Landmannalaugar og Þjórsárdalur
Það fór eins og Jarlaskáldið spáði í síðasta miðvikubloggi, ekki nennti það að hanga í bænum heldur kannaði uppsveitir Suðurlands um helgina. Skal nú rituð hér saga um þá ferð.
Það var ekki fjölmennur hópur sem lagði af stað um hálfníuleytið á föstudag, hann taldi aðeins tvo,
Twistinn og
Skáldið, sem einnig hafa verið nefndir
Stebbarnir af gárungum. Til fararinnar höfðu þeir að vanda
Willann sinn. Var stefnan þetta kvöldið á að komast í heitan pott og dugði ekkert minna en sá í
Landmannalaugum. Var ekin hinn hefðbundni og heldur þreytti Suðurlandssvegur að Vegamótum með smápulsustoppi á Selfossi. Afgreiðslustúlkan á Selfossi var að gera góða hluti, og þótti greinilega mikið til þessara gesta úr höfuðborginni koma, eða það höldum við a.m.k. Á Vegamótum keyptum við svo hangikjöt og ferðagrill og var þá ekkert að vanbúnaði að taka stefnuna norður Landveginn. Hann ókum við norður fyrir Heklu og beygðum þar inn á Dómadalsleið eftir að hafa hleypt eilítið úr dekkjum. Á Dómadalnum lentum við svo fljótlega í svartaþoku en það var nú bara til skemmtunar. Tók ca. klukkutíma frá afleggjara inn að Laugum og höfðum við Sálina hans Jóns míns til að stytta okkur stundir á leiðinni. Enda klufum við loftið eins og Concordeþota á köflum.
Í Laugum var nokkur fjöldi af tjöldum og greinilega útlendingar í meirihluta því ekkert lífsmark var í flestum þeirra. Auk þeirra var hópur af
Flubbum í nokkrum tjaldanna og merkilegt nokk þekkti einn þeirra okkur Stebbana og það tæplega af góðu. Ekki þekktum við hann hins vegar en létum ekkert á því bera, það væri ókurteisi.
Ekki vorum við lengi að henda upp tjöldum og drifum okkur því næst í Laugina vopnaðir eilitlu
nesti. Slepptum umferð í heimsmeistaramótinu í Sprellahlaupi sakir mannfæðar. Laugin var bara nokkuð góð, afar misheit að vísu en vel nothæf. Því miður var lítið um að fólk væri "commando" í Lauginni og illu heilli voru þeir fáu sem það gerðu karlkyns og lítt ásjálegir í þokkabót. Annars fer litlum sögum af kvöldi þessu, menn hinir rólegustu og ræddu einna helst fyrirætlanir næstu helgar, en að þeim verður vikið í næsta miðvikubloggi.
Risum við Stebbarnir úr rekkjum vorum um ellefuleytið á laugardag, endurnærðir á sál og líkama. Byrjuðum að vanda á M-unum þremur (matur, messa, Múllersæfingar) en drifum okkur þvi næst í morgunsund. Aldrei of oft farið í þessa blessuðu laug. Að laugarsetu lokinni pökkuðum við svo tjöldunum niður á mettíma (komnir í ágætis æfingu) og héldum för okkar áfram, eða öllu heldur til baka, því næst var ekið upp í Hrauneyjar þar sem við gæddum okkur á prýðisgóðri lauksúpu. Þar náðum við einnig sambandi við félaga vorn Blöndahl gegnum síma en hann hafði lent á skralli á Nasa (skelfingarstaður!) kvöldið áður ásamt Vigni og voru þeir félagar víst við misjafna heilsu. Lofuðu þó að hitta okkur síðar um daginn í Þjórsárdalnum þegar heilsan leyfði. Þar sem ekki var von á þeim né öðrum næstu stundirnar kíktum við Stebbarnir næst á Háafoss því í síðustu ferð um þessar slóðir var slík þoka að ekkert sást. Ágætis foss barasta.
Þegar þarna var komið sögu var farið að bresta á með brakandi sól og blíðu og var því sú pólitíska ákvörðun tekin að enda för okkar þennan daginn í Þjórsárdalnum, slá þar upp tjöldum og hefja sólböð. Tókst það svona líka ljómandi vel, og fyrr en varði tók Óli lokbrá völdin. Ekki vöknuðum við fyrr en nokkru síðar við bílhljóð, og voru þar mætt þau sæmdarhjónaleysin
Eyfi og Ríkey á Hyundai, síðan þær Nevillesystur
Alda og Hildur á Golf,
Toggi og Reynir á glæsilegum Willa,
Snorri og
Kiddi á Subaru og loks
djammar
arnir frá því kveldið áður á Suzuki. Var þá fullmætt, 12 manns, og fyrirhuguð dagskrá gat hafist.
Samanstóð dagskráin af hefðbundnum liðum, fyrst var að færa afmælisbarninu afmælisgjöf, 20 pulsur, fótbolta, pumpu og einhvers konar apparat fyrir leik sem fólst í að skjóta kúlu á milli sín og reyna að grípa ofan í sívalning. Erfiðara en það hljómar. Tóku Nevillesystur strax til óspilltra málanna í þeim leik og það af talsverðri hörku.
Næst á dagskrá var að grilla og gekk það bara bærilega, Skáldið át lambalærisneiðar og þær ágætar. Þegar menn höfðu matast tóku nokkrir afmælisgesta til við knattspyrnuiðkun og sáust ófá glæsileg tilþrifin en reyndar mun fleiri lítt glæsileg í þeim kappleik. Lið Jarlaskáldsins tapaði eftir harðvítuga keppni, líkast til bara af því hinir svindluðu.
Að knattleik loknum var Skáldinu orðið heldur heitt í hamsi og þótti því þjóðráð að baða sig í Sandánni sem rennur þarna í nágrenninu. Þótti hún allköld, svo mjög reyndar að enginn fetaði í fótspor Skáldsins utan Snorri sem rétt dýfði tánum ofan í og stökk svo upp úr með píkuskrækjum. Jarlaskáldið lét sig ekki muna um það að stinga sér á bólakaf og vaða svo yfir á bakkann hinum megin. Var hann nokkuð hár en þó fór Skáldið létt með að vippa sér upp á hann enda lítt stundað fræði Bakkusar þegar þarna var komið sögu. Heldur verr tókst svo til á leiðinni til baka, en þá varð Skáldið fyrir áðurnefndri líkamsárás af eigin hendi. Fólst hún í því að renna fram af bakkanum og falla eitthvað á annan meter ofan í ána, nota bene berfætt. Tókst sem betur fer að lenda á löppunum en önnur skall svona líka skemmtilega á grjóti þannig að stórsá á ilinni. Þurfti svo að vaða aftur yfir ána illa á sig komið þar sem Stebbi mætti með sjúkrakassann og stóð sig síðan sem besta hjúkka.
Einhvers staðar segir að þolinmæðin þrautir vinni allar, en þessum þrautum þótti Skáldinu betra að vinna á með inntöku göróttra drykkja og tókst allvel upp, a.m.k. var ekki drukkið við sleitur það sem eftir lifði nætur. Óþarfi ætti að vera að tíunda í smáatriðum þá atburði sem þar áttu sér stað, Skáldið mun að lokum hafa kvatt heiminn sátt við guð og menn inni í Willa síðla nætur, eða svo segir sagan a.m.k. Blöndahl heldur því reyndar fram að hann hafi dregið Skáldið inn í tjald að því loknu en....
....engu að síður vaknaði Skáldið fyrir aftan tjaldið sitt morguninn eftir. Verður þetta afrek jafnvel merkilegra í ljósi þess að Skáldið afrekaði slíkt hið sama í Þjórsárdalnum í fyrra. Spurning hvort þetta sé að verða hefð. A.m.k. var algjörlega brakandi blíða þennan morguninn þannig að liðið var fljótt að fljóta út úr tjöldunum og hefja sólböð að nýju með tilheyrandi sólbruna í kjölfarið. Fóru svo afmælisgestir að týnast heim á leið einn af öðrum, fyrst þeir Toggi og Reynir, svo Snorri og Kiddi og að lokum Nevillesystur en þeir sem eftir voru tóku lífinu rólega fram eftir degi uns þeir héldu í Þjórsárlaugina. Þar var fámennt og eftir nokkra stund tók að þykkna allhressilega upp og endaði það með hellidembu og þrumuveðri svo réttast þótti að koma sér upp úr. Næsti viðkomustaður var svo Árnes þar sem sumir fengu pulsu og aðrir bensín. Þar var staddur einhver sá stærsti Selfoss-FM-hnakkahópur sem Jarlaskáldið hefur verið svo óheppið að hitta, einn þeirra var m.a.s. í Skímó! Þó var enginn þeirra í jafnljótum
skóm og Skáldið, ónei! Var svo ekið heim, og endar þar sagan.
Bara 61 klukkustund og 31 mínúta þangað til
....