mánudagur, júní 30, 2003 

Leyndardómar Snæfellsjökuls

Eina ferðina enn lét Jarlaskáldið plata sig út úr bænum þessa helgina, og að þessu sinni varð Snæfellsnesið fyrir valinu. Veðurspáin svona líka fín og því þjóðráð að rölta þar upp á eins og einn jökul og jafnvel skíða niður. Það voru sex kappar sem lögðu af stað á föstudagskvöldið, Magnús þjálfi og Stefán Twist að ógleymdu sjálfu Skáldinu á Rollu hins fyrstnefnda, og svo Tóti félagi þjálfa ásamt tveimur öðrum köppum ókunnugum Skáldinu á öldruðum Landcruiser. Var ferðin vestur á Arnarstapa tíðindalítil, Stefán og Skáldið héldu uppi nokkru fjöri á leiðinni með hjálp Antons frá Týról og yngismeyjanna í t.A.T.u. Á Stapann vorum við komnir á tólfta tímanum og varð fjörið þá nokkru almennara en þó vel innan siðgæðismarka. Var eitt helsta tómstundagamanið að stríða kríunum, en við vorum einmitt svo gáfaðir að tjalda nánast inni í miðju kríuvarpi. Sem betur fer varð enginn goggaður, oft munaði þó litlu. Annars fer ekki miklum sögum af kvöldi þessu.

Vöknuðu menn sem endranær hinir hressustu á laugardagsmorgun og við tóku hefðbundin morgunverk, matur, messa og Múllersæfingar. Að því loknu var svo stefnan tekin upp á Jökulhálsinn. Ekki var miklum snjó að dreifa þar svo við keyrðum alveg upp á hæsta punkt, lögðum þar bílunum og örkuðum af stað upp á Jökul ýmist með skíði eða snjóbretti bundin við bakpokana í þessu líka blíðskaparveðrinu. Gangan gekk síðan bara þrælvel, a.m.k. var hún mun auðveldari en gangan á þennan sama jökul á sumardaginn fyrsta, líklega ber þar frekar að þakka bættum búnaði en bættu þoli. Vorum rétt rúma tvo tíma upp á topp og fengum þar útsýni í allar áttir í glampandi sól. Smökkuðum svo á nesti, og við Bakkabræðurnir gæddum okkur að auki á Toppabjórnum sem er að verða fastur liður í fjallgöngum, enda við hæfi að verðlauna sig að loknu erfiðinu. Eftir að hafa skolað þessu niður klifruðum við svo upp á hæstu Jökulþúfuna og hinir hugaðri reyndu að skíða niður hana. Það gekk upp og ofan, Tóti og Maggi fóru sér að engu óðslega og komust klakklaust niður en Skáldinu lá heldur meira á og fór af þeim sökum langleiðina niður á hausnum. Uppskar klapp fyrir, ekki ónýtt það.
Eftir þetta var ekki annað að gera en að njóta ávaxta erfiðis síns og skíða niður, það var hin mesta skemmtun enda færið merkilega gott miðað við hitann og skyggnið eins og best verður. Náðum að skíða nánast niður að bílunum og var mjólkursýran þá heldur betur búin að ná sér á strik. Vel þess virði.
Þegar við vorum svo búnir að hrella alla útlendingana á svæðinu með því að svipta okkur flestum klæðum var öllu draslinu hrúgað inni í bíl og stefnan tekin á Ólafsvík til að skola af sér svitastækjuna í sundlauginni. Þurftum að keyra fyrir allt nesið, sem var ekkert verra, við höfðum jú t.A.T.u. til að stytta okkur stundir. Á leiðinni byrjuðu svo dropar að falla úr lofti og bætti heldur í er á leið. Ólafsvíkingar voru svo ekkert að hafa fyrir því að hafa sundlaugina opna svo við neyddumst til að keyra á Lýsuhól í drullupollinn þar. Fengum 50 kall í afslátt því sturturnar voru kaldar, jibbíjei! Í sundlauginni var svaka frægur maður, en engu að síður var stutt stoppað í þessu forarsvaði.
Þegar við komum svo aftur á Arnarstapa var rigningin heldur farin að færa sig upp á skaftið. Björgunarsveitarmennirnir þrír þoldu ekki vætuna, pökkuðu saman og fóru heim en við Bakkabræður létum engan bilbug á okkur finna og fórum hvergi. Klæddum okkur bara í texið og tókum stefnuna á barinn. Þar þurftum við að kenna afgreiðslustúlkunni að græja rússneska eðaldrykkinn fyrir okkur, þótti henni hráefnið og blandan greinilega ekki geðsleg. Sátum við þar að sumbli nokkra stund í góðum félagsskap en fljótlega fór svengd nokkur að gera vart við sig svo keypt voru kol, grilli stolið og grillað í grenjandi rigningnni. Gekk furðu vel, miðað við hverjir voru að verki. Tókst okkur Bakkabræðrum þremur svo að halda út fram eftir nóttu við hefðbundin aðalfundarstörf uns höfuð fóru að leita niður í bringu og menn ráfuðu inn í tjald.

Sunnudagsmorgunn heilsaði með sól og blíðu, en engu að síður var heilmikil þokumugga í gangi í hausnum á Jarlaskáldinu. Þar birti til um síðir með hjálp alþekktra húsráða, og þar sem veðrið var svona gott var ákveðið að fara lengri leiðina heim. Keyrðum s.s. hringinn í kringum nesið og áðum ekki fyrr en í Stykkishólmi þar sem sundlaugin var heimsótt. Fínasta sundlaug, og góð rennibraut. Ekki var pulsan í pulsuvagninum fyrir utan síðri, auk þess sem afgreiðslustúlkan var að gera góða hluti.
Ekki varð þessi menningar- og heilsubótarreisa um Snæfellsnesið lengri og stefnan tekin aftur í siðmenninguna. Til að bæta góðum endi á gott ferðalag varð síðasta stoppið gert á þeim ágæta stað KFC í Mosfellssveit, þar sem síðustu aurunum var eytt í feitt kjúklingaket. Namminamminamm! Eins gott að maður fái útborgað á morgun.

miðvikudagur, júní 25, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman

Jarlaskáldið var á faraldsfæti um helgina, eins og það komi einhverjum manni á óvart lengur. Þar sem Skáldið er afar skeptískt á munnlega geymd ætlar það nú að rita nokkur orð um hvernig það fór fram. Að vísu hafa bæði Stefán og Pétur ritað ferðasögur og það ágætar en Skáldinu þykir sinn hlutur heldur rýr í þeim. Auk þess láta þeir hjá líða að minnast á alla skandalana, ruglið, svallið og svínarið. Um þetta allt mun Skáldið fjalla, og ef tími vinnst til líka eitthvað um það sem hinir gerðu.

Saga vor hefst strax á fimmtudagskvöld. Jarlaskáldið var þá meðlimur í hópi svokallaðra undanfara, en svo nefndist hin harðvítuga sveit er lagði leið sína inn í Þórsmörk á þremur jeppum svo klyfjuðum af farangri að annað eins hefur sjaldan sést. Ástæðan: jú, kvöldið eftir ætlaði vel á annan tug manna að tölta yfir Fimmvörðuháls og þar sem gert var ráð fyrir einhverju sprelli í Mörkinni að því loknu þótti vissara að fara með tjöld, svefnpoka, söngvatn og annan viðlegubúnað inn eftir til að þurfa nú ekki að bera allt draslið yfir Hálsinn. Nógu erfitt er það nú samt þó ekki bætist bjórkassi í bakpokann.
Ekki er svosum mikið af þessari undanfaraferð að segja, einum átta tjöldum var tjaldað á þeim ca. 11 fermetrum sem okkur var úthlutað á svæði 27, og þó urðu tjöldin fleiri fyrir rest. Restinni af farangrinum var svo troðið með hjálp ofbeldis inn í Willa og hann skilinn eftir. Ef Skáldinu missýndist ekki lak tár af hvarmi Stebba þegar hann kvaddi Willa og við héldum aftur heim. Vorum komnir heim upp úr eitt, betri árangur en í fyrra. Vífill sá um skemmtiatriði á leiðinni.

Fer svo ekki sögum af Jarlaskáldinu fyrr en um fimmleytið daginn eftir þegar það kom mótt og másandi heim eftir að hafa hjólað úr vinnunni. Var móðir þess þá að sjálfsögðu búin að kaupa nesti og smyrja flatkökur fyrir soninn, svo Skáldið gat dundað sér við að pakka ofan í töskur í rólegheitum. Rétt fyrir sjö var svo Skáldið mætt í Heiðarásinn, enda hafði Þjálfi (Magnús frá Þverbrekku) lagt ríka áherslu á að þeir sem ekki yrðu mættir þá yrðu skildir eftir. Jarlaskáldið var að sjálfsögðu fyrst, næstu menn mættu ca. korter yfir, og týndust svo inn einn af öðrum. Allir nema Þjálfi. Var tekin sú ákvörðun að bíða ekkert eftir honum, og lagt í hann. Skáldið ferðaðist með Vigni og þeim Nevillesystrum, Öldu og Hildi, og fólst aðalskemmtunin á leiðinni í því að spila slæma tónlist að mati yngri systurinnar og tyggja Hubba-Bubba tyggjó. Svona líka gaman. Annars tíðindalítil ferð sem lauk á Skógum.
Þar rifu menn og konur upp bakpoka sína og göngustafi, alls 19 manns ef rétt var talið, og örkuðu af stað um þriðjung fyrir klukkan 11, rétt á eftir hópi 2 frá Útivist. Ekki tók langan tíma að fara fram úr honum, enda hægfara með afbrigðum. Tók Jarlaskáldið snemma að sér forystuhlutverkið með hjálp ýmissa annarra. Var veðurblíðan með mesta móti, ca. hálfskýjað, hlýtt og logn, úrvalsaðstæður til göngu s.s. Og það var sko gengið. Eins og gengur og gerist þurftu hinir og þessir að teipa á sér skankana eftir nokkra stund, aðrir að setja á sig plástra, en flestir og þar með talið Skáldið létu nægja að dreypa á fleygunum sem gengu manna á milli, hver með sínu innihaldinu.
Eftir ca. tveggja tíma göngu var gerð fyrri matarpásan, en stuttu eftir hana var arkað yfir göngubrúna og reyndi þar á lofthræðslu einhverra leiðangursmanna ("ég vil ekki vera hér!"). Tók svo við leiðinlegi kaflinn, endalaust þramm eftir bílslóða sem endaði ekki fyrr en uppi við skála. Teygðist nokkuð á hópnum á leiðinni og þótti hinum öftustu heldur geyst farið fyrir sinn smekk. Var því tekin þar seinni matarpásan. Þar sáum við að rétt á undan okkur var hópur 1 frá Útivist, og þegar við lögðum aftur í hann eftir drykklanga pásu var allt kapp lagt á að taka fram úr honum, sem tókst með miklu harðfylgi. Hjálpaði reyndar nokkuð til að þarna lá leiðin niður á við og í snjó, svo við gátum bara skokkað fram úr liðinu sem undraðist mjög atorkuna í okkur. Ástæða þess að svo mikil áhersla var lögð á að komast fram úr var aðeins ein: við vildum ekki verða nr. 107 í röðinni í sturtuna niðri í Básum.
Við Bröttufönn tókst loks öllum að komast fram úr hópnum stóra og til að fagna því renndu flestir sér á rassinum niður þá brekku. Pétur talar um að hraðamet hafi verið slegin, Skáldið rengir það ekki. Næstur á dagskrá var Heljarkambur, sem fyrr við mikla kátínu lofthræddra, en síðan allflöt Morinsheiðin þar sem Skáldið tók nánast á sprett. Þegar hún fór að verða brattari fóru hnén svo loksins að kvarta og Skáldið hægði á sér og varð Gústi öllum að óvörum fyrstur til að ná Skáldinu. Á Kattarhryggjum upplifði Skáldið svo einhverja þá ljúfustu stund sem um getur í öllum Heimsbókmenntunum: það fékk sér ískaldan bjór! Þetta hálfa aukakíló í bakpokanum var svo sannarlega þess virði og gott betur.
Eftir sopann ljúfa tók Skáldið aftur á sprett, enda endurnært, og linnti ekki förinni fyrr en það hlammaði sér niður á tjaldstæðið á ca. miðjum sjöunda tímanum. Beið svo nokkra stund eftir Stebba sem hafði lyklavöldin að Willa, hljóp svo í ansi hreint hressandi hálfrar þriðju mínútu sturtu, og opnaði loks annan bjór upp úr sjö um morguninn. Einhverra hluta vegna fór þreyta fljótlega að gera vart við sig, og átti það jafnt við um alla, svo að um áttaleytið mátti heyra hrotur úr flestum tjöldum.

Það var ekki langur svefn sem Jarlaskáldið og aðrir nutu þennan morguninn, flestir komnir á ról um og upp úr hádegi. Illu heilli var allur maturinn enn í bílunum á Skógum og því var fyrsta mál á dagskrá að senda menn á Willa eftir þeim. Það tók á þriðja tíma og á einhverju varð Skáldið að næra sig, svo það fann sér súkkulaðistykki og veiddi bjór up úr læknum. Prýðismorgunverður, og varð enn betri þegar Gústi skipti á súkkulaðilengju og grillaðri pulsu við Skáldið. Fór fyrri partur dags í það að láta þreytuna líða úr skrokknum á meðan beðið var eftir matnum, og ýmis mál rædd í þaula þess á milli. Um fjögur birtust svo jepparnir með matinn, og með í för var kominn yngsti VÍN-liði fyrr og síðar, Ísar Freyr Jónasson, 11 mánaða. Það var s.s. einn edrú í ferðinni.
Fljótlega eftir að hafa fengið matinn sinn fékk Skáldið sér smákríu, en þegar það vaknaði að nýju var tekið til við að grilla. Tókst það með miklum ágætum, og munu allir hafa verið saddir og ríflega það. Var svo sett í annan gír í drykkjunni og sumir jafnvel í þriðja. Einna helst bar til tíðinda að Jarlaskáldið fór sér að voða í fjallapríli miklu, öðrum Þórsmerkurgestum til nokkurra áhyggna að sögn. Um tíuleytið voru allir svo að verða hinir hressustu, nema einna helst Ísar Freyr, hann var líklega sofnaður, og hlóðu menn þá á sig nesti og örkuðu á varðeld. Varð hann hinn sögulegasti.
Það byrjaði reyndar nógu sakleysislega. VÍN-liðar komu sér fyrir við eldinn í einum hnapp og sungu með hópnum og allir hinir sáttustu. Hefst þar Styrmis þáttur skálaglamms. Tók piltur sig til, reif sig úr að ofan, byrjaði að hella brennivíni ofan í einn gítarleikarann til að vinna hann á okkar band, og fyrr en varði voru VÍN-liðar komnir í rífandi samkeppni við aðra sönghópa. Og höfðu betur, takk fyrir það, því brátt voru allir komnir úr að ofan og byrjaðir að spila óskalögin okkar, við mismikla hrifninga annarra við eldinn. Mikið gaman, mikið grín. Þess má til gamans geta að Styrmir þessi endaði nóttina á að vaða yfir Krossá í öllum fötunum sínum, nota bene einu fötunum sínum, og varð að klæðast fötum af konunni sinni daginn eftir. Og tók sig vel út.
Af Jarlaskáldinu fara ýmsar sagnir, það kom víða við og var lengi að, hitti marga og gerði það gott. Einhverjir þóttust hafa séð Skáldið í örmum kvenmanns, hefði nú verið gaman að muna eftir því. Sennilega var það bara lygi, en Skáldið ásamt Stebba twist entist a.m.k. lengst þessa nótt, eða til ca. átta, lauk fjörinu inni í Willa að hlusta á þýskan hetjutenór syngja coverlög. Jáhm. Ekki stóð Skáldið undir nýja viðurnefninu sínu sem frúin hans Styrmis gaf því. Einnig ber að geta þess að Þjálfi var svo víðáttudrukkinn þessa nótt að það sást aftur í hnakka á honum ef maður leit framan í hann. Var hann enda stoltur af frammistöðunni.

Hvort sem Skáldið var við kvenmann kennt þessa nótt eður ei er það eitt víst að það vaknaði eitt í sínu tjaldi um hádegi á sunnudag, og við merkilega góða heilsu. Fór morguninn að mestu í að rifja upp ævintýri næturinnar og bera saman bækur sínar, samkvæmt þeim virtust heimtur okkar hinna einhleypu með rýrasta móti. Var einnig mikið lof borið á móður Jarlaskáldsins af viðstöddum, skilja þeir sem þar voru. Um tvö lét Skáldið sig svo hverfa ásamt ferðafélögum, og lúkum við þar sögu þessari.

Bara níu dagar í næstu Mörk, jibbíkaei moðefökker!

PS. Halldór Ásgrímsson lagið er fundið, og verður á Þórsmörk 2003 disknum. Því fagna allir góðir menn.

mánudagur, júní 23, 2003 

FOO FIGHTERS

Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáldið gerir af sér þann 26. ágúst næstkomandi...

miðvikudagur, júní 18, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogannað

Þetta blogg verður í bútum. Eins konar mannlífsmyndir. Úr lífi Skáldsins.

Síðasta föstudag varð Jarlaskáldið þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið í pizzur og öl að Orminum. Auk Skáldsins og húsráðanda voru í boði þessu Kötturinn, Biskupinn og svo frægasti og besti bloggarinn. Hreint út sagt stórfengleg samkoma, enda ekki á hverjum degi sem slíkur fjöldi ofurnjarða hittist. Pizzurnar hinar ljúffengustu, húslestur aldursforsetans á Lagnafréttum stórskemmtilegur. Svo bær, Grand Rokk og Hverfisbarinn, að lokum Nonni. Jarlaskáldið þáði gistingu að Lynghaga, og á húsráðandi þakkir skildar fyrir. Labbaði svo heim, enda enginn bíllinn, og ekki fer maður að taka strætisvagn á gamals aldri eins og einhver almúgamaður.

Ekki afrekaði Skáldið fleira liðna helgi sem í frásögur er færandi. Notaði tímann aðallega til að styrkja tengslin við sinn góða vin sjónvarpið.

Á mánudagskvöldið lét Jarlaskáldið svo plata sig í vinnupartý. Hefði líklega betur sleppt því. A.m.k. var hegðun þess tæplega til fyrirmyndar, og hafi Skáldið notið einhverrar virðingar undirsáta sína fyrir þá er því ekki að heilsa lengur. Svona er þetta stundum. Virðing smiðring hvort sem er.

Á þjóðhátíðardaginn fór Jarlaskáldið að sjálfsögðu í bæinn til að horfa á Brúðubílinn. Dálítil vonbrigði að sjá hvergi Lilla apa. Þá var bara að setjast inn á kaffihús og fá sér einn kaldan. Ljúft. Fór svo Skáldið aftur um kvöldið í bæinn, og hitti þar fyrir sæmdarhjónin Ása og Björgu heimkomin frá BNA. Fór með þeim á Arann, hann klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Reyndi svo að ganga um bæinn, en varð snemma frá að hverfa sakir ellihrumleika. Hitti fólk.

Í dag urðu svo slæmir atburðir. Blessaður bílskrjóðurinn var tekinn af Skáldinu og settur í brotajárn. Verður minningarathöfn um hann haldin inni í Þórsmörk um helgina, vinir og vandamenn velkomnir, en þurfa að skaffa nestið sjálfir.

Já, Þórsmörk. Jarlaskáldið er nefnilega enn eina ferðina að fara að reima á sig gönguskó og álpast um fjöll og firnindi. Fimmvörðuhálsinn er það þessa helgina, svokölluð jónsmessuganga, ætti að verða ágætis sprell. Ferðasaga eftir helgi, eða þegar Skáldið hefur heilsu til.

Ekki skilur Skáldið hatur Kattarins á þeim ágæta stað KFC. Stórmerkilegt, í ljósi þess að hann fílar Nonnann alveg í ræmur, en það verður seint sagt að það annars frábæra eiturbras sé heppilegra frá manneldissjónarmiði séð.

sunnudagur, júní 15, 2003 

Skaptafell

Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarlaskáldið í nokkrum hremmingum þegar herra blogger.com ákvað að breyta sínu viðmóti með þeim afleiðingum að íslenskir stafir heyrðu sögunni til. Hefur því blogg legið niðri um skeið. En nú er Skáldið búið að ráðfæra sig við sér fróðari menn og fundið lausn vandamálanna og íslenskir stafir því aftur mættir á svæðið. Er Skáldinu því ekkert að vanbúnaði að rifja upp atburði liðinna daga. Fyrsta mál á dagskrá, ferðasögu var lofað, ferðasaga skal rituð, vessgú:

Jarlaskáldið gerði allvíðreist um hvítasunnuhelgina. Hefst saga vor um hálfníuleytið á föstudag þegar Magnús frá Þverbrekku mætti í Kleifarselið á Rollunni og sótti Skáldið. Um fjórum tímum síðar renndum við svo inn í Skaftafell ásamt fríðum flokki manna og meyja. Í millitíðinni hafði okkur tekist að koma við á glænýjum KFC stað á Selfossi, og lofar hann góðu þrátt fyrir að vera á Austur-Selfossi. Á Selfossi bættist einnig við í Rolluna ungur maður að nafni Jóhann Haukur, sem er ekki sem verstur af Selfyssingi að vera. Mun hann enda aðfluttur. Á Selfossi hittum við einnig þá Vigni og Gústa á Súkku hins fyrrnefnda og Stebba Twist, Jónas félaga hans og Dodda flubba á Papasan, sem er einhver Daewoobíll, og voru þeir í sömu erindagjörðum og við. Gekk ferðin austur annars með ágætum, að sjálfsögðu rigning og myrkur og meinlegir skuggar á Mýrdalssandi en annars aðstæður hinar ákjósanlegustu. Í Skaftafelli voru svo fyrir þegar við komum á staðinn herra Toggi ásamt Dýrleifu frú sinni og herra Andrésson ásamt frú. Alls voru þetta s.s. tólf manns, og voru allir nema kvenfólkið á þeim buxunum að klifra upp á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk. Þar sem leggja átti í hann eldsnemma morguninn eftir var ekki annað gert en að tjalda og leggjast í háttinn þetta föstudagskvöld, og voru líklega allir sofnaðir um tvö.

Tæpum þremur tímum síðar fóru fyrstu menn að rumska og gekk furðuvel að koma mönnum á lappir eftir þennan stutta svefn. Var byrjað á því að bæta aðeins á fituforðann, svo að sjálfsögðu Mullersæfingar og messa, en eftir það fór heilmikill tími í að finna réttu græjurnar, stilla þær og máta, og sjá til þess að allur nauðsynlegur búnaður og ekki síður matur og drykkir væru með í för. Magnús frá Þverbrekku kenndi sér einhvers meins í fæti og tók þá ákvörðun að verða eftir í grunnbúðum ásamt hinum konunum, svo það voru níu galvaskir kappar sem lögðu af stað í átt að Virkisjökli um sexleytið. Þangað var stuttur akstur, og um hálfsjöleytið lögðu fyrstu menn af stað, vopnaðir níðþungum bakpokum. Auk nauðsynlegs viðlegubúnaðar var Jónas með snjóbretti með í för og Doddi skíði.
Hófst svo labbið. Eftir allstutta göngu komum við að jökulröndinni og þar settu þeir sem höfðu á sig brodda sakir talsverðrar hálku. Tók svo við óskaplega löng ganga eftir nær flötum jöklinum, líklega um tveggja tíma tölt, og fóru menn fljótlega að kasta klæðum sakir hita. Veður var enda hið ágætasta, sól á köflum, en úr þeim fáu skýum sem yfir lúrðu féllu stöku dropar. Logn að mestu, en allsnarpir vindstrengir hér og þar. Eftir þetta tveggja tíma labb komum við að allbrattri snæviþaktri brekku, og var fyrsta matarhlé gert þar. Sem betur fer hafði allstór hópur verið ca. klukktíma á undan okkur og markað alldjúp spor í snjóinn sem við svo sikksökkuðum upp brekkuna. Og þetta var ekkert lítil brekka. Sér og öðrum til nokkurrar undrunar tók Jarlaskáldið snemma forystuhlutverkið að sér og þrammaði fyrst upp. Eftir talsvert labb leit það við, og sá að það hafði stungið aðra af. Greinilegt að glasalyftingar síðustu ára hafa skilað sér í ágætis þoli. Þótti öðrum leiðangursmönnum reyndar nóg um æðibunuganginn á Jarlaskáldinu og reyndu að hefta för þess með því að hlaða aukavarningi í bakpoka þess, en allt kom fyrir ekki, Skáldið jók bara ferðina ef eitthvað er.
Eftir talsvert labb upp þessa að því er virtist endalausu brekku náðum við að lokum hinum allstóra hóp sem áður er getið, voru þar á ferð Íslenskir fjallaleiðsögumenn með fullt af gamlingjum og fóru hægt yfir. Þar sem þeir voru svo almennilegir að gera sporin fyrir okkur fengum við okkur aftur bita til að gefa þeim forskot. Til þess að hemja Jarlaskáldið var svo bundið í það reipi eftir matinn og það látið draga restina af hópnum áfram upp brekkuna. Að vísu sögðu þeir reyndari af leiðangursmönnum að þetta væri gert til öryggis, ef sprungur yrðu á leiðinni, en ekki keypti Skáldið þá afsökun. Stuttu eftir að við vorum svo byrjaðir að labba í þessari línu fór veður að versna, og það svo um munaði. Þoka, rok, rigning, slydda og snjókoma og allt þar á milli. Til marks um veðurofsann fauk dúnúlpan hans Dodda út í buskann þegar hann opnaði bakpokann sinn eitt skiptið. Dýrt spaug það. Eftir nokkra stund heltist Gústi bókstaflega úr lestinni og fékk far niður með öðrum hópi. Við hinir dröttuðumst áfram, hundblautir og kaldir, og stefndum ótrauðir á tindinn þrátt fyrir allt. Í ca. 1900 metra mættum við svo hóp sem hafði verið rétt á undan okkur, hann hafði snúið við vegna aðstæðna og ráðlagði okkur að gera slíkt hið sama. Sem við og gerðum eftir smá diskússjón, enda algjör vitleysa í raun að halda áfram.
Niðurferðin gekk ágætlega, Jónas fékk loksins að njóta erfiðis síns og renndi sér niður á brettinu, að vísu var færið einstaklega blautt, sem kom í veg fyrir að við Andrésson gætum nýtt okkur þoturassana sem við höfðum með í för, sukkum bara niður. Á leiðinni niður fundum við einnig aftur dúnúlpuna hans Dodda, fagnaðarfundur það. Jarlaskáldið tók að sjálfsögðu upp á því eins og asni að hlaupa niður, með tilheyrandi hnjáeymslum þegar niður var komið. Mikið helvíti var annars langt niður, allt er langt þegar maður er þreyttur. Skáldið kom niður um sexleytið, fyrst manna að vanda, og um hálftíma síðar voru allir komnir niður. Þreyttir.
Fyrsta mál á dagskrá eftir fjallaævintýrið var að sjálfsögðu að fara í sund. Svínafellslaug var það, ansi ljúft að liggja í heita pottinum. Svo var keyrt aftur til Skaftafells, og hefðbundin aðalfundarstörf gátu hafist. Fyrst var grillað, og ekkert eðlilegt hvað maður gat hesthúsað miklu, en svo var drykkjunni sinnt. Ekki þurftu menn mikið, og ekki gerðist margt merkilegt, Jarlaskáldið var víst rekið í bælið einhvern tímann um nóttina, ekki man það hvenær. Kraftgallinn stóð sig vel að vanda.

Sunnudagurinn rann upp allt annað en bjartur og fagur, hvort sem átt er við veður eða kollinn á manni, heilmikil súld í gangi á báðum vígstöðvum. Sá Jarlaskáldið því þann kost vænstan að snúa sér bara á hina hliðina og bíða eftir að veðrið batnaði, sem það og gerði svo um munaði um hádegisbil, brakandi blíða og allir sáttir. Þá var grillað og etið, og litið við í Lambhaga þar sem hinir hugaðri leiðangursmanna böðuðu sig í skítköldu vatninu. Annars fór dagurinn að mestu í að bæta sér upp það spik sem tapaðist í bröltinu daginn áður, nema Magnús, sem bætti bara á sig. Fljótlega hófust einnig hin hefðbundnu aðalfundarstörf, þau fóru að vísu hægt af stað en góðir hlutir gerast jú hægt. Þegar líða tók á daginn gerði smáskúr og ákváðu fjórir leiðangursmanna, Stebbi, Andrésson, Doddi og Skáldið þá að leita skjóls á hóteli einu í nágrenninu. Þar var bar. Samkvæmt fregnum munu leiðangursmenn þessir hafa verið hinir hressustu þegar þeir komu til baka, hvað sem því olli. Stefán setti Íslandsmet í munnræpu strax eftir fyrsta bjór. Þá var aftur grillað. Stuttu síðar hurfu fyrstu menn á braut, þeir Vignir, Jónas og Gústi, en í stað þeirra birtist óvæntur gestur, sjálfur Adolf, sem bætti óneitanlega kynjahlutfallið á staðnum. Hófst svo svall. Því lauk seint. Hefði samt orðið enn seinna ef búsið hefði ekki klárast. Taka meira með næst.

Mánudagur fór eins og við mátti búast í það að koma sér heim. Jarlaskáldið var enn hið svangasta, fékk sér að éta á Klaustri, Vík og á Selfossi, geri aðrir betur. Einnig var komið við í sveitasundlaug, hressandi mjög. Annað markvert gerðist líklega ekki í ferð þessari, a.m.k. er Skáldið þá búið að gleyma því, enda vika síðan. A.m.k. var asskoti gaman, og verður þetta endurtekið að ári og jafnvel fyrr, og helvítis tindurinn þá sigraður hvað sem það kostar. Hér eru svo myndir, sem fyrr í boði Toggólfs.

þriðjudagur, júní 10, 2003 

Ábyrgðarleysi

Þá er Jarlaskáldið barasta komið heim úr enn einu ferðalaginu, nú var það Skaftafell sem var sótt heim og m.a. gengið upp á Öræfajökul og ýmislegt fleira misgáfulegt gert. Er löng saga að segja frá því öllu og mun væntanlega verða gert á þessum vettvangi í nánustu framtíð. Annað mál og það mikið áhyggjumál kom upp þegar Jarlaskáldið kom heim til sín í kvöld. Hafði þá ekki móðir Skáldsins bara tekið upp á því að yfirgefa landið í vikutíma og skilja það eftir eitt heima án nokkurrar gæslu! Þetta verður nú að teljast töluvert ábyrgðarleysi hjá gömlu konunni, að skilja rétt hálfþrítugan soninn einan eftir heima nær bjargarlausan, og það rétt eftir að bílskrjóðurinn andaðist. Lýsir Jarlaskáldið því eftir góðhjartaðri stúlku á besta aldri (18-22) með reynslu af matseld og öðrum heimilisstörfum til þess að sjá um það þennan vikutíma. Góð laun í boði fyrir rétta manneskju. Mynd fylgi umsókn.

fimmtudagur, júní 05, 2003 

Af fjallgöngum og læknisráðum

Jarlaskáldið er nýkomið heim af fundi undirbúningsnemdar uppgöngudeildar fjallamennskusviðs VÍN, þar sem fara þurfti yfir hin ýmsustu mál er varða áætlanir hvítasunnuhelgarinnar. Eftir stíf fundahöld þar sem sitt sýndist hverjum varð úr að á morgun skyldi halda í Skaftafell og tjalda þar um nóttina. Ekki verður svefninn þá nótt langur, því strax um þrjúleytið árdegis verður risið úr rekkju (Blöndahl vill m.a.s. vakna fyrr) og arkað af stað upp á Hvannadalshnjúk. Hvernig það allt fer ræðst væntanlega mikið til af veðri og vindum, veðurspár eru afar misvísandi þessa stundina, en við vonum það besta. Að öðru leyti mun dagskrá helgarinnar væntanlega snúast um hefðbundin aðalfundarstörf, ef þið skiljið hvað átt er við. Áætluð heimkoma er a.m.k. ekki fyrr en á mánudag. Jarlaskáldið mætir s.s. ekki á Hverfisbarinn um helgina, og ekki heldur í fyrsta vinnupartý sumarsins, þar sem þemað mun víst snúast um U.S.A. frá a til z. Stebbi hefði örugglega haft gaman af að kíkja þangað.

Í öðrum fréttum er það helst að Jarlaskáldið kíkti til Tomma tannlæknis í dag, og eins og venjulega níddist hann á Skáldinu með öllum sínum tólum og tækjum. ÞEgar misþyrmingunum var lokið fór Tommi að benda Skáldinu á hvað hinir og þessir drykkir hafa slæm áhrif á tennurnar, og ráðlagði því einregið að draga úr kókþambi sínu, sem verður að viðurkennast að Skáldið stundar af krafti. Í staðinn væri t.d. miklu hollara að drekka bjór, hann færi mun betur með tennurnar. Ja, ef læknirinn segir það, verður maður þá ekki að hlýða?

Til sölu:

Til sölu er stórglæsilegt eintak af Volkswagen Golf memphis, árgerð 1989. Þarfnast örlítillar aðhlynningar. Verð 1.000 kr., eða besta boð (þess má geta að á bílnum eru a.m.k. 10 lítrar af bensíni). Áhugasamir geri tilboð í kommentunum.

miðvikudagur, júní 04, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogfyrsta

Miðvikublogg féll niður í síðustu viku af ófyrirsjáanlegum ástæðum, Skáldið var boðað á kaffihús þegar ritun átti að hefjast og það endaði eins og fyrr er frá greint. Þá er bara að reyna að vera extragáfulegur í þetta skiptið. Eins og það sé einhver séns.

Fyrst búið er að greina frá atburðum síðustu helgar í allítarlegu máli að mati þess er hér ritar er ekki úr vegi að líta yfir afrek þeirra daga sem liðnir eru af vinnuvikunni. Í vinnunni hefur nefnilega margt verið á seyði sem lesendum gæti þótt forvitnilegt. Einnig ganga þær sögur um bæinn að Jarlaskáldið geri ekki handtak í vinnu sinni og fái ógnarlaun fyrir og nauðsynlegt að kveða þær sögur niður. A.m.k. að hluta til.
Þannig er mál með vexti að hinir „almennu" starfsmenn Orkuveitunnar á Ölfusvatni hófu störf nú á mánudaginn, alls einhverjar 40 hræður, og mun það verða í verkahring Jarlaskáldsins að sjá til þess að þessi hópur, sem samanstendur að hálfu leyti af reynsluboltum og að hálfu leyti af nýgræðingum, stundi einhverja vinnu í sumar en mæti ekki bara í hana. Þetta er vitaskuld mikið ábyrgðarhlutverk og ekki á hvers manns færi, og það að gefa það í skyn að þetta sé eitthvað léttara djobb en að moka holur eða sveifla sleggju er náttúrulega slík fásinna að annað eins þekkist varla. Taki þeir það til sín sem eiga. Til starfans hefur Jarlaskáldið fengið allsprækan Land-Rover, í það minnsta fer hann hraðar yfir en L-300 druslurnar sem allir hinir eru á, þó sumir haldi því fram að þar sé aðallega aksturslagi Jarlaskáldsins um að kenna. Með Skáldinu í hóp eru þrjár yngismeyjar og að sjálfsögðu á besta aldri, 18, 19 og 22 ára, auk þeirra Svíi nokkur á aldur við Skáldið sem virðist hinn ágætasti af Svía að vera. Loks mun væntanlegur einhver tölvunarfræðingur karlkyns í hópinn á næstunni, lítil samkeppni þar að líkindum miðað við kynni Skáldsins af þeirri stétt. Sumsé hinn ágætasti hópur.
Það verður væntanlega talsverður höfuðverkur í sumar að halda þessu fólki við vinnu því þótt fólkinu hafi verið fjölgað um helming hafa verkefnin ekkert aukist nema síður sé. Þá er bara að vera hugmyndaríkur, það er alltaf hægt að finna eitthvað tilgangslaust að gera, t.d. mætti greiða öllu grasinu á svæðinu í sömu átt, það liti óneitanlega flott út.

Dánarfregnir og jarðarfarir: Elskulegur bílskrjóður minn, Woffi frá Kambaselum, andaðist þann 4. júní. Útför verður auglýst síðar. Blóm og kransar afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hins látna er bent á reikning 42760 í Landsbankanum.

Jarlaskáldið.

mánudagur, júní 02, 2003 

Ferðasaga ein alllöng, auk dulítils partýbloggs

Það hefur verið lítið að gerast á þessari síðu undanfarna viku, og eins og svo oft áður á það sér eðlilegar orsakir. Það er erfitt að komast á internetið í Ófeigsfirði. Best að rifja upp alla sólar(myrkva)söguna.

Miðvikudagur
Fyrst ber að segja frá því að síðasta miðvikudagskvöld lét Jarlaskáldið plata sig í bæinn, hitti fullt af hjónum og svo einn Stebba twist á Ara í Ögri. Hjónin ræddu svona hjónamál, en við Stebbi drukkum aðallega bjór. Þegar við höfðum gert svolítið af því kíktum við Stebbi á heimavöllinn, þar var ekki hræðu að sjá svo við röltum á Vegamót. Þar var allt fullt, en lítið á liðinu að græða svo við töltum aftur niður á heimavöllinn og gerðum nokkurn stans þar. Stansinn varð reyndar með stysta móti hjá Jarlaskáldinu, það var ekki alveg að fíla sig og ákvað því að hypja sig heim. Það fór nú ekki svo, því á leiðinni niður Laugaveginn var Skáldið tekið tali af heldur ófrýnilegri konu sem kvaðst vera tónlistarmaður og heita Stella Hauksdóttur. Einhverra hluta vegna varð niðurstaða viðræðnanna sú að Skáldið elti frúna á Næsta Bar og átti þar í afar gáfulegum samræðum um hvernig það væri að vera lesbía á Íslandi. Oseiseijú. Einnig heilsaði Jarlaskáldið upp á Ingibjörgu Sólrúnu sem var þarna stödd ásamt fríðu föruneyti, en sá fljótlega sitt óvænna og fór á Nonnann, sennilega það gáfulegasta sem Skáldið gerði þetta kvöldið. Allt er gott sem endar vel.

Fimmtudagur
Á uppstigningardaginn steig Jarlaskáldið upp í fyrra fallinu þrátt fyrir að engin væri vinnan, því um eittleytið var Vignir Jónsson væntanlegur og Skáldið eftir að pakka niður föggum sínum. Hví þá föggur? Jú, mikið ferðalag stóð fyrir dyrum, alla leið norður í Norðurfjörð á Ströndum, þar sem meiningin væri að berja augum boðaðan hringmyrkva í bland við aðra skemmtun. Heimamaðurinn Eyfi hafði reddað einhverjum hjalli til að gista í og auk hans var félagi Gústi með í för þennan daginn. Héldum við Vignir af stað á umsömdum tíma á Súkkunni eftir væn fjárútlát í Nóatúnum en þeir Gústi og Eyfi fylgdu í humátt á eftir á Hyundai. Mjólkurbúðin hafði verið heimsótt daginn áður sakir forneskjulegra afgreiðslutíma, ekki voru fjárútlátin minni þar og náðu fimm stafa tölu samanlagt.
Var ekin hefðbundin leið norður og það tíðindalítið uns í Norðurárdal var komið þar sem beygt var upp Bröttubrekkuna. Framkvæmdir þar, ekki gaman að því. Í Búðardal vorum við komnir á fjórða tímanum og voru nokkur vonbrigði að brúðarvalið var lítið sem ekkert, ekki einu sinni langamma heillin. Létum það þó lítið á okkur fá, fengum okkur bara kjúlla í staðinn, fín skipti það. Þeir Gústi og Eyfi voru ca. hálftíma seinni á ferðinni og til að drepa tímann ákvað Vignir að skola af bílnum. Því hefði hann e.t.v. betur sleppt, því ekki fór betur en svo en að hann læsti lyklana inni í bílnum. Voru því góð ráð dýr. Hringt var í sýslumann og sendi hann mann á staðinn sem reddaði málum með vírbút og þáði einungis einn Víking fyrir. Ágætlega sloppið það.
Eftir þessar tafir lá leiðin áfram norður, yfir „Barkakýlið" svokallaða og Gilsfjörðinn, en þar var beygt inn á Tröllatunguheiði sem liggur yfir í Steingrímsfjörð. Á leiðinni hlustuðum við á t.A.T.u., hvað annað? Næst var stoppað á Hólmavík, þar sem afgreiðslumaður og greinilega Juventusaðdáandi hreytti ónótum í Jarlaskáldið fyrir að vera í A.C. Milan treyju. Sem var fyndið. Annars óspennandi staður Hólmavík. Var því ákveðið að halda þaðan sem fyrst, inn og út firði, yfir fjöll og hæðir í miklum hossingi og gjarnan með þverhnípi á báðar hliðar. Ólíkt Hólmavík er Djúpavík afar kúl staður. Um áttaleytið renndum við svo loksins í hlaðið á bænm Krossnesi í Árneshreppi, þar sem Eyfi einmitt sleit barnsskónum. Var okkur heilsað með virktum, litum sem snöggvast á sauðburðinn en þurftum snemma frá að hverfa sakir Framsóknarfýlunnar sem yfir allt lagðist. Eftir var aðeins stuttur spölur niður í fjöru þar sem næturgistingin beið. Litli kofinn þarna lengst til hægri. Það er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt, þessi mynd hlýtur að vera komin til ára sinna því í stað þessa eflaust ágæta kofa var kominn reisulegur bústaður og sundlaugin öll nýuppgerð. Ansi hressandi að gista u.þ.b. sjö metra frá næstu sundlaug, eins og átti svo um munar eftir að koma í ljós.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir og opnað fyrsta (í einu tilviki annan) bjórinn tók svo við fyrsta eldamennskan af mörgum, við Vignir grilluðum þessa líka fínu BBQ-borgara en Gústi át eitthvað sem þóttist vera svín en líktist einhverju allt öðru. Bragðaðist samt prýðilega að sögn. Blésum einnig upp stólana hans Gústa, bæði þann staka og sófann. Þegar menn voru svo mettir og komnir í hæfilegt ástand var tölt út í laug með nesti með sér og eytt ca. næstu fimm tímunum þar. Var gestagangur nokkur og mikið sprell í gangi, bæði ferðamenn og fólk af næstu bæjum. Mikið var hlegið að brandörum um eðlisþyngd áls, aukinheldur rifist um pólitík og þá einna helst ágæti hr. Dubya. Enginn fór þó sár úr þeirri atgöngu. Snilld kvöldsins hlýtur þó að teljast fæðing nýrrar íþróttagreinar, hið svokallaða sófasund. Það fólst í því að sækja uppblásnu sófana, henda þeim út í laug og reyna svo að komast upp í þá án þess að velta, sem var meira en að segja það hvort sem ástand manna spilaði inn í eður ei. Voru menn orðnir allfærir undir lokin, og jafnvel spurning að halda Íslandsmót á næstunni. Einhvern tímann fórum við svo upp úr, og eftir það muna fáir nokkuð.

Föstudagur
Það var ekki farið snemma á fætur þennan daginn frekar en oft áður, kenndu menn jafnt höfuðpínsla sem magaólgu, og þegar litið var á forðabúrið varð ástæðan skýr. Tveggja stafa tölur farnar í öllum tilvikum. Eru VÍN-liðar ýmsu vanir í þessum efnum og urðu því fljótt sprækir, og þótti því tilvalið að nýta þann litla kvóta sem okkur var veitt í síðustu úthlutun og renna fyrir fisk. Var til þess fengin að láni hin ágætasta flatbytna sem rúmaði þrjá menn með herkjum. Urðu túrarnir tveir, fyrst fóru Eyfi og Gústi og varð aflinn einn ufsi sem hefur sennilega vegið hátt í hálft pund. Í seinni túrinn fórum við Vignir ásamt Eyfa og tókst Vigni að krækja í einn golþorsk, sem var ríflega kvartpund. Hefur líklega bara verið þorskígildi. Þá var líka kvótinn búinn svo Jarlaskáldið fékk ekki neitt, hafði leigt frá sér kvótann. Kannski eins gott að kvótinn var ekki meiri því við landkrabbbarnir tókum fljótlega að finna fyrir sjóveiki í öllum ölduganginum, sjómennskan er sko ekkert grín. Var okkur öllum boðið í kaffi og hnallþórur á Krossnesi eftir að hafa fært þessa björg í bú og gerður afar góður rómur að því. Þar var feitur köttur og taugaveikluð tík.
Næst á dagskrá var að keyra upp á fjall. Það gekk bærilega, en illu heilli lá vegurinn ekki upp á topp svo við þurftum að labba restina. Erfitt í bágbornu ástandi okkar, en líklega þess virði því útsýnið var allglæsilegt fram af hengiflugunum. Eins og sönnum karlmönnum sæmir fólst aðalskemmtunin í því að velta stórum steinum fram af, afar þroskaðir menn á ferð. Þegar steinarnir voru búnir var farið að gæta hæðarveiki svo við fórum aftur niður og í laugina að jafna okkur með einn kaldan í hönd. Eyfi fór að spila fótbolta með pollum, en við hinir ákváðum að sinna einhverju þveröfugu og kveiktum því upp í grillinu. Á matseðlinum þetta kvöldið var ýmislegt. Í forrétt var að sjálfsögðu aflinn frá því fyrr um daginn, bragðaðist prýðilega en smágalli að ekki tókst að beinhreinsa hann. Skyrp, skyrp. Í aðalrétt voru svo m.a. lambalærisneiðar og kjúklingabringur að ógleymdri restinni af þessu sem þóttist vera svín. Allt saman eðal. Ekki löngu síðar fjölgaði svo allhressilega í kotinu. Þeir Stebbar, Blöndahl og Twist mættu á einhverjum bílaleiguslyddujeppa og fast á hæla þeirra herra Andrésson og frú ásamt vinkonu frúarinnar, búsettri í Finnlandi, sem lét sig hafa það að sitja aftur í extracabnum þessa sex tíma sem ferðin tók. Harka. Eitthvað hét stúlkan eflaust, það rifjast kannski upp síðar í pistlinum. Var þeim tekið með kostum og kynjum, og voru þau fljót að ná okkur hinum í svalli og bulli. Sundlaugin var líkt og venjulega óspart stunduð, og var gestagangurinn engu minni en nóttina áður. Einn var þó sá gestur sem ekki mætti, og var það þó sá eini sem var sérstaklega boðið, sjálfur sólmyrkvinn. Hann lét hvorki í sig sjást né heyrast, frekar dónalegt fannst okkur eftir allt erfiðið sem við lögðum á okkur til hitta hann. Jæja, gengur betur næst. Af merkisatburðum hlýtur Fóstbræðrarokk okkar Stebba Twist að standa framarlega, a.m.k. tókst okkur að fæla alla annað hvort út úr húsi eða í rúmið. Þegar líða tók á nóttina ákvað Jarlaskáldið svo að nóg væri komið, fór í Kraftgallann og lagði sig í fjöruborðinu. Kom þá ekki helvítið hann Blöndahl og batt enda á gleðina! Aldrei má maður ekki neitt.

Laugardagur
Verkefni laugardagsins var einkum eitt: að keyra eins langt norður og hægt væri. Til þess að gera það var byrjað á að keyra yfir stuttan fjallháls og niður í Ingólfsfjörð. Lítið verk og löðurmannlegt það. Þar blasti við ógurlegt mannvirki í talsverðri niðurníðslu. Eftir að hafa skoðað mannvirkið í krók og kima komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að hafa verið risastór pizzastaður í denn, og ekki skrýtið að reksturinn hafi gengið illa í ekki stærra byggðarlagi. Þarna voru m.a. risastórir pizzaofnar og færiband þar sem álegginu hefur væntanlega verið raðað á. Einnig gríðarmikill tankur þar sem deigið hefur væntanlega verið látið hefast. Þangað inn var erfitt að komast, pínkugat sem rúmaði rétt svo einn Blöndahl.
Úr Ingólfsfirði lá svo slóði meðfram ströndinni yfir í Ófeigsfjörð, hopp og hí alla leið og svaka gaman. Slóðinn endaði svo við ca. miðjan fjörðinn þar sem á ein mikil myndaði farartálma og göngustígur tók við, svo eðlilega fórum við ekki lengra. Karlmenn stunduðu staurafleytingar í ánni, þroskinn enn í hámarki. Ekki var dvalið lengi, ferðin var löng og því vissara að fara aftur til baka þar eð le Mini Buffet var skipulagður um kvöldið. Fólst hann í því að moka holu, fylla hana af kolum og henda löpp af lambi ofan í, ná svo í löppina eftir rúman klukkutíma og éta. Gekk það framar vonum. Sven Ingvars skapaði að sjálfsögðu og sem endranær hina fullkomnu dinnermúsík og ekki var meðlætið til að skemma fyrir, grillaðar kartöflur, piparostasósa a la Stebbi og salat sem var ca. 50% kál og annar arfi og 50% fetaostur. Brilliant!
Djammið varð svo í minni kantinum þetta kvöldið. Þeir Stebbar hurfu snemma á braut, líklega sakir öræfaóttans skelfilega, og aðrir voru ýmist langt komnir með öll aðföng eða bara fóru snemma í háttinn af öðrum sökum. Ef snemma í háttinn getur þýtt klukkan fjögur.

Sunnudagur
Jarlaskáldið var við merkilega góða heilsu þennan morguninn. Ja, kannski ekki, en skárri en oft áður á sunnudegi. Það er svo sem ekki margt merkilegt frá þessum degi að segja, fyrsti hluti hans fór í þrifnað á kofanum og svo tók við bílferð dauðans til baka. Fórum reyndar svipaða leið, tókum Steinadalsheiði í stað Tröllatunguheiði sem lengdi leiðina um einhverja örfáa kílómetra, en samt fannst manni helmingi lengra á leiðinni heim en upp eftir. Pulsan á Hólmavík var fín, ísinn á Búðardal ekki, og enn ekkert brúðarval að sjá. Svindl. Heim var Skáldið komið upp úr átta og sór þess þá þegar dýran eið að fara aldrei aftur í svona ógeðslega langt og erfitt ferðalag. Hvað ætli sá eiður standist lengi? Eigum við að gefa því fimm daga?

Ps. Kannski hét stelpan Arna, er ekki viss.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates