miðvikudagur, júlí 30, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogsjötta

„Ég er að fara til Eyja, eitthvað að hitta peyja. Þar ætla ég sko að drekka, bjór og alls konar vín!"

Það er ekkert verra að vitna í hið ágæta skáld Jón Gnarr en mörg önnur þegar talið berst að fyrirætlunum næstu helgar. Skáldið er nefnilega á leiðinni á Þjóðhátíð!

Jájá, skítt með öll blankheit, skítt með að þurfa að djamma við Skímó og Á móti sól, skítt með veðrið, skítt með allt, þetta verður ekkert nema gaman. Skáldið hefur að vísu aðeins einu sinni áður farið á Þjóðhátíð ('98, ungt að aldri og blautt bak við eyrun) en það var eintóm gleði í minningunni og víst að hið sama verður uppi á teningnum í ár og líklega bara meira gaman í ár. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

1. 1998 kláraðist söngvatnið snemma á sunnudagskvöldið. Þau mistök verða ekki endurtekin.

2. 1998 var grenjandi rigning mestallan tímann, ein tjaldsúlan brotnaði og sumir flúðu í heimahús. Í ár er Siggi Stormur búinn að lofa bongói alla helgina, verður m.a.s. á staðnum sjálfur.

3. Vissulega hafði Skáldið góða ferðafélaga um árið en þeir voru flestir nýgræðingar í fræðunum líkt og það sjálft. Í ár verður Skáldið í slagtogi við þrautreynda kappa sem sopið hafa ýmsa fjöruna í þessum efnum. Einn þeirra mun hafa mætt á eitthvað á annan tuginn og er þó engu að síður á þrítugsaldri. Ekki skal vanmeta reynsluna.

4. Jarlaskáldið er í mun betra formi en síðast.


Lagt verður í hann með flugvél klukkan 11:30 á föstudag, lent í Eyjum ca. hálftíma síðar, og ef áhugi verður fyrir hendi verður haldið heimleiðis um fjögurleytið á mánudag. Við alla þá sem verða af gleðinni hefur Skáldið aðeins eitt að segja:

Megi kræklóttir líkamar ykkar verða bráð gamma!

þriðjudagur, júlí 29, 2003 

Landmannalaugar og Þjórsárdalur

Það fór eins og Jarlaskáldið spáði í síðasta miðvikubloggi, ekki nennti það að hanga í bænum heldur kannaði uppsveitir Suðurlands um helgina. Skal nú rituð hér saga um þá ferð.

Það var ekki fjölmennur hópur sem lagði af stað um hálfníuleytið á föstudag, hann taldi aðeins tvo, Twistinn og Skáldið, sem einnig hafa verið nefndir Stebbarnir af gárungum. Til fararinnar höfðu þeir að vanda Willann sinn. Var stefnan þetta kvöldið á að komast í heitan pott og dugði ekkert minna en sá í Landmannalaugum. Var ekin hinn hefðbundni og heldur þreytti Suðurlandssvegur að Vegamótum með smápulsustoppi á Selfossi. Afgreiðslustúlkan á Selfossi var að gera góða hluti, og þótti greinilega mikið til þessara gesta úr höfuðborginni koma, eða það höldum við a.m.k. Á Vegamótum keyptum við svo hangikjöt og ferðagrill og var þá ekkert að vanbúnaði að taka stefnuna norður Landveginn. Hann ókum við norður fyrir Heklu og beygðum þar inn á Dómadalsleið eftir að hafa hleypt eilítið úr dekkjum. Á Dómadalnum lentum við svo fljótlega í svartaþoku en það var nú bara til skemmtunar. Tók ca. klukkutíma frá afleggjara inn að Laugum og höfðum við Sálina hans Jóns míns til að stytta okkur stundir á leiðinni. Enda klufum við loftið eins og Concordeþota á köflum.
Í Laugum var nokkur fjöldi af tjöldum og greinilega útlendingar í meirihluta því ekkert lífsmark var í flestum þeirra. Auk þeirra var hópur af Flubbum í nokkrum tjaldanna og merkilegt nokk þekkti einn þeirra okkur Stebbana og það tæplega af góðu. Ekki þekktum við hann hins vegar en létum ekkert á því bera, það væri ókurteisi.
Ekki vorum við lengi að henda upp tjöldum og drifum okkur því næst í Laugina vopnaðir eilitlu nesti. Slepptum umferð í heimsmeistaramótinu í Sprellahlaupi sakir mannfæðar. Laugin var bara nokkuð góð, afar misheit að vísu en vel nothæf. Því miður var lítið um að fólk væri "commando" í Lauginni og illu heilli voru þeir fáu sem það gerðu karlkyns og lítt ásjálegir í þokkabót. Annars fer litlum sögum af kvöldi þessu, menn hinir rólegustu og ræddu einna helst fyrirætlanir næstu helgar, en að þeim verður vikið í næsta miðvikubloggi.

Risum við Stebbarnir úr rekkjum vorum um ellefuleytið á laugardag, endurnærðir á sál og líkama. Byrjuðum að vanda á M-unum þremur (matur, messa, Múllersæfingar) en drifum okkur þvi næst í morgunsund. Aldrei of oft farið í þessa blessuðu laug. Að laugarsetu lokinni pökkuðum við svo tjöldunum niður á mettíma (komnir í ágætis æfingu) og héldum för okkar áfram, eða öllu heldur til baka, því næst var ekið upp í Hrauneyjar þar sem við gæddum okkur á prýðisgóðri lauksúpu. Þar náðum við einnig sambandi við félaga vorn Blöndahl gegnum síma en hann hafði lent á skralli á Nasa (skelfingarstaður!) kvöldið áður ásamt Vigni og voru þeir félagar víst við misjafna heilsu. Lofuðu þó að hitta okkur síðar um daginn í Þjórsárdalnum þegar heilsan leyfði. Þar sem ekki var von á þeim né öðrum næstu stundirnar kíktum við Stebbarnir næst á Háafoss því í síðustu ferð um þessar slóðir var slík þoka að ekkert sást. Ágætis foss barasta.
Þegar þarna var komið sögu var farið að bresta á með brakandi sól og blíðu og var því sú pólitíska ákvörðun tekin að enda för okkar þennan daginn í Þjórsárdalnum, slá þar upp tjöldum og hefja sólböð. Tókst það svona líka ljómandi vel, og fyrr en varði tók Óli lokbrá völdin. Ekki vöknuðum við fyrr en nokkru síðar við bílhljóð, og voru þar mætt þau sæmdarhjónaleysin Eyfi og Ríkey á Hyundai, síðan þær Nevillesystur Alda og Hildur á Golf, Toggi og Reynir á glæsilegum Willa, Snorri og Kiddi á Subaru og loks djammararnir frá því kveldið áður á Suzuki. Var þá fullmætt, 12 manns, og fyrirhuguð dagskrá gat hafist.
Samanstóð dagskráin af hefðbundnum liðum, fyrst var að færa afmælisbarninu afmælisgjöf, 20 pulsur, fótbolta, pumpu og einhvers konar apparat fyrir leik sem fólst í að skjóta kúlu á milli sín og reyna að grípa ofan í sívalning. Erfiðara en það hljómar. Tóku Nevillesystur strax til óspilltra málanna í þeim leik og það af talsverðri hörku.
Næst á dagskrá var að grilla og gekk það bara bærilega, Skáldið át lambalærisneiðar og þær ágætar. Þegar menn höfðu matast tóku nokkrir afmælisgesta til við knattspyrnuiðkun og sáust ófá glæsileg tilþrifin en reyndar mun fleiri lítt glæsileg í þeim kappleik. Lið Jarlaskáldsins tapaði eftir harðvítuga keppni, líkast til bara af því hinir svindluðu.
Að knattleik loknum var Skáldinu orðið heldur heitt í hamsi og þótti því þjóðráð að baða sig í Sandánni sem rennur þarna í nágrenninu. Þótti hún allköld, svo mjög reyndar að enginn fetaði í fótspor Skáldsins utan Snorri sem rétt dýfði tánum ofan í og stökk svo upp úr með píkuskrækjum. Jarlaskáldið lét sig ekki muna um það að stinga sér á bólakaf og vaða svo yfir á bakkann hinum megin. Var hann nokkuð hár en þó fór Skáldið létt með að vippa sér upp á hann enda lítt stundað fræði Bakkusar þegar þarna var komið sögu. Heldur verr tókst svo til á leiðinni til baka, en þá varð Skáldið fyrir áðurnefndri líkamsárás af eigin hendi. Fólst hún í því að renna fram af bakkanum og falla eitthvað á annan meter ofan í ána, nota bene berfætt. Tókst sem betur fer að lenda á löppunum en önnur skall svona líka skemmtilega á grjóti þannig að stórsá á ilinni. Þurfti svo að vaða aftur yfir ána illa á sig komið þar sem Stebbi mætti með sjúkrakassann og stóð sig síðan sem besta hjúkka.
Einhvers staðar segir að þolinmæðin þrautir vinni allar, en þessum þrautum þótti Skáldinu betra að vinna á með inntöku göróttra drykkja og tókst allvel upp, a.m.k. var ekki drukkið við sleitur það sem eftir lifði nætur. Óþarfi ætti að vera að tíunda í smáatriðum þá atburði sem þar áttu sér stað, Skáldið mun að lokum hafa kvatt heiminn sátt við guð og menn inni í Willa síðla nætur, eða svo segir sagan a.m.k. Blöndahl heldur því reyndar fram að hann hafi dregið Skáldið inn í tjald að því loknu en....

....engu að síður vaknaði Skáldið fyrir aftan tjaldið sitt morguninn eftir. Verður þetta afrek jafnvel merkilegra í ljósi þess að Skáldið afrekaði slíkt hið sama í Þjórsárdalnum í fyrra. Spurning hvort þetta sé að verða hefð. A.m.k. var algjörlega brakandi blíða þennan morguninn þannig að liðið var fljótt að fljóta út úr tjöldunum og hefja sólböð að nýju með tilheyrandi sólbruna í kjölfarið. Fóru svo afmælisgestir að týnast heim á leið einn af öðrum, fyrst þeir Toggi og Reynir, svo Snorri og Kiddi og að lokum Nevillesystur en þeir sem eftir voru tóku lífinu rólega fram eftir degi uns þeir héldu í Þjórsárlaugina. Þar var fámennt og eftir nokkra stund tók að þykkna allhressilega upp og endaði það með hellidembu og þrumuveðri svo réttast þótti að koma sér upp úr. Næsti viðkomustaður var svo Árnes þar sem sumir fengu pulsu og aðrir bensín. Þar var staddur einhver sá stærsti Selfoss-FM-hnakkahópur sem Jarlaskáldið hefur verið svo óheppið að hitta, einn þeirra var m.a.s. í Skímó! Þó var enginn þeirra í jafnljótum skóm og Skáldið, ónei! Var svo ekið heim, og endar þar sagan.

Bara 61 klukkustund og 31 mínúta þangað til....

 

Skorinn, marinn og blár

Jarlaskáldið varð fyrir líkamsárás um helgina og liggur nú rúmfast á heimili sínu eftir þá grimmilegu aðför. Að vísu er nokkur bót í máli að árásaraðilinn var það sjálft og því líklegt að ekki þurfi að koma til lögsókna, en það hefur þó ekki verið útilokað enn. Mun verða greint frá málsatvikum þessa skelfilega máls á þessum vettvangi innan tíðar um leið og ferðasaga síðustu helgar verður birt. Hún birtist vonandi innan tíðar, hendurnar sluppu nokkuð vel.

Svo var víst fólk að gifta sig. Til hamingju með það!

Svo var víst fólk að linka á Skáldið. Hamingja er það!

Bara 3 dagar þangað til.....

fimmtudagur, júlí 24, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogfimmta

"Nei sko, loksins nýtt miðvikublogg!" hljóta allir betri lesendur að vera að hugsa núna. Það hefur verið nokkur bið eftir nýju miðvikubloggi, og eflaust gæti Skáldið skáldað upp einhverjar afsakanir fyrir því en það bara nennir því ekki, sem er reyndar einnig ástæða biðarinnar. Jæja, nóg um það, best að snúa sér að alvarlegri málum.

Fyrst ber að nefna að Skáldið og félagar þess urðu þess heiðurs aðnjótandi að birtast á myndum á heimasíðunni djamm.is eftir ævintýri síðustu helgar. Má sjá dýrðina hér og hér. Við virðumst bara í nokkuð góðum fíling þarna, er það ekki? Í síðasta pistli var einnig minnst á "hressa" stúlku í fullþröngu neongulu dressi. Er það mat Skáldsins að það hafi síst verið of dómhart eftir að hafa séð þessar myndir af blessaðri stúlkunni.

Næst ber að tilkynna innreið nýs liðsmanns í bloggheima, sjálf Harpa Ólafsdóttir hefur hafið blogg og þannig fetað í fótspor bæði mágs síns og eiginmanns. Óskar Jarlaskáldið mágkonu sinni velfarnaðar á þessum nýja vettvangi og vonar að hún falli ekki í fúlan pytt aumingjabloggsins eins og svo margir aðrir sem hafa farið vel af stað. Það minnir mann á það, það eru sumir á listanum hér til vinstri búnir að vera ansi latir undanfarið. Þið vitið reglurnar, ekkert blogg í mánuð og ykkur verður hent út í ystu myrkur! Ekki enda eins og þessi maður!

Já, þá er kannski vísast að líta aðeins fram á veginn. Það ætti vart að þurfa að taka það fram að Skáldið mun verða á faraldsfæti um helgina. Sjálfur Vignir Jónsson býður nefnilega til veislu í Þjórsárdalnum, en það er árviss atburður og hefur merkilega mikla fylgni við fæðingardag hans. Fer veislan fram á laugardagskvöld og eru allar einhleypar gjafvaxta stúlkur sem endranær boðnar velkomnar í fögnuðinn enda verður einvalalið einhleypra karlmanna á staðnum. Þar sem samkoma þessi er ekki fyrr en á laugardag verður að teljast líklegt að Skáldið jeppist eitthvað á fjöllum annað kvöld, Landmannalaugar hljóma t.d. ekkert illa. Aðeins eitt er víst, ekki verður Skáldið í bænum.

Aðeins 8 dagar þangað til.....

mánudagur, júlí 21, 2003 

Karlmennskuhelgi

Það ætti varla að koma á óvart að Jarlaskáldið brá sér út úr bænum um helgina. Í ferð þeirri var ástunduð karlmennska. Þetta er sagan af því.

Ferðalagið hófst eins og svo oft áður um áttaleytið á föstudagskvöld. Mætti þá Jarlaskáldið í Jöklafoldina og hitti þar fyrir þá Stebba Twist, herra Andrésson og Snorra inn gamla. Ekki var kvenfólk á staðnum, því eins og fyrr var frá greint var meiningin að ástunda karlmennsku næstu tvo sólarhringana. Til að hjálpa okkur í þessari viðleitni höfðum við tvær torfærubifreiðar, títtnefndan Willa og svo Hiluxinn hans Magga (að vísu er þessi mynd af öðrum bíl, hehe). Skáldið kom sér fyrir í Willa ásamt Stefáni eiganda hans og var fyrst á dagskrá að gefa okkur þremur að drekka á næstu bensínstöð. Var Willi sýnu frekastur til drykkjunnar, a.m.k. þetta skiptið, og vorum við Stebbi ca. 9.000 krónum fátækari þegar hann var loks mettur. Peningum vel varið segjum við nú bara.
Var ferð vorri næst heitið í austurátt, fyrst á Þingvelli, þaðan yfir Lyngdalsheiði og loks upp að Geysi þar sem etið var. Á leiðinni tókst Stebba að enda líf fugls eins með tilþrifum. Eftir kvöldkaffið lá leiðin svo í norður upp á Kjöl og ekið á Hveravelli. Helst bar til tíðinda á þeirri leið að Magga tókst að hrista kastaragrindina af Hiluxnum í öllum hossingnum, nokkuð vel af sér vikið. Á Hveravöllum var allt með kyrrum kjörum og fáir á ferli enda komið fram yfir miðnætti og flestir á svæðinu væntanlega útlenskir og því sofandi. Við hinir íslensku karlmenn notuðum að sjálfsögðu tækifærið, húrruðum upp tjöldunum og fórum svo beint í laugina með smá nesti. Entumst við þar nokkra stund en fórum svo bara í háttinn í fyrra fallinu, eða reyndum það allvega því það var svo heitt að það var varla hægt. Sofnuðum þó að lokum.

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur með sól í heiði og talsverðum hlýindum þótt í ríflega 600 metra hæð væri. Fórum við kapparnir á stjá um níuleytið og allir við góða heilsu enda bjórþamb með minnsta móti kvöldið áður. Um klukkutíma síðar eftir mat, messu og Múllersæfingar lögðum við svo aftur í hann og héldum áfram norður Kjöl spölkorn eða þangað til við beygðum til vesturs í námunda við Arnarbæli. Var ætlun vor að aka þar slóða yfir Stórasand og Arnarvatnsheiði yfir í Húsafell. Varð þessi ferð hin sögulegasta. Við höfðum reyndar heyrt sögur af því að þessi leið væri nokkuð seinfarin en boj ó boj, þvílíki slóðinn! Það var ekki oft á leiðinni sem hraðamælirinn náði tveggja stafa tölu og á sumum köflunum sáum við snigla taka fram úr okkur, enda samanstóð "slóðinn" einkum af grjóti og hnullungum í bland við grettistök. Veitti ekkert af öllum 35 tommunum undir skrjóðunum. Reyndar voru þeir einu sem við hittum á leiðinni spænskir túristar á óbreyttum jeppum í leit að Kili. Reyndum við að ráðleggja þeim að finna aðra leið en þeir fóru nú samt. Alltaf gaman að fægja undirvagninn.
Þegar við vorum svo komnir að Álftakrók á Arnarvatnsheiðinni skánaði vegurinn, breyttist í moldarslóða og þar sem þurrt hafði verið dögum saman varð rykið alveg gífurlegt, ekki gaman að þurfa að hafa gluggana lokaða í þessum hita. Það var svo ekki fyrr en við Norðlingafljót sem eitthvað birtist sem kalla mætti veg, af því tilefni fékk Willi að drekka úr brúsa. Var þá klukkan að nálgast sex og við búnir að keyra innan við 100 kílómetra á 8 tímum, geri aðrir betur. Fékk Willi svo aðeins að ralla á þessum fínu vegum en eitthvað fór nýja bensínið illa í hann því hann drapst í einni brekkunni og neitaði að hreyfa sig. Stefán beitti hinu sívinsæla karlmennskubragði að fara út, opna húddið, líta spekingslega ofan í það, lemja í eitthvað, klóra sér í hausnum, lemja í eitthvað annað, loka svo húddinu og starta og að sjálfsögðu rauk bíllinn af stað eftir þessa "viðgerð". Þetta geta aðeins karlmenn.
Í Húsafelli var eins og við var að búast allt fullt en fyrir einskæra heppni römbuðum við inn á lið sem var að pakka saman og fara heim svo við hirtum staðinn þeirra og tjölduðum. Lá svo leiðin í sund að skola/skafa af sér ferðarykið og kíkja í rennibrautina. Þegar við vorum svo orðnir vel snyrtir og sætir var tekið til við að grilla og þarf vart að taka fram að það tókst afburða vel enda allir í góðri æfingu. Var því lokið um níu og ekki seinna vænna því varðeldurinn hófst um það leyti. Þangað röltum við með úttroðna bakpoka af viðlegubúnaði hvurs konar og "skemmtum" okkur við að hlusta á skallapoppara á skemmtara og að horfa á "hressa" stelpu í fullþröngu neongulu dressi. Bjakk. Sáum einnig Ólaf Þórðarson og sungum um hann gamanvísur við litla hrifningu hans. Fór svo að lokum að varðeldurinn tók að kulna, við það tækifæri fann Jarlaskáldið upp nýtt jaðarsport. Var svo aðalfundarstörfum sinnt fram eftir nóttu í ýmsustu myndum og óþarfi að þreyta lesendur með sögum af þeirri vitleysu.

Sunnudagurinn var með hefðbundnu sniði, menn risu úr rekkju misheilsuhraustir, grilluðu morgunmat, grilluðu hver í öðrum, rifjuðu upp afrek gærkvöldsins, létu segja sér af afrekum gærkvöldsins í sumum tilvikum en reyndu fyrst og fremst að nota vöðvana fyrir neðan háls sem allra minnst. Að lokum var svo draslinu pakkað saman og hent inn í bíl og ekinn Kaldidalur og Uxahryggir til baka við undirspil Sálarinnar hans Jóns míns. Þeir verða nefnilega í Eyjum...

miðvikudagur, júlí 16, 2003 

Ströndin í náttúru Íslands, og ýmislegt annað

Úff, það er varla að maður þori að rita lengur hér sínar vikulegu frásagnir af ævintýrum Jarlaskáldsins í dreifbýli Íslands, það er víst öll ættin farin að reka nefið hér inn og í fjölskylduboðum hittist liðið svo og býsnast yfir ólifnaðinum á Skáldinu. En ætli maður láti sig ekki hafa það samt...

Jarlaskáldið brá sér nefnilega einu sinni sem oftar út fyrir borgarmörkin um helgina. Í vikunni á undan hafði Skáldið sakir peningaleysis svarið þess dýran eið að halda sig í heimasveit og það þrátt fyrir að vera kallað öllum illum nöfnum af félögum sínum fyrir aumingjaskapinn. Um hádegisbil á föstudag kiknaði Skáldið svo loks undan álaginu, hringdi í Stebbann og spurði hvort ekki væri pláss fyrir eins og eitt Jarlaskáld í einhverjum skrjóð, sem reyndist vera til staðar og það hjá ekki ómerkari manni en rugludalli þeim er Vífill nefnist. Fékk m.a.s. að vera frammi í núna, ágætis tilbreyting það. Alls voru bílarnir fjórir, og ferðalangar í þeim alls níu, herra Andrésson og Elín frú hans á sínum Hilux, Vignir, Gústi og Alda á jeppling hins fyrstnefnda og að lokum Twisturinn og Snorri á Willa að ógleymdum Viffa og Skáldinu á Hilux. Ekki var nú áfangastaðurinn frumlegur, Arnarstapi á Snæfellsnesi og var meginmarkmið ferðarinnar að ganga á jökulinn enn eitt skiptið og skíða niður, svo ekki sé minnst á hefðbundin aðalfundarstörf. Lagt var af stað um hálfníu, og komið á leiðarenda á tólfta tímanum. Þar var fyrir múgur og margmenni, og var þar fyrirferðarmestur hópur frá ÍTR. Hann mun koma meira við sögu.
Fyrsta mál á dagskrá var að tjalda, og til allrar hamingju hafði Vignir tekið höllina með því heldur var hvasst og napurt. Samkvæmt auglýstri dagskrá var meiningin að ganga á jökulinn daginn eftir og var því tekið til við aðalfundarstörfin. Fer svo ekki miklum sögum af hópnum, a.m.k. fór allt fram með friði og spekt, þó einhverjir hafi hugsanlega farið sér að voða við að heilsa upp á Bárð. Þegar nokkuð var á nótt liðið höfðu sumir staðið sig með prýði við aðalfundarstörfin og voru farnir að íhuga að halla sér fyrir átök morgundagsins þegar einhver gáfumaðurinn í hópnum fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að rölta bara upp á jökulinn med det samme, þar sem hann taldi að veður væri líklegt til að verða mun verra daginn eftir. Voru þessi rök samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og það voru sjö kappar sem lögðu í hann svona ca. um fimmleytið um nóttina í afar mismunandi ástandi.
Einhverra hluta vegna á Jarlaskáldið erfitt með að muna í smáatriðum hvernig göngunni miðaði, en a.m.k. miðaði henni eitthvað því eftir dágóðan spotta skall á þessi líka fína þoka svo ekki sást út um buxnaklaufina á manni. Var þá nokkuð farið að draga af sumum leiðangursmanna og sneru einhverjir við í námunda við neðstu þúfuna, en Jarlaskáldið, Vignir og e.t.v. einhverjir fleiri héldu ótrauðir áfram göngunni. Var Skáldið fljótt að stinga aðra af og arkaði þetta einsamalt í þokunni. Mikil var sú einsemd. Það sem síðan gerðist er óþarfi að fjölyrða um, til að gera langa sögu stutta náði Vignir Skáldinu þegar skammt var á tindinn og þar eð lítils útsýnis var að vænta þar hvort sem var var ákveðið að njóta heldur ávaxta erfiðisins og skíða niður sem gekk svona upp og ofan í fyrstu en skánaði þegar neðar dró í brekkunni. Að sjálfsögðu tókst Jarlaskáldinu að stinga Vigni aftur af og týna honum á leiðinni niður en var sem betur fer veitt upp af Gústa niðri við veg. Voru þá allir aðrir farnir niður á tjaldstæði að sofa og gerðum við slíkt hið sama. Asskoti var sú hvíld kærkomin.

Það var alveg furðu hresst liðið þegar það vaknaði upp úr hádegi á laugardeginum. Fyrstu mál á dagskrá voru hefðbundin, matur, messa og Mullersæfingar, en að þeim loknum þótti tilhlýðilegt að reyna að finna eitt stykki sundlaug til að skola af sér skítnum. Varð Ólafsvík fyrir valinu, og sú stefna tekin í málinu að keyra fyrir nesið og stoppa alls staðar á leiðinni þar sem við sæjum skiltið "athyglisverður staður". Þeir voru ófáir, og fæstir athyglisverðir. Djúpalónssandur var einna áhugaverðastur, þó ekki væri nema fyrir aflraunakeppnina. Á leiðinni þaðan þurftum við að draga upp þýska túrista sem hafði verið þröngvað út af veginum af líklega þeim almesta hálfvita sem rútu keyrir á þessu landi og þótt víðar væri leitað. Það var létt verk, og fengum við öl að launum. Ágætis díll það.
Sundlaugin á Ólafsvík var að vonum fúl, enda skítköld innilaug og bara einn pínulítill pottur sem okkur tókst að lokum að hertaka. Ísinn á bensínstöðinni var allmiklu skárri. Ókum svo Jökulhálsinn til baka, nema Vignir, sem fór Fróðárheiðina. Ekki er vitað hví það var. Þegar að Stapanum var komið að nýju var nú eitthvað lítið að gera, svo Skáldið ákvað fljótlega að fá sér smá kríu. Hún varð aðeins lengri en til var ætlað, og þegar Skáldið rankaði aftur við sér voru allir hinir búnir að grilla, og heldur farið að yrja úr lofti. Skáldið lét það lítið á sig fá, grillaði sínar pulsur og tók til við aðalfundarstörf af nokkrum móð. Því til hjálpar var Stefán nokkur Twist, sem bætti fyrir lága birgðastöðu með því að bjóða upp á rússneska eðaldrykki. Voru þeim og gerð góð skil. Reyndum líka að fara á barinn, en hann var lokaður. Hans tap.
Þegar nokkuð var liðið á kvöld fór að heyrast nokkur hávaði úr fjarska, og fylgdu honum fljótlega skoteldar. Var því gerð hópferð til að athuga málið, og reyndust það vera fyrrnefndir ÍTR-liðar sem stóðu fyrir hávaðanum í formi fjöldasöngs, og auk þess brennu einni myndarlegri. Voru þónokkrir ÍTR-liða vel málkunnugir okkur VÍN-liðum og því fagnaðarfundir víða. Meðal annarra hitti Skáldið frk. Helgu Möller, frænku fræga mannsins, og eyddi einnig þónokkrum tíma á spjalli við dóttur Don Alfredo, ekki verra að komast í góð sambönd þar. ÍTR-liðið var svo forsjált að hafa með sér risastórt partýtjald og þar inni lék hljómsveitin Hraun fyrir dansi og gerði það allvel, svo dansmenntir voru stundaðar af miklum móð. Reyndar svo miklum móð að fréttaefni varð, en það er önnur saga.
Fór skemmtunum svo fram eftir hefðbundnum leiðum lengst fram á nótt, að vísu tók Skáldið sig til og hjólaði spölkorn um miðja nótt í þeim tilgangi að heilsa upp á Bárð, sem tók því með kostum og kynjum. Seint og um síðir var svo leitað aftur í tjaldbúðirnar hvar flestir dóu drottni sínum, en þó ekki Vífill. Fékk hann undir morgun mikla löngun í að baka sér ommelettu, og þar sem engin hafði hann eggin batt hann á sig hjálm og eyddi dágóðri stund í að tína egg í kríuvarpinu við hliðina á tjaldsvæðinu. Fékk víst ófáa gogga í hausinn fyrir vikið, en tóks þó að finna nokkur egg. Reyndar uppgötvaði hann eftir eggjaförina að engin var pannan á svæðinu, svo lítið varð um bakstur. Góð saga engu að síður.

Af sunnudegi er venju samkvæmt lítið að segja, fólk skrönglaðist á lappir á hinum og þessum tímum og með mismikla heilsu, reyndar fór svo að flestir fóru aftur að leggja sig eftir hin hefðbundnu morgunverk. Um fjögur var svo loks lagt af stað í bæinn og skemmtu Skáldið og Viffi sér við það á heimleiðinni að veifa öllum kvenbílstjórum sem þeir mættu. Aldeilis hreint fínt bara.

þriðjudagur, júlí 15, 2003 

Tískulögga

Nei sko, bara Blöndahlinn mættur á batman.is! Og svona líka huggulegur! Þeir hljóta að lesa þessa síðu, hvar annars staðar ættu þeir að hafa rekist á þessa mynd? Jæja, njóti þeir þá bara vel...

miðvikudagur, júlí 09, 2003 

Skáldið fer á skrall

Í helgarblaði DV segir: "Í Þórsmörk verður ekkert djamm um helgina, bara fjölskyldufólk"! Einmitt það já.

Jarlaskáldið hefur nokkuð aðra sögu að segja en þessi ágæti skálavörður er þarna ræddi. Skáldið varð nefnilega þeirrar gæfu aðnjótandi að heiðra Mörkina með nærveru sinni þessa sömu helgi og hefur satt best að segja aldrei orðið vitni að öðru eins fylleríi, og hefur þó bæði mætt á Þjóðhátíð og í afmæli aldarinnar í Ystuvík. Það var eins og hver einasta sála á svæðinu hefði það eitt að markmiði að vinna sem mest tjón og skaða á bæði líkamlegri og andlegri heilsu sinni og uppskáru flestir eins og þeir sáðu. Áður en lengra er haldið í sögu vorri er rétt að vara viðkvæmar sálir við lestri eftirfarandi pistils, það hafa víst verið dæmi um það að fólk hafi átt ófáar svefnlausar nætur af áhyggjum yfir afdrifum þeirra sem sagt er frá í pistlum Skáldsins. Nóg um það, ritum ferðasögu.

Saga vor hefst upp úr sex liðinn föstudag þegar Þjálfi frá Þverbrekku mætti á Hiluxnum hans Viffa í Seljahverfið og sótti Skáldið. Skartaði Þjálfi nokkuð athyglisverðri múnderingu, sem minnti óþægilega á þorpsbúa nokkra frá Diskótímanum. Hann var reyndar ekki einn um að brydda upp á nýjungum, eins og kom í ljós í Heiðarásnum stuttu síðar. Þar bættust í skrjóðinn eitt stykki Kári Marísson og u.þ.b. 0,7 tonn af farangri. Lá leið vor svo á Hvolsvöll til að bæta á belginn, þaðan að Stóru-mörk hvar Kiddi bættist í skrjóðinn og loks beinustu leið inn í Blaut-Bolagil sem heilsaði að vanda með sól og blíðu. Þar voru fyrir nokkrir allhressir menn og því rétt um tveir tugir manna og kvenna á staðnum. Voru hefðbundin aðalfundarstörf þegar hafin hjá þeim sem ekki voru bílstjórar en ekki voru þeir lengi að bætast í hópinn. Var þeim svo fram haldið út í rauða nótt og nokkuð fram á næsta dag hjá hinum hörðustu. Af tillitssemi við þátttakendur verða aðalfundarstörfin þessa nóttina ekki tíunduð frekar, þeir vita hvað fram fór sem eiga að gera það.

Á laugardeginum vöknuðu menn í ýmsu ástandi, sumir bara vel hressir, aðrir töluvert minna hressir. Var með fyrstu málum á dagskrá að kíkja í bíltúr yfir í Bása og þaðan svo í göngutúr inn í Stakkholtsgjá. Til að slá aðeins á restina af gærkveldinu ákvað Jarlaskáldið þar ásamt Þjálfa að kíkja í hressandi sturtu. Sem hún og var. Eftir þessa gönguferð var haldið aftur inn í Bolagilið og aðalfundarstörfum haldið áfram, auk þess sem hafist var handa við að tendra í grillum. Á meðan kartaflan var á grillinu skellti Skáldið sér í fjallgöngu að gömlum vana og slóst Eiki með í för að þessu sinni. Stakk hann af að sjálfsögðu.
Þegar grillmataráti var lokið þótti þjóðráð að kíkja á varðeldinn í Básum. Voru fundnir tveir ökufærir menn og þeir látnir keyra yfir með restina, merkilegt nokk þar sem þeir voru vel á annan tuginn. Lengi má troða á pallinn á pickup. Í Básum var stemmning hin ágætasta , og hljóp m.a.s. á snærið hjá sumum. Þó ekki Hirgittu Baukdal. Var dvalið í Básum nokkra stund en svo haldið aftur í heiðardalinn. Þar ákvað ásamt Skáldið Þjálfa, Kára og frk. Baukdal að leggja land undir fót og arka yfir í Langadal. Þar var stemmning engin svo við töltum bara áfram yfir í Snorraríki. Hittum Kidda Bigfoot á leiðinni, skrambans óheppni það. Fyrir einhverja slembilukku tókst okkur öllum að klifra upp í Snorraríki, og m.a.s. aftur niður. Illu heilli var myndasmiðurinn ekki með í för, því þá hefði honum e.t.v. tekist að fanga atburði heimfararinnar á stafrænt form. Munu þeir því hér eftir aðeins varðveittir í munnmælum, sem er kannski eins gott, því það munu líklega engir trúa þeim hvort sem er, svo lygilegir voru þeir. Lýkur hér með þætti Jarlaskáldsins þetta kvöldið.

Það var þónokkur súld í gangi á flestum veðurathugunarstöðvum þegar Jarlaskáldið skrönglaðist á lappir á sunnudeginum. Með því fyrsta sem það varð áskynja var að ekki höfðu allir enn svalað gleði sinni. Það slóst með í hópinn. Um miðjan dag voru öll aðföng svo loks búin og haldið heim. Á leið þeirri tókst Jarlaskáldinu að blóðga einn og klifra upp á bíl. Fékk sér svo að éta á Hvolsvelli, var komið heim um átta, og hefur ekki séð til sólar síðan. Heilt ár í næstu fyrstuhelgaríjúlí árshátíðarÞórsmerkurferð, allt of langt...

mánudagur, júlí 07, 2003 

Stórtjón

Jú, það er óhætt að segja að það sé stórtjón í gangi eftir fjölskylduskemmtunina í Mörkinni. A.m.k. var þetta með erfiðari mánudagsmorgnum hvað Jarlaskáldið varðar, og grunar það að svo hafi átt við um fleiri. Þeir voru nefnilega ófáir sem tóku einkunnarorð fyrstuhelgaríjúlíÞórsmerkurárshátíðarferðar, "*****um okkur í drasl", ansi bókstaflega. Skáldið er a.m.k. að pæla í að fara bara í háttinn núna, gerir kannski tilraun við ferðasögu á morgun. Og hvað í andskotanum varð um kommentin?

miðvikudagur, júlí 02, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogfjórða

Jú góða kvöldið, Jarlaskáldið er við góða heilsu, ef frá eru taldir allsvakalegir strengir í löppum. Fór nefnilega í bolta í gær og asnaðist til að hlaupa eins og fáráðlingur um allt. Vann reyndar báða leikina, svo ekki var hlaupið algerlega til einskis.

Annars urðu sorglegir atburðir í gærkvöld, einn besti vinur Jarlaskáldsins, sjálft stofusjónvarpið, gaf upp öndina. Eins og nærri má geta varð þetta Skáldinu og þess nánustu mikið reiðarslag, og voru góð ráð dýr. Svona ca. 55.000 kall, sem gamla konan pungaði út í ELKO í dag fyrir glænýju Sony sjónvarpi. Skáldið var að eignast nýjan vin.

Eins og dyggari lesendum þessarar heimasíðu ætti að vera kunnugt þykir Jarlaskáldinu ósköp gaman að yfirgefa borgarlífið um helgar og halda í útilegur hingað og þangað um landið. Gjarnan fylgir þessum útilegum einhver æðri tilgangur, t.d. að klífa fjöll, ganga um grænar grundir eða jafnvel sigla um ólgusjó, en stundum virðast þessar útilegur einkum snúast um e-ð allt annað og síður heilsusamlegt. Næsta helgi verður ein þeirra.

Ójú, Skáldið er sko á leiðinni í Þórsmörkina. Það er sosum í sjálfu sér ekkert merkilegt, þangað fer Skáldið oft og hefur jafnan gaman af. En næsta helgi er engin venjuleg helgi, því þá verður nefnilega haldin hátíðleg árshátíð VÍN-verja í Blaut-Bolagili. Þar sem engin orð í íslensku máli geta lýst mikilfengleika þeirrar hátíðar ætlar Skáldið ekki að gera tilraun til að lýsa því hvernig hún fer fram, en þið megið trúa því að það verður enginn samur eftir slíka upplifun. Brottför klukkan sex á föstudaginn, ferðasaga eftir helgi ef heilsan leyfir. Nú er bara að redda sér Hawaii-skyrtu....

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates