« Home | Tilraun til partýbloggs Jarlaskáldið var að spá í... » | Júró Jájá, þá er Skáldið bara við það að leggja a... » | Miðvikublogg ið tuttugasta Nei sko, bara tuttugas... » | Hekla-part two Dömur mínar og herrar, stór tíðind... » | Hekla Jarlaskáldið lætur ekki deigan síga í fjall... » | Burst Þetta er ansi hreint hressandi svona í morg... » | Miðvikublogg ið nítjánda Þetta er búin að vera há... » | Bleikt naglalakk Það fór eins og við mátti búast,... » | Andsk! Óskapleg þreyta er þetta. Af hverju ætli h... » | Miðvikublogg ið átjánda Jæja, á maður eitthvað að... » 

mánudagur, júní 02, 2003 

Ferðasaga ein alllöng, auk dulítils partýbloggs

Það hefur verið lítið að gerast á þessari síðu undanfarna viku, og eins og svo oft áður á það sér eðlilegar orsakir. Það er erfitt að komast á internetið í Ófeigsfirði. Best að rifja upp alla sólar(myrkva)söguna.

Miðvikudagur
Fyrst ber að segja frá því að síðasta miðvikudagskvöld lét Jarlaskáldið plata sig í bæinn, hitti fullt af hjónum og svo einn Stebba twist á Ara í Ögri. Hjónin ræddu svona hjónamál, en við Stebbi drukkum aðallega bjór. Þegar við höfðum gert svolítið af því kíktum við Stebbi á heimavöllinn, þar var ekki hræðu að sjá svo við röltum á Vegamót. Þar var allt fullt, en lítið á liðinu að græða svo við töltum aftur niður á heimavöllinn og gerðum nokkurn stans þar. Stansinn varð reyndar með stysta móti hjá Jarlaskáldinu, það var ekki alveg að fíla sig og ákvað því að hypja sig heim. Það fór nú ekki svo, því á leiðinni niður Laugaveginn var Skáldið tekið tali af heldur ófrýnilegri konu sem kvaðst vera tónlistarmaður og heita Stella Hauksdóttur. Einhverra hluta vegna varð niðurstaða viðræðnanna sú að Skáldið elti frúna á Næsta Bar og átti þar í afar gáfulegum samræðum um hvernig það væri að vera lesbía á Íslandi. Oseiseijú. Einnig heilsaði Jarlaskáldið upp á Ingibjörgu Sólrúnu sem var þarna stödd ásamt fríðu föruneyti, en sá fljótlega sitt óvænna og fór á Nonnann, sennilega það gáfulegasta sem Skáldið gerði þetta kvöldið. Allt er gott sem endar vel.

Fimmtudagur
Á uppstigningardaginn steig Jarlaskáldið upp í fyrra fallinu þrátt fyrir að engin væri vinnan, því um eittleytið var Vignir Jónsson væntanlegur og Skáldið eftir að pakka niður föggum sínum. Hví þá föggur? Jú, mikið ferðalag stóð fyrir dyrum, alla leið norður í Norðurfjörð á Ströndum, þar sem meiningin væri að berja augum boðaðan hringmyrkva í bland við aðra skemmtun. Heimamaðurinn Eyfi hafði reddað einhverjum hjalli til að gista í og auk hans var félagi Gústi með í för þennan daginn. Héldum við Vignir af stað á umsömdum tíma á Súkkunni eftir væn fjárútlát í Nóatúnum en þeir Gústi og Eyfi fylgdu í humátt á eftir á Hyundai. Mjólkurbúðin hafði verið heimsótt daginn áður sakir forneskjulegra afgreiðslutíma, ekki voru fjárútlátin minni þar og náðu fimm stafa tölu samanlagt.
Var ekin hefðbundin leið norður og það tíðindalítið uns í Norðurárdal var komið þar sem beygt var upp Bröttubrekkuna. Framkvæmdir þar, ekki gaman að því. Í Búðardal vorum við komnir á fjórða tímanum og voru nokkur vonbrigði að brúðarvalið var lítið sem ekkert, ekki einu sinni langamma heillin. Létum það þó lítið á okkur fá, fengum okkur bara kjúlla í staðinn, fín skipti það. Þeir Gústi og Eyfi voru ca. hálftíma seinni á ferðinni og til að drepa tímann ákvað Vignir að skola af bílnum. Því hefði hann e.t.v. betur sleppt, því ekki fór betur en svo en að hann læsti lyklana inni í bílnum. Voru því góð ráð dýr. Hringt var í sýslumann og sendi hann mann á staðinn sem reddaði málum með vírbút og þáði einungis einn Víking fyrir. Ágætlega sloppið það.
Eftir þessar tafir lá leiðin áfram norður, yfir „Barkakýlið" svokallaða og Gilsfjörðinn, en þar var beygt inn á Tröllatunguheiði sem liggur yfir í Steingrímsfjörð. Á leiðinni hlustuðum við á t.A.T.u., hvað annað? Næst var stoppað á Hólmavík, þar sem afgreiðslumaður og greinilega Juventusaðdáandi hreytti ónótum í Jarlaskáldið fyrir að vera í A.C. Milan treyju. Sem var fyndið. Annars óspennandi staður Hólmavík. Var því ákveðið að halda þaðan sem fyrst, inn og út firði, yfir fjöll og hæðir í miklum hossingi og gjarnan með þverhnípi á báðar hliðar. Ólíkt Hólmavík er Djúpavík afar kúl staður. Um áttaleytið renndum við svo loksins í hlaðið á bænm Krossnesi í Árneshreppi, þar sem Eyfi einmitt sleit barnsskónum. Var okkur heilsað með virktum, litum sem snöggvast á sauðburðinn en þurftum snemma frá að hverfa sakir Framsóknarfýlunnar sem yfir allt lagðist. Eftir var aðeins stuttur spölur niður í fjöru þar sem næturgistingin beið. Litli kofinn þarna lengst til hægri. Það er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt, þessi mynd hlýtur að vera komin til ára sinna því í stað þessa eflaust ágæta kofa var kominn reisulegur bústaður og sundlaugin öll nýuppgerð. Ansi hressandi að gista u.þ.b. sjö metra frá næstu sundlaug, eins og átti svo um munar eftir að koma í ljós.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir og opnað fyrsta (í einu tilviki annan) bjórinn tók svo við fyrsta eldamennskan af mörgum, við Vignir grilluðum þessa líka fínu BBQ-borgara en Gústi át eitthvað sem þóttist vera svín en líktist einhverju allt öðru. Bragðaðist samt prýðilega að sögn. Blésum einnig upp stólana hans Gústa, bæði þann staka og sófann. Þegar menn voru svo mettir og komnir í hæfilegt ástand var tölt út í laug með nesti með sér og eytt ca. næstu fimm tímunum þar. Var gestagangur nokkur og mikið sprell í gangi, bæði ferðamenn og fólk af næstu bæjum. Mikið var hlegið að brandörum um eðlisþyngd áls, aukinheldur rifist um pólitík og þá einna helst ágæti hr. Dubya. Enginn fór þó sár úr þeirri atgöngu. Snilld kvöldsins hlýtur þó að teljast fæðing nýrrar íþróttagreinar, hið svokallaða sófasund. Það fólst í því að sækja uppblásnu sófana, henda þeim út í laug og reyna svo að komast upp í þá án þess að velta, sem var meira en að segja það hvort sem ástand manna spilaði inn í eður ei. Voru menn orðnir allfærir undir lokin, og jafnvel spurning að halda Íslandsmót á næstunni. Einhvern tímann fórum við svo upp úr, og eftir það muna fáir nokkuð.

Föstudagur
Það var ekki farið snemma á fætur þennan daginn frekar en oft áður, kenndu menn jafnt höfuðpínsla sem magaólgu, og þegar litið var á forðabúrið varð ástæðan skýr. Tveggja stafa tölur farnar í öllum tilvikum. Eru VÍN-liðar ýmsu vanir í þessum efnum og urðu því fljótt sprækir, og þótti því tilvalið að nýta þann litla kvóta sem okkur var veitt í síðustu úthlutun og renna fyrir fisk. Var til þess fengin að láni hin ágætasta flatbytna sem rúmaði þrjá menn með herkjum. Urðu túrarnir tveir, fyrst fóru Eyfi og Gústi og varð aflinn einn ufsi sem hefur sennilega vegið hátt í hálft pund. Í seinni túrinn fórum við Vignir ásamt Eyfa og tókst Vigni að krækja í einn golþorsk, sem var ríflega kvartpund. Hefur líklega bara verið þorskígildi. Þá var líka kvótinn búinn svo Jarlaskáldið fékk ekki neitt, hafði leigt frá sér kvótann. Kannski eins gott að kvótinn var ekki meiri því við landkrabbbarnir tókum fljótlega að finna fyrir sjóveiki í öllum ölduganginum, sjómennskan er sko ekkert grín. Var okkur öllum boðið í kaffi og hnallþórur á Krossnesi eftir að hafa fært þessa björg í bú og gerður afar góður rómur að því. Þar var feitur köttur og taugaveikluð tík.
Næst á dagskrá var að keyra upp á fjall. Það gekk bærilega, en illu heilli lá vegurinn ekki upp á topp svo við þurftum að labba restina. Erfitt í bágbornu ástandi okkar, en líklega þess virði því útsýnið var allglæsilegt fram af hengiflugunum. Eins og sönnum karlmönnum sæmir fólst aðalskemmtunin í því að velta stórum steinum fram af, afar þroskaðir menn á ferð. Þegar steinarnir voru búnir var farið að gæta hæðarveiki svo við fórum aftur niður og í laugina að jafna okkur með einn kaldan í hönd. Eyfi fór að spila fótbolta með pollum, en við hinir ákváðum að sinna einhverju þveröfugu og kveiktum því upp í grillinu. Á matseðlinum þetta kvöldið var ýmislegt. Í forrétt var að sjálfsögðu aflinn frá því fyrr um daginn, bragðaðist prýðilega en smágalli að ekki tókst að beinhreinsa hann. Skyrp, skyrp. Í aðalrétt voru svo m.a. lambalærisneiðar og kjúklingabringur að ógleymdri restinni af þessu sem þóttist vera svín. Allt saman eðal. Ekki löngu síðar fjölgaði svo allhressilega í kotinu. Þeir Stebbar, Blöndahl og Twist mættu á einhverjum bílaleiguslyddujeppa og fast á hæla þeirra herra Andrésson og frú ásamt vinkonu frúarinnar, búsettri í Finnlandi, sem lét sig hafa það að sitja aftur í extracabnum þessa sex tíma sem ferðin tók. Harka. Eitthvað hét stúlkan eflaust, það rifjast kannski upp síðar í pistlinum. Var þeim tekið með kostum og kynjum, og voru þau fljót að ná okkur hinum í svalli og bulli. Sundlaugin var líkt og venjulega óspart stunduð, og var gestagangurinn engu minni en nóttina áður. Einn var þó sá gestur sem ekki mætti, og var það þó sá eini sem var sérstaklega boðið, sjálfur sólmyrkvinn. Hann lét hvorki í sig sjást né heyrast, frekar dónalegt fannst okkur eftir allt erfiðið sem við lögðum á okkur til hitta hann. Jæja, gengur betur næst. Af merkisatburðum hlýtur Fóstbræðrarokk okkar Stebba Twist að standa framarlega, a.m.k. tókst okkur að fæla alla annað hvort út úr húsi eða í rúmið. Þegar líða tók á nóttina ákvað Jarlaskáldið svo að nóg væri komið, fór í Kraftgallann og lagði sig í fjöruborðinu. Kom þá ekki helvítið hann Blöndahl og batt enda á gleðina! Aldrei má maður ekki neitt.

Laugardagur
Verkefni laugardagsins var einkum eitt: að keyra eins langt norður og hægt væri. Til þess að gera það var byrjað á að keyra yfir stuttan fjallháls og niður í Ingólfsfjörð. Lítið verk og löðurmannlegt það. Þar blasti við ógurlegt mannvirki í talsverðri niðurníðslu. Eftir að hafa skoðað mannvirkið í krók og kima komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að hafa verið risastór pizzastaður í denn, og ekki skrýtið að reksturinn hafi gengið illa í ekki stærra byggðarlagi. Þarna voru m.a. risastórir pizzaofnar og færiband þar sem álegginu hefur væntanlega verið raðað á. Einnig gríðarmikill tankur þar sem deigið hefur væntanlega verið látið hefast. Þangað inn var erfitt að komast, pínkugat sem rúmaði rétt svo einn Blöndahl.
Úr Ingólfsfirði lá svo slóði meðfram ströndinni yfir í Ófeigsfjörð, hopp og hí alla leið og svaka gaman. Slóðinn endaði svo við ca. miðjan fjörðinn þar sem á ein mikil myndaði farartálma og göngustígur tók við, svo eðlilega fórum við ekki lengra. Karlmenn stunduðu staurafleytingar í ánni, þroskinn enn í hámarki. Ekki var dvalið lengi, ferðin var löng og því vissara að fara aftur til baka þar eð le Mini Buffet var skipulagður um kvöldið. Fólst hann í því að moka holu, fylla hana af kolum og henda löpp af lambi ofan í, ná svo í löppina eftir rúman klukkutíma og éta. Gekk það framar vonum. Sven Ingvars skapaði að sjálfsögðu og sem endranær hina fullkomnu dinnermúsík og ekki var meðlætið til að skemma fyrir, grillaðar kartöflur, piparostasósa a la Stebbi og salat sem var ca. 50% kál og annar arfi og 50% fetaostur. Brilliant!
Djammið varð svo í minni kantinum þetta kvöldið. Þeir Stebbar hurfu snemma á braut, líklega sakir öræfaóttans skelfilega, og aðrir voru ýmist langt komnir með öll aðföng eða bara fóru snemma í háttinn af öðrum sökum. Ef snemma í háttinn getur þýtt klukkan fjögur.

Sunnudagur
Jarlaskáldið var við merkilega góða heilsu þennan morguninn. Ja, kannski ekki, en skárri en oft áður á sunnudegi. Það er svo sem ekki margt merkilegt frá þessum degi að segja, fyrsti hluti hans fór í þrifnað á kofanum og svo tók við bílferð dauðans til baka. Fórum reyndar svipaða leið, tókum Steinadalsheiði í stað Tröllatunguheiði sem lengdi leiðina um einhverja örfáa kílómetra, en samt fannst manni helmingi lengra á leiðinni heim en upp eftir. Pulsan á Hólmavík var fín, ísinn á Búðardal ekki, og enn ekkert brúðarval að sjá. Svindl. Heim var Skáldið komið upp úr átta og sór þess þá þegar dýran eið að fara aldrei aftur í svona ógeðslega langt og erfitt ferðalag. Hvað ætli sá eiður standist lengi? Eigum við að gefa því fimm daga?

Ps. Kannski hét stelpan Arna, er ekki viss.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates