« Home | Kvaraske? Jarlaskáldið heima við á föstudagsnóttu... » | Afmæli Það er stórafmæli hjá fjölskyldu Jarlaská... » | Ægivald Það er ekki að sökum að spyrja, þegar Jar... » | Miðvikublogg ið þriðja Miðvikubloggið snýr nú aft... » | Straumar og stefnur Ha, já, er þetta byrjað? Það ... » | Frásagnarlist fyrri alda Sæl veriði, Jarlaskáldið... » | Súrt Af hverju í andskotanum eru áramótadjömm all... » | Allt búið Þá er þetta árið senn búið (frumlegur),... » | „Enginn helvítis öræfaótti hér!“ Jarlaskáldið ger... » | Jólin jólin alstaðar Þá er þessi geðveiki að verð... » 

sunnudagur, janúar 12, 2003 

Norrön grammatikk

Það er nokkuð um liðið síðan hér var síðast ritað partíblogg, enda lítið verið um veisluhöld eða aðrar skemmtanir, en í gærkvöld dró til tíðinda í þeim efnum, og því réttast að rita um þau og aðra atburði fáein orð.

Gærdagurinn var tíðindalítill framan af, almenn leti og ómennska réð þar för, og var Jarlaskáldið að mestu leyti staðsett fyrir framan hina ýmsu skjái, ýmist tölvu eða sjónvarps, og aðhafðist fátt. Horfði m.a. á Spaugstofuna, sem af einhverjum skrýtnum ástæðum tók upp á því að vera bara soldið fyndin, greinilegt að fríið fór vel í þá félaga. Enn fyndnari var þó nördaþáttur Popppunkts, sem var næstur á dagskrá. Nördarnir alveg hreint brill, og bar einn þeirra af í nördheitum, þeir vita það sem sáu.
Að loknum Popppunkti mætti svo Magnús frá Þverbrekku á svæðið á drossíu sinni ásamt þeim Kidda og Hauki, og bættist Vignir einnig í þennan ágæta hóp, var þá orðið þröngt á þingi, eða a.m.k í bílnum. Sem betur fer var ferðin frá Vigni stutt, endaði hún í bryggjuhverfinu, í næsta nágrenni við Völu Matt, þ.e.a.s. heima hjá Togga. Var þar fyrir hið fríðasta mannval, auk Togga var frúin mætt, ásamt Andréssyni og frú, að ógleymdum Stefáni frá Logafoldum. Kannski voru fleiri þarna, en það getur ekki hafa verið merkilegt lið. Jú, Gústi mætti á staðinn nokkru síðar, og er þá allt talið.
Eins og einhverjir lesenda kynnu að geta sér til um var svall og drykkja stunduð af gestum, og það af miklum myndarskap, mismiklum þó. Þeir gesta sem senn hyggja á Ítalíuför gerðu fátt annað en æsa hver annan upp í spenningnum, þó enginn eins og Toggi með myndunum sínum. Jú, fólk er gjörsamlega að fara á límingunum!
Eins og oft hefur gerst áður þegar líða tekur á kvöldið fór útvhverfaóttinn að gera vart við sig, og því ekkert annað að gera en að halda í bæinn. Fór Jarlaskáldið í leigubíl með þeim Vigni og Gústa, og einhverra hluta vegna endaði för sú á skemmtistaðnum Vídalín. Ekki man Jarlaskáldið hvað eða hver olli því, a.m.k. var dvölin stutt, enda staðurinn fúll. Engu minni varð undrun Jarlaskáldsins þegar það var svo dregið inn á Kaffi Victor. Dvölin þar var sem betur fer enn styttri, og var ákveðið að arka á kunnuglegri og indælli slóðir, Hverfisbarinn var það heillin. Þar tók við sem endranær röð ein mikil með Hillsborofílingnum góðkunna, en inn komust allir um síðir. Maður þarf nú að fara að vinna í þessum celebamálum, það er ekki hægt að standa þarna úti allar helgar!
Þegar inn var komið hitti Jarlaskáldið fyrir megnið af partýgestum síðan fyrr um kvöldið, og tók það að stunda dansmennt í því fríða föruneyti við góðar undirtektir viðstaddra. Tók Skáldið sér stöku hlé, og notaði eitt þeirra til að bæta eigið Íslandsmet í kappdrykkju. Ekki var það góð hugmynd. Eins og gjarnan vill verða í slíkum átökum sem kvöld þetta var tók nokkrum í föruneytina að þrjóta þróttur, varð Andrésson með fyrstu fórnarlömbum, og bættust fleiri í þann hóp síðar. Þó mun einum í föruneytinu hafa tekist að fá snót eina snoppufríða til að verma bæli sitt þessa nótt, skal ósagt látið hver það var. Eitt er víst, ekki var það Jarlaskáldið! Hjá því tók að gæta syfju þegar nokkuð var á nótt liðið, og tók það þá einhliða pólitísku ákvörðun að halda út í náttmyrkrið. Að sjálfsögðu endaði förin sú hjá góðum vini Skáldsins, honum Nonna, og síðar meir átti Skáldið í „gáfulegum“ samræðum við leigubílsstjóra um eitt og annað á leið þess heim í slotið. Fær djamm þetta hiklaust þrjár stjörnur af fjórum mögulegum, geymi fjórðu stjörnuna þangað til á Ítalíu.
Ekki var Skáldið upplitsdjarft í morgun þegar Kjartan nokkur vakti Skáldið og óskaði eftir liðveislu þess við flutninga. Þrátt fyrir bágborið ástand færðist Skáldið ekki undan því, og eyddi næstu tveimur tímunum eða svo við það. Líst Skáldinu bara vel á hin nýju híbýli Kjartans og Laufeyjar, nálægt miðbænum og svona, tilvalið til skemmtanahalds, er það ekki? Sótti Skáldið einnig Þverbrekking og Logafoldargreifann, var ætlunin að kveðja stúlkurnar á Kentucky Fried, sem var gert með tárum. Þessa mun maður sakna þessa tíu daga á Ítalíu! Því næst ösnuðust Ítalíufarar inn í Nanoq, Skáldið slapp ómeitt úr þeim hildarleik, en hið sama verður ekki sagt um aðra, þar fuku nokkrir þúsundkallar.
Annað telst ekki til tíðinda. Best að enda þetta bara á getraun, þær hafa víst verið allt of léttar hjá Skáldinu hingað til, best að reyna að bæta úr því:

Hver er mesti skíthæll Íslandssögunnar?

Vegleg verðlaun fyrir rétt svar, en þau eru leynileg að þessu sinni.

Fleira var það ekki....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates