« Home | Tískulögga Nei sko, bara Blöndahlinn mættur á bat... » | Skáldið fer á skrall Í helgarblaði DV segir: "Í Þ... » | Stórtjón Jú, það er óhætt að segja að það sé stór... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfjórða Jú góða kvöldi... » | Leyndardómar Snæfellsjökuls Eina ferðina enn lét ... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman Jarla... » | FOO FIGHTERS Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáld... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogannað Þetta blogg ver... » | Skaptafell Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarl... » | Ábyrgðarleysi Þá er Jarlaskáldið barasta komið he... » 

miðvikudagur, júlí 16, 2003 

Ströndin í náttúru Íslands, og ýmislegt annað

Úff, það er varla að maður þori að rita lengur hér sínar vikulegu frásagnir af ævintýrum Jarlaskáldsins í dreifbýli Íslands, það er víst öll ættin farin að reka nefið hér inn og í fjölskylduboðum hittist liðið svo og býsnast yfir ólifnaðinum á Skáldinu. En ætli maður láti sig ekki hafa það samt...

Jarlaskáldið brá sér nefnilega einu sinni sem oftar út fyrir borgarmörkin um helgina. Í vikunni á undan hafði Skáldið sakir peningaleysis svarið þess dýran eið að halda sig í heimasveit og það þrátt fyrir að vera kallað öllum illum nöfnum af félögum sínum fyrir aumingjaskapinn. Um hádegisbil á föstudag kiknaði Skáldið svo loks undan álaginu, hringdi í Stebbann og spurði hvort ekki væri pláss fyrir eins og eitt Jarlaskáld í einhverjum skrjóð, sem reyndist vera til staðar og það hjá ekki ómerkari manni en rugludalli þeim er Vífill nefnist. Fékk m.a.s. að vera frammi í núna, ágætis tilbreyting það. Alls voru bílarnir fjórir, og ferðalangar í þeim alls níu, herra Andrésson og Elín frú hans á sínum Hilux, Vignir, Gústi og Alda á jeppling hins fyrstnefnda og að lokum Twisturinn og Snorri á Willa að ógleymdum Viffa og Skáldinu á Hilux. Ekki var nú áfangastaðurinn frumlegur, Arnarstapi á Snæfellsnesi og var meginmarkmið ferðarinnar að ganga á jökulinn enn eitt skiptið og skíða niður, svo ekki sé minnst á hefðbundin aðalfundarstörf. Lagt var af stað um hálfníu, og komið á leiðarenda á tólfta tímanum. Þar var fyrir múgur og margmenni, og var þar fyrirferðarmestur hópur frá ÍTR. Hann mun koma meira við sögu.
Fyrsta mál á dagskrá var að tjalda, og til allrar hamingju hafði Vignir tekið höllina með því heldur var hvasst og napurt. Samkvæmt auglýstri dagskrá var meiningin að ganga á jökulinn daginn eftir og var því tekið til við aðalfundarstörfin. Fer svo ekki miklum sögum af hópnum, a.m.k. fór allt fram með friði og spekt, þó einhverjir hafi hugsanlega farið sér að voða við að heilsa upp á Bárð. Þegar nokkuð var á nótt liðið höfðu sumir staðið sig með prýði við aðalfundarstörfin og voru farnir að íhuga að halla sér fyrir átök morgundagsins þegar einhver gáfumaðurinn í hópnum fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að rölta bara upp á jökulinn med det samme, þar sem hann taldi að veður væri líklegt til að verða mun verra daginn eftir. Voru þessi rök samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og það voru sjö kappar sem lögðu í hann svona ca. um fimmleytið um nóttina í afar mismunandi ástandi.
Einhverra hluta vegna á Jarlaskáldið erfitt með að muna í smáatriðum hvernig göngunni miðaði, en a.m.k. miðaði henni eitthvað því eftir dágóðan spotta skall á þessi líka fína þoka svo ekki sást út um buxnaklaufina á manni. Var þá nokkuð farið að draga af sumum leiðangursmanna og sneru einhverjir við í námunda við neðstu þúfuna, en Jarlaskáldið, Vignir og e.t.v. einhverjir fleiri héldu ótrauðir áfram göngunni. Var Skáldið fljótt að stinga aðra af og arkaði þetta einsamalt í þokunni. Mikil var sú einsemd. Það sem síðan gerðist er óþarfi að fjölyrða um, til að gera langa sögu stutta náði Vignir Skáldinu þegar skammt var á tindinn og þar eð lítils útsýnis var að vænta þar hvort sem var var ákveðið að njóta heldur ávaxta erfiðisins og skíða niður sem gekk svona upp og ofan í fyrstu en skánaði þegar neðar dró í brekkunni. Að sjálfsögðu tókst Jarlaskáldinu að stinga Vigni aftur af og týna honum á leiðinni niður en var sem betur fer veitt upp af Gústa niðri við veg. Voru þá allir aðrir farnir niður á tjaldstæði að sofa og gerðum við slíkt hið sama. Asskoti var sú hvíld kærkomin.

Það var alveg furðu hresst liðið þegar það vaknaði upp úr hádegi á laugardeginum. Fyrstu mál á dagskrá voru hefðbundin, matur, messa og Mullersæfingar, en að þeim loknum þótti tilhlýðilegt að reyna að finna eitt stykki sundlaug til að skola af sér skítnum. Varð Ólafsvík fyrir valinu, og sú stefna tekin í málinu að keyra fyrir nesið og stoppa alls staðar á leiðinni þar sem við sæjum skiltið "athyglisverður staður". Þeir voru ófáir, og fæstir athyglisverðir. Djúpalónssandur var einna áhugaverðastur, þó ekki væri nema fyrir aflraunakeppnina. Á leiðinni þaðan þurftum við að draga upp þýska túrista sem hafði verið þröngvað út af veginum af líklega þeim almesta hálfvita sem rútu keyrir á þessu landi og þótt víðar væri leitað. Það var létt verk, og fengum við öl að launum. Ágætis díll það.
Sundlaugin á Ólafsvík var að vonum fúl, enda skítköld innilaug og bara einn pínulítill pottur sem okkur tókst að lokum að hertaka. Ísinn á bensínstöðinni var allmiklu skárri. Ókum svo Jökulhálsinn til baka, nema Vignir, sem fór Fróðárheiðina. Ekki er vitað hví það var. Þegar að Stapanum var komið að nýju var nú eitthvað lítið að gera, svo Skáldið ákvað fljótlega að fá sér smá kríu. Hún varð aðeins lengri en til var ætlað, og þegar Skáldið rankaði aftur við sér voru allir hinir búnir að grilla, og heldur farið að yrja úr lofti. Skáldið lét það lítið á sig fá, grillaði sínar pulsur og tók til við aðalfundarstörf af nokkrum móð. Því til hjálpar var Stefán nokkur Twist, sem bætti fyrir lága birgðastöðu með því að bjóða upp á rússneska eðaldrykki. Voru þeim og gerð góð skil. Reyndum líka að fara á barinn, en hann var lokaður. Hans tap.
Þegar nokkuð var liðið á kvöld fór að heyrast nokkur hávaði úr fjarska, og fylgdu honum fljótlega skoteldar. Var því gerð hópferð til að athuga málið, og reyndust það vera fyrrnefndir ÍTR-liðar sem stóðu fyrir hávaðanum í formi fjöldasöngs, og auk þess brennu einni myndarlegri. Voru þónokkrir ÍTR-liða vel málkunnugir okkur VÍN-liðum og því fagnaðarfundir víða. Meðal annarra hitti Skáldið frk. Helgu Möller, frænku fræga mannsins, og eyddi einnig þónokkrum tíma á spjalli við dóttur Don Alfredo, ekki verra að komast í góð sambönd þar. ÍTR-liðið var svo forsjált að hafa með sér risastórt partýtjald og þar inni lék hljómsveitin Hraun fyrir dansi og gerði það allvel, svo dansmenntir voru stundaðar af miklum móð. Reyndar svo miklum móð að fréttaefni varð, en það er önnur saga.
Fór skemmtunum svo fram eftir hefðbundnum leiðum lengst fram á nótt, að vísu tók Skáldið sig til og hjólaði spölkorn um miðja nótt í þeim tilgangi að heilsa upp á Bárð, sem tók því með kostum og kynjum. Seint og um síðir var svo leitað aftur í tjaldbúðirnar hvar flestir dóu drottni sínum, en þó ekki Vífill. Fékk hann undir morgun mikla löngun í að baka sér ommelettu, og þar sem engin hafði hann eggin batt hann á sig hjálm og eyddi dágóðri stund í að tína egg í kríuvarpinu við hliðina á tjaldsvæðinu. Fékk víst ófáa gogga í hausinn fyrir vikið, en tóks þó að finna nokkur egg. Reyndar uppgötvaði hann eftir eggjaförina að engin var pannan á svæðinu, svo lítið varð um bakstur. Góð saga engu að síður.

Af sunnudegi er venju samkvæmt lítið að segja, fólk skrönglaðist á lappir á hinum og þessum tímum og með mismikla heilsu, reyndar fór svo að flestir fóru aftur að leggja sig eftir hin hefðbundnu morgunverk. Um fjögur var svo loks lagt af stað í bæinn og skemmtu Skáldið og Viffi sér við það á heimleiðinni að veifa öllum kvenbílstjórum sem þeir mættu. Aldeilis hreint fínt bara.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates