« Home | 7-0 Nokkuð góðri helgi á flestum vígstöðvum er að... » | Vinur minn hann Björgólfur Björgólfur Guðmundsson... » | Breytingar Stelpan segist vera hætt að blogga eft... » | Heimtur úr helju Já, lesendur góðir, Jarlaskáldið... » | Ó vei mig auman! Það er ekki gott hljóðið í Jarla... » | Jarlaskáldið snýr blaðinu við Það er ekki laust v... » | Af kappleikjum og öðru Þessi vinnuvika hefur nú a... » | Sumarið var tíminn Það hefur nú eitt og annað ver... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogáttunda Síðustu þrír ... » | Atvinnuleysi, jeppaferðir og djamm Það er orðið n... » 

föstudagur, september 26, 2003 

Síðbúið Miðvikublogg ið tuttugastaogníunda

Fólk hefur víst eitthvað verið að tjá sig í kommentunum, sem er í sjálfu sér hið besta mál, en það kvartar sáran yfir fréttaleysi af Jarlaskáldinu, sem er verra mál. Hefur fólkinu ekki dottið í hug að slá á þráðinn, eða jafnvel bara kíkja í heimsókn, fyrst það hefur svona miklar áhyggjur? Skáldið er höfðingi heim að sækja. Onei, það bara kvartar og kveinar og nennir ekkert að hafa fyrir hlutunum. Týpískt. Ætli Skáldið verði þá ekki að rita örfá orð um athafnir sínar og hugleiðingar liðna daga, svona til að friða pöpulinn. Og eitthvað um sjónvarp, það er gaman.

Tilvonandi jeppakaup Jarlaskáldsins er væntanlega sá atburður sem lesendur fýsir helst að fá fregnir af. Hefur Skáldið farið á stúfana á vikunni og það víða, oftar en ekki með félaga vorn Stebba twist í för, þar eð hann þykist allfróður um þessa tilteknu gerð ökutækja. Hafa fjölmargar druslur verið skoðaðar og um leið útilokaðar, en þó tókst okkur að finna einn skrjóð sem lofar nokkuð góðu, og ef hann stenst nánari skoðun og semst um verð er alllíklegt að kagginn verði keyptur, vonandi í næstu viku. Þangað til brúkar Skáldið hjólfák sinn í og úr vinnu, sem er miður skemmtilegt, ekki síst þar sem hann er bremsulaus að aftan, auk þess sem það er búið að vera alveg ógeðslega kalt undanfarna daga.

Að öðru leyti hefur Jarlaskáldið fátt afrekað ef nokkuð síðan um helgina. Það fer í sinn fótbolta á mánudögum og fimmtudögum, en reynir þess utan að nýta frítíma sinn virka daga í að gera sem minnst. T.d. að horfa á sjónvarpið. Þar hjálpar til að hafnar eru sýningar á nokkrum þrælgóðum sjónvarpsþáttum. Ríkissjónvarpið er búið að gera mánudagskvöld áhorfanleg að nýju, fyrst er Frasier sem má alltaf glápa á þó þreyttur sé hann að verða, en hann er líka bara upphitun fyrir hinn stórmagnaða þátt Scrubs sem sýningar eru hafnar á að nýju. Þvílík snilld þessir þættir hafi fólk ekki gerst svo frægt að horfa á. Reyndar missir Skáldið alltaf af síðustu mínútunum af Scrubs þegar það þarf að drífa sig í boltann en þá kemur blessað vídjótækið til hjálpar.
Þriðjudags- og miðvikudagskvöld eru eiginlega alveg einstaklega döpur hvað sjónvarp varðar, Skáldið man barasta ekki eftir neinum þætti þau kvöld sem það þyrstir á að horfa á fyrir utan að sjálfsögðu That '70s Show á miðvikudögum. Einhvern veginn endar það líka alltaf þannig að Skáldið glápir á Law and Order, þó sá þáttur sé nú ekkert spes.
Á fimmtudögum vænkast hagur Strympu talsvert, t.d. lofar Andy Richter Controls the Universe nokkuð góðu. Allir gamanþættir sem ekki nota hláturvél eiga reyndar lof skilið. Þessi þáttur virðist reyndar hafa floppað úti, sem segir líklega meira um áhorfendurna en þáttinn. Hálfvitakanar! Klukkan hálftíu byrjar svo Atvinnumaðurinn með Þorsteini Guðmunds og eins og flest annað sem þessi maður hefur komið nálægt er hann algjör snilld. Reyndar á það sama við um Atvinnumanninn og Scrubs, Skáldið missir alltaf af hluta þáttarins þegar það þarf að rjúka í fimmtudagsboltann en Skjárinn endursýnir hvort sem er alla þætti þannig að það gerir minna til.
Sjónvarpsdagskrá hinna daganna lætur Skáldið liggja milli hluta, Skáldið horfir á Simpsons og Popppunkt sé þess kostur en lætur flest annað í friði enda hægt að nota kvöldin um helgar í margt skárra en sjónvarpsgláp.

Talandi um helgar, það líður að þeirri næstu. Best að segja sem minnst um fyrirætlanir Skáldsins, fæst orð bera minnsta ábyrgð. Helgina þar á eftir má svo búast við að bresti allar flóðgáttir, meira um það síðar.

110

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates