« Home | Stórtjón Jú, það er óhætt að segja að það sé stór... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfjórða Jú góða kvöldi... » | Leyndardómar Snæfellsjökuls Eina ferðina enn lét ... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman Jarla... » | FOO FIGHTERS Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáld... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogannað Þetta blogg ver... » | Skaptafell Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarl... » | Ábyrgðarleysi Þá er Jarlaskáldið barasta komið he... » | Af fjallgöngum og læknisráðum Jarlaskáldið er nýk... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfyrsta Miðvikublogg f... » 

miðvikudagur, júlí 09, 2003 

Skáldið fer á skrall

Í helgarblaði DV segir: "Í Þórsmörk verður ekkert djamm um helgina, bara fjölskyldufólk"! Einmitt það já.

Jarlaskáldið hefur nokkuð aðra sögu að segja en þessi ágæti skálavörður er þarna ræddi. Skáldið varð nefnilega þeirrar gæfu aðnjótandi að heiðra Mörkina með nærveru sinni þessa sömu helgi og hefur satt best að segja aldrei orðið vitni að öðru eins fylleríi, og hefur þó bæði mætt á Þjóðhátíð og í afmæli aldarinnar í Ystuvík. Það var eins og hver einasta sála á svæðinu hefði það eitt að markmiði að vinna sem mest tjón og skaða á bæði líkamlegri og andlegri heilsu sinni og uppskáru flestir eins og þeir sáðu. Áður en lengra er haldið í sögu vorri er rétt að vara viðkvæmar sálir við lestri eftirfarandi pistils, það hafa víst verið dæmi um það að fólk hafi átt ófáar svefnlausar nætur af áhyggjum yfir afdrifum þeirra sem sagt er frá í pistlum Skáldsins. Nóg um það, ritum ferðasögu.

Saga vor hefst upp úr sex liðinn föstudag þegar Þjálfi frá Þverbrekku mætti á Hiluxnum hans Viffa í Seljahverfið og sótti Skáldið. Skartaði Þjálfi nokkuð athyglisverðri múnderingu, sem minnti óþægilega á þorpsbúa nokkra frá Diskótímanum. Hann var reyndar ekki einn um að brydda upp á nýjungum, eins og kom í ljós í Heiðarásnum stuttu síðar. Þar bættust í skrjóðinn eitt stykki Kári Marísson og u.þ.b. 0,7 tonn af farangri. Lá leið vor svo á Hvolsvöll til að bæta á belginn, þaðan að Stóru-mörk hvar Kiddi bættist í skrjóðinn og loks beinustu leið inn í Blaut-Bolagil sem heilsaði að vanda með sól og blíðu. Þar voru fyrir nokkrir allhressir menn og því rétt um tveir tugir manna og kvenna á staðnum. Voru hefðbundin aðalfundarstörf þegar hafin hjá þeim sem ekki voru bílstjórar en ekki voru þeir lengi að bætast í hópinn. Var þeim svo fram haldið út í rauða nótt og nokkuð fram á næsta dag hjá hinum hörðustu. Af tillitssemi við þátttakendur verða aðalfundarstörfin þessa nóttina ekki tíunduð frekar, þeir vita hvað fram fór sem eiga að gera það.

Á laugardeginum vöknuðu menn í ýmsu ástandi, sumir bara vel hressir, aðrir töluvert minna hressir. Var með fyrstu málum á dagskrá að kíkja í bíltúr yfir í Bása og þaðan svo í göngutúr inn í Stakkholtsgjá. Til að slá aðeins á restina af gærkveldinu ákvað Jarlaskáldið þar ásamt Þjálfa að kíkja í hressandi sturtu. Sem hún og var. Eftir þessa gönguferð var haldið aftur inn í Bolagilið og aðalfundarstörfum haldið áfram, auk þess sem hafist var handa við að tendra í grillum. Á meðan kartaflan var á grillinu skellti Skáldið sér í fjallgöngu að gömlum vana og slóst Eiki með í för að þessu sinni. Stakk hann af að sjálfsögðu.
Þegar grillmataráti var lokið þótti þjóðráð að kíkja á varðeldinn í Básum. Voru fundnir tveir ökufærir menn og þeir látnir keyra yfir með restina, merkilegt nokk þar sem þeir voru vel á annan tuginn. Lengi má troða á pallinn á pickup. Í Básum var stemmning hin ágætasta , og hljóp m.a.s. á snærið hjá sumum. Þó ekki Hirgittu Baukdal. Var dvalið í Básum nokkra stund en svo haldið aftur í heiðardalinn. Þar ákvað ásamt Skáldið Þjálfa, Kára og frk. Baukdal að leggja land undir fót og arka yfir í Langadal. Þar var stemmning engin svo við töltum bara áfram yfir í Snorraríki. Hittum Kidda Bigfoot á leiðinni, skrambans óheppni það. Fyrir einhverja slembilukku tókst okkur öllum að klifra upp í Snorraríki, og m.a.s. aftur niður. Illu heilli var myndasmiðurinn ekki með í för, því þá hefði honum e.t.v. tekist að fanga atburði heimfararinnar á stafrænt form. Munu þeir því hér eftir aðeins varðveittir í munnmælum, sem er kannski eins gott, því það munu líklega engir trúa þeim hvort sem er, svo lygilegir voru þeir. Lýkur hér með þætti Jarlaskáldsins þetta kvöldið.

Það var þónokkur súld í gangi á flestum veðurathugunarstöðvum þegar Jarlaskáldið skrönglaðist á lappir á sunnudeginum. Með því fyrsta sem það varð áskynja var að ekki höfðu allir enn svalað gleði sinni. Það slóst með í hópinn. Um miðjan dag voru öll aðföng svo loks búin og haldið heim. Á leið þeirri tókst Jarlaskáldinu að blóðga einn og klifra upp á bíl. Fékk sér svo að éta á Hvolsvelli, var komið heim um átta, og hefur ekki séð til sólar síðan. Heilt ár í næstu fyrstuhelgaríjúlí árshátíðarÞórsmerkurferð, allt of langt...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates