föstudagur, mars 14, 2025 

 Ansi langt síðan eitthvað var skrifað hér...

fimmtudagur, janúar 10, 2019 

Ætli þetta virki enn þá?

Ekki ber á öðru!

mánudagur, desember 21, 2015 

Músík ársins

Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.



Vilji einhver nálgast afrit af þessum lögum á MP3-sniði getur hann gert það hér. Góðar stundir.

þriðjudagur, desember 30, 2014 

Músík ársins



Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.

Pharrell Williams - Happy: Þetta tröllreið öllum viðtækjum í lok síðasta árs og upphafi þessa, kannski ekki sérlega djúpar og miklar pælingar í gangi en þetta er óneitanlega grípandi og kemur manni í gott skap, í hóflegum skömmtum.

John Grant - GMF: Þetta er einnig frá síðasta ári en náði ekki mínum eyrum  almennilega fyrr en í upphafi þessa, og við það er miðað á þessum lista. Alveg spurning hvort þetta telst sem íslenskt eða erlent lag, hér telst það erlent, en það skiptir svo sem ekki öllu máli, heldur að það er fjári gott og af assgoti góðri plötu.

Drake ft. Majid Jordan - Hold On, We´re Going Home: Að líkindum elsta lagið á listanum, frá því um mitt ár 2013, en ég heyrði það ekki fyrr en ég sá að hipsterabiblían Pitchfork valdi það besta lag ársins, og merkilegt nokk var það val ekki alveg út í hött.

dj. flugvél og geimskip - Trommuþrællinn: Nei, þetta er ekki gott lag. Eiginlega bara vont að flestu leyti. Svo vont að það er frábært.

Tilbury - Hollow: Humm, sosum ekki margt um þetta að segja. Bara solid sjitt.

Mono Town - Peacemaker: Eitt af þessum lögum sem maður heyrir í útvarpinu og verður svo hissa á að það sé íslenskt.

Future Islands - Seasons (Waiting On You): Þessir gæjar voru algjörir nóbóddís þegar þeir fengu að spila hjá Letterman. Þar fékk söngvarinn einhvers konar krampakast, en útkoman varð svona líka stórkostleg. Svo kom í ljós að lagið var bara helvíti hressandi líka. Besta útlenska lag ársins.

Júníus Meyvant - Color Decay: Höldum okkur við nóboddíana. Þennan gæja hafði ég aldrei heyrt um þegar ég heyrði þetta lag í fyrsta sinn síðasta sumar, en strax við fyrstu hlustun heyrði ég að þetta væri eitthvað gott. Allavega næstbesta íslenska lag ársins.

Hjálmar - Lof: Bestu tónleikarnir sem ég fór á á árinu (þeir voru reyndar ekki ýkja margir) voru afmælistónleikar Hjálma í haust. Þetta er fjarri því það besta sem þeir hafa gert, en samt voða fínt fílgúdd.

Sólstafir - Lágnætti: Þessir gömlu skólabræður mínir áttu eitt besta lag ársins 2012 með „Fjara“, sem var líklega það fyrsta sem ég heyrði með þeim. Ég hafði alltaf haldið að þeir væru að spila argasta dauðarokk eða þaðan af verra, en þetta minnir mig meira en Sigur Rós og svoleiðis stöff. Sem er gott...

Michael Jackson & Justin Timberlake - Love Never Felt So Good: Justin og Jackson saman. Það verður að vera með.

Lykke Li - No Rest For The Wicked: Maður gerir ekki svona lista án þess að hafa einn Svía. Það væri bara út í hött.

Gus Gus - Obnoxiously Sexual: Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Gus Gus, finnst þeir alltaf hafa verið eitthvað svo „sterílir“. En Högni kemur með eitthvað inn í þetta sem ég fíla.

Interpol - All The Rage Back Home: Einu sinni var Interpol ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, og mér finnst Turn On The Bright Lights enn ein af bestu plötum allra tíma. En frá því þeir gáfu út hundleiðinlega plötu 2010 var ég alveg búinn að gefa þá upp á bátinn. nennti ekki einu sinni að sjá þá á tónleikum þegar þeir komu hingað. Þetta lag jafnast ekki á við gamla snilld, en allavega í áttina.

AmabAdamA - Hossa hossa: Hressandi sumarsmellur, svona lag sem maður á alltaf eftir að tengja við síðasta sumar.

Prins Póló - París norðursins: Lag ársins. Nuff said.

George Ezra - Budapest: Ég vissi ekki hvort ég ætti að hafa þetta lag á listanum, fannst það aldrei nein sérstök snilld, en það var svo sem ekkert annað sem mér fannst koma til greina. Og mig hefur alltaf langað til að koma til Búdapest.

Hozier - Take Me To Church: Bara af því ég gifti mig á árinu, ekki í kirkju.

Uniimog - Yfir hafið: Unimog eru skemmtilegir bílar. Og Uniimog stefnir í að verða skemmtileg hljómsveit.

Sia - Chandelier: Þórey segir að þetta sé stelpulag. Það má vel vera. Ég hef þá bara gaman af stelpulagi.

Vilji einhver nálgast afrit af þessum lögum á MP3-formi getur hann gert það hér. Góðar stundir.

þriðjudagur, janúar 07, 2014 

Músík ársins



Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.

Arcade Fire - Reflektor: Ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, hef reyndar skammarlega lítið hlustað á nýju plötuna en hún lofar góðu, eins og flest sem þessi ágæta sveit gerir.

Drangar - Bál: Ný íslensk súpergrúppa, ef svo mætti segja. Þegar þessir þrír snillingar koma saman getur útkoman ekki orðið annað en góð.

Daft Punk - Get Lucky: Þetta er einfaldlega lag ársins, fram hjá því verður ekki litið. Maður þyrfti að vera framsóknarmaður til að finnast þetta leiðinlegt.

Emilíana Torrini - Speed Of Dark: Hef sosum ekki mikið um þetta lag að segja, það er bara gott, og Þórey fílar það. Það kemur því á listann.

Justin Timberlake - Mirrors: Justin vinur minn fær að vera með að þessu sinni, hann var svo duglegur á árinu, gaf út tvær plötur og allt.

Hjaltalín - We: Þessi plata kom vissulega út 2012, en það fór lítið fyrir henni í byrjun og ég fattaði hana ekki fyrr en á þessu ári. Algjörlega frábær plata, og þetta bara eitt af mörgum lögum sem ég hefði getað valið.

M83 - Steve McQueen: M83 átti eitt allra besta lag ársins 2012, og þótt þetta nái kannski ekki alveg sömu hæðum dugar það til að rata á listann.

Kött Grá Pjé - Aheybaró: Reggí er greinilega málið þessa dagana, eða einhvers konar útgáfa af því. Ojba Rasta átti fína plötu, en mér fannst þetta einhverra hluta vegna skemmtilegra.

Mumford & Sons - Hopeless Wanderer: Annað lag sem kom út á plötu 2012, en varð ekki vinsælt fyrr en um mitt síðasta ár, og auk þess að vera fínt lag státaði af einhverju sniðugasta myndbandi ársins.

Mammút - Salt: Ég hef einhverra hluta vegna aldrei verið hrifinn af Mammút, en ég sá þau á tónleikum í haust og fannst þau bara fjári góð. Og þetta lag það besta sem ég hef heyrt frá þeim.

Phoenix - Entertainment: Phoenix átti svaka flotta plötu 2009, en svo heyrði ég ekkert meira í henni fyrr en í ár. Og hún bauð upp á ágætis skemmtun, eins og nafnið gefur til kynna.

Sigur Rós - Ísjaki: Sigur Rós gaf út plötu 2012s em var satt best að segja frekar leiðinleg, voðalegt væl eitthvað. En svo kom önnur plata strax ári síðar, þar sem strákarnir voru komnir í rokkgírinn og þá var mun kátara í höllinni.

Robin Thicke - Blurred Lines ft. T.I. & Pharrell: Vafasamt myndband. Enn vafasamari texti. En ef ég hef þetta lag ekki á listanum hafa femínistarnir sigrað.

Sin Fang - What's Wrong With Your Eyes: Auk þess að gefa út góða tónlist ku hann Sindri vera mikill Seinfeld-aðdáandi. Fyrir það fá menn mörg prik.

The National - Graceless: Uppáhaldshljómsveitin mín gaf út enn eina frábæra plötuna í ár, svo mesti vandinn hér var að velja bara eitt lag af plötunni. Þetta varð fyrir valinu, aðallega af því mér finnst trommuleikurinn í laginu svo flottur.

Skálmöld og Sinfó - Hel: Fór á þessa tónleika í lok nóvember og varð það sem Kaninn kallar "blown away", eins og líklega flestir í salnum þetta kvöld. Þessir drengir eru þvílíkir snillingar að það hálfa væri nóg, og eins og oft áður hefði ég getað valið mörg önnur lög.

The Strokes - One Way Trigger: Þessir piltar hafa aldrei náð að fylgja frumburðinum almennilega eftir (sem kom út fyrir 13 árum, úff), en þeir eiga alltaf gott lag hér og þar, þar á meðal þetta.

Tilbury - Northern Comfort: Tilbury var líka á listanum í fyrra, svo eitthvað er Þormóður Dagsson að gera rétt, fyrir utan stórleik í Hullaþáttunum. Þetta er einhvers konar upplífgandi þunglyndistónlist, eins fáránlega og það hljómar.

Vampire Weekend - Diane Young: Allir og afi þeirra hafa verið að velja nýjustu plötu VW plötu ársins, en ég verð að játa að ég hef ekki hlustað nógu vel á hana. Þetta lag rataði þó inn á einhvern playlista hjá mér, og gefur til kynna að ég þurfi að fara að tékka á þessari plötu.

UMTBS - Babylon ft. Arnór Dan: Ultra Mega Technobandið Stefán á heiðurinn af einu mesta stuðlagi Íslandssögunnar (Story of a Star), en það er orðið fjári langt síðan það kom út. Þetta lag bendir til þess að Eyjólfur sé eitthvað að hressast.

Hér má síðan finna öll lögin í röð á YouTube, og vilji einhver nálgast öryggisafrit til að setja í tónhlöður sínar eða á aðra stafræna miðla er hægt að nálgast þau hér. Góðar stundir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates