þriðjudagur, nóvember 25, 2003 

Meiri snjó!

Jarlaskáldið hefur ekki sinnt fréttaþjónustu sinni sem skyldi undanfarið, og getur tæpast notað annríki sem ástæðu fyrir því. Verður sennilega að skrifast á leti. En hvað er leti annað en að hvíla sig áður en maður verður þreyttur?

Síðast þegar til Skáldsins spurðist þóttist það ekki lengur nógu fótafúið til að hanga öllu lengur heima og hafði því uppi áætlanir um að mæta til vinnu á fimmtudaginn. Það tókst Skáldinu líka að gera, en dvaldi stutt við, tölvukerfið á staðnum hrundi og því fátt að gera svo Jarlaskáldið ákvða að efna gamalt loforð við hana Hrafnhildi um að heimsækja hana í ný hýbýli hennar í Njarðvík. Var Skáldinu tekið með kostum og kynjum af nýbakaðri móðurinni, kók og súkkulaði enda þekkir hún sinn mann. Eftir nokkuð rabb mætti húsbóndinn heim og stuttu síðar vaknaði yngsti meðlimur fjölskyldunnar. Sýndi hann þessum gesti þónokkra forvitni og lét sig meira að segja hafa það að láta gestinn halda á sér smástund. Sætt. Eftir að hafa hlegið að úrlausnum nokkurra nemenda 6. bekkjar í Íslandssögu hélt Skáldið svo heim á leið og ákvað að fara lengri leiðina, suður að Reykjanesvita og svo austur með ströndinni. Eitthvað mislíkaði honum Lilla holóttur vegurinn og var orðinn draghaltur þegar heim var komið. Maður hefur heyrt að gæludýr fari að líkjast eigendum sínum, en bílar? Sýnir bara að Lilli hefur sál.
Um kvöldið fór Skáldið ekki í fótbolta, og horfði ekki á Bachelor.

Föstudagurinn var ekki tíðindaríkur framan af degi frekar en venjulega, Skáldið þraukaði út sinn vinnudag og allt gott með það, og um kvöldið lét það þá fóstbræður Stefán Twist og Magnús frá Þverbrekku plata sig út úr húsi og á kaffihúsið Ara í Ögri. Þar tæmdum við úr örfáum ölkollum og reyndum að ræða málin, sem var frekar erfitt í fyrstu sakir drykkjuláta aldraðra karlmanna á nærliggjandi borði, en sem betur fer róuðust þeir fljótlega (eða drápust) svo viðræðuhæft varð. Síðar um kvöldið bættust þeir Vignir og félagi hans Höskuldur stílisti á svæðið (svo nefndur vegna smekklegs klæðnaðar hans í nýfarinni Hrafntinnuskersför). Var ákveðið að leita á önnur mið nokkru síðar, fyrst á Kaffibrennslunni en þar var þröng á þingi svo Thorvaldsen varð að lokum fyrir valinu, þó þar væri jafnvel enn fjölmennara. Varð stoppið stutt hvað okkur Stefán og Magnús varðar og mun þessi bæjarferð því seint komast í sögubækur okkar, en að sögn munu þeir Vignir og Höskuldur hafa gert heldur lengra stopp og ástand a.m.k. Vignis eftir því á laugardaginn. Ekki í fyrsta sinn.

Laugardaginn hóf Jarlaskáldið á því að fara ásamt móður sinni og systur í Smáralind að kaupa ýmsar gjafir og fleira smálegt. Einnig kom það við á þeim ágæta stað Pizza Hut og gæddi sér á böku. Gjafirnar keypti Skáldið þar eð því var boðið í afmæli til áðurnefndrar Hrafnhildar um kvöldið og ótækt að koma tómhentur. Hófst sú gleði um sjöleytið en þá bauð afmælisbarnið þeim hjónum Ástmundi og Björgu ásamt Jarlaskáldinu í mat, var maturinn mexikanskur og hinn ljúffengasti, þó Skáldið hafi reyndar látið Ása plata sig út í fullmikið chilipiparát. Ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki það síðasta sem Skáldið lætur Ása hafa sig út í vitleysu í matarmálum, konfektátið í útskriftarveislu Védísar fyrir réttum fimm árum er Skáldinu enn í fersku minni.
Eftir matinn hófst svo hinn eiginlegi gleðskapur og fór einkar rólega fram, kannski ekki við öðru að búast þar eð gestir voru í miklum meirihluta í barnahugleiðingum, annað hvort nýbúnir að fjölga mannkyninu eða í þann veginn að gera það. Meðalaldur þriggja yngstu gestanna var t.d. um 3 mánuðir. Þó fóru leikar aðeins að æsast þegar við bættist fólk, t.d. áðurnefndir Magnús og Stefán, en einnig þær stöllur Védís og Berglind, svo ekki sé talað um þegar Kjartan og Laufey mættu með ca. 3 vikna gamlan son sinn. Jarlaskáldið leitaði um síðir á fornar slóðir og myndir segja meira en mörg orð.

Hvað svo meira? Jú, sunnudagur fylgdi víst þessu laugardagskvöldi, og var eytt í svefn að mestu framan af, en fljótlega eftir að hafa náð meðvitund rann Skáldinu blóðið til skyldunnar og fór með hann Lilla sinn til bílalæknis. Var læknirinn eins og áður þegar ökutækjum Skáldsins hefur orðið misdægurt Hrói frændi, og var hann fljótur að sjúkdómsgreina Lilla, dempari hafði losnað og því ekki skrýtið að hann væri haltur. Var hann fljótur að kippa því í liðinn, sem betur fer virtist demparinn óskemmdur og því bara skellt undir aftur. Þar sem Hrói hafði ekki áður hitt þennan sjúkling tók hann hann í almenna heilbrigðisskoðun sem leiddi í ljós óþéttan afturhlera og var snarlega bætt úr því. Er Lilli því sprækari en nokkru sinni fyrr þessa dagana, og ekki seinna vænna, því þau undur og stórmerki hafa gerst í henni Reykjavík að þar hefur snjóað! Hefur Lilli verið í essinu sínu síðustu tvo daga, fengið að brúka afl á öllum hjólum og malar eins og köttur þegar hann æðir um götur borgarinnar öðrum bílstjórum til hrellingar.

Að lokum vill Jarlaskáldið kynna til sögunnar tvo nýja liðsmenn á bloggaralistann. Annar ætti að vera einhverjum lesendum kunnugur þar eð hann prýddi þann lista um tíma en gerðist síðan sekur um aumingjablogg og var kastað út í ystu myrkur. Hann hefur greinilega séð villu síns vegar og iðrast, því nú bloggar hann af þó nokkrum krafti eftir talsvert hlé. Jarlaskáldið hefur því ákveðið að veita honum sinn gamla sess að nýju, Ofur- Sjonni er boðinn velkominn!
Hinn nýi liðsmaðurinn er strangt til tekið ekki bloggari, en ritar þó öðru hverju fréttir af sjálfum sér á heimasíðu sína. Það sem meira er um vert er að hann er einn hinna fræknu V.Í.N.-verja sem hyggja á Ítalíuför eftir rétta 50 daga, en samkvæmt fregnum fjölgar óðum í þeirri ferð enda ekki á hverjum degi sem slíkt einvalalið heldur í víking og ekki skrýtið að fólk vilji taka þátt í því. Þessi liðsmaður ætti að vera mörgum lesenda að góðu kunnur úr ferðasögum Jarlaskáldsins, Snorri pervert!

Að lokalokum vill Jarlaskáldið benda öllum áhugamönnum um fyndni á þessa síðu hér og þá sérstaklega á tvo efstu þættina (Aðalgestir Will Ferrell og Darrell Hammond). Vissulega 40 Mb download hvort um sig, en framlag Triumph the Insult Comic Dog í þessum þáttum er sennilega eitthvað það fyndnasta sem Jarlaskáldið hefur séð lengi. Sjón er sögu ríkari.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogfjórða

Stundum þegar það er rosalega mikið að gera hjá manni hugsar maður um allt sem maður (ekki er þetta góður stíll, maður í öðru hverju orði!) kemur ekki í verk af þeim sökum og hvað það væri nú óskandi að hafa tíma til að gera þetta allt, lesa Laxness og Íslendingasögurnar, fara í Húsdýragarðinn og á listasýningar, taka til í herberginu, heimsækja ömmu og afa, labba um í Heiðmörk o.s.frv. o.s.frv. Svo þegar maður hefur tíma til þess, gerir maður þá eitthvað? Onei.

Jarlaskáldið hefur nefnilega haft ansi mikinn frítíma undanfarna daga. Ástæðan ætti að vera lesendum kunnug, hægri löppin er lítt eða ekki nothæf eftir misheppnað tuðruspark, og Skáldið því eytt dögunum heima við með fætur upp í loft (að læknisráði, nota bene). Það ætti að afsaka Skáldið frá því að heimsækja ömmu og afa og öðru sem felur ferðalög í sér en gefur því enga ástæðu til að lesa ekki þá ófáu hillumetra af bókum sem það hefur sankað að sér í gegnum árin og hefur alltaf ætlað að lesa en gerir aldrei. Nei, þess í stað sefur Skáldið til hádegis, fær sér svo að éta, kíkir á netið og sest því næst fyrir framan imbann og hreyfir sig vart þaðan það sem eftir lifir dags.

Einhverjir kynnu að halda að þetta væri mikið sældarlíf. Það er það ekki. Þetta er eiginlega eins leiðinlegt og það getur verið. Þessi orð koma frá manni sem unnið hefur sem næturvörður, og ætti því að þekkja leiðindi. Jújú, var svo sem ágætt fyrsta daginn, og kannski þann annan líka, en eftir viku er þetta orðið dálítið þreytt. Af þeim sökum og þar eð löppin atarna virðist vera aðeins að rétta úr kútnum ætlar Skáldið að gera tilraun til að mæta til vinnu á morgun og leggja sín lóð á vogarskálar efnahagslífsins. Eða eitthvað.

Þess ber að geta að Jarlaskáldið ætlaði sér að birta myndir af löppinni á netinu en hætti við, það er viðkvæmt fólk þarna úti. Látum þetta nægja: Blá.

Ef að Jarlaskáldinu tekst að þrauka út vinnuvikuna án erfiðleika (og jafnvel þó það takist ekki) ætlar það að bæta fyrir aðgerðaleysi síðustu helgar með því að mæta til gleðskapar hjá frk. Hrafnhildi Dóru Hrafnkelsdóttur sem hefur boðað til veislu á laugardaginn í tilefni 26 ára afmælis hennar (sem var einmitt í gær, síðbúnar hamingjuóskir með það!). Ætlar Skáldið þó að ganga hægt um gleðinnar dyr (tæpast fært um annað, hehe), og líkast til mun það hafa hægt um sig ca. næsta mánuðinn, a.m.k er ljóst að tuðruspark verður ekki iðkað meira á því herrans ári 2003 hvað Skáldið varðar.

Og að lokum: fokking 55 dagar!

sunnudagur, nóvember 16, 2003 

Sic transit gloria mundi

Nú hefur sunnudagurinn 16. nóvember hafið göngu sína, og Jarlaskáldið situr við tölvu sína og bloggar. Af er það sem áður var.

Eins og greint var frá í síðasta pistli var Jarlaskáldið ekki með hressasta móti fyrir rétt tæpum tveimur sólarhringum síðar, búið að krambúlera á sér löppina og harla ósatt við ástandið. Ekki tók betra við, því þegar Skáldið vaknaði til að tilkynna fjarveru sína frá vinnu daginn eftir leit það á löppina og sá sér til skelfingar að hún hafði ca. tvöfaldast að rúmmáli síðan kvöldið áður og því orðin fjórföld, auk þess að vera helblá á litinn og í alla staði óásjáleg. Að höfðu samráði við móður sína ákvað Skáldið því að kíkja niður á slysó (ekki gat Skáldið keyrt) til að fá úr því skorið hversu bæklað það væri. Ekki var það gaman.

Fyrst var beðið í afgreiðslunni. Reyndar varð sú bið ekkert svo löng, kannski hálftími, og eyddi Skáldið tímanum í að lesa hið gagnmerka tímarit LRO (Land Rover Owner), eftir það leit læknir á löppina, mælti hið afar hughreystandi orð „vá“, þuklaði hana örlítið, og sendi Skáldið svo í röntgenmyndatöku. Biðstofa nr. 2. Þar var álíka löng bið, og hafi tímaritaúrvalið í afgreiðslunni verið slæmt var það algjör hátíð miðað við þarna, Jarlaskáldið fann ca. hálft Séð og heyrt blað, vel komið til ára sinna, og „skemmti“ sér við að lesa gamla sjónvarpsdagskrá á meðan beðið var. Myndatakan var álíka spennandi og hún hljómar, og eftir hana tók við enn ein biðstofan. Þar fann Skáldið eitt danskt blað, og varð heilmiklu fróðara um fjölskylduharmleik einn þar sem ein dóttirin læstist inni í frysti og dó úr vosbúð. Jarlaskáldið heiðraði þess biðstofu með nærveru sinni ca. 25 mínútur, fékk svo myndirnar og hélt aftur niður á slysó. Hvað tók við þar? Jú, enn ein biðstofan. Þar komst Skáldið reyndar að því að það hefði undan litlu að kvarta hvað seinagang varðar, sumir voru búnir að bíða eitthvað á fimmta tíma. Eftir (svo miðað sé við meðaltal) stutta stund kom læknirinn og færði Jarlaskáldinu þau gleðitíðindi að ekkert væri brotið og ekkert slitið, svo Erik (tæklarinn mikli) þarf ekki að hafa áhyggjur um líf sitt lengur. Eitt liðbandið væri hins vegar allilla tognað og því Skáldið klætt teygjusokk og ráðlagt að taka því rólega næstu vikurnar. Eins og það gæti annað.

Jarlaskáldið hafði haft uppi áætlanir um að fara í jeppaferð um helgina en eins og gefur að skilja fuku þær út í veður og vind þegar ljóst var að löppin gæti ekki farið með. Hefur Skáldið því eytt tíma sínum í iðjuleysi, eins og því var ráðlagt, og eins og venjulega hefur það svarað símtölum frá drukknu kvenfólki sem saknar þess af djamminu (bara þegar það kemst ekki) auk þess sem jeppafarar hafa hringt í Skáldið og „hresst“ það við með frásögnum af „bestu“ jeppaferð í heimi. Andskotakornið!

En verður maður ekki að líta á björtu hliðarnar. Svo sagði a.m.k. Sverrir Stormsker í samnefndu lagi, og ekki lýgur hann. Gerum það, og hötum Rúdolf Hess, því löppin lagast, og Skáldið kemst til Ítalíu, og það er í raun það eina sem skiptir máli. Sem segir dálítið um forgangsatriði í lífi 26 ára pilts sem býr hjá mömmu sinni. Jawohl.

föstudagur, nóvember 14, 2003 

Milljón myglaðar marglyttur frá Melrakkasléttu!

Það er ekki bjart upplitið á Jarlaskáldinu þessa stundina. Að öllu jöfnu ætti það að vera í fasta svefni um þetta leyti en það fékk óvænt „frí“ í vinnunni á morgun og ákvað því að vaka aðeins fram eftir. Og af hverju er lund Skáldsins slík, er ekki gaman að fá frí? Nei, ekki þegar ástæðan er u.þ.b. þessi. Jarlaskáldið brá sér nefnilega í fótbolta í kvöld eins og venjulega á fimmtudögum, og ákvað í einhverri fljótfærni þegar nokkuð var liðið á tímann að reyna að leika á einn keppinauta sinna með snjallri gabbhreyfingu. Tókst gabbhreyfingin afar vel, því þegar keppinauturinn ætlaði að hirða boltann af Skáldinu var hann kominn allt annað. Illu heilli greip hann ekki í tómt, því fyrir varð hægri ökkli Skáldsins sem beyglaðist allur með braki og brestum svo Skáldið lá óvígt eftir. Hefur það eytt síðustu stundunum með íspoka á löppinni bryðjandi íbúfen og er harla ósátt við sitt hlutskipti. Vonar það heitt að ökklinn braggist eitthvað næstu daga því meiningin var að skreppa í feitan jeppatúr inn í Hrafntinnusker um helgina. Það yrði nú ekkert stóráfall að missa af því, bara leiðinlegt, en ef ökklinn verður ekki orðinn góður eftir 62 daga mega sumir keppinautar fara að passa sig, Jarlaskáldið verður ekki ábyrgt gjörða sinna. Það hlýtur nú að reddast.

Meira var það ekki. Á morgun ætlar Jarlaskáldið að sofa a.m.k. til hádegis, og gera síðan ekki neitt. Fínt að gera það á launum.

miðvikudagur, nóvember 12, 2003 

Miðvikublogg ið þrítugastaogþriðja

Hvað er um að ske? Fátt, en alltaf eitthvað.

Helst hefur borið til tíðinda í þessari viku að Ítalíuförum hefur borist myndarlegur liðsauki. Dýrleif (jafnan nefnd frú Toggi á síðu þessari henni til nokkurs ama) reið á vaðið á mánudaginn flestum að óvörum því ekki hafði hún haft hátt um þessar fyrirætlanir sínar. Ber að fagna komu hennar, því aldrei eru of margir í hreingerningadeildinni auk þess sem það getur reynst afar gott að hafa læknismenntaða manneskju með í för. Bravó.
Í dag bættist svo við annar ferðalangur, og var öllu meiri aðdragandi að þeirri aukningu. Er það sjálfur Magnús Blöndahl sem ákveðið hefur að gefa öllum blankheitum langt nef og drífa sig með, enda var það orðið honum fullljóst að hann biði þess seint bætur að sitja heima um miðbik janúarmánaðar. Að vísu er þetta ekki allt klappað og klárt enn því hótelgisting er eitthvað sem enn á eftir að redda en ef það lukkast sem allar líkur eru á má búast við að innrás VÍN-verja á ítalska grundu á næsta ári muni gefa atlögu Hannibals ins púnverska og fíla hans lítið eftir. Jawohl, kanna kanna, prego prego!

Í gær var Jarlaskáldinu sá sómi sýndur að ónefndur bloggari hér í bæ valdi það sem „símavin“ í spurningaleiknum Viltu vinna milljón?. Þurfti Skáldið því að vera því viðbúið nokkra stund að síminn hringdi, sem hann og gjörði, en þar var einungis á ferð starfsmaður þáttarins að biðja Skáldið um að vera viðbúið, sem það þegar var. Aldrei kom svo kallið því samkvæmt fréttum varð þetta heldur endasleppt hjá keppandanum þó svo hann hafi farið síður en svo tómhentur heim. A.m.k. hefði vinningsupphæðin fleytt Skáldinu langleiðina til Ítalíu og heim aftur, en það verður ekkert sem Visa-rað ræður ekki við.

Næsta helgi? Eitthvað verður sýslað við þá þó hart sé í ári (hvenær er það ekki?), þeir VÍN-verjar sem ekki eru haldnir öræfaóttanum ógurlega hyggja á einhverja landvinninga um helgina, væntanlega verður litið inn á Fjallabak eða Sprengisand, verður bara ákveðið þegar þar að kemur. Að sjálfsögðu fer Skáldið með, því eftir að hafa dottið ofan í pottinn í æsku a la Steinríkur er það algjörlega ónæmt fyrir öræfaóttanum ógurlega. Kannski er þetta eitthvað sem Kári gæti rannsakað, að finna genið sem veldur þessu? A.m.k. hafa ansi margir orðið fyrir barðinu á þessari skæðu farsótt í haust.

Eitthvað meira? Já, eflaust, en varla nógu merkilegt til að eyða tíma í. Kannski bara þetta:

Ruud van Nistelrooy er óheiðarlegasti knattspyrnumaður í heimi.

(Var síðasta helgi svona?)

mánudagur, nóvember 10, 2003 

Af Jarlaskáldsins ríjúnjon og Óminnishegrans afskiptum

Jarlaskáldið fór ríflega tíu ár aftur í tímann um helgina. Það var skrýtið, og um leið forvitnilegt. En byrjum á byrjuninni.

Föstudagskvöldið var líkt og flest föstudagskvöld undanfarnar vikur og mánuði undirlagt sjónvarpsglápi, tölvuvafstri og öðrum nördaskap. Sparnaður maður.

Laugardagurinn var ekki sparnaður. Hófst að vísu með nokkrum hagnaði, Skáldið mætti í vinnuna á óguðlegum tíma og letihaugaðist þar fram eftir degi með ágætri pizzapásu, stimplaði sig út ríflega fjögur og fór þá heimleiðis að undirbúa sig fyrir gleði kvöldsins. Það var heldur ekki lítil gleði sem áformuð var, fyrst 10 ára ríjúnjon Selskælinga til að byrja með og svo 27 ára afmæli frk. Öldu síðar um kvöldið. Hvort tveggja tilefni til að lyfta sér allvel upp og var Jarlaskáldið því í góðum gír þegar það bankaði á dyr við Sólvallagötuna upp úr sjö, en þar bauð frk. Bíbí til fordrykkjar/bekkjarpartýs fyrir eftirlifandi nemendur 10. B.J. (að vísu eru þeir líkast til allir á lífi, en til sumra hefur ekkert spurst lengi). Var mæting góð miðað við það sem búast mátti við, enda stór hluti liðsins búinn að flýja land. Velflesta hafði Skáldið ekki séð í fjölda ára en merkilegt nokk þekkti það deili á öllum, enginn það breyttur að óþekkjanlegur væri. Líklega var það sjálft Jarlaskáldið sem hafði tekið einna mestum breytingum, þar eð úr því hafði tognað talsvert síðan í 10. bekk. Ímyndið ykkur bara hve lítið það var þá!
Jarlaskáldið fór hægt af stað í drykkjulátum og lét þau reyndar alveg vera í þessari teiti. Afar fáir fylgdu því fordæmi, og sumir greinilega komnir allvel á veg. Eins og búast mátti við voru umræðuefnin eingöngu tvö, hvað ert þú að gera? og manstu þegar? Samkvæmt lauslegri talningu Skáldsins var góður meirihluti byrjaður að fjölga mannkyninu og sumir í fleirtölu, annars kom fátt á óvart varðandi lífshlaup bekkjarsystkinanna gömlu, flestir voru nokkurn veginn staddir þar sem Skáldið hefði spáð þeim fyrir tíu árum síðan. Ennfremur virtist sem Skáldið væri eitt um að hafa sýnt það hyggjuvit að búa í fríu fæði og húsnæði hjá móður sinni. Kannski ber ekki að telja Skáldinu það til tekna, þó Skáldið sé á því.
Úlitlitslega séð kom ýmislegt á óvart. T.d. hafði enginn sleppt sér hvað ummál varðar, heldur þvert á móti, því ófáar stúlkurnar sem Jarlaskáldið sýndi lítinn áhuga á sínum tíma voru orðnar hinar mestu gellur. Piltarnir voru flestir svipaðir útlits, smá björgunarhringur kominn á suma og auk þess skartaði einn afar myndarlegum skeggvexti.
Á níunda tímanum þótti tími kominn á að hitta hina bekkina, og var því liðinu raðað í þá bíla sem enn höfðu ökufæra bílstjóra. Lesendum eflaust til furðu var Jarlaskáldið eitt þeirra og skutlaði því þremur bekkjarsystrum sínum á Gaukinn þar sem samkoman fór fram. Var þar að sjálfsögðu múgur og margmenni og hafði Skáldið nóg að gera við að heilsa upp á fólk. Óðs manns æði væri að telja upp alla þá sem Skáldið hitti en þó er fyllsta ástæða til að minnast á að á staðnum var Óskar Páll Þorgilsson, tæknifræðingurinn og mótorhjólamaðurinnn valinkunni. Áttum við áhugaverðar samræður og kann Jarlaskáldið Óskari bestu þakkir fyrir. Óskar er þessa stundina að skipuleggja 20 ára ríjúnjon Selskælinga, mun það samkvæmt hans hugmyndum verða haldið á Dubai. Ekkert minna.
Þegar þarna var komið sögu voru þeir sem best voru kunnugir Skáldinu byrjaðir að hnýta í það og furða sig á tómleika hægri handar þess. Sá Jarlaskáldið aðeins tvo kosti í stöðunni; að hafa sig á brott hið fyrsta og fara í afmæli eða að læsa dómgreindina ofan í kistu og detta í það á barnum. Hvort ætli Skáldið hafi valið?
Rétt til getið, lesandi góður. Má segja að allar flóðgáttir hafi brostið við þessa ákvörðun, þar hjálpaði reyndar ekki til að áðurnefndur Óskar Páll plataði Skáldið í rússnesk-mexíkanska menningarkynningu með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Skáldið gerðist glatt. Eftir það byrja afskipti Óminnishegrans.
Nei nei, bíðum aðeins hæg, það er ekki allt búið enn. Samkvæmt óglöggu minni sínu fór Jarlaskáldið hamförum á dansgólfinu, allt þangað til Írafár byrjaði að spila og hrakti það burt. Ekki minnist Skáldið þess að hafa gert neina skandala, en ef einhverjir lesendur vita betur er þeim velkomið að tjá sig um það í kommentum. Nú kynni einhver að spyrja, ætlaði Skáldið ekki í eitthvað afmæli? Jú, sú var meiningin, en eftir rússnesk-mexíkönsku menningarkynninguna á barnum var handbært lausafé af skornum skammti og því ákvað Skáldið að beila á partýið og hitta bara liðið á heimavellinum. Þangað arkaði það (einhvern tímann) og tróð sér inn og hitti þar fyrir fjölda fólks úr áðurnefndri teiti. Þar á meðal var sjálft afmælisbarnið, sem Jarlaskáldið færði einmitt gjöf, sem ætti vonandi að nýtast vel eftir svona ca. 65 daga. Jawohl, kanna kanna, prego prego.
Sakvæmt vitnisburði Magnúsar frá Þverbrekku þótti gestum á Hverfisbarnum sem Jarlaskáldið væri með dannaðasta móti. Debetkortakvittanir færa fram sannfærandi mótrök. Hvað sem því líður tjúttaði Skáldið frá sér vit og rænu (hlýtur að vera, Óminnishegrinn neitar að fræða Skáldið um atburði inni á Hverfisbarnum) þangað til fólki var hent út og stóðu þá ein eftir afmælisbarnið og Jarlaskáldið af hópnum. Til allrar hamingju var Óminnishegrinn líka farinn heim um þetta leyti og ætti því eftirfarandi frásögn að vera sannleikanum samkvæm að einhverju leyti. Samkvæmt bestu heimildum héldu afmælisbarnið og Jarlaskáldið á veitingastað einn vel kunnugan Jarlaskáldinu, kenndan við eiganda hans, Jón eitthvað. Fengum við okkur þar morgunhressingu en héldum svo heimleiðis með leigubíl og um svipað leyti kom Óminnishegrinn með óvænta endurkomu svo Jarlaskáldið kann ekki að greina frá atburðum fyrr en klukkan 15:37 daginn eftir. Hví í ósköpunum?

Já, hví í ósköpunum? Ekki hugmynd.

Að lokum: 65 dagar. Humm, Þverbrekkingur?

fimmtudagur, nóvember 06, 2003 

Skírn

Eftir ríflega mánaðarlanga íhugun, oftar en ekki undir feldi, hefur Jarlaskáldið loksins fundið nafn á nýja bílinn. Þetta hefur ekki verið þrautalaust, mýmörg nöfn hafa komið til greina, en ekkert þeirra hlotið náð fyrir eyrum Skáldsins fyrr en nú. Þykir Skáldinu nafnið bæði vera afar lýsandi fyrir útlit jeppans en ekki síður skapgerð hans, þar eð hann er nefndur í höfuðið á sögupersónu sem er Skáldinu afar kær. Er sögupersóna þessi þekkt fyrir að hafa bjartsýni og aðra góða siði að leiðarljósi, var hún Jarlaskáldinu góð fyrirmynd á þess yngri árum og notar Skáldið enn hvert tækifæri sem gefst til þess að sjá hana koma fram. Hvað á barnið að heita? Lilli.

mánudagur, nóvember 03, 2003 

„Hann var dáleiddur af allan vodkann“

Svo segir í dægurlagatexta einum dýrt kveðnum eftir indversku prinsessuna Leoncie, þann vandaða listamann. Hér er ekki ætlunin að leggjast í bókmenntalega rýni um dægurlagatexta, þó svo að Skáldið hafi gert garðinn frægan á þeim vettvangi, heldur fjalla um athafnir Skáldsins þessa helgina. Eiga þær lítt skylt við yrkisefni textans góða.

Áður hefur lítillega verið tæpt á athöfnum föstudagskvöldsins, mun það hafa verið gert á fjórða tímanum aðfararnótt laugardagsins og sagt þar frá vel heppnaðri bíóferð. Með Skáldinu í bíóferð þessari voru þeir félagar Andrésson (hér sýndur að leggja sig) og Stefán Twist og litlu meira við áðurnefnda frásögn að bæta.

Laugardagurinn leystist snemma upp í vitleysu, því um tvöleytið var Skáldið vaknað og lagt af stað niður í bæ til að hjálpa stóra bróður við flutninga. Sótti Hagnaðinn í leiðinni og fylltist nokkurri Þórðargleði við að sjá ástandið á honum. Það var ekki gott. Flutningarnir gengu nokkuð einfaldlega fyrir sig, enda stóri bróðir ekki mikið fyrir að fylla allt af húsgögnum. Reyndar var Megas eitthvað að þvælast fyrir okkur þegar við bárum ísskápinn en annars gekk þetta vel og um fjögurleytið var Skáldið mætt á KFC til að verðlauna sig fyrir erfiðið. Þar kom í ljós einhver mesti kostur þess að eiga jeppa, því í stað þess að þurfa að teygja sig upp í lúguna gat Skáldið einfaldlega rekið höndina beint út og gripið kjúllann án erfiðleika, engin hætta á að missa hann í götuna eða jafnvel yfir sig. Snilld.
Laugardagskvöldið fór rólega af stað, en um níuleytið ákváðum við nokkrir félagarnir að slá þessu öllu upp í kæruleysi og rúnta út í sveit í þeirri von að sjá norðurljós (eða stjörnuljós eins og Vignir orðaði það). Auk hans og Skáldsins voru í ferð þessari áðurnefndur Stefán Twist og svo sjálfur Þverbrekkingur. Var litli jeppalingur Skáldsins fenginn til að ferja okkur og stefnan fyrst tekin á Þingvelli. Á leiðinni nutum við góðrar tónlistar Depeche Mode og ræddum stjórnmál af áfergju og e.t.v. einhverju viti, þó það sé ólíklegra. Á Þingvöllum var síðan engin norðurljós að sjá þrátt fyrir loforð Sigga storms í þá veruna og var honum bölvað eilítið af þeim sökum en strax fyrirgefið því hann sá jú um blíðuna í Eyjum í sumar. Ekki gáfumst við alveg upp heldur keyrðum upp í Kjós en sáum litlu meira þar af ljósagangi. Fengum svo ágætis sviptivinda á okkur á Kjalarnesinu, en það var bara til að gera þetta skemmtilegra.
Þar sem klukkan var ekki einu sinni orðin tólf þegar heim var komið var ákveðið að ná sér í mynd á þartilgerðri leigu, nema Þverbrekkingur, mamma hans leyfði honum ekki að vera úti svona lengi. Fyrir valinu varð einhver sú súrasta mynd sem Skáldið hefur verið svo heppið að sjá, Adaptation. Það er nánast engin leið að útskýra þessa mynd fyrir lesendum svo Skáldið getur ekki gert annað en að mæla með því að þeir sem ekki hafa séð myndina geri það hið fyrsta. Hendum 84 stjörnum á hana.

Sunnudagur: Hefðbundinn (fyrir utan eitt).

Eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir og e.t.v. vakið furðu einhverra var Skáldið hið spakasta um helgina, lét lendur skemmtanalífsins alveg í friði og var jafnvel einhverjum til gagns. Þá er von að fólk spyrji, er þetta það sem koma skal? Heldur betur ekki. A.m.k. ekki hvað næstu helgi varðar, því þá er Jarlaskáldinu bæði boðið í afmæli hjá nærsveitakonu einni og aukinheldur mun þá verða haldið 10 ára „ríjúnjon“ útskriftarnema úr þeirri virtu menntastofnun Seljaskóla. Upplýsingar um þá hátíð má nálgast hér, og ef lesendur eru heppnir rekast þeir kannski á 10 ára gamlar myndir af Jarlaskáldinu og jafnvel eldri. Fyrr í dag var þar getraun, birt mynd af ca. 4 ára gamalli stúlku og spurt hvaða nemi úr þessum árgangi væri foreldri hnátunnar. Meðal svarmöguleika var Jarlaskáldið, og þegar síðast var athugað hafði enginn giskað á það. Skárra væri það nú! Hyggst Skáldið sækja báðar þessar samkomur og eigi örgrannt um að það verði orðið hið glaðasta þegar líða tekur á nóttu, nema náttúrulega að Óli lokbrá taki völdin, annað eins gerist. Sjáum til.

Spurning að bregða sér norður á næstunni?

Að lokum er ekki úr vegi að senda hamingjuóskir til þeirra hjónaleysa Kjartans og Laufeyjar sem fæddist sonur kl. 20:16 í kvöld (þau misstu s.s. af Frasier, en allt í lagi, Skáldið tók hann upp). Var þetta hinn myndarlegasti pjakkur miðað við tölur, 18.5 merkur og 55 cm, en allt mun hafa gengið eins og í sögu og er það nú gott. Vonandi munu þau ala drenginn upp í góðum siðum, hefur Skáldið reyndar enga trú á öðru, Kjarri heldur með Liverpool.

laugardagur, nóvember 01, 2003 

Gaman er...


...að fara í gott bíó. Í kvöld fór Skáldið í gott bíó. Kill Bill hét ræman, og var eiginlega bara snilld. Svo notaður sé stjörnukvarði Hagnaðarins er alveg óhætt að henda einum 87 stjörnum á hana þessa.

...að sjá vitleysinga tekna í rassgatið.

...að sofa. Best að gera það...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates