« Home | Ábyrgðarleysi Þá er Jarlaskáldið barasta komið he... » | Af fjallgöngum og læknisráðum Jarlaskáldið er nýk... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfyrsta Miðvikublogg f... » | Ferðasaga ein alllöng, auk dulítils partýbloggs Þ... » | Tilraun til partýbloggs Jarlaskáldið var að spá í... » | Júró Jájá, þá er Skáldið bara við það að leggja a... » | Miðvikublogg ið tuttugasta Nei sko, bara tuttugas... » | Hekla-part two Dömur mínar og herrar, stór tíðind... » | Hekla Jarlaskáldið lætur ekki deigan síga í fjall... » | Burst Þetta er ansi hreint hressandi svona í morg... » 

sunnudagur, júní 15, 2003 

Skaptafell

Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarlaskáldið í nokkrum hremmingum þegar herra blogger.com ákvað að breyta sínu viðmóti með þeim afleiðingum að íslenskir stafir heyrðu sögunni til. Hefur því blogg legið niðri um skeið. En nú er Skáldið búið að ráðfæra sig við sér fróðari menn og fundið lausn vandamálanna og íslenskir stafir því aftur mættir á svæðið. Er Skáldinu því ekkert að vanbúnaði að rifja upp atburði liðinna daga. Fyrsta mál á dagskrá, ferðasögu var lofað, ferðasaga skal rituð, vessgú:

Jarlaskáldið gerði allvíðreist um hvítasunnuhelgina. Hefst saga vor um hálfníuleytið á föstudag þegar Magnús frá Þverbrekku mætti í Kleifarselið á Rollunni og sótti Skáldið. Um fjórum tímum síðar renndum við svo inn í Skaftafell ásamt fríðum flokki manna og meyja. Í millitíðinni hafði okkur tekist að koma við á glænýjum KFC stað á Selfossi, og lofar hann góðu þrátt fyrir að vera á Austur-Selfossi. Á Selfossi bættist einnig við í Rolluna ungur maður að nafni Jóhann Haukur, sem er ekki sem verstur af Selfyssingi að vera. Mun hann enda aðfluttur. Á Selfossi hittum við einnig þá Vigni og Gústa á Súkku hins fyrrnefnda og Stebba Twist, Jónas félaga hans og Dodda flubba á Papasan, sem er einhver Daewoobíll, og voru þeir í sömu erindagjörðum og við. Gekk ferðin austur annars með ágætum, að sjálfsögðu rigning og myrkur og meinlegir skuggar á Mýrdalssandi en annars aðstæður hinar ákjósanlegustu. Í Skaftafelli voru svo fyrir þegar við komum á staðinn herra Toggi ásamt Dýrleifu frú sinni og herra Andrésson ásamt frú. Alls voru þetta s.s. tólf manns, og voru allir nema kvenfólkið á þeim buxunum að klifra upp á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk. Þar sem leggja átti í hann eldsnemma morguninn eftir var ekki annað gert en að tjalda og leggjast í háttinn þetta föstudagskvöld, og voru líklega allir sofnaðir um tvö.

Tæpum þremur tímum síðar fóru fyrstu menn að rumska og gekk furðuvel að koma mönnum á lappir eftir þennan stutta svefn. Var byrjað á því að bæta aðeins á fituforðann, svo að sjálfsögðu Mullersæfingar og messa, en eftir það fór heilmikill tími í að finna réttu græjurnar, stilla þær og máta, og sjá til þess að allur nauðsynlegur búnaður og ekki síður matur og drykkir væru með í för. Magnús frá Þverbrekku kenndi sér einhvers meins í fæti og tók þá ákvörðun að verða eftir í grunnbúðum ásamt hinum konunum, svo það voru níu galvaskir kappar sem lögðu af stað í átt að Virkisjökli um sexleytið. Þangað var stuttur akstur, og um hálfsjöleytið lögðu fyrstu menn af stað, vopnaðir níðþungum bakpokum. Auk nauðsynlegs viðlegubúnaðar var Jónas með snjóbretti með í för og Doddi skíði.
Hófst svo labbið. Eftir allstutta göngu komum við að jökulröndinni og þar settu þeir sem höfðu á sig brodda sakir talsverðrar hálku. Tók svo við óskaplega löng ganga eftir nær flötum jöklinum, líklega um tveggja tíma tölt, og fóru menn fljótlega að kasta klæðum sakir hita. Veður var enda hið ágætasta, sól á köflum, en úr þeim fáu skýum sem yfir lúrðu féllu stöku dropar. Logn að mestu, en allsnarpir vindstrengir hér og þar. Eftir þetta tveggja tíma labb komum við að allbrattri snæviþaktri brekku, og var fyrsta matarhlé gert þar. Sem betur fer hafði allstór hópur verið ca. klukktíma á undan okkur og markað alldjúp spor í snjóinn sem við svo sikksökkuðum upp brekkuna. Og þetta var ekkert lítil brekka. Sér og öðrum til nokkurrar undrunar tók Jarlaskáldið snemma forystuhlutverkið að sér og þrammaði fyrst upp. Eftir talsvert labb leit það við, og sá að það hafði stungið aðra af. Greinilegt að glasalyftingar síðustu ára hafa skilað sér í ágætis þoli. Þótti öðrum leiðangursmönnum reyndar nóg um æðibunuganginn á Jarlaskáldinu og reyndu að hefta för þess með því að hlaða aukavarningi í bakpoka þess, en allt kom fyrir ekki, Skáldið jók bara ferðina ef eitthvað er.
Eftir talsvert labb upp þessa að því er virtist endalausu brekku náðum við að lokum hinum allstóra hóp sem áður er getið, voru þar á ferð Íslenskir fjallaleiðsögumenn með fullt af gamlingjum og fóru hægt yfir. Þar sem þeir voru svo almennilegir að gera sporin fyrir okkur fengum við okkur aftur bita til að gefa þeim forskot. Til þess að hemja Jarlaskáldið var svo bundið í það reipi eftir matinn og það látið draga restina af hópnum áfram upp brekkuna. Að vísu sögðu þeir reyndari af leiðangursmönnum að þetta væri gert til öryggis, ef sprungur yrðu á leiðinni, en ekki keypti Skáldið þá afsökun. Stuttu eftir að við vorum svo byrjaðir að labba í þessari línu fór veður að versna, og það svo um munaði. Þoka, rok, rigning, slydda og snjókoma og allt þar á milli. Til marks um veðurofsann fauk dúnúlpan hans Dodda út í buskann þegar hann opnaði bakpokann sinn eitt skiptið. Dýrt spaug það. Eftir nokkra stund heltist Gústi bókstaflega úr lestinni og fékk far niður með öðrum hópi. Við hinir dröttuðumst áfram, hundblautir og kaldir, og stefndum ótrauðir á tindinn þrátt fyrir allt. Í ca. 1900 metra mættum við svo hóp sem hafði verið rétt á undan okkur, hann hafði snúið við vegna aðstæðna og ráðlagði okkur að gera slíkt hið sama. Sem við og gerðum eftir smá diskússjón, enda algjör vitleysa í raun að halda áfram.
Niðurferðin gekk ágætlega, Jónas fékk loksins að njóta erfiðis síns og renndi sér niður á brettinu, að vísu var færið einstaklega blautt, sem kom í veg fyrir að við Andrésson gætum nýtt okkur þoturassana sem við höfðum með í för, sukkum bara niður. Á leiðinni niður fundum við einnig aftur dúnúlpuna hans Dodda, fagnaðarfundur það. Jarlaskáldið tók að sjálfsögðu upp á því eins og asni að hlaupa niður, með tilheyrandi hnjáeymslum þegar niður var komið. Mikið helvíti var annars langt niður, allt er langt þegar maður er þreyttur. Skáldið kom niður um sexleytið, fyrst manna að vanda, og um hálftíma síðar voru allir komnir niður. Þreyttir.
Fyrsta mál á dagskrá eftir fjallaævintýrið var að sjálfsögðu að fara í sund. Svínafellslaug var það, ansi ljúft að liggja í heita pottinum. Svo var keyrt aftur til Skaftafells, og hefðbundin aðalfundarstörf gátu hafist. Fyrst var grillað, og ekkert eðlilegt hvað maður gat hesthúsað miklu, en svo var drykkjunni sinnt. Ekki þurftu menn mikið, og ekki gerðist margt merkilegt, Jarlaskáldið var víst rekið í bælið einhvern tímann um nóttina, ekki man það hvenær. Kraftgallinn stóð sig vel að vanda.

Sunnudagurinn rann upp allt annað en bjartur og fagur, hvort sem átt er við veður eða kollinn á manni, heilmikil súld í gangi á báðum vígstöðvum. Sá Jarlaskáldið því þann kost vænstan að snúa sér bara á hina hliðina og bíða eftir að veðrið batnaði, sem það og gerði svo um munaði um hádegisbil, brakandi blíða og allir sáttir. Þá var grillað og etið, og litið við í Lambhaga þar sem hinir hugaðri leiðangursmanna böðuðu sig í skítköldu vatninu. Annars fór dagurinn að mestu í að bæta sér upp það spik sem tapaðist í bröltinu daginn áður, nema Magnús, sem bætti bara á sig. Fljótlega hófust einnig hin hefðbundnu aðalfundarstörf, þau fóru að vísu hægt af stað en góðir hlutir gerast jú hægt. Þegar líða tók á daginn gerði smáskúr og ákváðu fjórir leiðangursmanna, Stebbi, Andrésson, Doddi og Skáldið þá að leita skjóls á hóteli einu í nágrenninu. Þar var bar. Samkvæmt fregnum munu leiðangursmenn þessir hafa verið hinir hressustu þegar þeir komu til baka, hvað sem því olli. Stefán setti Íslandsmet í munnræpu strax eftir fyrsta bjór. Þá var aftur grillað. Stuttu síðar hurfu fyrstu menn á braut, þeir Vignir, Jónas og Gústi, en í stað þeirra birtist óvæntur gestur, sjálfur Adolf, sem bætti óneitanlega kynjahlutfallið á staðnum. Hófst svo svall. Því lauk seint. Hefði samt orðið enn seinna ef búsið hefði ekki klárast. Taka meira með næst.

Mánudagur fór eins og við mátti búast í það að koma sér heim. Jarlaskáldið var enn hið svangasta, fékk sér að éta á Klaustri, Vík og á Selfossi, geri aðrir betur. Einnig var komið við í sveitasundlaug, hressandi mjög. Annað markvert gerðist líklega ekki í ferð þessari, a.m.k. er Skáldið þá búið að gleyma því, enda vika síðan. A.m.k. var asskoti gaman, og verður þetta endurtekið að ári og jafnvel fyrr, og helvítis tindurinn þá sigraður hvað sem það kostar. Hér eru svo myndir, sem fyrr í boði Toggólfs.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates