« Home | FOO FIGHTERS Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáld... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogannað Þetta blogg ver... » | Skaptafell Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarl... » | Ábyrgðarleysi Þá er Jarlaskáldið barasta komið he... » | Af fjallgöngum og læknisráðum Jarlaskáldið er nýk... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfyrsta Miðvikublogg f... » | Ferðasaga ein alllöng, auk dulítils partýbloggs Þ... » | Tilraun til partýbloggs Jarlaskáldið var að spá í... » | Júró Jájá, þá er Skáldið bara við það að leggja a... » | Miðvikublogg ið tuttugasta Nei sko, bara tuttugas... » 

miðvikudagur, júní 25, 2003 

Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman

Jarlaskáldið var á faraldsfæti um helgina, eins og það komi einhverjum manni á óvart lengur. Þar sem Skáldið er afar skeptískt á munnlega geymd ætlar það nú að rita nokkur orð um hvernig það fór fram. Að vísu hafa bæði Stefán og Pétur ritað ferðasögur og það ágætar en Skáldinu þykir sinn hlutur heldur rýr í þeim. Auk þess láta þeir hjá líða að minnast á alla skandalana, ruglið, svallið og svínarið. Um þetta allt mun Skáldið fjalla, og ef tími vinnst til líka eitthvað um það sem hinir gerðu.

Saga vor hefst strax á fimmtudagskvöld. Jarlaskáldið var þá meðlimur í hópi svokallaðra undanfara, en svo nefndist hin harðvítuga sveit er lagði leið sína inn í Þórsmörk á þremur jeppum svo klyfjuðum af farangri að annað eins hefur sjaldan sést. Ástæðan: jú, kvöldið eftir ætlaði vel á annan tug manna að tölta yfir Fimmvörðuháls og þar sem gert var ráð fyrir einhverju sprelli í Mörkinni að því loknu þótti vissara að fara með tjöld, svefnpoka, söngvatn og annan viðlegubúnað inn eftir til að þurfa nú ekki að bera allt draslið yfir Hálsinn. Nógu erfitt er það nú samt þó ekki bætist bjórkassi í bakpokann.
Ekki er svosum mikið af þessari undanfaraferð að segja, einum átta tjöldum var tjaldað á þeim ca. 11 fermetrum sem okkur var úthlutað á svæði 27, og þó urðu tjöldin fleiri fyrir rest. Restinni af farangrinum var svo troðið með hjálp ofbeldis inn í Willa og hann skilinn eftir. Ef Skáldinu missýndist ekki lak tár af hvarmi Stebba þegar hann kvaddi Willa og við héldum aftur heim. Vorum komnir heim upp úr eitt, betri árangur en í fyrra. Vífill sá um skemmtiatriði á leiðinni.

Fer svo ekki sögum af Jarlaskáldinu fyrr en um fimmleytið daginn eftir þegar það kom mótt og másandi heim eftir að hafa hjólað úr vinnunni. Var móðir þess þá að sjálfsögðu búin að kaupa nesti og smyrja flatkökur fyrir soninn, svo Skáldið gat dundað sér við að pakka ofan í töskur í rólegheitum. Rétt fyrir sjö var svo Skáldið mætt í Heiðarásinn, enda hafði Þjálfi (Magnús frá Þverbrekku) lagt ríka áherslu á að þeir sem ekki yrðu mættir þá yrðu skildir eftir. Jarlaskáldið var að sjálfsögðu fyrst, næstu menn mættu ca. korter yfir, og týndust svo inn einn af öðrum. Allir nema Þjálfi. Var tekin sú ákvörðun að bíða ekkert eftir honum, og lagt í hann. Skáldið ferðaðist með Vigni og þeim Nevillesystrum, Öldu og Hildi, og fólst aðalskemmtunin á leiðinni í því að spila slæma tónlist að mati yngri systurinnar og tyggja Hubba-Bubba tyggjó. Svona líka gaman. Annars tíðindalítil ferð sem lauk á Skógum.
Þar rifu menn og konur upp bakpoka sína og göngustafi, alls 19 manns ef rétt var talið, og örkuðu af stað um þriðjung fyrir klukkan 11, rétt á eftir hópi 2 frá Útivist. Ekki tók langan tíma að fara fram úr honum, enda hægfara með afbrigðum. Tók Jarlaskáldið snemma að sér forystuhlutverkið með hjálp ýmissa annarra. Var veðurblíðan með mesta móti, ca. hálfskýjað, hlýtt og logn, úrvalsaðstæður til göngu s.s. Og það var sko gengið. Eins og gengur og gerist þurftu hinir og þessir að teipa á sér skankana eftir nokkra stund, aðrir að setja á sig plástra, en flestir og þar með talið Skáldið létu nægja að dreypa á fleygunum sem gengu manna á milli, hver með sínu innihaldinu.
Eftir ca. tveggja tíma göngu var gerð fyrri matarpásan, en stuttu eftir hana var arkað yfir göngubrúna og reyndi þar á lofthræðslu einhverra leiðangursmanna ("ég vil ekki vera hér!"). Tók svo við leiðinlegi kaflinn, endalaust þramm eftir bílslóða sem endaði ekki fyrr en uppi við skála. Teygðist nokkuð á hópnum á leiðinni og þótti hinum öftustu heldur geyst farið fyrir sinn smekk. Var því tekin þar seinni matarpásan. Þar sáum við að rétt á undan okkur var hópur 1 frá Útivist, og þegar við lögðum aftur í hann eftir drykklanga pásu var allt kapp lagt á að taka fram úr honum, sem tókst með miklu harðfylgi. Hjálpaði reyndar nokkuð til að þarna lá leiðin niður á við og í snjó, svo við gátum bara skokkað fram úr liðinu sem undraðist mjög atorkuna í okkur. Ástæða þess að svo mikil áhersla var lögð á að komast fram úr var aðeins ein: við vildum ekki verða nr. 107 í röðinni í sturtuna niðri í Básum.
Við Bröttufönn tókst loks öllum að komast fram úr hópnum stóra og til að fagna því renndu flestir sér á rassinum niður þá brekku. Pétur talar um að hraðamet hafi verið slegin, Skáldið rengir það ekki. Næstur á dagskrá var Heljarkambur, sem fyrr við mikla kátínu lofthræddra, en síðan allflöt Morinsheiðin þar sem Skáldið tók nánast á sprett. Þegar hún fór að verða brattari fóru hnén svo loksins að kvarta og Skáldið hægði á sér og varð Gústi öllum að óvörum fyrstur til að ná Skáldinu. Á Kattarhryggjum upplifði Skáldið svo einhverja þá ljúfustu stund sem um getur í öllum Heimsbókmenntunum: það fékk sér ískaldan bjór! Þetta hálfa aukakíló í bakpokanum var svo sannarlega þess virði og gott betur.
Eftir sopann ljúfa tók Skáldið aftur á sprett, enda endurnært, og linnti ekki förinni fyrr en það hlammaði sér niður á tjaldstæðið á ca. miðjum sjöunda tímanum. Beið svo nokkra stund eftir Stebba sem hafði lyklavöldin að Willa, hljóp svo í ansi hreint hressandi hálfrar þriðju mínútu sturtu, og opnaði loks annan bjór upp úr sjö um morguninn. Einhverra hluta vegna fór þreyta fljótlega að gera vart við sig, og átti það jafnt við um alla, svo að um áttaleytið mátti heyra hrotur úr flestum tjöldum.

Það var ekki langur svefn sem Jarlaskáldið og aðrir nutu þennan morguninn, flestir komnir á ról um og upp úr hádegi. Illu heilli var allur maturinn enn í bílunum á Skógum og því var fyrsta mál á dagskrá að senda menn á Willa eftir þeim. Það tók á þriðja tíma og á einhverju varð Skáldið að næra sig, svo það fann sér súkkulaðistykki og veiddi bjór up úr læknum. Prýðismorgunverður, og varð enn betri þegar Gústi skipti á súkkulaðilengju og grillaðri pulsu við Skáldið. Fór fyrri partur dags í það að láta þreytuna líða úr skrokknum á meðan beðið var eftir matnum, og ýmis mál rædd í þaula þess á milli. Um fjögur birtust svo jepparnir með matinn, og með í för var kominn yngsti VÍN-liði fyrr og síðar, Ísar Freyr Jónasson, 11 mánaða. Það var s.s. einn edrú í ferðinni.
Fljótlega eftir að hafa fengið matinn sinn fékk Skáldið sér smákríu, en þegar það vaknaði að nýju var tekið til við að grilla. Tókst það með miklum ágætum, og munu allir hafa verið saddir og ríflega það. Var svo sett í annan gír í drykkjunni og sumir jafnvel í þriðja. Einna helst bar til tíðinda að Jarlaskáldið fór sér að voða í fjallapríli miklu, öðrum Þórsmerkurgestum til nokkurra áhyggna að sögn. Um tíuleytið voru allir svo að verða hinir hressustu, nema einna helst Ísar Freyr, hann var líklega sofnaður, og hlóðu menn þá á sig nesti og örkuðu á varðeld. Varð hann hinn sögulegasti.
Það byrjaði reyndar nógu sakleysislega. VÍN-liðar komu sér fyrir við eldinn í einum hnapp og sungu með hópnum og allir hinir sáttustu. Hefst þar Styrmis þáttur skálaglamms. Tók piltur sig til, reif sig úr að ofan, byrjaði að hella brennivíni ofan í einn gítarleikarann til að vinna hann á okkar band, og fyrr en varði voru VÍN-liðar komnir í rífandi samkeppni við aðra sönghópa. Og höfðu betur, takk fyrir það, því brátt voru allir komnir úr að ofan og byrjaðir að spila óskalögin okkar, við mismikla hrifninga annarra við eldinn. Mikið gaman, mikið grín. Þess má til gamans geta að Styrmir þessi endaði nóttina á að vaða yfir Krossá í öllum fötunum sínum, nota bene einu fötunum sínum, og varð að klæðast fötum af konunni sinni daginn eftir. Og tók sig vel út.
Af Jarlaskáldinu fara ýmsar sagnir, það kom víða við og var lengi að, hitti marga og gerði það gott. Einhverjir þóttust hafa séð Skáldið í örmum kvenmanns, hefði nú verið gaman að muna eftir því. Sennilega var það bara lygi, en Skáldið ásamt Stebba twist entist a.m.k. lengst þessa nótt, eða til ca. átta, lauk fjörinu inni í Willa að hlusta á þýskan hetjutenór syngja coverlög. Jáhm. Ekki stóð Skáldið undir nýja viðurnefninu sínu sem frúin hans Styrmis gaf því. Einnig ber að geta þess að Þjálfi var svo víðáttudrukkinn þessa nótt að það sást aftur í hnakka á honum ef maður leit framan í hann. Var hann enda stoltur af frammistöðunni.

Hvort sem Skáldið var við kvenmann kennt þessa nótt eður ei er það eitt víst að það vaknaði eitt í sínu tjaldi um hádegi á sunnudag, og við merkilega góða heilsu. Fór morguninn að mestu í að rifja upp ævintýri næturinnar og bera saman bækur sínar, samkvæmt þeim virtust heimtur okkar hinna einhleypu með rýrasta móti. Var einnig mikið lof borið á móður Jarlaskáldsins af viðstöddum, skilja þeir sem þar voru. Um tvö lét Skáldið sig svo hverfa ásamt ferðafélögum, og lúkum við þar sögu þessari.

Bara níu dagar í næstu Mörk, jibbíkaei moðefökker!

PS. Halldór Ásgrímsson lagið er fundið, og verður á Þórsmörk 2003 disknum. Því fagna allir góðir menn.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates