« Home | Ströndin í náttúru Íslands, og ýmislegt annað Úff... » | Tískulögga Nei sko, bara Blöndahlinn mættur á bat... » | Skáldið fer á skrall Í helgarblaði DV segir: "Í Þ... » | Stórtjón Jú, það er óhætt að segja að það sé stór... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfjórða Jú góða kvöldi... » | Leyndardómar Snæfellsjökuls Eina ferðina enn lét ... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman Jarla... » | FOO FIGHTERS Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáld... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogannað Þetta blogg ver... » | Skaptafell Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarl... » 

mánudagur, júlí 21, 2003 

Karlmennskuhelgi

Það ætti varla að koma á óvart að Jarlaskáldið brá sér út úr bænum um helgina. Í ferð þeirri var ástunduð karlmennska. Þetta er sagan af því.

Ferðalagið hófst eins og svo oft áður um áttaleytið á föstudagskvöld. Mætti þá Jarlaskáldið í Jöklafoldina og hitti þar fyrir þá Stebba Twist, herra Andrésson og Snorra inn gamla. Ekki var kvenfólk á staðnum, því eins og fyrr var frá greint var meiningin að ástunda karlmennsku næstu tvo sólarhringana. Til að hjálpa okkur í þessari viðleitni höfðum við tvær torfærubifreiðar, títtnefndan Willa og svo Hiluxinn hans Magga (að vísu er þessi mynd af öðrum bíl, hehe). Skáldið kom sér fyrir í Willa ásamt Stefáni eiganda hans og var fyrst á dagskrá að gefa okkur þremur að drekka á næstu bensínstöð. Var Willi sýnu frekastur til drykkjunnar, a.m.k. þetta skiptið, og vorum við Stebbi ca. 9.000 krónum fátækari þegar hann var loks mettur. Peningum vel varið segjum við nú bara.
Var ferð vorri næst heitið í austurátt, fyrst á Þingvelli, þaðan yfir Lyngdalsheiði og loks upp að Geysi þar sem etið var. Á leiðinni tókst Stebba að enda líf fugls eins með tilþrifum. Eftir kvöldkaffið lá leiðin svo í norður upp á Kjöl og ekið á Hveravelli. Helst bar til tíðinda á þeirri leið að Magga tókst að hrista kastaragrindina af Hiluxnum í öllum hossingnum, nokkuð vel af sér vikið. Á Hveravöllum var allt með kyrrum kjörum og fáir á ferli enda komið fram yfir miðnætti og flestir á svæðinu væntanlega útlenskir og því sofandi. Við hinir íslensku karlmenn notuðum að sjálfsögðu tækifærið, húrruðum upp tjöldunum og fórum svo beint í laugina með smá nesti. Entumst við þar nokkra stund en fórum svo bara í háttinn í fyrra fallinu, eða reyndum það allvega því það var svo heitt að það var varla hægt. Sofnuðum þó að lokum.

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur með sól í heiði og talsverðum hlýindum þótt í ríflega 600 metra hæð væri. Fórum við kapparnir á stjá um níuleytið og allir við góða heilsu enda bjórþamb með minnsta móti kvöldið áður. Um klukkutíma síðar eftir mat, messu og Múllersæfingar lögðum við svo aftur í hann og héldum áfram norður Kjöl spölkorn eða þangað til við beygðum til vesturs í námunda við Arnarbæli. Var ætlun vor að aka þar slóða yfir Stórasand og Arnarvatnsheiði yfir í Húsafell. Varð þessi ferð hin sögulegasta. Við höfðum reyndar heyrt sögur af því að þessi leið væri nokkuð seinfarin en boj ó boj, þvílíki slóðinn! Það var ekki oft á leiðinni sem hraðamælirinn náði tveggja stafa tölu og á sumum köflunum sáum við snigla taka fram úr okkur, enda samanstóð "slóðinn" einkum af grjóti og hnullungum í bland við grettistök. Veitti ekkert af öllum 35 tommunum undir skrjóðunum. Reyndar voru þeir einu sem við hittum á leiðinni spænskir túristar á óbreyttum jeppum í leit að Kili. Reyndum við að ráðleggja þeim að finna aðra leið en þeir fóru nú samt. Alltaf gaman að fægja undirvagninn.
Þegar við vorum svo komnir að Álftakrók á Arnarvatnsheiðinni skánaði vegurinn, breyttist í moldarslóða og þar sem þurrt hafði verið dögum saman varð rykið alveg gífurlegt, ekki gaman að þurfa að hafa gluggana lokaða í þessum hita. Það var svo ekki fyrr en við Norðlingafljót sem eitthvað birtist sem kalla mætti veg, af því tilefni fékk Willi að drekka úr brúsa. Var þá klukkan að nálgast sex og við búnir að keyra innan við 100 kílómetra á 8 tímum, geri aðrir betur. Fékk Willi svo aðeins að ralla á þessum fínu vegum en eitthvað fór nýja bensínið illa í hann því hann drapst í einni brekkunni og neitaði að hreyfa sig. Stefán beitti hinu sívinsæla karlmennskubragði að fara út, opna húddið, líta spekingslega ofan í það, lemja í eitthvað, klóra sér í hausnum, lemja í eitthvað annað, loka svo húddinu og starta og að sjálfsögðu rauk bíllinn af stað eftir þessa "viðgerð". Þetta geta aðeins karlmenn.
Í Húsafelli var eins og við var að búast allt fullt en fyrir einskæra heppni römbuðum við inn á lið sem var að pakka saman og fara heim svo við hirtum staðinn þeirra og tjölduðum. Lá svo leiðin í sund að skola/skafa af sér ferðarykið og kíkja í rennibrautina. Þegar við vorum svo orðnir vel snyrtir og sætir var tekið til við að grilla og þarf vart að taka fram að það tókst afburða vel enda allir í góðri æfingu. Var því lokið um níu og ekki seinna vænna því varðeldurinn hófst um það leyti. Þangað röltum við með úttroðna bakpoka af viðlegubúnaði hvurs konar og "skemmtum" okkur við að hlusta á skallapoppara á skemmtara og að horfa á "hressa" stelpu í fullþröngu neongulu dressi. Bjakk. Sáum einnig Ólaf Þórðarson og sungum um hann gamanvísur við litla hrifningu hans. Fór svo að lokum að varðeldurinn tók að kulna, við það tækifæri fann Jarlaskáldið upp nýtt jaðarsport. Var svo aðalfundarstörfum sinnt fram eftir nóttu í ýmsustu myndum og óþarfi að þreyta lesendur með sögum af þeirri vitleysu.

Sunnudagurinn var með hefðbundnu sniði, menn risu úr rekkju misheilsuhraustir, grilluðu morgunmat, grilluðu hver í öðrum, rifjuðu upp afrek gærkvöldsins, létu segja sér af afrekum gærkvöldsins í sumum tilvikum en reyndu fyrst og fremst að nota vöðvana fyrir neðan háls sem allra minnst. Að lokum var svo draslinu pakkað saman og hent inn í bíl og ekinn Kaldidalur og Uxahryggir til baka við undirspil Sálarinnar hans Jóns míns. Þeir verða nefnilega í Eyjum...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates