarra pilta sem Skáldið þekkir enn sem komið er lítil deili á. Er annars vegar um að ræða innahúsfótbolta í Hafnarfirði á mánudagskvöldum og hins vegar gervigrasbolta í Fífunni á fimmtudagskvöldum. Lætur Skáldið hæfileikaleysi á sviði tuðrusparks ekki stöðva sig enda er það Ólympíuandinn sem ræður för, það er ekki spurning um að vinna heldur vera með. Að vísu gerðust þau undur og stórmerki í boltanum í kvöld að Skáldið skoraði öll mörk síns liðs, ein fjögur talsins, en það dugði ekki til þar eð leikar fóru 5-4. Þess ber að geta að öll mörkin voru skoruð af 0,5-3 metra færi eftir klafs og djöfulgang í teignum í flestum tilfellum. Þau telja líka. Að öðru leyti sökkaði Skáldið feitt.

Fátt annað markvert hefur átt sér stað í lífi Skáldsins undanfarna daga, það er líka mun meiri helgarmanneskja en nokkurn tímann hinna virku daga og því vart von á öðru. En nú ber svo við að það er barasta ekkert planað fyrir næstu helgi og er Skáldið jafnvel að spá í að gera ekkert til að bæta úr því. Batnandi mönnum er best að lifa, þó það sé eflaust lygi....

þriðjudagur, september 02, 2003 

Sumarið var tíminn

Það hefur nú eitt og annað verið brallað síðan síðast, látum oss nú sjá:

Fyrsta mál á dagskrá, Jarlaskáldið er komið með vinnu. Ekki góða vinnu, né vel borgaða, en vinnu altént. En þetta er ekkert vinnublogg, nenni ekki að skrifa meira um það.

Skáldið er búið að staðfesta Ítalíuferð 14.-24. janúar og borga 16.000 kall af þeim sökum. Money well spent.

Á föstudaginn þóttist Jarlaskáldið ekki til stórræðanna og úr varð að það fór í félagi við Twistinn í kvikmyndahús á þá ágætu mynd American Pie: The Wedding, eða Stiflerinn, eins og okkur er nú tamara að segja. Stóðst myndin allar okkar væntingar og jafnvel rúmlega það, enda er Stiflerinn í stóru hlutverki og fer á kostum. Alveg óhætt að henda heilum 73 stjörnum af 100 mögulegum á hana þessa.

Á laugardaginn skellti Skáldið sér svo austur fyrir fjall og alla leið í Úthlíð ásamt öðrum fyllibyttum í bústað flugumferðarstjóra, sem félagi vor Dengsi hafði leigt. Fór þessi sumarbústaðarferð fram eftir öllum kúnstarinnar reglum, grill, pottur, spil, bjór og annað tilheyrandi, auk þess sem aumingjabloggarinn var ótæmandi uppspretta brandara einkum fyrir þær sakir að hafa skrópað. Það var síðan þónokkur þokumugga í gangi á sunnudaginn, svo slæm reyndar að Skáldið hafði ekki sinni lyst á KFC. Er þá fokið í flest...

Þess má reyndar geta að Skáldið fór á KFC í kvöld til að bæta fyrir misgjörðir sínar.

Enn einu sinni er kominn tími á að hreinsa til í bloggaralistanum. Sjonni hefur verið dæmdur sekur um aumingjablogg og verður því hent út í ystu myrkur. Svo eru nokkrir sem þyrftu að fara að vara sig. Í stað Sjonnans kynnir Skáldið til sögunnar þau sæmdarhjónaleysi Ármann og Ásu sem hafið hafa blogg, eða a.m.k. vísi að bloggi. Vonandi standa þau sig vel og forðast allt aumingjablogg. Einnig hefur Skáldsins gamli magister, bloggari dauðans, fengið sinn gamla sess að nýju.

Í kvöld tók Jarlaskáldið einnig afdrifaríka ákvörðun sem gæti reynst allt annað en hægðarleikur að standa við. En það má alltaf reyna, sérstaklega þar sem enginn veit hver ákvörðunin var, þá tekur enginn eftir því þegar maður klikkar. Úbbs, það er víst einn sem veit af þessu. Ekki segja neinum!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates