« Home | Súrt Af hverju í andskotanum eru áramótadjömm all... » | Allt búið Þá er þetta árið senn búið (frumlegur),... » | „Enginn helvítis öræfaótti hér!“ Jarlaskáldið ger... » | Jólin jólin alstaðar Þá er þessi geðveiki að verð... » | Helgarbloggið góða Eitt og annað í gangi, oseisei... » | Huh? Samkvæmt Molunum er Jarlaskáldið aftur byrja... » | Pizza og bjór Jarlaskáldinu tókst ekki að sofa af... » | Miðvikublogg II Þá er komið að öðru miðvikubloggi... » | Af ammælum, óðum frændum, og kjúklingaáti Fastir ... » | Allir stuði í! Jarlaskáldið er með hellu fyrir ey... » 

laugardagur, janúar 04, 2003 

Frásagnarlist fyrri alda

Sæl veriði, Jarlaskáldið er öllu upplitsdjarfara nú en í síðasta bloggi, sem var nota bene skrifað strax að loknu áramótadjamminu. Ekki man Skáldið svo gjörla hvað olli geðshræringunni, best að reyna að rifja þetta upp, og svo getur kannski einhver samferðamannanna fyllt í eyðurnar.

Það var snæddur kalkúnn í höll Jarlaskáldsins á gamlárskvöld, og getur það nú talist hefðbundið, þar eð það var einnig gert í fyrra. Kalkúnn er mikill herramannsmatur, enda ekki ósvipaður kjúklingi, sem er sem kunnugt er í miklum metum hjá Skáldinu. Bragðaðist hann afar vel, enda móðir Jarlaskáldsins listakokkur þegar sá gállinn er á henni. Stuttu eftir mat hélt Jarlaskáldið vel birgt út í dreifbýlið, nánar tiltekið Kópavoginn, þar sem því hafði verið boðið í áramótafögnuð hjá Hrafnhildi í Ekrusmáranum. Var því tekið með kostum og kynjum, og eyddi fyrri hluta kvölds aðallega í sjónvarpsgláp, fyrst á fréttánnál Stöðvar 2 og síðan á Skaupið. Fínt Skaup, þó ekki hafi það náð að skáka snilldinni síðan í fyrra. Að Skaupi loknu hélt Skáldið líkt og flestir landsmenn út fyrir hússins dyr, og skaut upp sínum flugeld og sinni tertu. Naut svo útsýnisins, sem var stórgott þegar Skáldinu hafði hugkvæmst að nýta meðfædda hæfileika sína og klifra upp á þak. Fylgdu aðrir í fótspor Jarlaskáldsins, og höfðu þau skötuhjú Kjartan og Laufey þá bæst í hópinn. Var mikið stuð á þakinu, þótt vart sé hægt að mæla með þessu athæfi út frá öryggissjónarmiðum.

Þegar hægjast fór um í sprengingunum tók aðeins meira sjónvarpsgláp við, enda Stella í orlofi í boði, nostalgía dauðans, auk þess sem skálað var í bubbly og soledes. Einhverju eftir áramót mætti svo Magnús Blöndahl á svæðið og nam Skáldið á brott, og lauk för þeirri í Grafarvoginum, heima hjá þeim hjónaleysum Magga og Elínu. Var þar margt góðra gesta, og mikið brallað og baukað. Eitthvað virðist Óminnishegrinn hafa komist í síðari tíma heimildir, a.m.k ber heimildum ekki saman, man Jarlaskáldið þó eftir svaðilförum miklum, og nær óstjórnlegri drykkju viðstaddra. Síðast man Skáldið eftir því að hafa verið hent út, ekki man það hvers vegna, en grunar þó að það hafi átt þá meðferð skilda. Tók því næst leigara ásamt félaga Gústa, hann kostaði bara á þriðja þúsund úr Grafarvoginum upp í Breiðholt, eins gott maður fór ekki í bæinn! Þegar heim var komið bloggaði Skáldið tvær málsgreinar, en hélt svo inn í draumalandið. Lauk þeirri för ekki fyrr en myrkt var orðið daginn eftir. Sæmilegt það.

Annars verður nú eitthvað fátt á seyði næstu dagana í lífi Jarlaskáldsins, ráða því vondir íslenskir bankamenn, sem segja Skáldið blankt. Að vísu mun draga til tíðinda eftir rétta 11 daga, þegar Skáldið hverfur af landi brott, en þangað til er fás að vænta. Nema einhver vilji splæsa á Skáldið, það er öllum frjálst.................


Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates