« Home | Miðvikublogg ið tuttugastaogþriðja - Fimman Jarla... » | FOO FIGHTERS Það er orðið nokkuð ljóst hvað Skáld... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogannað Þetta blogg ver... » | Skaptafell Eins og víðar í bloggheimum lenti Jarl... » | Ábyrgðarleysi Þá er Jarlaskáldið barasta komið he... » | Af fjallgöngum og læknisráðum Jarlaskáldið er nýk... » | Miðvikublogg ið tuttugastaogfyrsta Miðvikublogg f... » | Ferðasaga ein alllöng, auk dulítils partýbloggs Þ... » | Tilraun til partýbloggs Jarlaskáldið var að spá í... » | Júró Jájá, þá er Skáldið bara við það að leggja a... » 

mánudagur, júní 30, 2003 

Leyndardómar Snæfellsjökuls

Eina ferðina enn lét Jarlaskáldið plata sig út úr bænum þessa helgina, og að þessu sinni varð Snæfellsnesið fyrir valinu. Veðurspáin svona líka fín og því þjóðráð að rölta þar upp á eins og einn jökul og jafnvel skíða niður. Það voru sex kappar sem lögðu af stað á föstudagskvöldið, Magnús þjálfi og Stefán Twist að ógleymdu sjálfu Skáldinu á Rollu hins fyrstnefnda, og svo Tóti félagi þjálfa ásamt tveimur öðrum köppum ókunnugum Skáldinu á öldruðum Landcruiser. Var ferðin vestur á Arnarstapa tíðindalítil, Stefán og Skáldið héldu uppi nokkru fjöri á leiðinni með hjálp Antons frá Týról og yngismeyjanna í t.A.T.u. Á Stapann vorum við komnir á tólfta tímanum og varð fjörið þá nokkru almennara en þó vel innan siðgæðismarka. Var eitt helsta tómstundagamanið að stríða kríunum, en við vorum einmitt svo gáfaðir að tjalda nánast inni í miðju kríuvarpi. Sem betur fer varð enginn goggaður, oft munaði þó litlu. Annars fer ekki miklum sögum af kvöldi þessu.

Vöknuðu menn sem endranær hinir hressustu á laugardagsmorgun og við tóku hefðbundin morgunverk, matur, messa og Múllersæfingar. Að því loknu var svo stefnan tekin upp á Jökulhálsinn. Ekki var miklum snjó að dreifa þar svo við keyrðum alveg upp á hæsta punkt, lögðum þar bílunum og örkuðum af stað upp á Jökul ýmist með skíði eða snjóbretti bundin við bakpokana í þessu líka blíðskaparveðrinu. Gangan gekk síðan bara þrælvel, a.m.k. var hún mun auðveldari en gangan á þennan sama jökul á sumardaginn fyrsta, líklega ber þar frekar að þakka bættum búnaði en bættu þoli. Vorum rétt rúma tvo tíma upp á topp og fengum þar útsýni í allar áttir í glampandi sól. Smökkuðum svo á nesti, og við Bakkabræðurnir gæddum okkur að auki á Toppabjórnum sem er að verða fastur liður í fjallgöngum, enda við hæfi að verðlauna sig að loknu erfiðinu. Eftir að hafa skolað þessu niður klifruðum við svo upp á hæstu Jökulþúfuna og hinir hugaðri reyndu að skíða niður hana. Það gekk upp og ofan, Tóti og Maggi fóru sér að engu óðslega og komust klakklaust niður en Skáldinu lá heldur meira á og fór af þeim sökum langleiðina niður á hausnum. Uppskar klapp fyrir, ekki ónýtt það.
Eftir þetta var ekki annað að gera en að njóta ávaxta erfiðis síns og skíða niður, það var hin mesta skemmtun enda færið merkilega gott miðað við hitann og skyggnið eins og best verður. Náðum að skíða nánast niður að bílunum og var mjólkursýran þá heldur betur búin að ná sér á strik. Vel þess virði.
Þegar við vorum svo búnir að hrella alla útlendingana á svæðinu með því að svipta okkur flestum klæðum var öllu draslinu hrúgað inni í bíl og stefnan tekin á Ólafsvík til að skola af sér svitastækjuna í sundlauginni. Þurftum að keyra fyrir allt nesið, sem var ekkert verra, við höfðum jú t.A.T.u. til að stytta okkur stundir. Á leiðinni byrjuðu svo dropar að falla úr lofti og bætti heldur í er á leið. Ólafsvíkingar voru svo ekkert að hafa fyrir því að hafa sundlaugina opna svo við neyddumst til að keyra á Lýsuhól í drullupollinn þar. Fengum 50 kall í afslátt því sturturnar voru kaldar, jibbíjei! Í sundlauginni var svaka frægur maður, en engu að síður var stutt stoppað í þessu forarsvaði.
Þegar við komum svo aftur á Arnarstapa var rigningin heldur farin að færa sig upp á skaftið. Björgunarsveitarmennirnir þrír þoldu ekki vætuna, pökkuðu saman og fóru heim en við Bakkabræður létum engan bilbug á okkur finna og fórum hvergi. Klæddum okkur bara í texið og tókum stefnuna á barinn. Þar þurftum við að kenna afgreiðslustúlkunni að græja rússneska eðaldrykkinn fyrir okkur, þótti henni hráefnið og blandan greinilega ekki geðsleg. Sátum við þar að sumbli nokkra stund í góðum félagsskap en fljótlega fór svengd nokkur að gera vart við sig svo keypt voru kol, grilli stolið og grillað í grenjandi rigningnni. Gekk furðu vel, miðað við hverjir voru að verki. Tókst okkur Bakkabræðrum þremur svo að halda út fram eftir nóttu við hefðbundin aðalfundarstörf uns höfuð fóru að leita niður í bringu og menn ráfuðu inn í tjald.

Sunnudagsmorgunn heilsaði með sól og blíðu, en engu að síður var heilmikil þokumugga í gangi í hausnum á Jarlaskáldinu. Þar birti til um síðir með hjálp alþekktra húsráða, og þar sem veðrið var svona gott var ákveðið að fara lengri leiðina heim. Keyrðum s.s. hringinn í kringum nesið og áðum ekki fyrr en í Stykkishólmi þar sem sundlaugin var heimsótt. Fínasta sundlaug, og góð rennibraut. Ekki var pulsan í pulsuvagninum fyrir utan síðri, auk þess sem afgreiðslustúlkan var að gera góða hluti.
Ekki varð þessi menningar- og heilsubótarreisa um Snæfellsnesið lengri og stefnan tekin aftur í siðmenninguna. Til að bæta góðum endi á gott ferðalag varð síðasta stoppið gert á þeim ágæta stað KFC í Mosfellssveit, þar sem síðustu aurunum var eytt í feitt kjúklingaket. Namminamminamm! Eins gott að maður fái útborgað á morgun.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates